05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3631 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil við þessa umr. vekja athygli á að í síðustu Verslunartíðindum, málgagni Kaupmannasamtaka Íslands, gerir Gunnar Snorrason, formaður Kaupmannasamtakanna, grein fyrir því m.a., hve óréttlátur þessi skattur er og hve mikilli mismunun hann getur valdið. Hann tekur sem dæmi verslunarmiðstöðvar í hinum ýmsu hverfum Reykjavíkur og raunar annars staðar á landinu, þar sem hluti húsnæðisins er notaður undir verslun annars vegar og annar hluti húsnæðisins er notaður undir ýmiss konar þjónustustarfsemi hins vegar. Hann bendir á að þetta geti valdið því, að fasteignareigandinn, húseigandinn, leggi fremur áherslu á að fá sem leigutaka ýmiss konar þjónustuaðila sem hafa með höndum starfsemi sem ekki þarf að greiða þennan skatt af, en mörkin þar á milli geti verið næsta óljós. Ég vil taka undir þetta sjónarmið og vekja athygli á þeirri hættu sem ekki eingöngu felst í mismunun af þessu tagi, heldur gæti hér beinlínis orðið um spillingu að ræða sem ekki er ástæða til að skapa skilyrði fyrir eins og þessi skattlagning getur gert.

Ég vil enn fremur benda á að á fundi, sem Verslunarráð Íslands hélt nýverið hér í Reykjavík um framtíð miðbæjarins, var vakin athygli á að þessi skattur torveldaði eðlilega þróun í skipulagi miðbæjarins og kæmi í veg fyrir að miðbærinn gæti innt það hlutverk af hendi sem miðbær í höfuðborg ætti að gera. Þetta felst í því, að um óeðlilega skattlagningu er að ræða, en eins og kunnugt er, þá er mat fasteigna í miðbæ borgarinnar það hæsta sem um getur í landinu, jafnvel þótt eigendur geti ekki nýtt fasteignir sínar vegna ófrágengins skipulags og annarra atriða sem á skortir af hálfu borgaryfirvalda.

Hér eru nefnd tvö dæmi um skaðleg áhrif þessarar skattlagningar, og önnur dæmi og önnur rök hafa verið færð fram til stuðnings því, að hér sé um algjörlega óeðlilegan skatt að ræða. Í því sambandi hlýt ég að leggja áherslu á að nýverið hefur nefnd skilað áliti sem fjallaði um jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna. Þessi nefnd fjallaði reyndar eingöngu um jöfnun starfsskilyrða landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar, en formaður nefndarinnar, dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, gerði grein fyrir nál. á aðalfundi Félags íslenskra iðnrekenda og lét þá í ljós þá skoðun, að næst yrði að taka til meðferðar jöfnun starfsskilyrða þjónustugreina, eins og verslunar, viðskipta, samgangna, þannig að allir atvinnuvegir landsmanna sætu við sama borð.

Ég vil undirstrika að þessi sérskattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði ber vitni um mismunun milli atvinnugreina sem kann ekki góðri lukku að stýra. Í raun og veru er þessi skattlagning vitnisburður um það vanmat sem núv. ríkisstj. og fyrrv. vinstri stjórnir leggja á gildi heilbrigðrar verslunar í landinu. Það liggur í augum uppi að það húsnæði, sem nýtt er til verslunar- og skrifstofuhalds, er í engu þýðingarminna fyrir verslun og viðskipti en iðnaðarhúsnæði, fiskverkunarhúsnæði eða húsnæði nýtt til landbúnaðar er fyrir þær atvinnugreinar. Hér er sá úrelti hugsunarháttur, að verslun sé þýðingarminni en aðrar atvinnugreinar í landinu. Er í því sambandi stundum talað um framleiðsluatvinnugreinar og þjónustuatvinnugreinar og framleiðsluatvinnugreinar að þessu leyti tekna fram yfir þjónustuatvinnugreinar. En sannleikurinn er sá auðvitað, að hver sú króna, sem sparast í hagkvæmum innkaupum og lægra vöruverði innanlands eða hærra vöruverði fyrir útflutningsafurðir okkar, er jafnverðmæt og hver sú króna sem fæst fyrir fisk dreginn úr sjó eða fyrir aukna hagkvæmni í fiskvinnslu. Þennan skilning skortir núv. ríkisstj. og er það miður.

Í dag hefur áður verið minnt á að fulltrúar Framsfl. í ríkisstj., a.m.k. tveir, hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh., hafa alveg sérstaklega nefnt þennan skatt sem dæmi um að verslun í strjálbýli sé gert erfitt fyrir að sinna hlutverki sínu. Í kjölfar slíkra ummæla hafa þeir látið á sér skilja og raunar gefið yfirlýsingar um að þeim framsóknarmönnum þætti skattur þessi með öllu óeðlilegur og þeir mundu vinna að afnámi hans. Slíkar yfirlýsingar hafa verið gefnar síðla árs 1980 og sömuleiðis síðla árs 1981. Nú sé ég ekki hæstv. viðskrh. í deildinni. Hann á að vísu sæti í Ed. Þótt hér sé um mál að ræða sem fellur vissulega undir starfsvið hans og ætla mætti að hann sæti hér í deildinni meðan þessar umr. færu fram, þá hefur hann þá afsökun að hann á sæti í Ed. En ég vil óska eftir því við hæstv. forseta deildarinnar, að hann gefi mér kost á að leggja fram fyrirspurn til hæstv. viðskrh. áður en þessari umr. lýkur. (Forseti: Hæstv. viðskrh. er staddur í Englandi. — Gripið fram í: Það er varamaður fyrir hann hér í þinginu. — Forseti: Hann á ekki málsvara í þessari deild.) Herra forseti. Ég tel með öllu óeðlilegt að þessari umr. sé lokið hér í deildinni án þess að hæstv. viðskrh. sé hér við og þm. eigi kost á að fá fyrirspurnum til hans svarað. (Forseti: Ég skal sjá svo um að 3. umr. verði ekki lokið án þess að þess gefist kostur. Á meira get ég ekki fallist um hríð.) Ég þakka hæstv. forseta út af fyrir sig fyrir það, en árétta að ég tel með öllu óeðlilegt að hæstv. ráðh. sé ekki viðstaddur 2. umr. í þessu máli sem skiptir mjög miklu þá atvinnugrein sem hann á að bera ábyrgð á.