04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég kannast ekki við að talsmenn Framsfl. hafi leynt þingið eða þjóðina hvernig staðan er hjá hinum ýmsu atvinnufyrirtækjum. Ég held þvert á móti að við höfum rætt það hvar sem er. Meira að segja hefur verið að því fundið, að við værum að kvarta jafnvel að ástæðulitlu í sambandi við stöðu sumra fyrirtækja.

Ég ætla ekki að tala hér langt mál, en ég sé mig samt knúinn til þess að taka þátt í þeim umr. sem hér hafa farið fram. Það er rétt hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að við, sem erum hér, hvort sem við styðjum stjórnina eða ekki, eigum í sameiningu að reyna að leysa þau vandamál sem að þjóðinni steðja hverju sinni. En við eigum ekki heldur, hvort sem það eru stjórnarliðar eða stjórnarandstaðan, að reyna að villa um fyrir þjóðinni um það, hvaða ástæður liggja fyrir því, að þessi mál eru svona í dag og hvernig þessi þróun hefur verið.

Það getur ekki verið að það sé hulið fyrir mönnum að sú sigling er ekki vandalaus sem stjórnin er að reyna að sigla, þ. e. að ná verðbólgunni niður. Það hlaut að hrikta einhvers staðar í ef árangur átti að nást. Því miður held ég, eða a. m. k. hef ég þá tilfinningu, að sumir vilji ekki líta á þetta, taki ekki mið af því ástandi sem er og því sem er verið að reyna að gera. Þegar við ákváðum að verðtryggja bæði innlán og útlán, þá gerðu a. m. k. sumir sér ljóst að atvinnureksturinn mundi ekki geta gengið ef við næðum ekki verðbólgunni niður fyrir einhver ákveðin mörk. Okkur hefur því miður ekki tekist enn að ná verðbólgunni niður fyrir þau mörk sem ég a. m. k. tel að atvinnureksturinn geti búið við. Ég held að þar sé orsakanna að leita að verulegu leyti, til þess hvernig ástandið er. En því miður, ég hef ekki heyrt mikil úrræði hjá stjórnarandstöðunni til að ná verðbólgunni niður.

En það eru ýmsar ástæður fyrir því, hvernig fyrirtækin standa. Eins og hæstv. sjútvrh. sagði í sinni ræðu í dag var ákveðið að reyna að breyta ýmsum skuldum fyrirtækjanna, fyrst og fremst við sjóðina, og það hefur verið gert. Svo eru önnur fyrirtæki sem skulduðu þar ekki en skulduðu annars staðar. Það hefur því miður ekki enn þá fengist fé til þess að breyta því. Ég hef ekki séð nokkurn mun á því, hvort Fiskveiðasjóður eða Byggðasjóður taki erlend lán til að breyta skuldum þessara fyrirtækja eða hvort fyrirtækin fengju leyfi til þess að taka sjálf lán til að koma sínum málum í sæmilegt horf. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hvernig hefur verið tekið á einu slíku máli, og ég vil að það komi hér fram. Ég hef meira að segja orðið fyrir miklum vonbrigðum með hvernig hefur verið tekið á því máli. Þar á ég við Raufarhöfn. Og ég hef líka orðið fyrir vonbrigðum með hvernig hefur verið tekið á málum ullariðnaðarins. Menn eru að tala hér um verksmiðjur í iðnaði í heilu lagi, t. d. á Akureyri. Það er þannig með skinnaiðnaðinn, að hann er réttu megin við strikið þegar þeir eru búnir að fá greiðslu úr gengismunarsjóði. En í ullariðnaðinum er tapreksturinn 12.2% af veltu og fjármagnskostnaðurinn 17.4% af veltu. Halda menn að það komi ekkert við þessi fyrirtæki þegar fjármagnskostnaðurinn er orðinn svona?

Mér skildist að hv. þm. Árni Gunnarsson væri að tala um mikla peninga í bönkunum. Hvar eru þeir? Ég veit ekki betur en allir bankar nema kannske einn hafi verið skuldugir við Seðlabankann um síðustu mánaðamót. Þannig var staðan. Það var minnsti bankinn, að ég hygg, sem var þar réttu megin við strikið. Það eru ekki neinir fjármunir, það skulu menn vita. Ég er ekki viss um það heldur, að Alþfl. verði mikið þakkað það af unga fólkinu í landinu, ef hann ætlar að þakka sér hávaxtastefnuna, vegna þess hvert misréttið er orðið í þjóðfélaginu í sambandi við þá sem hafa verið að byggja nú á undanförnum árum og áður. Það er mesta misrétti, sem hefur komið upp í þessu þjóðfélagi og á því verður að taka.

Ég hefði viljað leggja fyrir hæstv. forsrh. tvær eða þrjár spurningar ef hann hefði verið hér. (HBl: Hann er oftast fjarri þegar menn vilja spyrja.) Ég hefði t. d. viljað spyrja um það, hverjir væru nú að fjalla um málefni Raufarhafnar. Ég gerði mér vonir um að það mál yrði leyst á þann veg, að atvinnulífið gæti gengið þar snurðulítið. Framkvæmdastofnunin og Landsbankinn fóru ofan í mál þeirra Raufarhafnarmanna og komust að þeirri niðurstöðu, að þeirra fjárhagsstaða, þeirra eignarstaða væri þannig að þeir gætu vel tekið erlent lán til þess að borga fólkinu og öðrum sem þeir skulduðu. En þetta fékkst ekki, því miður. Við gerðum okkur vonir um að það yrði þá gert þannig, að togarinn færi að fiska og hægt yrði að bjarga þar rekstrinum og þar héldist full atvinna. Því var bjargað þannig að togarinn komst út. En hann getur ekki komið aftur í höfn vegna þess að hann getur ekki borgað olíu, og verður að sigla. Svona vinnubrögð ganga ekki. Mér er sárt um þessa ríkisstj., en ég segi það hér og nú: svona vinnubrögð ganga ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta miklu meira, en ég hefði viljað vita í hvaða höndum þetta málefni væri nú. Er það í höndum einhverrar ráðherranefndar, einhvers ráðh. — eða hvar er það? Nú er skipið búið að sigla og selja einu sinni. (GJG: Er þm. kjördæmisins að spyrja að því?) Ég er að spyrja að því vegna þess að þeir fóru beint til ríkisstj. með sín mál og ég vissi ekki annað en að sett væri í það ráðherranefnd. (Gripið fram í: Það þýðir nú ekki.) Ég vildi vita hvernig að því hefur verði unnið. Ég hef ekki fengið svör við því. (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal.) Ég hef ekki stól uppi í rn. Það getur vel verið að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi það, en ég hef það ekki. (HBl: Ertu ekki með hlaupastól uppi í ráðuneyti?) Ég hefði kannske sendimann ef hv. þm. Halldór Blöndal vildi hlaupa fyrir mig. — Nei, það þarf að taka á þessum málum. Það er ekki nóg að segja: Það er þessum að kenna eða hinum. Það verður að taka á þessum málum. Við verðum að sjá til þess. Þar sem þannig hagar til að atvinnulífið byggist alveg á sjávarafla, eins og er á Raufarhöfn og víðar, má sá grunnur ekki bresta. Og eins og ég sagði áðan, eignarstaða þessa fyrirtækis er metin þannig að það geti fengið þetta og þá sé ég engan mun á því, hvort Framkvæmdastofnunin, Landsbankinn eða aðrir taka erlend lán eða hvort það er Framkvæmdastofnunin, sem breytir skuldum — eða Fiskveiðasjóður — og tekur til þess erlent lán.