06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

236. mál, móttökuskilyrði sjónvarps og hljóðvarps á Vestfjörðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar tolltekjur voru teknar af Ríkisútvarpinu var vegið að þeim möguleikum að koma dreifikerfi sjónvarps eðlilega um landið. Hitt er einnig kaldhæðni örlaganna, að stór hluti af þeim búnaði, sem þarf til að byggja þessar stöðvar, er í mjög háum tollflokkum. Þess vegna finnst mér skjóta dálítið skökku við ef menn koma hér og lýsa því yfir, að eftir einhverjum prósentusamanburði við Noreg, Svíþjóð eða Bretland megi helst ætla að þessi mál séu í nokkuð góðu lagi hér á Íslandi. Ég fyrir mitt leyti tel að þau verði þá fyrst í góðu lagi þegar hægt er að segja að sjónvarpið nái til þjóðarinnar allrar. Það má vera að það séu til undantekningar, þar sem þetta sé óviðráðanlegt vegna kostnaðar, en það væri þá sanngjarnt að þinginu yrði gerð grein fyrir þeim stöðum alveg sérstaklega. En meginreglan hlýtur að vera sú, að ef einhverri þjónustustofnun er ætluð einokunaraðstaða í þessu landi fylgi einnig þjónustuskylda gagnvart landinu öllu. Að öðrum kosti hlýtur að vera mjög óeðlilegt að veita henni einokunaraðstöðu.