06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

359. mál, flóð Þjórsár í Villingaholtshreppi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég svara fram kominn fsp. hv. 1. þm. Suðurl. varðandi hvaða ráðstafanir raforkuverin við Þjórsá hafi gert vegna vatnsmiðlunar og aukins vetrarrennslis árinnar til að varna landskemmdum og flóðahættu af völdum hennar í Villingaholtshreppi og hvað áformað sé um framkvæmdir. Ég hef leitað til virkjunarfyrirtækisins Landsvirkjunar eftir upplýsingum um mál þetta og byggi svar mitt á því sem frá fyrirtækinu hefur borist. En þar segir:

„Landsvirkjun hefur þegar ásamt Villingaholtshreppi staðið að og kostað byggingu varnargarða við bæinn Mjósyndi í Villingaholtshreppi, sem hindrar ána í að flæða yfir túnið og inn í útihús á þeim bæ. Um verk þetta og fleira var á sínum tíma gerður sérstakur samningur, dags. 7. okt. 1977, milli Landsvirkjunar og hreppsins, en þar segir m.a. í 3. gr.:

„Í þátttöku Landsvirkjunar í byggingu varnargarðanna og fjármögnun kostnaðarins við þá felst engin viðurkenning Landsvirkjunar á því, að hún beri ábyrgð á tjóni eða óhagræði sem þeir, sem hagsmuna hafa að gæta, kunna að verða fyrir vegna ís- eða vatnságangs á árbakka Þjórsár og rekja má til krapamyndunar í ánni, leysinga og/eða vatnsborðsbreytinga af hvaða ástæðu og tagi sem er.“

Nú í vetur hafa þessir garðar hindrað ána í að flæða yfir túnið að Mjósyndi, eins og gerðist á árinu 1977.

Þá hefur Landsvirkjun samkv. sama samningi með svipuðum fyrirvörum veitt bændum styrki vegna girðingataps og annars tjóns sem þeir urðu fyrir snemma vetrar 1977.

Allt frá því ári hefur Landsvirkjun haft þessi mál í athugun og fylgist með þróun þeirra. Hafa bæði verið farnar skoðunarferðir til að kynnast þeim vanda sem áin skapar ábúendum og einnig hafa starfsmenn Landsvirkjunar lítið eftir varnargörðunum við Mjósyndi. Land hefur verið mælt og loftmyndir teknar af Þjórsá frá ósum upp að Búrfelli svo að kortleggja megi breytingar og landspjöll þegar þurfa þykir. Nú eru þessi mál í sérstakri athugun hjá fyrirtækinu vegna bréfs hreppsnefndar Villingaholtshrepps um málið frá 16. febr. s.l. Þegar athugun þessari lýkur mun Landsvirkjun taka upp viðræður um niðurstöðurnar við hlutaðeigandi aðila í Villingaholtshreppi og aðra þá sem hér kunna að hafa hags muna að gæta.“

Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið bréflega frá Landsvirkjun um málið. Frekari upplýsingar, sem rn. hefur aflað sér frá fyrirtækinu um ofangreindar athuganir, eru m.a. þær, að mælingar hafa farið fram á hæð Urriðafossvegar. Er það liður í athugun á því, hve mikið þurfi að hækka veginn til þess að hann standist vatnságang. Að þessum athugunum loknum verða hugsanlegar aðgerðir ræddar við viðkomandi aðila á svæðinu.

Ég tel að í þessum viðbrögðum af hálfu Landsvirkjunar komi fram jákvæð afstaða til að taka á þeim vandamálum sem fylgja auknu vetrarrennsli í Þjórsá eftir að hún í vaxandi mæli hefur verið tekin til virkjunar og vatnsmiðlunar með auknu vetrarrennsli sem afleiðingu. Þetta er fylgifiskur vatnsmiðlana og vatnsvirkjana sem víðar á eftir að gera vart við sig, enda hafa áhyggjur komið fram víðar en þarna um áhrif af slíkum breytingum. Nú kann að vera að meira hafi borið á þessu hin síðari ár, t.d. á fyrri hluta þessa vetrar, vegna þess hvernig áraði, og eflaust er erfitt að færa sönnur á hversu mikið frávikið er frá þeim aðstæðum sem áður ríkinu. En ég tel mjög eðlilegt að virkjunaraðilar komi til móts við þolendur, eins og gert hefur verið í þessu tilviki, þó að erfitt sé að sanna með ótvíræðum hætti hver ástæðan sé fyrir viðkomandi breytingum. Það fer þó ekki fram hjá neinum að nýting fallvatna okkar til raforkuframleiðslu með miðlun að vetrarlagi hefur aukna hættu á ís- og krapamyndun í för með sér og þá einnig í Þjórsá, þó að slík fyrirbæri hafi verið kunn áður.