14.04.1982
Efri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3712 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

244. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta er nánast leiðrétting á gjaldi sem tekið hefur verið af útfluttum söltuðum matarhrognum eftir breytingu sem gerð var á s.l. ári. Með breytingu, sem gerð var á s.l. ári, var ákveðið að taka 3% af fob.-verði saltaðra matarhrogna og frystra þorskhrogna í Þróunarsjóð lagmetis. Var þá jafnframt gert ráð fyrir að hið venjulega útflutningsgjald, sem er samtals 5.5%, lækkaði að sama skapi. Hins vegar láðist að breyta lögum til að tryggja það og hefur því útflutningsgjald af söltuðum matarhrognum og frystum þorskhrognum nú orðið samtals 8.5%, sem aldrei var ætlunin þegar um þessa breytingu og þessa tilfærslu á gjaldi af söltuðum matarhrognum yfir í Þróunarsjóð lagmetis var samið. Hér er því um að ræða breytingu á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum sem lækkar útflutningsgjald af þessum nefndu afurðum til samræmis við það gjald sem af þeim er nú greitt í Þróunarsjóð.

Jafnframt er gert ráð fyrir að söltuð matarhrogn og fryst þorskhrogn njóti sömu kjara í sambandi við útflutningsgjaldaákvörðun og söltuð síld, þ.e. að tunnuverð sé frádregið þegar útflutningsgjaldið er reiknað, enda eru þær umbúðir tiltölulega miklu stærri hluti af útflutningsverðmæti þessara afurða en almennt gerist. Því er gert ráð fyrir að sú heimild, sem nú er í lögum fyrir ráðh. til að fella niður gjald af slíkum umbúðum þegar um síldarafurðir er að ræða, verði einnig látin ná til saltaðra matarhrogna.

Þetta mál hygg ég að skýri sig vel sjálft. Um það var fjallað í hv. Nd. og í sjútvn. þar að sjálfsögðu, sem lagði til að frv. yrði samþykkt óbreytt. Ég vil að lokinni þessari stuttu framsöguræðu, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.