06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3654 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

365. mál, ný langbylgjustöð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég hlýt að fagna því, að hann ætlar að leggja til að tekin verði ákvörðun um að reisa nýja langbylgjustöð á næsta ári. Ég verð raunar að lýsa nokkurri undrun á að það þurfi að líða enn þá eitt ár. Ekki er óeðlilegt að undrast slíkt þegar höfð er í huga sú lýsing sem ég gaf áðan á ástandi langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð. Sú lýsing, sem ég vitnaði til, var ekki gerð á þessu ári. Hún er fjögurra ára gömul. Hún er frá 1978. Þar var sagt að möstrin gætu fallið hvenær sem væri. Ég verð með tilliti til þess að segja að það er nokkuð mikill hægagangur á framkvæmdum í þessu máli, jafnvel þótt við gerum ráð fyrir að það standist sem verið er að gefa fyrirheit um núna, að verkið verði hafið á næsta ári.

Mér þykir rétt að leggja áherslu á það, að hvað sem líður FM-kerfinu getur það aldrei komið í staðinn fyrir langbylgjustöð. Það kom reyndar fram hjá hæstv. ráðh. og líka hjá þeim hv. þm. sem talaði næst á undan mér, hv. 5. þm. Vesturl.

Við skulum ekki vera að gera því skóna að það verði með nokkrum hætti vikist undan því að hafa snör handtök í þessu máli því að voðinn er vís ef möstrin falla. Þá verður um ófyrirsjáanlegan tíma, eins og það er orðað í greinargerð þeirri sem ég vitnaði til áðan, ekki hægt að útvarpa á langbylgju með skelfilegum afleiðingum fyrir landsbyggðina, sjómennina á miðunum umhverfis Ísland og vegna alls öryggis, því að hér er líka um öryggismál að ræða, eins og hæstv. menntmrh. benti raunar sjálfur á.

Ég verð að segja að mér finnst ekki höfuðatriði hvort Ríkisútvarpið greiðir þessa framkvæmd, eins og það gerði í upphafi, eða aðrir aðilar komi þar að. Auðvitað segi ég þetta með þeim fyrirvara að búið sé þannig að Ríkisútvarpinu að það geti sinnt verkefnum sínum í þessum efnum sem öðrum. En það er langt frá því að svo sé. Það er ekki aðalatriði hvaða aðili greiðir þennan kostnað. Hann kemur undir öllum kringumstæðum frá ríkinu og það er almenningur í landinu sem greiðir kostnaðinn. Almenningur í landinu á kröfu til að þegar sé hafist handa um þetta verk, til þess að það verði ekki dýrara en það þarf að vera og til þess að það hendi ekki slys, sem alltaf vofir yfir meðan ekkert er gert.