06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3648 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

236. mál, móttökuskilyrði sjónvarps og hljóðvarps á Vestfjörðum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst og ekki ný staðreynd, að Ríkisútvarpinu er fjár vant til að byggja upp, treysta og styrkja dreifikerfi, ekki aðeins sjónvarps heldur og útvarps. Það er engin ný saga hér í sölum Alþingis og verður svo áfram meðan afnotagjöldum stofnunarinnar er haldið óeðlilega lágum vegna hins margumtalaða vísitöluleiks. Hitt er aftur annað mál, sem menn skyldu hafa í huga, að það verður auðvitað aldrei svo, því miður, hversu mjög sem menn kunna að óska þess, að sjónvarp nái á hvern afdalabæ og hvert sem er á landinu. Okkar sjónvarpsdreifikerfi er nú þegar verulega miklu þéttara og nær til fleiri staða hlutfallslega en er í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku raunar líka, að ég hygg, og sömu sögu er að segja um Bretland, Skotland, Frakkland og Þýskaland. Prósentutalan hér er töluvert hærri. Það er afar einfalt mál að kostnaðar vegna er það óviðráðanlegt. Þau tilvik eru og þannig, bæir þannig staðsettir, að kostnaðurinn við að koma þangað sjónvarpsmynd er svo mikill að það er óraunhæft um að tala hversu æskilegt sem slíkt annars væri. Í þessum efnum sem öðrum verður auðvitað að setja skynsamlega reglu.

Hæstv. menntmrh. sagði áðan að hann væri reiðubúinn að gera Alþingi frekari grein fyrir framkvæmdum í sambandi við dreifikerfi Ríkisútvarpsins síðar. Ég vil því mælast til þess við hæstv. ráðh., án þess að farin sé þingskapaleiðin, að óska eftir skýrslu. Ég óska eftir því við ráðh., að áður en þingi lýkur leggi hann fram skýrslu um starfsemi Ríkisútvarpsins þar sem gerð sé grein fyrir helstu framkvæmdum, fjárfestingum og áætlunum.