05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það kemur fram í nál. frá landbn. Nd. eftir umfjöllun um þetta mál, að fjórir nm. skrifa undir álitið með fyrirvara. Það eru Árni Gunnarsson og hv. þm. Pétur Sigurðsson, Skúli Alexandersson og Steinþór Gestsson. Þessi fyrirvari af minni hálfu stafar af því, að ég taldi rétt við umr. um málið að leggja þunga áherslu á nauðsyn þess, að lögin um Stofnlánadeildina yrðu endurskoðuð, eins og fram kemur í nál., og þeirri endurskoðun yrði lokið fyrir árslok 1984.

Ástæðan fyrir þessari ósk er m.a. sú, sem kom hér fram í ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar, og einnig sú, að ég tel m.a. að lánareglur sjóðsins þurfi að endurskoða. Ég vil benda á það, að landbn. Nd. barst bréf frá Búnaðarbanka Íslands, dags. 24. mars 1982, vegna umfjöllunar nefndarinnar um málið. Þar kemur fram að staða Stofnlánadeildarinnar er afar slæm. Ég vil — með leyfi forseta — fá að lesa hér hluta úr þessu bréfi, þar segir:

„Eftir stóra áfallið 1978, þegar deildin tapaði á einu ári um 19 millj. nýkr. og tapaði á því ári öllum varasjóðum og var í árslok komin með 15 millj. nýkr. í öfugan höfuðstól, var skipuð nefnd til að finna grundvöll að rekstri deildarinnar. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu, að ef deildin lánaði út með svipuðum kjörum og tekin lán mundi hún vinna sig upp með þeim tekjustofnum, sem hún hefur, og vera komin á réttan kjöl við árslok 1981.

Við árslok var réttur höfuðstóll upp á 14.3 millj., en þess verður að geta, að gengislán deildarinnar voru reiknuð upp miðað við skráð gengi um áramót. En eins og öllum er kunnugt, þá varð gengisfelling 14. jan. 1982 og tapaði deildin þá 16.6 millj. Því má segja að raunveruleg staða hafi verið 7.7 millj. hagstæður höfuðstóll. Eftirstöðvar erlendra lána námu um áramót 104.4 millj. kr., en endurlán með viðmiðun við erlent gengi 50.4 millj. kr. Því hafði deildin á sér erlend lán upp á 54 millj. kr.“

Síðan segir hér, með leyfi forseta: „Vegna fyrirspurnar um vaxtakjör á lánum til bænda, þá skal það upplýst, að vextir á almennum lánum eru 2%, en aftur á móti eru þeir 3.75% á lánum sem deildin tekur af Framkvæmdasjóði“

Ég vil vekja athygli á því sérstaklega, að í bréfi bankans kemur fram að nefnd, sem var skipuð eftir áfallið mikla 1978, telur vera brýna nauðsyn að deildin láni út með svipuðum kjörum og tekin lán. En síðar kemur í ljós að deildin lánar út með 2% vöxtum en tekur lán með tæplega 4% vöxtum. Þetta gengur náttúrlega ekki upp þegar til lengdar lætur. Ég vildi vekja athygli á þessu.

Annað atriði, sem ég tel nauðsynlegt að komi hér fram, eru nýsamþykktar lánareglur Stofnlánadeildar. Ég verð að segja að gerður sé nokkur mannamunur, þar sé hreinlega farið í manngreinarálit þegar um er að ræða hvaða búskap bændur stunda. Það kemur nefnilega fram í þessum lánareglum, að bústofnslán t.d. eru einungis lánuð til kaupa á sauðfé, nautgripum og loðdýrum, þau eru ekki lánuð öðrum bændum. Þó erum við að samþykkja hér lög sem gera alifugla- og svínabændum að greiða í sjóðinn 1/2%, en á sama tíma er þessum bændum mismunað alveg stórlega. Þeir fá ekki lán samkvæmt þessum nýsamþykktu lánareglum sjóðsins. Þá er eingöngu lánað til þeirra greina sem við eigum í mestum vandræðum með.

Ég tel að þetta þurfi að athuga mjög gaumgæfilega: Í fyrsta lagi það sem ég nefndi áðan, að það geti ekki gengið til lengdar að Stofnlánadeildin taki lán með tæplega 4% vöxtum en láni út á 2% vöxtum. Það rekur enginn sjóði upp á slík býti. Þá vil ég benda á það enn fremur, að í þessum lánareglum, þar sem fjallað er um verðtryggingar og vaxtakjör, kemur ljóslega fram að umtalsverður hluti lánanna er lánaður út með 2% vöxtum, eins og ég nefndi áðan, en nokkrir lánaliðir eru með 4% vöxtum. Það, sem er eftirtektarverðast, er að vextir af jarðakaupalánum eru bara 15. Ef deildin þarf að taka lán með tæplega 4% vöxtum til þess að lána sem jarðakaupalán, lána þau út aftur með 1% vöxtum, þá stendur hún ekki lengi undir sjálfri sér. Ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á þessu.

Ég er hins vegar sammála þessu frv. með þeirri brtt. sem hér hefur komið fram um endurskoðun, og ég vil brýna það fyrir þeim aðilum, sem fara með völdin í þessari virðulegu stofnun, Stofnlánadeildinni, að undinn verði bráður bugur að því að endurskoða allt kerfi Stofnlánadeildarinnar frá upphafi til enda. Þetta er orðið úrelt fyrirkomulag. Mér sýnist t.d. af þeim lánareglum, sem nú hafa nýverið verið samþykktar, að þar sé mönnum beinlínis mismunað. Það er sérstaklega tekið fram að ekki sé lánað til alifugla- og svínaræktar. Þó eru menn að tala um það á sama tíma, að hér þurfi að fjölga búgreinum, hér þurfi að gera meira að því að fjölga þeim greinum í búskap sem hugsanlega geta borið sig. Þess vegna er það algerlega ótækt að mínu viti, að þar sem um bústofnslán er að ræða sé eingöngu lánað til kaupa á sauðfé, nautgripum og loðdýrum. Ég hef að vísu ekkert á móti því, að það sé lánað til loðdýraræktar, en ég tel um leið að það hefði verið jafneðlilegt að lán yrðu veitt alifugla- og svínabændum — og kannske öðrum búgreinum sem hér eru að ryðja sér braut.