05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 487 brtt. við frv. til laga um brunavarnir og brunamál ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal og Vilmundi Gylfasyni.

Á þskj. 458 hefur félmn. flutt nokkrar brtt. við frv., sem m.a. fela í sér að í stað sex manna stjórnar brunamálastofnunar komi þriggja manna stjórn. Með þessari breytingu er m.a. lagt til að fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórninni falli út, en Reykjavíkurborg hefur átt fulltrúa í stjórn brunamálastofnunar frá upphafi eða síðan 1969. Ég á von á að sú ráðstöfun að hafa sérstakan fulltrúa frá Reykjavíkurborg hafi þótt bæði rétt og eðlileg, jafnvel þótt Samband ísl. sveitarfélaga ætti þar fulltrúa, en það fyrirkomulag hefur þótt eðlilegt vegna sérstöðu Reykjavíkur í því máli.

Það er skoðun okkar flm.brtt. á þskj. 487, sem felur í sér áframhaldandi skipun fulltrúa Reykjavíkurborgar, að eðlilegt sé að sú skipan verði á áfram. Við bendum á að meira en helmingur af tryggingaverðmætunum er á Reykjavíkursvæðinu. Reykjavík sem stærsti tryggingatakinn á því mikilla hagsmuna að gæta án þess að vera tryggð bein aðild að stjórn, en skattur til brunamálastofnunar verður, ef till. félmn. nær fram að ganga, 1.75% af brúttóiðgjöldum vegna brunatrygginga.

Einnig vil ég benda á og undirstrika, og er það ekki síst sá þáttur sem undirstrikar nauðsyn þess að Reykjavíkurborg fái beina aðild að stjórn, að innan Sambands ísl. tryggingafélaga, sem fulltrúa fær í þriggja manna stjórn brunamálastofnunar, eru öll brunatryggingafélögin í landinu að undanteknum Hústryggingum Reykjavíkur. Við flm. þessarar brtt. á þskj. 487 teljum því sérstöðu Reykjavíkur það mikla í þessu máli, að full ástæða sé til að Reykjavíkurborg tilnefni einn fulltrúa í stjórn brunamálastofnunar. Við höfum því leyft okkur að flytja brtt. við 2. gr. frv., sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Ráðh. skipar fjögurra manna stjórn brunamálastofnunar til fjögurra ára í senn. Hann skipar einn mann eftir tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, einn mann eftir tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna, einn mann eftir tilnefningu Sambands ísl, tryggingafélaga og einn eftir tilnefningu Reykjavíkurborgar. Ráðh. skipar formann stjórnar úr hópi tilnefndra stjórnarmanna og ákveður þóknun til þeirra fyrir stjórnarstörf. Stjórnin skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi brunamálastofnunarinnar.“

Við leggjum til að 2. gr. frv. verði samþykkt með breytingunni sem ég hef hér lýst.