06.04.1982
Sameinað þing: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3660 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

364. mál, utanríkismál 1982

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. utanrrh. skýrslu þá sem hann hefur lagt fram á Alþingi um utanríkismái. Ég leyfi mér einnig að nota þetta tækifæri til þess að þakka samstarf utanrrh. við utanrmn. sem hefur verið með ágætum.

Við erum væntanlega sammála um að meðferð utanríkismála geti ráðið úrslitum um hvort Íslendingar haldi sjálfstæði sínu, en skilyrði þess að vera sjálfstæð þjóð er að unnt sé að gæta öryggis borgaranna og tryggja sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Við værum væntanlega ekki heldur að ræða um utanríkismál nema við gerðum okkur grein fyrir þessu og hefðum skoðun á stefnum og straumum í alþjóðamálum. Spurningin er ekki sú, hvort við viljum hafa áhrif á þróun alþjóðamála, heldur hin, hverju við fáum ráðið um örlög okkar og annarra í samskiptum þjóða í milli. Einhverjir vilja sjálfsagt gera lítið úr áhrifum smáþjóðar á alþjóðavettvangi, en því nauðsynlegri er smáþjóðum víðtæk þjóðarsamstaða um stefnuna í utanríkismálum. Stórveldi eins og Bandaríkin leggja ríka áherslu á slíka samstöðu. Hvað þá um nauðsyn þjóðarsamstöðu okkar Íslendinga?

Ég vil ekki draga í efa að óreyndu að allir Íslendingar vilji tryggja sjálfstæði þjóðarinnar. En ég hygg að málið sé ekki einfaldað um of þegar ég segi að leiðir að því markmiði hafi skilist að nokkru. Þrír stjórnmálaflokkar, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., og þorri landsmanna fylgja og vilja taka þátt í varnarsamtökum vestrænna þjóða. Alþb. eitt stjórnmálaflokka fylgir svokallaðri hlutleysisstefnu.

Það ber að fagna þeirri víðtæku samstöðu sem tekist hefur um að marka ábyrga utanríkisstefnu að þessu leyti. Hins vegar er ljóst að brotalöm er á núv. ríkisstj. í utanríkismálum frá upphafi, eins og er að koma betur og betur í ljós einnig í öðrum málaflokkum. Stjórnarsáttmálinn um utanríkismál, sem vitnað er til í skýrslu utanrrh., ber þessa ljóst vitni. Þar er lögð áhersla á þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum og Norðurlandaráði. en engu orði vikið að þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. Raunar er ástæða til að rifja það upp, aðþátttaka okkar í Sameinuðu þjóðunum varvitnisburður í raun um fráhvarf okkar frá hlutleysi, þar sem Sameinuðu þjóðirnar voru samtök sigurvegaranna í annarri heimsstyrjöldinni, og er það t.d. ástæðan til að Sviss hefur enn ekki gerst aðili þeirra. Forverar Alþb. í Sósíalistaflokknum, Sameiningarflokki alþýðu, greiddu þó þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum atkvæði og kröfðust reyndar að við gerðumst stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum og gengjumst undir það skilyrði að segja möndulveldunum stríð á hendur. Þá var hlutgeysistefnan í þeim hávegum höfð hjá íslenskum sósíalistum. Hvað snertir þátttöku okkar í Norðurlandaráði, þá er þess að geta, að því er ekki ætlað að vera vettvangur almennra utanríkismála vegna skilyrða sem Finnar verða fyrst og fremst að sæta vegna vináttusamnings við Sovétmenn, og sýnir það skilyrði hvaða kvaðir Sovétmenn leggja á vini sína. En ekki ber á öðru en íslenskir sósíalistar mundu sætta sig við það.

Skýrsla utanrrh. bætir að svo miklu leyti sem unnt er úr þeirri alvarlegu brotalöm í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., að ekkert er minnst á meginþátt íslenskrar utanríkisstefnu, þátttöku okkar í varnarbandalagi vestrænna lýðræðisríkja. Alþb. hlýtur því að hafa margt við þessa skýrslu að athuga. Ég tek nú raunar eftir því, að enginn hæstv. ráðh. þeirra Alþb.-manna er viðstaddur svo mikilvægar umr. sem hér fara fram um skýrslu utanrrh., og segir það sína sögu. (SighB: Og enginn þm. heldur utan einn.) Honum er líklega ætlað að bera byrðarnar af tvískinnungi Alþb. í ríkisstj. og utan ríkisstj. meðal herstöðvaandstæðinga og þeirra sem bera ábyrgð á mestu varnarframkvæmdum frá því að við gengum í Atlantshafsbandalagið. En raunar ættu þeir Alþb.menn, sem aðhyllast hlutleysi, að hafa lært af reynslunni. Gagnsleysi og raunar skaðsemi hlutleysisstefnu og uppgjöf þeirra, er henni fylgja, hafa komið greinilega í ljós.

Atburðarásin í upphafi annarrar heimsstyrjaldarinnar er enn í fersku minni miðaldra manna og eldri. Þá óðu herir einræðisherra yfir hvert hlutlaust land á fætur öðru án þess að rönd yrði við reist. Hlutleysi ríkja eins og Svíþjóðar og Sviss er því aðeins virt, að styrjaldaraðilar telji það henta hagsmunum sínum, og útheimtir að að baki hlutleysisins sé verulegur herstyrkur. En Svíþjóð og Sviss eru meðal þeirra þjóða sem mestum fjármunum verja til varnar og vígbúnaðar í hlutfalli við þjóðartekjur. Skaðsemi hlutleysis kemur þó greinilegast fram í þeirri staðreynd, að allar líkur bendá til að unnt hefði verið að komast hjá annarri heimsstyrjöldinni ef varnarsamtök eins og Atlantshafsbandalagið hefðu þá verið til. Loks er svo rétt að nefna legu lands okkar, sem er slík að fátt sýnir betur haldleysi hlutleysis. Urðum við varir við það í upphafi annarrar heimsstyrjaldarinnar þegar land okkar var hernumið af Bretum, en við gerðum síðan varnarsamning við Bandaríkin árið eftir og yfirgáfum þá hlutleysisstefnu er við höfðum markað þegar Ísland varð fullvalda ríki 1918.

Sjálfstfl. hefur frá upphafi Atlantshafsbandalagsins markað ákveðna stefnu í þessum málum. Á síðasta landsfundi flokksins var m.a. komist svo að orði í ályktun um utanríkismál, með leyfi forseta:

„Sjálfstfl. hefur verið sjálfum sér samkvæmur í utanríkismálum. Hann fylgir ábyrgri utanríkisstefnu sem í senn tekur mið af brýnum hagsmunum Íslands og þeirri þróun að þjóðirnar verða hver annarri háðari. Í hugmyndabaráttunni á alþjóðavettvangi er afstaða Sjálfstfl. skýr. Hann berst fyrir mannréttindum og frelsi þjóða og einstaklinga til að ráða málum sínum án íhlutunar stórvelda. Sjálfstfl. berst gegn útþenslu heimskommúnismans og varar við tilraunum áhangenda hans bæði utan og innan landamæra Íslands til að koma hér á landi á því þjóðskipulagi, sem hneppir þjóðir í fjötra, stefnir að því að uppræta menningu þeirra, litur á kristna trú sem andstæðing og breytir blómlegum byggðum í fátæktarhéruð í nafni Marx og Leníns.“

Afstaða Alþb., Sósíalistaflokksins — Sameiningarflokks alþýðu og Kommúnistaflokksins áður hefur vissulega verið með öðrum hætti. Raunar hefur þessi afstaða sveiflast til og frá, en unnt hefur verið að fylgjast með að þær sveiflur hafa allt fram á þennan dag farið eftir því sem hagsmunum Sovétríkjanna hefur komið best. Menn muna að lærifeður núv. formanns Alþb., Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, kröfðust samstöðu með Bretlandi, Bandaríkjamönnum og Sovétmönnum áður en griðasáttmáli Hitlers og Stalíns, er hratt annarri heimsstyrjöldinni af stað, var gerður. Eftir það var krafist hlutleysis um tíma eða þar til Hitler og Stalín voru komnir í hár saman. Þá dugði ekki minna en að segja Þjóðverjum stríð á hendur, eins og ég hef áður rakið. Nú birtist þessi fylgispekt Alþb. við hagsmuni Sovétmanna með ýmsu móti.

Sagt er um Kim II Sung, einræðisherra Norður-Kóreu, að hann hafi tekið heilsíðuauglýsingu í New York Times þar sem ágæti hans var útmálað. Síðan vitnaði Kim Il Sung heima fyrir í ummæli hins virta blaðs til sönnunar mannkostum og stjórnunarhæfileikum sínum. Eitthvað þessu líkt er samspil Sovétmanna og Alþb.-manna. Sovétmenn láta sér líka þótt Alþb. reyni að lýsa sjálfu sér sem samtökum sósíaldemókrata á borð við flokk Mitterands til þess svo að geta vitnað í ummæli herra Ólafs R. Grímssonar, sem þeim eru þóknanleg, til þess að segja heimamönnum hvað utanríkisstefna kommúnista sé ágæt og stefna lýðræðisríkja slæm. Mætti fleira um þetta samspil segja, en það bíður betri tíma.

Þróun alþjóðastjórnmála vekur vissulega ugg og kvíða um þessar mundir. Merki þessa eru mörg, en þeirra helst aukinn vígbúnaður, styrjaldarhætta og jafnvel hætta á notkun kjarnorkuvopna. Af slökunartímabili hefur tekið við aukin spenna í samskiptum þjóða. Þær vonir, sem menn gerðu sér þegar Helsinki-sáttmálinn var undirritaður, hafa brugðist. Því til sönnunar má nefna að í stað þess, að slík slökun átti að leiða til árangurs í afvopnunarviðræðum, þá er upplýst að Sovétmenn hafa aukið herstyrk sinn einmitt að miklum mun á slökunartímabilinu, gagnstætt því sem vestræn lýðræðisríki hafa dregið saman herstyrk sinn og vopnabúnað.

Það er að vísu ljóst, að í Sovétríkjunum er jarðvegur tortryggni er gerir stjórnvöldum betur fært en ella að sannfæra menn þar í landi um að setið sé á svikráðum við þá og árásarhætta sé e.t.v. til staðar. Þeir, sem hafa komið til Sovétríkjanna — og m.a. staðnæmst við það merki er reist hefur verið til að minnast þess hvar herir Hitlers námu staðar við borgarhlið Moskvu, geta vel skilið að valdhafar geta nýtt slíkan jarðveg til að ala á tortryggni og skapa sjálfum sér skilyrði til aukins vígbúnaðar og þeirra álaga á landsmenn sem nauðsynleg eru í þeim tilgangi og leiða til skerðingar lífskjara. Einræðisherrar hafa einnig að þessu leyti allt aðra stöðu til þess að fara sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest og síðast af öllu landsmenn sína. Hér er ólíku máli að gegna meðal lýðræðisríkja, þar sem opin umræða verður að fara fram áður en stjórnvöld geta lagt fjármuni til vígbúnaðar og vopnakaupa, áður en unnt er að leggja á aukna skatta til þess að standa undir slíkum útgjöldum. Það er því ljóst, að í lýðræðisríkjum er vígbúnaður og vopnabúnaður, hvort heldur er gerð kjarnavopna eða annarra tegunda vopna, bundinn því, að almenningur telji slíkan vopnabúnað og varnarráðstafanir nauðsynlegar. Í þessu felst vissulega mikill munur á aðstöðu lýðræðisríkjanna annars vegar og einræðisríkjanna hins vegar. Þessi munur kom ljóst fram í annarri heimsstyrjöldinni þegar Hitler hafði tíma og tök á að vígbúast án þess að lýðræðisríkin uggðu að sér. Þessi lærdómur ætti vissulega að verða lýðræðisríkjum áminning um að gæta vöku sinnar.

Það er skiljanlegt að menn í ríkjum Vesturlanda vilji leggja áherslu á að verja fjármunum sínum til þess að bæta kjör sín og veita sér ýmsa þá muni sem gera lífið þægilegra og ánægjulegra. Þetta val, sem þegnar í vestrænum lýðræðisríkjum eiga, eiga þegnar austantjalds ekki. Af því leiðir aftur að við vitum ekki um fyrirætlanir austantjaldsmanna og Sovétmanna eins og þeir vita um fyrirætlanir lýðræðisríkja. Það er skiljanlegt, að í frjálsum löndum bindist menn samtökum um að stuðla að friði, og nú hafa ýmsar friðarhreyfingar verið allathafnasamar. Hins vegar er dregið í efa hvers konar hreyfingar eru hér á ferðinni, hvaða stjórn þær lúta, hverra erinda þær ganga og hverjum þær gera gagn. Ég efast ekkert um að meðal þessara samtaka séu samtök manna sem af heilum hug og einlægni berjast fyrir friði með þessum hætti. Hins vegar er sömuleiðis ljóst að margar þessar friðarhreyfingar ganga erinda einræðisafla Sovétmanna í þeim tilgangi að svæfa vestræn lýðræðisríki á verðinum fyrir frelsinu. Við hófum heyrt nægilega vel upplýstar fréttir um fjárhagslegan stuðning við þessar friðarhreyfingar sem koma eftir dularfullum leiðum til ýmissa þeirra manna sem þar standa framarlega í flokki. Það er ólíklegt að slíkt austrænt gull finni ekki sinn farveg til okkar lands eins og annarra landa til þess að vinna þeim málstað gagn sem einræðisherrarnir telja sér sérstaklega þóknanlegan.

Það er út af fyrir sig ekkert nema gott um áróður friðarhreyfinga að segja ef áhrif þeirra væru hin sömu vestantjalds og austan. Austantjalds hafa slíkar hreyfingar engan grundvöll. Það eru engar forsendur fyrir frjálsri starfsemi þeirra. Þar eru friðarhreyfingar verkfæri valdhafanna, alveg eins og verkalýðsfélögin eru þar verkfæri valdhafanna. Friðarhreyfingar vestan járntjalds eru ýmist samtök manna, sem ganga erinda erlendra hagsmuna vitandi eða óvitandi, eða manna, sem af heilum hug bera friðinn fyrir brjósti og telja honum best borgið með afvopnun, einhliða afvopnun. Það væri hins vegar mikið glapræði, það sýnir sagan okkur best. Einræðisherrar og harðstjórar verða ekki stöðvaðir ef þeir mæta ekki andstöðu. Þeir fylla hvert það tómarúm sem skapast. Eina ráðið til að standa gegn framsókn þeirra og auknum áhrifum er að tryggja að menn verði ekki teknir sofandi á verðinum vestantjalds. Einhliða afvopnun er ekki leiðin til friðar. Svokallað ógnarjafnvægi er vissulega ekki æskilegt, en er þó betra — eða réttara sagt illskárra en yfirburðir einræðisherra og harðstjóra sem einskis svífast og geta með þeim hætti sett öðrum þ jóðum úrslitakosti sem ekki er um annað að gera en að hlýða og hlíta ef varnarviðbúnaður er ekki til staðar.

Svo mikið sem afvopnunarmál í tengslum við samskipti austurs og vesturs hafa verið á dagskrá, þá þykir mér hlýða að rekja hér — með leyfi forseta — nokkur atriði úr ályktun landsfundar Sjálfstfl. að þessu leyti á s.l. hausti svohljóðandi:

„Sjálfstfl. varar eindregið við þeim háværu röddum sem segjast tala í nafni friðar og krefjast þess, að með einhliða yfirlýsingum skuldbindi Vesturlönd sig til að búast ekki til varnar gegn hernaðarmætti Sovétríkjanna. Þeir, sem slíkar kröfur gera, eru að kalla á hinn sovéska frið, þar sem kjarnorkuveldið í austri fær öllu sínu framgengt með því einu að færa til eldflaugar sínar og ógna með þeim.

Eina skynsamlega leiðin út úr vígbúnaðarkapphlaupinu er að samkomulag náist um gagnkvæma takmörkun á vígbúnaði og afvopnun stig af stigi undir nákvæmu eftirliti. Oftar en einu sinni hefur sýnt sig að þjóðir Atlantshafsbandalagsins hafa ekki getað þokað Sovétmönnum að viðræðuborðinu fyrr en þær hafa sýnt staðfestu og tekið til við að svara hinum sovéska vígbúnaði í sömu mynt. Ákvörðun um slíkt var einmitt tekin af utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsríkjanna í desember 1979, þegar ákveðið var að snúast gegn SS-20 kjarnorkueldflaugum Sovétmanna sem einvörðungu er miðað á Evrópuríki. Hinir svonefndu talsmenn friðar í Vestur-Evrópu hafa einmitt lagst mest gegn þessari ákvörðun Atlantshafsbandalagsins og reyna að hnekkja henni, þótt hún hafi leitt til þess, að Sovétmenn segjast nú tilbúnir til að taka upp viðræður um Evrópueldflaugar sínar. Hitt er eins víst, að Sovétstjórnin ætli sér það eitt að draga viðræður á langinn í von um að hin svokallaða friðarhreyfing fái því framgengt að með einhliða yfirlýsingum afsali vestrænar ríkisstjórnir sér því sem þær mundu annars ekki láta af hendi nema gegn sambærilegu skrefi af hálfu Kremlverja.

Á undanförnum tíu árum, sem kennd hafa verið við slökun í samskiptum austurs og vesturs, hafa Sovétmenn verið að færa út kvíarnar með öllum tiltækum ráðum, bæði fyrir tilstyrk annarra (Kúbumanna og Víetnama) og grímulaust í Afganistan.“

Þá hafa Sovétmenn og sýnt sitt rétta andlit í Póllandi, sem varð til þess að Alþingi samþykkti till. til þál. um samúð og stuðning við pólsku þjóðina. Mönnum er í fersku minni þessi till. til þál. og skal ég ekki frekar rekja hana, en ítreka niðurlagsorð hennar: „Á örlagastundu óska Íslendingar þess af einlægni, að Pólverjar fái aukin réttindi og taki sjálfir ákvarðanir um framtíð sína í frjálsum kosningum á grundvelli opinna umræðna, en séu ekki sviptir mannréttindum með valdbeitingu og ógnun um innrás.“

Þessi ályktun Alþingis er einsdæmi, að ég hygg, og hún hefur síðan verið notuð til þess að rökstyðja ýmsar aðrar tillögur til þál. um verndun lýðræðis og mannréttinda í öðrum löndum, eins og EI Salvador og Tyrklandi. Ég hygg að hér sé ekki um sams konar mál að ræða. Í Póllandi ógnaði Samstaða, samtök frjálsra pólskra verkalýðssamtaka, ekki lýðræðinu eða mannréttindunum, heldur var Samstaða að vinna að því að auka lýðræði og mannréttindi í Póllandi með friðsamlegum hætti. Þar var ekki um vopnaða uppreisn að ræða eða vopnaviðskipti eins og bæði í EI Salvador og Tyrklandi. Í EI Salvador eigast við margvíslegar stjórnmálahreyfingar, hvort heldur litið er til þeirra stjórnmálaflokka, er tóku þátt í nýafstöðnum þingkosningum, eða til skæruliðahópanna. Það er útilokað fyrir okkur að gera upp á milli þessara deiluaðila eða gera okkur grein fyrir að hve miklu leyti um er að ræða íhlutun Kúbumanna eða Nicaragua í málefni El Salvador eða þá Bandaríkjamanna.

Hvað Tyrkland snertir vaknar sú spurning, af hverju ekki var ástæða til að álykta um málefni Tyrklands meðan lýðræðisstjórn fór þar með völdin, þegar um var að ræða um 30 morð á hverjum degi. Við hljótum að leggja megináherslu á það, að allt, sem við gerum eða fulltrúar okkar í alþjóðasamtökum, sé til þess fallið að skapa skilyrði fyrir því, að lýðræði eigi afturkvæmt í Tyrklandi og friður og réttlæti megi komast á t.d. í El Salvador og öðrum Mið-Ameríkuríkjum. Við hljótum að fela fulltrúum okkar t.d. í Evrópuráðinu og Atlantshafsbandalaginu að vinna að þessu markmiði hvað Tyrkland snertir, og við hljótum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, eins og hæstv. utanrrh. hefur gert grein fyrir fyrr á þessu þingi, að gera slíkt hið sama varðandi El Salvador og önnur Mið-Ameríkuríki.

Ég tel að það sé mjög varasamt, ef við á Alþingi Íslendinga ætlum að flytja tillögur og samþykkja um mannréttindamál og verndun lýðræðis í einstökum ríkjum, þegar af þeirri ástæðu að við yrðum að fjalla um 120–130 ríki ef svo færi. En það er haft fyrir satt, að af 150–160 meðlimaríkjum Sameinuðu þjóðanna sé hæpið að telja meira en 30 ríki til lýðræðisríkja.

Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á verndun lýðræðis og mannréttinda, og við mótmælum vissulega brotum á mannréttindum hvar sem um þau er að ræða og hvenær sem þau eru framin. Við hljótum eins og aðrir Íslendingar að berjast og vinna gegn einræði og harðstjórn. Ályktunin um Pólland er sérstaks eðlis. Þar er um land að ræða sem við höfum aðstöðu til að fylgjast með þróuninni í og var dæmi um tilraun meðal þjóða austan járntjalds til þess að fikra sig í átt til aukinna mannréttinda. Sú tilraun var kæfð, eins og kunnugt er, og slokknaði þar með von í brjóstum manna um að unnt væri að vinna svo að málum undir sósíalísku skipulagi að til þess leiddi að mannréttindi væru virt og lýðræði komið á. Svo mikilvægt og örlagaríkt sem það er í utanríkismálastefnu að efla mannréttindi — og þ. á m. er um það að tefla þegar við ræðum samskipti austurs og vesturs, þá er engu að síður örlagarík sú taflstaða sem skapast hefur milli norðurs og suðurs, þ.e. viðhorfin gagnvart þróunarríkjum.

Það lítur að vísu svo út nú að viðskipti austurs og vesturs séu hættulegri hvað snertir heimsfriðinn en samskipti iðnaðarríkja og þróunarríkja, en jafnvel þótt við vonum að betur rætist úr samskiptum austurs og vesturs en horfir, þá kunna samskipti norðurs og suðurs að skapa í framtíðinni hættu á ófriði sem enginn má loka augunum fyrir. Ég leyfi mér enn, herra forseti, að vitna til ályktunar landsfundar Sjálfstfl. um samskipti við þróunarlöndin, en þar var komst að orði:

„Af siðferðilegum ástæðum ber Íslendingum skylda til að gera það sem í þeirra valdi er til að koma í veg fyrir að meðbræður þeirra í öðrum löndum og álfum svelti eða líði skort á annan hátt. Jafnframt skal til þess litið, að hagsmunir Íslendinga og þróunarþjóða falla saman með margvíslegu móti. Áhrifum sínum á alþjóðavettvangi eiga Íslendingar að beita til að efla stuðning við þróunarlöndin og standa þar með einnig vörð um grundvallaratriði viðskipta- og athafnafrelsis.“

Við höfum ekki lagt fram til þessa málaflokks nema tíunda hluta þess sem Sameinuðu þjóðirnar ætlast til, að því er ég hygg, og enn minni hluta miðað við það markmið sem Alþingi sjálft hefur sett sér að stefna að, að 1% af þjóðartekjum verði varið til aðstoðar við þróunarlöndin. Við hljótum að íhuga með hvaða hætti við getum aukið þessa aðstoð og hvernig henni verður best háttað. Ég tel ástæðu til að við hér á Alþingi fjöllum nánar en við höfum gert um hvernig þessari aðstoð skuli háttað og hvaða árangur hún hefur borið hingað til. Það er ljóst að við höfum ekki bundið þessa aðstoð neinum skilyrðum. Þau ríki, sem hennar njóta, eru t.d. ekki í hópi lýðræðisrík ja að okkar mati og þar eru ekki alls staðar mannréttindi virt. Ég hygg þó að við séum ekki á þeirri skoðun, að við eigum að gera að skilyrði að þessi lönd breyti stjórnarfari sínu eða stjórnarskipulagi. Hins vegar ölum við þá von í brjósti, að aðstoð okkar á efnahagslegu sviði geri það að verkum að framfarir verði í viðkomandi ríkjum þannig að skilyrði skapist fyrir lýðræðislegri þróun. Það kann að taka ekki eingöngu ár, heldur áratugi. En þetta er sú von sem við ölum í brjósti, og á þessum grundvelli og forsendum hljótum við að sinna aðstoð við þróunarlöndin, um leið og mannúðarástæður eru forsendan að þessari aðstoð, sem full ástæða er til, og þarf ekki annað en vitna til orða hæstv. utanrrh. áðan um það ástand sem víða ríkir í þróunarríkjunum.

Áður en ég segi skilið við aðstoðina eða samskiptin við þróunarlöndin vil ég endurtaka niðurlagsorðin í ályktun landsfundar Sjálfstfl., þar sem sagt var að standa ætti einnig vörð um grundvallaratriði viðskipta- og athafnafrelsis, því að reynslan hefur kennt okkur hvað snertir samskipti við þróunarlöndin að mörg þeirra eru ekki fyrr komin á legg og orðin þess umkomin að framleiða vörur, sem eru samkeppnishæfar á mörkuðum þróaðra ríkja, en iðnaðarríkin fara að hugleiða tollmúra og alls konar viðskiptahöft til þess að koma í veg fyrir að þróunarríkin geti selt vörur sínar á markaði iðnaðarríkjanna. Ég hygg að í þessu sé e.t.v. fólgin mesta hættan á því, að aðstoð við þróunarríkin beri ekki árangur þegar til lengdar lætur, og því er það jafnt samskiptum norðurs og suðurs nauðsynlegt sem samskiptum iðnaðarríkja innbyrðis, að grundvallaratriði viðskipta- og athafnafrelsis séu virt.

Það leiðir hugann að nauðsyn efnahagssamvinnu við aðrar þjóðir, sem við sjálfstæðismenn höfum verið formælendur fyrir. Við höfum átt frumkvæði að eða unnið að því með öðrum, að við tækjum heils hugar þátt í efnahagssamvinnu eins og OECD, EFTA og samningi við Efnahagsbandalagið, og við erum þeirrar skoðunar, að við eigum að taka þátt í Alþjóðaorkumálastofnuninni, en tillaga þess efnis er til athugunar hjá utanrmn. og málið til meðferðar hjá viðskrh.

Það er ljóst að einkum Alþb. hefur talið að slík efnahagssamvinna við aðrar þjóðir væri sjálfstæði okkar hættuleg. Við sjálfstæðismenn erum þvert á móti þeirrar skoðunar, að það sé skilyrði fyrir efnahagslegu sjálfstæði Íslendinga að taka upp samvinnu á efnahagssviði við aðrar þjóðir. Í þessum efnum má engin minnimáttarkennd eða þjóðernisrembingur hafa áhrif á okkur. Við eigum með fullri reisn að vinna ásamt öðrum þjóðum að því að bæta hlut okkar sem og annarra þjóða heimsins með efnahagssamvinnu, hvort sem er meðal iðnaðarríkja innbyrðis eða milli þróunarríkja og þróaðra ríkja. Til að sinna þessu verkefni er auðvitað nauðsynlegt að efla utanríkisþjónustuna, og persónulega er ég þeirrar skoðunar, að það eigi að leggja áherslu á að styrkja utanríkisþjónustuna til þess að vinna enn meir að viðskiptamálum okkar, efnahagssamvinnu og markaðsmálum okkar í framtíðinni en hingað til hefur verið gert, og kann sú leið, sem bent er á í skýrslu um utanríkismál sem skoðun embættismanna utanrrn., að sameina utanríkisviðskiptin utanríkismálum almennt í utanrrn., einmitt að vera rétta leiðin.

Það hefur komið fram, hve miklu máli samvinna á alþjóðavettvangi skiptir í hafréttarmálum, nú þegar við vonumst til þess, að Hafréttarráðstefnunni sé að ljúka. Fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi fóru utan í dag og við gerum okkur vonir um að þetta sé síðasti fundurinn áður en til undirskriftar hafréttarsáttmála kemur. við höfum að vísu unnið mikilvægasta sigurinn, þ.e. útfærsluna í 200 mílur, en eigum þó mörgu ólokið, þ. á m. samningum við önnur lönd varðandi afmörkun á landgrunni og hafsbotnsréttindum. Þótt spor í því efni væri Jan-Mayen samkomulagið, þá þurfum við að hyggja að öðrum málum, eins og t.d. þeim réttindum sem við teljum okkur eiga varðandi landgrunnið hér suður og suðvestur af landinu í tengslum við Rokkinn svokallaða. Þá er einnig óútgert um afmörkun á milli Jan-Mayen og Grænlands, sem okkur hlýtur að skipta miklu máli, sem og samningar við Grænlendinga og samstarf við þá og Færeyinga, hvort heldur Grænlendingar eru innan Efnahagsbandalagsins eða ekki.

Þróun hafréttarmála og afskipti okkar af þeim, samvinna og samningar við útlendinga og aðrar þjóðir á því sviði, sýna að við getum án nokkurrar minnimáttarkenndar haldið svo á málum okkar að hagsmunir okkar séu tryggðir. Við höfum í þeim málum hingað til samið til sigurs.

Ég skal nú, herra forseti, fara að ljúka máli mínu, en vil aðeins með nokkrum orðum drepa á framkvæmd varnarsamningsins áður en ég lýk máli mínu.

Um framkvæmd varnarsamningsins hefur mikið verið rætt hér á þingi í vetur og hefur umræðuefnið þá verið t.d. bygging flugskýla, bygging eldsneytisgeyma og bygging flugstöðvar. Það fer fram um byggingu flugskýla og eldsneytisgeyma sem horfir, og sýnast þau mál vera í eðlilegum farvegi þrátt fyrir skemmdarverk Alþb. innan og utan ríkisstj. Svokallaður leynisamningur, þar sem Alþb. var áskilið neitunarvald, ekki eingöngu um byggingu flugstöðvar, heldur og um öll meiri háttar stjórnarmálefni, var á tímabili líklegur til þess að hefta eðlilega framvindu mála hvað varnarframkvæmdir snertir. En sem betur fer sýnist ekki svo verða hvað snertir þær framkvæmdir sem ég áðan gat um. Neitunarvald Alþb. varðandi byggingu flugstöðvar er auðvitað hagsmunum Íslendinga til skaða og raunar óskiljanlegt hvers vegna Alþb. setur þetta skilyrði, ef það er þeirrar skoðunar að samskipti Íslendinga og varnarliðsins eigi að vera sem minnst. Væru Alþb.-menn trúir þeirri þeirri skoðun sinni ættu þeir að skilja að greina verður á milli varnarstarfseminnar á Keflavíkurflugvelli og almennrar flugstarfsemi. Forsenda þess er bygging flugstöðvarinnar. En auk þessa er það íslenskt hagsmunamál að við höfum sæmilega flugstöð, þar sem allir farþegar að og frá landinu fara um þessa flugstöð. Þetta er hagsmunamál landsmanna sjálfra. Næstum því hver einasti landsmaður nýtur slíkrar afgreiðslustöðvar, að ég tali nú ekki um með hvaða hætti við viljum bjóða erlenda gesti velkomna.

Einnig er á það að líta, að allar líkur eru til að kostnaður við þessa mikilvægu þjóðnauðsynlegu framkvæmd falli með meiri þunga á okkur Íslendinga eftir því sem framkvæmdin tefst. Það er ekki eingöngu réttlætanlegt, heldur eðlilegt, með tilvísun til þeirra hagsmuna sem varnarliðið hefur af byggingu flugstöðvarinnar, að það taki nokkurn þátt í kostnaði við framkvæmdina, og ber ekki á neinn hátt að blanda því saman við kostnaðarþátttöku varnarliðsins í öðrum framkvæmdum hér á landi sem á stundum hefur verið á dagskrá, en við sjálfstæðismenn erum andvígir.

Ég vil minna á varðandi framkvæmd varnarsamningsins, að við sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn eða þm. úr okkar flokkum hafa flutt þáltill. um ráðunaut í öryggis- og varnarmálum er ynni á vegum utanrrn. Þessi till. er flutt í þeim tilgangi að við Íslendingar tökum meiri þátt en hingað til í ákvörðunum um tilhögun varna og varðandi starfsemi varnarliðsins hér á landi. Það er sameiginlegt hagsmunamál varnarliðsins, Bandaríkjanna annars vegar og Íslendinga hins vegar og raunar allra Atlantshafsbandalagsríkjanna, að framkvæmdir varna hér á landi séu slíkar að fullnægi öryggissjónarmiðum allra þessara aðila. Við Íslendingar hljótum fyrst og fremst að hugsa um okkar hagsmuni og hljótum að meta og vega þessar varnarframkvæmdir og tilhögun framkvæmda með hliðsjón af því, hvað samræmist okkar eigin hagsmunum best. Um aðalatriði þessa máls, þ.e. gerð varnarsamningsins sjálfs og dvöl varnarliðs á Íslandi, á það við að um sameiginlega hagsmuni er að ræða. Við gerum okkur grein fyrir því, að Bandaríkin hafa ekki varnarlið hér á landi fyrst og fremst okkar vegna, heldur sín vegna, og við höfum ekki varnarliðið hér á landi vegna hagsmuna Bandaríkjanna, heldur vegna eigin hagsmuna. En um þennan samning má segja að fari eins og á að fara um alla gagnkvæma samninga, að það er báðum samningsaðilum í hag, og meðan varnarframkvæmdir og tilhögun varnarframkvæmda og fyrirkomulag varnar- og eftirlitsstöðvarinnar er í samræmi við hagsmuni beggja aðila, þá er vel. En við Íslendingar hljótum að vilja gera okkur grein fyrir því í einstökum tilvikum, hvort svo sé eða ekki, og hlíta ekki að öllu fyrirmælum eða óskum Bandaríkjamanna eða annarra Atlantshafsbandalagsþjóða. Á stundum getur verið að við föllumst á tillögur þeirra. Á stundum getur verið að við krefjumst fyllri ráðstafana og meira öryggis og frekari varnarviðbúnaðar. Á stundum getur verið að við teljum rétt að draga úr þeim framkvæmdum sem farið er fram á. Allt þetta hljótum við að vega og meta miðað við okkar hagsmuni, en einnig með tilvísun til þess, að hér er um sameiginlega öryggishagsmuni allra vestrænna lýðræðisríkja að ræða og raunar þá vörn sem lýðræði og mannréttindi í heiminum eiga besta til þess að standast ásókn harðstjórnar og einræðis.

Herra forseti. Auk almennrar umræðu um utanríkismál, sem skýrsla utanrrh. hefur gefið tilefni til, hef ég kosið að gera einnig sérstaka grein fyrir stefnu Sjálfstfl. í sjálfstæðis- og öryggismálum þjóðarinnar. Við leggjum áherslu á að sameina þjóðina til verndar sjálfstæði sínu og öryggi og fögnum þeirri víðtæku samstöðu sem tekist hefur um þau mál. En það er skylda okkar Íslendinga að leggja okkar lóð á vogarskálina í samskiptum þjóða heims svo að við og sem flestar þjóðir heims njótum friðar—ekki friðar fangelsisins, heldur friðar með frelsi.