06.04.1982
Sameinað þing: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

364. mál, utanríkismál 1982

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Skýrslu minni um utanríkismál var útbýtt á Alþingi um miðjan mars s.l. Ég geri því ráð fyrir að hv. alþm. hafi kynnt sér hana og hafi hana við höndina. Ég sé því ekki ástæðu til að endursegja hana hér, en læt nægja að vísa til hennar almennt, auk þess sem ég mun vekja athygli á einstökum atriðum eftir því sem mér virðist þörf á, einkanlega þá að málum þar sem eitthvað hefur gerst að marki frá því að gengið var frá skýrslunni til prentunar snemma í mars s.l.

Jafnframt skýrslunni um utanríkismál er vísað til skýrslu um Sameinuðu þjóðirnar sem var samtímis lögð fyrir Alþingi. Ég bendi á að aftast í skýrslunni um utanríkismál er að finna efnisyfirlit, eða réttara sagt aftan við hana, og ætti það að vera til hægðarauka. Eins og efnisyfirlitið ber með sér er skýrslunni skipt í átta aðalkafla eða þætti sem hver um sig skiptist svo í greinar um tiltekin málefni, eftir því sem við á.

Í inngangi, sem er 1. kafli, eru m.a. birt orðrétt ákvæði stjórnarsáttmálans um utanríkismái. Þau eru það skýr að varla verður deilt um hvað þar stendur. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þau á þessu stigi. Vera má að til þess gefist tilefni síðar í umræðunum.

Annar aðalkafli skýrslunnar fjallar um alþjóðamál. Þar er í undirgreinum sérstaklega fjallað um mál eins og samskipti austurs og vesturs, Madrid-ráðstefnuna, afvopnunarmál, Austurlönd nær og syðri hluta Afríku. Auðvitað hefði þar mátt nefna fleiri mál, en þetta eru þau mál sem efst hafa verið á baugi að undanförnu.

Um alþjóðamálin almennt er það að segja, að á allra síðustu árum hefur ástandið í þeim efnum farið hríðversnandi. Spennan eykst og ágreiningsefni verða æ fleiri og alvarlegri. Það eru mikil viðbrigði frá þeim friðarvonum sem óx fiskur um hrygg lengst af áttunda áratugarins. Hið kalda stríð færist nú hvarvetna í aukana. Ég leyfi mér að undirstrika það sem sagt er um þetta í skýrslu minni á bls. 4: „Andstæðurnar milli austurs og vesturs eru nú skarpari en þær hafa verið allt frá tímum kalda stríðsins og ná til flestra þátta í samskiptum þessara aðila. Ófriðarblikur hafa enn á ný aukist í Austurlöndum nær, spennan hefur vaxið í Mið-Ameríku og lítið miðar í afvopnunarviðræðum og norður- suður viðræðunum um nýskipan alþjóða efnahagsmála. Við þetta bætast síðan þeir efnahagsörðugleikar sem gengið hafa yfir flest iðnvædd ríki á Vesturlöndum og atvinnuleysi tugmilljóna manna.“

Því miður verður að viðurkenna að mannkynið stendur nú andspænis meiri óvissu og öryggisleysi en oftast áður, svo að ekki sé meira sagt. Í upphafskaflanum um alþjóðamál er rætt um málefni Tyrklands og EI Salvadors og annarra Mið-Ameríkuríkja. Um Tyrkland má bæta því við, að Efnahagsbandalag Evrópu hefur fjallað ítarlega um ástandið þar og tók forseti ráðherraráðsins, Leo Tindemanns, utanríkisráðherra Belgíu, sér sérstaka ferð á hendur til Tyrklands fyrir rúmlega hálfum mánuði til að kanna stöðu mála. Eftir þá ferð virðist bandalagið bjartsýnna en áður á að yfirlýsingar hershöfðingjanna um endurreisn lýðræðis standist bæði að því er varðar tímasetningar og efnisatriði.

Í ráðherranefnd Evrópuráðsins hafa málefni Tyrklands einnig verið til athugunar. Má búast við að á fundi sínum um miðjan apríl taki nefndin ákvörðun um aðgerðir sem hún telur heppilegastar til þess að stuðla að því, að lýðræði og mannréttindi verði endurreist í Tyrklandi sem fyrst. Það er augljóst að fyrir því eru takmörk hve lengi Tyrkland getur verið aðili að Evrópuráðinu án þess að lýðræðislegir stjórnarhættir verði þar aftur upp teknir.

Kosningar hafa farið fram í El Salvador. Kosningaþátttakan varð meiri en ráð hafði verið gert fyrir. Má e.t.v. draga af því einhverja ályktun. Þótt Kristilegir demókratar hafi fengið flest atkvæði þeirra flokka, sem þátt gátu tekið í þessum kosningum, tókst þeim ekki að ná meiri hluta. Því miður lítur svo út sem samvinna nokkurra helstu öfgaflokkanna til hægri geti orðið ofan á, og þarf þá litlum getum að því að leiða, að líkurnar á samningaviðræðum á milli stríðandi afla í samræmi við ályktun Allsherjarþingsins eru enn fjarlægari en áður. Nefna má að forseti Mexíkó hefur átt visst frumkvæði í sáttaumleitunum. Ekki er vitað hvort sú tilraun ber nokkurn árangur.

Í skýrslunni er vikið að samskiptum austurs og vesturs og fjallað um afvopnunarmál. Ég vísa til þess er þar segir, en vil bæta við örfáum orðum.

Eins og ég vík að í skýrslunni er ráðgert að annað auka-allsherjarþingið um afvopnunarmál komi saman í New York dagana 7. júní til 9. júlí n.k. Því miður er varla við því að búast, að þetta þing marki tímamót í sögu afvopnunarmála. Grundvöllurinn fyrir raunhæfri afvopnun eða a.m.k. samdrætti í vopnabúnaði er gagnkvæmt traust milli ríkja og æðimikið skortir nú á, svo að ekki sé meira sagt, að þær forsendur séu til staðar. Á fyrsta auka-allsherjarþinginu um afvopnun tóku kjarnavopnaveldin m.a. undir það, að frekari tilraunir með kjarnavopn yrði að stöðva. Á þeim fjórum árum, sem síðan eru liðin, hafa tilraunir með kjarnavopn farið fram einhvers staðar í heiminum að meðaltali einu sinni í viku.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur falið afvopnunarnefndinni í Genf að semja um fækkun kjarnavopna, en þau ríki, sem yfir þeim ráða, hafa hingað til á allan hátt tregðast við að fjalla á raunhæfan hátt um slíka samningsgerð í nefndinni. Þar sem starf nefndarinnar byggist á reglunni um samþykki allra endurspeglar hún valdahlutföllin í heiminum og geta meirihlutaályktanir frá Sameinuðu þjóðunum litlu breytt þar um. Meðan tortryggni ræður ríkjum er vonin um raunhæfar aðgerðir lítil. Gildir þá í raun það sama um störf auka-allsherjarþingsins um afvopnun í sumar, þótt þær umræður sem þar fara fram, og þær hvatningar, sem það mun væntanlega samþykkja, geti varla orðið til annars en einhvers góðs.

Samskipti austurs og vesturs og vígbúnaðarkapphlaupið er alvarlegasta áhyggjuefnið í okkar heimshluta. Það þarf að draga úr vígbúnaðinum, ekki hvað síst úr kjarnorkuvígbúnaðinum. Mest ábyrgð hvílir á stórveldunum og þá alveg sérstaklega á risaveldunum, en ábyrgð hvílir einnig á öllum öðrum ríkjum, því að öll ríki, sem geta, keppast við að vígbúast. Afvopnunarmálin eru í sjálfheldu. Þann vítahring þarf að rjúfa. Einhliða afvopnun kemur ekki til greina og verður ekki framkvæmd. Það er ekki raunsætt. Afvopnunin verður að vera gagnkvæm, en einhver verður að stíga fyrsta skrefið. Það er ekki fjarri, sem sænski utanríkisráðherrann hefur sagt nýlega, að hugsunin á bak við vígbúnaðarkapphlaupið er í raun og veru ósigur fyrir mannlega skynsemi. Ég hef ekki um það fleiri orð, en vísa til skýrslunnar og þá sérstaklega til þess sem segir um Pólland, þó að ég fari ekki nánar inn á Póllandsmálið hér. En Póllandsmálið er einnig aðalþröskuldurinn á Madridráðstefnunni. Eins og stendur eru afvopnunarmálin að mínu mati kjarni allra alþjóðamála.

Þriðji aðalkaflinn fjallar um alþjóðastofnanir og svæðasamtök. Þar bendi ég sérstaklega á skýrslu um Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem hér liggur fyrir. Enn fremur er rétt að benda á skýrslu fulltrúa Íslands á 33. þingi Evrópuráðsins sem nýlega hefur verið lögð fram hér á Alþingi.

Í stjórnarsáttmálanum er lögð sérstök áhersla á að sinnt sé starfi í Sameinuðu þjóðunum og Norðurlandaráði. Þeirri stefnu hefur verið reynt að fylgja. Það er meginþáttur íslenskrar utanríkisstefnu, að öllum ríkjum, hvort sem þau eru stór eða smá, beri að standa við skuldbindingar sínar samkv. sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á það hefur hvarvetna verið lögð áhersla af Íslands hálfu. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittast tvisvar á ári. Á þeim fundum er lögð áhersla á að samræma sjónarmið Norðurlandanna í alþjóðamálum eftir því sem kostur er, og má segja að það hafi leitt til þess, að þau hafi t.d. á alþjóðavettvangi, eins og hjá Sameinuðu þjóðunum, langoftast staðið saman þó að frá því séu undantekningar.

Við greinina um varnarmáladeild á bls. 15 ætla ég að bæta fáeinum orðum.

Störf varnarmálanefndar eru margþætt og margvísleg. Varnarmáladeild fer með mál, er varða samskipti við varnarliðið, og hefur umsjón með lagaframkvæmd á varnarsvæðunum. Samskipti við varnarliðið hafa verið góð, en alltaf koma upp ýmis mál sem úr þarf að greiða. Hefur það yfirleitt tekist vel að mínu mati. Ég vil taka það fram, að á þeim tíma sem ég hef gegnt embætti utanrrh. hef ég aldrei orðið þess var, að varnarliðið gerði tilraun til að hafa afskipti af innanlandsmálum. Ég tel að allar fullyrðingar um hið gagnstæða séu sprottnar af misskilningi, enda hef ég ekki heyrt nefnd nein rökstudd dæmi um slíkt.

Það liggur í augum uppi, að það er forsenda fyrir dvöl varnarliðsins að það hafi ekki afskipti af innanlandsmálum. Yrði misbrestur í því efni væri brostin veruleg forsenda fyrir dvöl varnarliðsins hér á landi. Því hljóta allir að gera sér grein fyrir og það hljóta allir að skilja. (ÓRG: Það er spurning hvort miðstjórn Framsfl. skilur það.) Já, það er hægt að ræða um það á eftir ef hv. framítakandi gerði sér það ómak að útlista það nánar. (ÓRG: Við getum reynt það í sameiningu.) Það er ágætt að fá smáupplyftingu í þessu.

Vinnuálag á varnarmáladeild er mjög mikið. Þar er því þörf á auknum starfskröftum.

Við hlið varnarmáladeildar starfar varnarmálanefnd sem sérstaklega fjallar um framkvæmdir á vegum varnarliðsins og er utanrrh. til ráðuneytis um þau málefni. En ef það væri staðreynd, sem ekki er, að varnarliðið hefði haft afskipti af innanlandsmálum, þá á ekki við að mínum dómi neitt góðlátlegt klapp á kollinn á því og segjast áminna það um að gera þetta ekki, enda hélt ég að menn hefðu getað skilið það sem ég sagði áðan.

Hafréttarmálefnin eru okkur Íslendingum jafnan hugstæð. Rétt er að geta þess, að á fundinum í Genf í ágúst 1981 var í fyrsta sinn gefið út uppkast að hafréttarsáttmála, en hinar fyrri útgáfur höfðu verið óformleg drög. Þetta undirstrikaði m.a. að nú færi að draga að lokum ráðstefnunnar sem þá hafði verið að störfum í nær átta ár. Einn stóran skugga bar þó þarna á. Er þar um að ræða víðtækar breytingartillögur sem Bandaríkjastjórn hefur sett fram varðandi sáttmálann, einkanlega varðandi málmvinnslu á alþjóðahafsbotnssvæðinu. Viðbrögð þróunarríkja við þessum breytingartillögum hafa verið mjög neikvæð og því er sú hætta vissulega fyrir hendi, að ekki náist eining um endanlega gerð sáttmálans. Hvort þá yrði gengið til atkvæða um textann eða starfi ráðstefnunnar frestað um óákveðinn tíma er enn óljóst. Við hljótum að vona í lengstu lög að fullt samkomulag náist, svo að öll ríki heims treysti sér til að fullgilda sáttmálann. Að öðrum kosti kynnu hættulegar deilur um einstök ákvæði hans að geta blossað upp hvenær sem væri. Ellefu ríki á Hafréttarráðstefnunni: Norðurlönd öll, Ástralía, Nýja-Sjáland, Kanada, Holland, Írland og Austurríki, hafa komið upp óformlegum vinnuhópi til að leita að málamiðlun milli sjónarmiða Bandaríkjamanna, sem reyndar njóta nokkurs skilnings ýmissa stærri iðnríkja, og þróunarríkjanna hins vegar. Og nú alveg nýlega hefur Sviss bæst í hóp þessara ríkja, þannig að þarna er í raun um 12 ríki að tefla sem reyna fyrir sér um málamiðlun: Hvort slík málamiðlun tekst er enn allsendis óvíst, en við verðum að vona hið besta. Að öðru leyti vísa ég til V. kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um ýmis hafréttarmál. Vona ég að þar sé ýmsan fróðleik að finna sem gott sé fyrir hv. alþm. að eiga aðgang að á einum stað.

Í framhaldi af því, sem segir í VI. aðalkafla skýrslunnar um þróunarsamvinnu, langar mig til að bæta við nokkrum orðum um norður-suður vandamálin svokölluðu.

Á undanförnu ári hefur því miður nær ekkert þokast áfram í norður-suður málaflokkunum eða um samskipti ríkra þjóða og fátækra. Þar með á ég þó ekki við að umræður hafi legið niðri. 36. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fjallaði nokkuð um þennan málaflokk á s.l. hausti, og raunar hefur þessu þingi enn ekki verið formlega slitið, aðallega vegna þess að þingforseti kveðst enn standa fyrir óformlegum viðræðum varðandi þennan dagskrárlið, sem fjallar um alhliða samningsviðræður um alþjóðaefnahagsmál, og verði þingið kallað saman til að fjalla um það mál þegar — og ef er sjálfsagt réttara að segja þá líka — í samkomulagsátt miðar.

Í október s.l. var haldinn fundur leiðtoga 22 ríkja í Khartoum til að ræða þessi sömu mál og reyna að marka framtíðarstefnu. Lítill árangur hefur enn komið í ljós af þeim fundi þótt línur kunni að hafa skýrst eitthvað. Í tillögum þróunarríkjanna, sem fram komu 1979, eru vissulega settar fram róttækar hugmyndir um grundvallaratriði í alþjóðlegum efnahagsmálum. Byrðarnar munu fyrst í stað aðallega falla á vestræn iðnaðarríki, þótt segja megi að ýmis atriði þessara tillagna gætu bætt hag allra þegar til lengri tíma er litið. Ýmis Vesturlönd, einkum Bandaríkin hafa ekki verið reiðubúin til heildarsamningaviðræðna um þessi mál, ekki síst vegna þess að erfiðleikar í efnahagsmálum heimsins og heima fyrir gera þeim ekki fært að taka á sig frekari byrðar. Sovétríkin og þeirra fylgiríki halda sig að mestu utan við, með þeirri gamalkunnu röksemdafærslu að þau eigi enga sök á ástandinu og hafi því engum skyldum að gegna.

Meðan hvorki gengur né rekur í þessum málum stendur aðstoð við fátækustu ríki heims í stað eða dregst jafnvel saman. Nýlega fékk ég í hendur upplýsingarit frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sem gefur yfirþyrmandi mynd af einum þætti ástandsins. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að heyra nokkrar staðreyndir sem þar koma fram. Við höfum lengi talið hér á landi að barnalífið væri ekki unnt að meta til fjár. En á árinu 1981 hefðu 1000 kr. á ári á barn gert gæfumuninn. Hefði þeirri fjárhæð verið eytt á skynsamlegan hátt handa hverjum og einum hinna 500 millj. fátækustu mæðra og barna í heiminum hefði mátt sjá þeim fyrir bættum mat, hættuminni meðgöngu, grundvallarmenntun og heilsugæslu, auknu hreinlæti og heilnæmara vatni. Jafnframt því að draga þannig úr neyðinni hefðu slíkar aðgerðir stuðlað að því að draga úr offjölgun mannkyns og auka hagvöxt á komandi árum. Í stuttu máli sagt hefðu slíkar aðgerðir til að tryggja grundvallarþarfir allra barna í heiminum bæði verið stærsta mannúðarmál, sem unnt er að vinna að, og einhver besta fjárfesting sem heimsbyggðin hefði getað lagt í.

En á árinu 1981 reyndust 1000 kr. á ári hærra verð en heimsbyggðin var reiðubúin að greiða. Greitt verð reyndist vera eitt barnslíf aðra hverja sekúndu eða 17 millj. yfir árið. Innan við 10% þessara barna voru bólusett gegn sex algengustu og hættulegustu tegundum barnasjúkdóma. Slíkt kostar 50 kr. á barn. Það er hins vegar of dýrt og því varð kostnaðurinn 5 millj. barnslífa.

Árið 1982 verður ekkert betra. Nú í dag munu 40 þús. börn látast, 100 millj. munu fara hungruð að sofa í kvöld, og áður en árið er liðið hafa 10 millj. börn beðið varanlegt tjón til líkama og sálar af næringarskorti og 17 millj. munu hafa dáið áður en fimm ára aldri er náð.

Þetta eru óhugnanlegar staðreyndir, en staðreyndir eigi að síður. Okkur hlýtur öllum að vera hollt að hafa þær í huga þegar við deilum hér um skiptingu á þjóðarkökunni og veltum því fyrir okkur, hvort þetta allsnægtaþjóðfélag eigi að láta sér nægja að leggja fram 50 aura af hverjum 1000 kr. þjóðarframleiðslunnar til að lina þessar þjáningar eða hvort við eigum að vera svo rausnarlegir að hækka þetta upp í 65 aura af hverjum 1000 kr. þjóðarframleiðslunnar. Okkur finnst sjálfsagt að þessar óhugnanlegu staðreyndir séu okkur fjarlægar. Þær eru vissulega ekki fyrir hendi í okkar allsnægtaþjóðfélagi þó að við finnum okkur næg tilefni til að kveina og kvarta. En ég hef viljað benda á þetta hér til þess að vekja menn til umhugsunar um þessi efni og kannske ekki síst vegna þess að Ísland gat sér á einni tíð alveg einstaklega gott orð fyrir framlag til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Í VII. kafla skýrslunnar.er greinargerð um þróun utanríkisviðskipta á árinu 1981 tekin saman af viðskrn. Er þar mjög margt athyglisvert að finna. Ég ræði hana þó ekki hér nú, enda mun viðskrh. e.t.v. síðar víkja að þeim þætti skýrslunnar. En ég vil undirstrika það sem í skýrslunni segir, að vinna að utanríkisviðskiptum er veigamikill þáttur í starfi allra okkar sendiráða.. Sum sendiráðin hafa viðskiptamál að höfuðviðfangsefni. Munu margir telja einna mikilvægast að sendiráðin sinni þessum þætti mála, þar sem við höfum ekki ráð á að hafa jafnfjölmenn sendiráð og flestar aðrar þjóðir.

Í lokakafla skýrslunnar er fjallað um utanríkisþjónustuna. Verður eigi fjölyrt um hana frekar. Þess má þó geta, að um utanríkisþjónustu Íslands gilda sérstök lög, nú lög nr. 39/1971, jafnframt hinum almennu stjórnarráðslögum og stjórnarráðsreglugerð. Hefur utanrrn. að því leyti til sérstöðu meðal annarra ráðuneyta. Í þessum lokakafla vík ég að utanríkisviðskiptum og hugsanlegum breytingum á framkvæmd þeirra mála. Þar er fyrst og fremst um að ræða hugmyndir starfsmanna utanríkisþjónustunnar og þá þeirra starfsmanna sérstaklega sem mesta reynslu hafa í þessum efnum. Ég vildi vekja athygli á þessum hugmyndum svo að menn gætu hugleitt þær. Það er ljóst að ekki er heppilegt að hrapa að slíkum breytingum sem þar eru orðaðar. Þar getur verið um viðkvæm mál að tefla, bæði út frá pólitísku sjónarmiði og einnig út frá öðrum sjónarmiðum, og er því auðvitað rétt að fara sér hægt og gefa sér góðan tíma til umhugsunar. En auðvitað skiptir meginmáli að skipulag þessara mála sé sem hagkvæmast og horfi til sem mestrar hagræðingar.

Herra forseti. Ég hef með þessum orðum fylgt úr hlaði þeirri skýrslu um utanríkismál sem lögð hefur verið prentuð fyrir þingið.