06.04.1982
Sameinað þing: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3697 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

364. mál, utanríkismál 1982

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Mér þykir hlýða í tengslum við skýrslu utanrrh. um utanríkismál að gera nokkra grein fyrir starfi ráðherranefndar Norðurlanda.

Á þingi Norðurlandaráðs í marsbyrjun nú í ár var lögð fram ítarleg skýrsla um starfsemina á árinu 1981 og er þá greinargerð að finna prentaða í heild í riti ráðherranefndarinnar.

Í ræðu þeirri, sem formaður samstarfsráðherranna, finnski ráðherrann Jakob Söderman, hélt á þinginu, tók hann svo til orða:

„Í ræðu þessari vík ég að þeirri stefnutilhneigingu sem er ríkjandi í þjóðfélagspólitík allra Norðurlandanna. Við þurfum aðeins að hugsa til atvinnuleysisins, verðbólgunnar, efnahagsvandamálanna og til þess, hversu Norðurlöndin eru háð umheiminum, til að fá mynd af hinum mikilvægustu vandamálum áttunda áratugarins. Hin sameiginlega reynsla og skilgreiningar á vandamálum geta orðið að bestu liði í baráttunni við þessi mál. Undir hina nýju norrænu stefnu heyrir aukin viðleitni til að huga að þeim möguleikum sem fram koma við samskipti milli einstakra landa innan Norðurlandanna.“

Á fundi sínum í Helsingfors í des. skýrðu forsætisráðherrarnir frá hinni margþættu samvinnu okkar. Mikilvægt er að tryggja starfsgrundvöll í ákveðnum og viðurkenndum málefnum, svo sem stefnu í atvinnumálum. Í ljósi þess verðum við að ganga út frá því sem vísu, að norræn samvinna er meira en orðin tóm. Hún er vísvitandi aðgerðir út á við, hún hefur mikilvægu og æskilegu pólitísku hlutverki að gegna fyrir norrænt fólk, samstarf sem rétt nýtt gefur í aðra hönd mikilvæg hlunnindi þjóðfélagslega og efnahagslega bætt kjör almennings í löndunum. Tvær tillögur hafa verið lagðar fram á sviði menningarmála og rannsókna. Um er að ræða stefnuna í menningarmálum á áttunda áratugnum og stefnu varðandi samvinnu á sviði rannsókna. Rannsóknasviðið nær beint og óbeint til allra þátta þjóðfélagsins. Við höfum fulla ástæðu til að finna til ábyrgðar svo að þau mál geti þróast í samræmi við tillögur ráðherranefndarinnar.

Af hálfu ráðherranefndarinnar er þróunin til aukinna beinna samskipta þjóðanna, þar sem löndin í heild eiga ekki aðild, þýðingarmikið atriði. Ég get staðhæft að slík samskipti milli tveggja landa, sem hin Norðurlöndin taka ekki þátt í, hafi samt sem áður mikla þýðingu og að upplýsingar um slík málefni skuli jafnan liggja fyrir. Ráðherranefndin er eðlilegur vettvangur í þessu samhengi. M.a. hefur komið fram í þingræðum svo og innan ráðherranefndarinnar mikilvægi þess að leggja áherslu á að halda opnum möguleikum á að norræn ríki geti tekið þátt í og tengst síðar slíkri samvinnu tveggja eða þriggja landa innan Norðurlandanna.

Á fundi í Kaupmannahöfn ekki alls fyrir löngu mælti Norðurlandaráð með áætluninni um norræna samvinnu varðandi útflutningsáform. Ráðherranefndin hefur nú lokið störfum sínum varðandi þetta mál. Með tilvísun til inngangskaflans í greinargerðinni um starfsemina vil ég upplýsa að ráðherranefndin hefur gert nokkrar breytingar á upprunalegu formi samstarfsins á þann veg, að nú ríkir einhugur milli hinna fimm norrænu landa um á hvern hátt samvinna þessi er framkvæmanleg í reynd. Breytingin felur í sér að Norræni fjárfestingarbankinn taki á sig aukna áhættu um 5–10% og að hægt sé að grípa til hins almenna áhættulánasjóðs bankans meðan á uppbyggingu stendur til að standa straum af hugsanlegu tapi lána til fjármagnsáætlana. Stjórn Fjárfestingarbankans er hlynnt breytingu þessari, þar eð hún hefur ekki áhrif á lánagetu bankans sem nú er á alþjóðamælikvarða.

Á fundi í Helsingfors 8. des. fjölluðu norrænu forsætisráðherrarnir um „mynd“ norrænnar samvinnu. Í því sambandi gerði ráðherranefndin grein fyrir þeirri starfsemi sem fram fer til þróunar þessari samvinnu. Forsætisráðherrunum þótti tilhlýðilegt að halda áfram því samstarfi. Ráðherranefnd Norðurlandanna og forsætisnefnd Norðurlandaráðs hafa eftir Kaupmannahafnarfundinn, sem áður er vikið að, unnið einkum að vissum samvinnuþáttum, bæði innan Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar. Eru menn sammála um að nauðsyn beri til að fjalla um málefni norrænnar samvinnu svo hratt sem auðið er, einkum að því er varðar málefni sem þurfa skjótra ákvarðana við. Því meiri forgang sem hin einstöku mál fá, því skjótari nýting verður á þeim sviðum sem standa í brennipunkti. Ef við getum framkvæmt sameiginlegar kannanir á áhrifaríkan hátt verður árangurinn betri og nýting norrænnar samvinnu hagkvæmari. Með því að gera sameiginlegt átak verður árangurinn tryggður þegar fjármagn er litið innan einstakra landa.

Það er einkenni þingræðis, að innan vissra reglna um starfshætti, réttindi og ákvarðanatöku ríkir mikið frjálsræði. Þingmenn sjálfir eru ábyrgir fyrir kjarna málefnanna. Þegar Helsingforssamningurinn var fullgerður fyrir rúmum áratug var hann gerður á þeim forsendum, að svipuð viðhorf ríktu innan ráðherranefndarinnar. Um samspil þessara aðila er litið talað í dag. E.t.v. er þessi sögulegi grundvöllur um samstarf áríðandi til að lita nánar í dag á mynd samvinnunnar. Hugsanlegt er að lík skoðun geti einungis farið fram á þjóðlegum vettvangi. Nú er verið að koma á fót nefnd til að kanna vandamálin nánar innan norrænnar samvinnu.

Ég tel rétt að fram komi afstaða okkar Íslendinga varðandi NORDSAT. Íslensk ráðherranefnd er starfandi að þessu vandamáli. Í henni eiga sæti menntmrh., samgrh., iðnrh. og samstarfsráðherra. Staðgenglar þeirra hafa haldið fund og komist að svofelldri niðurstöðu: Eftir að málið hafði verið rætt frá ýmsum hliðum reyndust fundarmenn allir þeirrar skoðunar, að forsendur brysti fyrir því að segja nú já eða nei við þátttöku í sjálfu NORDSAT-málinu. En vinnan á könnunartímabilinu ætti að leiða slíkt í ljós og því voru allir á einu máli um að taka bæri þátt í könnunarvinnunni, „studiefasen“. Jafnframt voru menn sammála um að ef ákveðið yrði að taka þátt í „studiefasen“ ætti fljótlega að ákveða þær lágmarkskröfur sem af Íslendinga hálfu bæri að gera í málinu.

Svohljóðandi till. hefur nýlega verið samþykkt í ríkisstj. um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til fyrri afstöðu ríkisstj. og sérstakrar áskorunar síðasta þings Norðurlandaráðs samþykkir ríkisstj. að eiga aðild að því ásamt ríkisstjórnum Finnlands, Noregs og Svíþjóðar að kanna skipulega næstu tvö ár hvort grundvöllur sé fyrir samstarfi um útvarps-, sjónvarps- og fjarskiptamál milli Norðurlanda“.

Þetta tel ég jákvæða lausn af okkar hálfu. Ég tel ekki nauðsynlegt að tíunda afrek okkar varðandi norræna samvinnu, en ljóst er að við teljum bæði ávinning og sæmd að samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndum. Innan tíðar mun verða lagt fram á Alþingi frv. þar sem leitað verður eftir samþykki þingsins á því, að íslenska ríkið gangi í ábyrgð fyrir Norræna fjárfestingarbankann á tiltekinni fjárhæð vegna lána er bankinn veitir til kaupa á norrænum fjárfestingarvörum sem einkum eru ætlaðar til framkvæmda í þróunarlöndunum. sams konar frv. eru lögð fram á þjóðþingum hinna Norðurlandanna um þessar mundir. Er þetta gert í framhaldi af ákvörðun ráðherranefndar Norðurlandaráðs sem nýlega var gengið endanlega frá í Osló. Með þessum frv. er stigið nýtt skref í þá átt að örva sölu á norrænum fjárfestingarvörum í þróunarlöndunum. Er að því stefnt að skapa aukið öryggi til þess að unnt sé að reka starfsemi af þessu tagi öllum aðilum til hagsbóta.

Það gefur auga leið, að ræða mætti um norræna samvinnu og einstakar greinar hennar í miklu lengra máli. Sannleikurinn er sá, að hún er orðin mjög viðamikil og margþætt og hún hefur farið vaxandi á síðustu árum þó að dýpstu og elstu rætur hennar nái langt aftur í ár og aldir.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum segir m.a. um utanríkismál, að ríkisstj. leggi áherslu á að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu, í því sambandi skuli sérstök áhersla lögð á tvo meginþætti: þátttöku Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna og samvinnu Norðurlandaþjóða. Hin fjölþætta norræna samvinna um þessar mundir milli þjóðþinga, ríkisstjórna, ráðuneyta, embættismanna, einstaklinga og nefnda sýnir ljóslega að umræddri stefnuyfirlýsingu í stjórnarsáttmála er fylgt fast eftir. Ekki er sjáanlegt annað en sömu stefnu verði fylgt og svipuð þróun haldi áfram, að svo miklu leyti sem unnt er að skyggnast inn í nánustu framtíð.