14.04.1982
Efri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3712 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

169. mál, loftferðir

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér um ræðir, er í raun um tvö atriði og er tvær efnisgreinar. Fyrri greinin er um að heimila rýmkun á eignarnámsheimildum vegna framkvæmda o.fl. í þágu flugmála. Höfum við, sem skrifum undir sérálit í þessu máli, ekkert við þá grein að athuga.

2. gr. frv. er um það að flytja heimildir til handa ráðh. um veitingu flugrekstrarleyfa úr lögum um stjórn flugmála. Við teljum ástæðu til að gera athugasemd við þessa grein og höfum því gefið út svofellt nál.:

„2. gr. þessa frv. fjallar um að flytja ákvæði laga nr. 119 frá 28. des. 1950, um stjórn flugmála, inn í loftferðalög. Hér er um að ræða heimildarákvæði fyrir samgrh. um veitingu flugrekstrarleyfa. Við teljum að núv. samgrh. hafi notað þessa heimild á þann hátt, að löggjafinn ætti að endurskoða þessi ákvæði og hafa bein eða óbein áhrif á ákvarðanir um veitingu þessara leyfa. Til þess að undirstrika þessa skoðun okkar munum við greiða atkv. gegn því að setja þetta ákvæði í loftferðalög.“

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta mál, þar sem segja má að þarna sé um tæknilegt, atriði að ræða, að flytja þessi ákvæði inn í loftferðalög, en samt sem áður vildum við að þessi skoðun okkar kæmi fram.