14.04.1982
Efri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3710 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

277. mál, skipan dómsvalds í héraði

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn, o.fl., felur fyrst og fremst í sér þá breytingu frá gildandi lögum að breyta skipan á lögreglustjórn í hreppum Kjósarsýslu austan Reykjavíkur og á seltjarnarnesi þannig að hún falli undir lögreglustjórann í Reykjavík.

Skipulag löggæslu í Reykjavík og nágrenni, þ.e. Garðakaupstað, Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Kjósarsýslu, hefur á undanförnum árum verið til nokkurrar umræðu og athugunar. Byggð á þessu svæði hefur þést og er orðin samofin heild með tilliti til búsetu, atvinnu, viðskipta og þjónustu. Þróun byggðarlaganna hefur mótast af nábýli við Reykjavík, einkum að því er varðar atvinnu. Mörk milli sveitarfélaga eru hins vegar víða óglögg og óregluleg og oft óheppileg sem mörk löggæsluumdæma. Þetta leiðir til óþæginda við starfsskiptingu þar sem hvert lögreglulið starfar að jafnaði aðeins innan marka síns umdæmis, en þarf e.t.v. að fara um annað umdæmi þegar sinnt er verkefnum í sjálfu umdæminu. Því mælir margt með því, að löggæslu á þessu svæði verði skipað undir eina stjórn.

Segja má að stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins á árinu 1977 hafi verið fyrsti vísir að samhæfingu löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknarlögregla ríkisins annast lögreglurannsókn meiri háttar brotamála í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnaneskaupstað, Garðakaupstað, Hafnarfirði og Kjósarsýslu, auk þess sem hún getur veitt lögreglustjórum aðstoð við rannsókn brotamála eða farið með slíka rannsókn hvar sem er á landinu eftir ákvörðun rannsóknarlögreglustjóra eða ríkissaksóknara.

Á undanförnum árum hefur í dómsmrn. verið unnið að athugun þess, hvort rétt væri að leggja lögreglustjórn á öllu svæðinu undir eina stjórn, undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík. Tóku starfsmenn rn. saman álitsgerð um þetta efni á árunum 1978 og 1979 þar sem fjallað er um hvaða afleiðingar sameining löggæslunnar hefði og hvernig að henni mætti standa. Enda þótt margt mæli með því að koma þessari skipan á fyrir allt þetta svæði þykir að svo stöddu ekki tímabært að leggja fram tillögur í þá átt. Hins vegar hefur sameining löggæslu í hreppum Kjósarsýslu austan Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi og löggæslu í Reykjavík augljósa kosti. Umdæmi þessi lúta nú lögreglustjórn bæjarfógeta og sýslumanns með aðsetri í Hafnarfirði. En milli umdæma þessara og aðsetursins er um tvö lögsagnarumdæmi, Kópavog og Reykjavík, að fara.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til að ákveðið verði að Kjalarneshreppur, Kjósarhreppur og Mosfellshreppur í Kjósarsýslu og Seltjarnarneskaupstaður teljist til umdæmis Reykjavíkur að því er lögreglustjórn varðar og lúti stjórn lögreglustjórans í Reykjavík. Hins vegar er gert ráð fyrir að dómsstörf öll og önnur stjórnsýsla, svo sem innheimta skatta og tolla, tollgæsla, umboð almannatrygginga og fleira lúti áfram embætti bæjarfógeta og sýslumanns í Hafnarfirði. Breyting þessi mun naumast hafa í för með sér beinan sparnað fyrir ríkissjóð, en hins vegar aukið hagræði vegna skemmri vegalengda við ferðir lögreglumanna og samskipti íbúa við stjórnendur löggæslunnar, auk hagræðis við stjórn löggæslu á svæðinu og þar af leiðandi — leyfi ég mér að segja — allmikinn óbeinan sparnað. Að því er starfslið varðar hefur skipulagsbreytingin einungis í för með sér að þeir lögreglumenn, sem nú starfa á Seltjarnarnesi, munu flytjast undir stjórn lögreglustjórans í Reykjavík.

Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir meginefni frv. þess sem hér er til umr. og fram kemur í 11. gr. frv. Að því er varðar efni frv. að öðru leyti skal það tekið fram, svo sem fram kemur í aths„ að þar er fyrst og fremst um að ræða nokkrar breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Þá er um að ræða nokkrar breytingar til samræmis við breytta löggjöf. Og loks er lagt til í 7. gr. að heimilt verði að stofna embætti héraðsdómara við embætti bæjarfógeta og sýslumanns á Selfossi vegna fjölda dómsmála þar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um frv. þetta á þessu stigi. Hér er um það að ræða að koma hagræðingu á skipulag löggæslu í nágrannabyggðum Reykjavíkur fyrir íbúa byggðanna, lögreglulið og stjórn löggæslunnar. Ég vænti þess, að frv. hljóti góðar undirtektir þdm., og legg til að því verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn.