14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3726 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur mælt fyrir frv. til l. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Við hljótum að fagna hverri viðleitni til þess að auka orkufrekan iðnað á Íslandi. Ég minni á að Sjálfstfl. hefur haft það á sinni stefnuskrá lengi að nýta orkuna í fallvötnum landsins og hitaorkuna í iðrum jarðar til nýrra atvinnugreina. Það mál, sem hér er flutt, þarf því að skoða með jákvæðu hugarfari. Hvert nýtt mál af þessu tagi, hverja nýja verksmiðju og hvert nýtt átak sem til greina kemur að gera í þessum málum, þarf að athuga vel og vandlega. Hér eru oftast gífurlegir fjármunir í húfi og miklir hagsmunir, og ef vel tekst til getur ein slík verksmiðja átt þátt í að treysta atvinnulíf landsmanna og bæta lífskjörin, en ef illa tekst til getur slíkt fyrirtæki dregið niður lífskjör á Íslandi.

Ég sit í þeirri nefnd, sem hæstv. ráðh. hefur gert að tillögu sinni að fái þetta mál til meðferðar, og mun þar fá tækifæri til að athuga það betur, en ég vil þó á þessu stigi málsins gera ýmsar athugasemdir við málið.

Fyrst ætla ég að fjalla nokkuð um málsmeðferð. Mér finnst rétt í þessu sambandi að bera saman málsmeðferð, sem viðhöfð var þegar síðasta stórfyrirtækið af þessu tagi var sett á stofn hér á landi, þ.e. Járnblendiverksmiðjan, og þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið varðandi þetta mál.

Járnblendiverksmiðjan var lengi í undirbúningi. Fyrrv. hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, skipaði eins konar stóriðjunefnd fljótlega eftir að hann tók við iðnrn. á árinu 1971, þ.e. sérstaka nefnd um orkufrekan iðnað. Störf þeirrar nefndar beindust fljótlega að Járnblendiverksmiðju. Þegar það mál var komið í nokkuð öruggan farveg var fyrir forgöngu þess ráðh. skipuð haustið 1973 nefnd þm. úr öllum flokkum, stjórnarsinna jafnt sem stjórnarandstæðinga, sem skyldi kynna sér öll gögn málsins og fylgjast með gangi þess. Þessi nefnd hélt áfram störfum þrátt fyrir stjórnarskipti 1974.

Einu og hálfu ári seinna, í febrúar 1975 var lagt fram frv. hér á hv. Alþingi um járnblendiverksmiðju. Allan þennan tíma höfðu fulltrúar allra flakka á Alþingi verið að kynna sér málið. Alþm. voru því vel í stakk búnir til að taka afstöðu til frv. þegar það kom hér fram. Þrátt fyrir það tók Alþingi sér tvo mánuði til þess að afgreiða málið. Það fékk ítarlega meðferð í nefndum beggja deilda, leitað var skriflegra umsagna og álitsgerða ýmissa aðila og fjöldi manna kom til munnlegrar skýrslugjafar í nefndinni.— Nú breyttist reyndar eignaraðild að þessari verksmiðju síðar, því að þetta frv. var miðað við þann aðila sem upphaflega átti að vera eignaraðli, þ.e. Union Carbide, en það breytir ekki því, að nú eru gjörólík vinnubrögð viðhöfð að þessu leyti.

Stjórnarandstöðunni hefur algjörlega verið haldið utan við þetta mál. Hún hefur ekkert fengið nálægt þessu að koma. Henni hafa verið skammtaðar upplýsingar. Þm. fengu svokallaða Áfangaskýrslu II í hendur á síðasta þingi, en í framhaldi af þeirri skýrslu, sem þm. fengu í hendur, var ákveðið að auka umfang verkefnisins frá því sem áður var fyrirhugað, eins og nánar segir í þeirri skýrslu um lokaniðurstöðu sem við höfum nú fengið í hendur. Í þeirri skýrslu er nánar lýst í hverju þetta umfang verkefnisins var fólgið.

Við sjálfstæðismenn höfum áður gert þetta að umtalsefni hér á þingi. Við höfum m.a. flutt um það till. oftar en einu sinni, að þm. allra flokka vinni saman í þessu máli. Mér hefur fundist, á stundum a.m.k., að sumir hv. þm. stjórnarliðsins skildu þetta. Ég vil t.d. vitna í það sem hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, sagði hér á Alþingi þegar stóriðjumál voru til umræðu 15. maí s.l. Hann beindi þá orðum sínum sérstaklega til mín. Þá var hann að gera grein fyrir, hvar hann teldi að vel væri að verki staðið varðandi undirbúning ýmissa orkufrekra iðnaðarkosta, og sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðeins þessi orð til að létta áhyggjum af hv. 6. þm. Reykv., segja honum af því að að þessu er mikið unnið. Það er engan veginn rétt að halda því fram, að stjórnarandstaðan fái ekki að fylgjast með þessum málum. Hún fær skýrslur í hendur jafnóðum og þær hafa verið unnar og á von á fleiri gögnum um þessi mál. Ég er þeirrar skoðunar, að það hljóti að koma til athugunar með haustinu og þegar lengra líður að kynna þessi mál og þessa vinnu fyrir stjórnarandstöðunni miklu ítarlegar, t.a.m. í iðnaðarnefndum þingsins.“

Þetta voru góð orð og ágæt fyrirheit, og ég efast ekkert um að þau hafi verið mælt af heilum hug á sínum tíma, þegar þau voru sögð. En hv. þm. hefur greinilega ekki náð því fram innan stjórnarliðsins, að stjórnarandstaðan fengi að fylgjast með þessum málum, eins og raun ber vitni um.

Við þm. fengum í hendur nú um miðjan mars lokaskýrslu verkefnisstjórnar. Sú skýrsla er merkt sem „trúnaðarmál“ og takmarkar það að sjálfsögðu notkun hennar fyrir okkur. Við eigum erfitt með að leita álits á þeirri skýrslu hjá ýmsum aðilum eins og við vildum gjarnan gera. Síðan var lagt fram frv. rétt fyrir páska og eftir því sem mér skilst er ætlast til þess að Alþingi afgreiði það fyrir þinglok sem boðuð eru nú um mánaðamót, sem sagt eftir rúman hálfan mánuð. Það er allt of stuttur tími. Ég vek sérstaka athygli á þeim himinhrópandi mun sem er á vinnubrögðum varðandi undirbúning þessa máls og undirbúning fyrri stórvirkja af þessu tagi.

Nú kann einhver að segja að járnblendiverksmiðjan hafi verið flóknara mál vegna aðildar erlendra aðila, og rétt er það að sumu leyti. Þar var um að ræða samninga sem þurfti að fara yfir og fylgjast vel með. En á hinn bóginn var þó í því fólgin viss viðskiptaleg trygging, að erlend fyrirtæki skyldu hafa verið með í þessu frá upphafi, því að ekki eru líkur á að þau hætti fjármagni sínu í neina vitleysu, a.m.k. ekki að óathuguðu máli. Þennan þátt verðum við hins vegar að meta nú alfarið sjálfir. Þess vegna er hér farið fram á að Alþingi afgreiði málið á allt of stuttum tíma.

Ég vil því næst víkja að nokkrum efnisatriðum í frv. Ég mun víkja að tækniþekkingu, fjármögnun, markaðsmálum, eignaraðild, staðsetningu, orkuafhendingu og svo hvert sé eðlilegt framhald þessa máls. Varðandi tækniþekkinguna er fróðlegt að huga að því líka, hvernig þau mál hafa verið leyst áður. Þegar álverksmiðjan var reist kom tækniþekkingin með þeim aðila sem er eigandi verksmiðjunnar, en síðan hefur sú tækniþekking færst á íslenskar hendur þar sem það eru Íslendingar sem fyrst og fremst eru starfandi við það fyrirtæki. Að því er járnblendiverksmiðjuna snertir var gerður tækniþekkingarsamningur við Elkem, sem er meðeigandi. Og að því er kísiliðjuna snertir var gerður tækniþekkingarsamningur við John Mansfield sem er meðeigandi í því fyrirtæki.

Öll þessi tækniþekking hefur vissulega flust inn í landið þar sem það eru íslenskir aðilar sem að þessu vinna fyrst og fremst. Þetta lá allt nokkuð ljóst fyrir þegar Alþingi fékk þessi mál til meðferðar á sínum tíma. Þessi mikilvægi þáttur er afgreiddur nokkuð létt í því frv. sem hér er til meðferðar. Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

„Tækniaðstoð vegna byggingar og gangsetningar verksmiðjunnar verður innifalin í samningum um kaup á tækjum og vélum, en þó mun verða reynt að nýta til hins ýtrasta þekkingu og getu íslenskra verkfræðistofa við fullnaðarhönnun og byggingu verksmiðjunnar. Tækniþjónusta vegna rekstrar mun aftur á móti verða keypt þegar með þarf, enda fáanlegt frá ýmsum aðilum. Hluta af þeirri tækniþjónustu, sem kísilmálmverksmiðjan þarf á að halda, ætti að vera unnt að kaupa af Íslenska járnblendifélaginu hf. og mundi íslenska ríkið sem meirihlutaaðili í báðum þessum fyrirtækjum stuðla að samvinnu þessara tveggja fyrirtækja í því efni.“

Nú veit ég ekki hvað býr að baki þessum orðum í grg., að það ætti að vera unnt að kaupa þetta af Íslenska járnblendifélaginu, en ég vil þó minna á að samkvæmt tækniþekkingarsamningi við Íslenska járnblendifélagið er gert ráð fyrir að sú þekking verði ekki látin út úr fyrirtækinu, þar sem um er að ræða samvinnu við Elkem sem á í harðri samkeppni við ýmsa aðila úti um heim á þessu sviði. Það ber að hafa í huga í þessum efnum einnig, að kísilmálmframleiðsla er tæknilega mun meira vandamál en framleiðsla á járnblendi eða ferrósilikon. Mér finnst því að þessum mikilvæga þætti í málinu hafi alls ekki verið gerð nægileg skil nú þegar ætlast er til þess að okkur alþm. að við samþykkjum þetta mál.

Ég vil því næst víkja nokkuð að markaðsmálum og rétt huga þá að því einnig, hvernig þau mál hafa verið leyst hingað til í stóriðjuframkvæmdum okkar Íslendinga.

Þegar Íslenska álfélagið var stofnað og álverksmiðjan sett í gang gengum við inn í markað Alusuisse og þar með var tryggð sala á afurðum fyrirtækisins. Að því er Járnblendifélagið snertir var gerður sölusamningur við Elkem gegn ákveðinni söluþóknun. Sá sölusamningur tryggir okkur besta verð miðað við það verð sem Elkem fær fyrir eigin framleiðslu í sínu fyrirtæki. Þar gengum við inn í sterkt dreifingarkerfi og tryggð var lágmarkssala fyrstu árin. Að því er Kísiliðjuna snertir var gerður sölusamningur við John Mansfield. Þetta rifja ég upp, ekki vegna þess að ég telji ekki nauðsynlegt að við Íslendingar öðlumst þekkingu á þessu sviði, heldur vegna þess að mér finnst að þessum þætti málsins séu ekki gerð nægileg skil í þessu frv., tekið fulllétt á honum. Í grg. á bls. 4 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi markaðsöflun er gert ráð fyrir að fyrirtækið komi sér upp umboðsaðilum á hverju markaðssvæði og yrðu gerðir sérstakir samningar við hvern þessara aðila þar að lútandi. Samstarf við aðra kísilmálmframleiðendur um myndun sölusamtaka gæti komið til álita.“

Í lokaskýrslunni er einnig að þessu vikið á bls. 46. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkefnisstjórn hefur frá því að hún hóf störf lagt áherslu á að gera sem ítarlegastar athuganir á markaðsmálum hugsanlegrar kísilmálmframleiðslu. Margvíslegra gagna hefur verið aflað um einstaka þætti, þ. á m. um fyrirkomulag sölu og um helstu fyrirtæki er annast sölu og dreifingu á kísilmálmi, um markaðshlutdeild einstakra notkunarsviða og líklega þróun. Viðræður hafa farið fram við fjölda fyrirtækja sem selja og/eða nota kísilmálm, og rætt hefur verið við nokkra framleiðendur á kísilmálmi til þess að afla upplýsinga um hvort hagkvæmt gæti verið að eiga samvinnu við slík fyrirtæki á sviði markaðsmála.

Reynt var að afla allra tiltækra gagna um markaðsmál og var m.a. í því sambandi leitað til próf. Schneiders, þýsks álsérfræðings, um álit á notkun kísilmálms í áliðnaði. Einnig voru keyptar almennar skýrslur um markaðsmál frá ýmsum fyrirtækjum.

Það, sem hæst ber í rannsóknum verkefnisstjórnar í markaðsmálum, er þó sérstakur samningur, sem gerður var við breska raðgjafarfyrirtækið Commodity Research Unit Ltd. í London, sem nú er eitt virtasta fyrirtæki í Evrópu á sviði ráðgjafarstarfsemi í málmiðnaði.

Samningur við þá var undirritaður í byrjun september og lá lokaskýrsla þeirra fyrir í lok febrúar. Heiti skýrslunnar er „Kísilmálmmarkaðurinn í heiminum og samkeppnisstaða Íslands í þeirri framleiðslu.“

Þetta segir í þessari skýrslu, sem við þm. hófum fengið í hendur, um það sem hæst ber í rannsóknum á markaðsmálum. Nú vitum við að slíkar skýrslur um markaðsmál eru góðra gjalda verðar og þetta fyrirtæki er, að því er ég best veit, virt og traust fyrirtæki á sviði ráðgjafarstarfsemi í málmiðnaði. En hitt er svo annað mál, að slíkar skýrslur veita auðvitað enga tryggingu fyrir einu eða neinu. Hér eru menn raunverulega að kasta sér til sunds án þess að sjá til lands. Ég vek líka sérstaka athygli á því að við þm. höfum ekki fengið í hendur skýrsluna frá Commodity Research og er það í samræmi við annað í undirbúningi og meðferð þessa máls.

Ég vil síðan víkja að fjármögnun fyrirtækisins. Stofnkostnaður er áætlaður 750 millj. kr., eins og fram kemur á bls. 8 í grg. með frv. Þar segir enn fremur að nákvæmni í þessari kostnaðaráætlun sé metin + 10% til - 5% sveiflist þar á milli. Hins vegar er vitað að ýmis annar kostnaður fellur til sem ekki er talinn beint með kostnaði fyrirtækisins. Nefna má kostnað við raforkuflutninga, stofnkostnað við höfn, vatnsveitu, verkstæði og ýmsa fleiri slíka þætti, auk þess sem getið er sérstaklega í grg. að tveir kostnaðarliðir séu ekki inni í áætluninni, þ.e. vextir á byggingartíma og þjálfun starfsmanna, en sá kostnaður er metinn á um 4.5 millj. kr. Allt þetta þarf að sjálfsögðu að greiða þó að það sé í eigu fyrirtækisins, og líklegt er að hér sé nánast eingöngu um að ræða kostnað sem verði að fjármagna með erlendum lántökum.

Á bls. 15 í grg. er gert ráð fyrir að fjármögnun verði sem hér segir: Hlutafé verði 30% af stofnkostnaði, um 225 millj. kr. Gert er ráð fyrir þeim möguleika, að ríkissjóður leggi fram allt hlutafé. Fjárfestingarlán verði 40% af stofnkostnaði eða um 300 millj. kr. Útflutningslán verði 30% af stofnkostnaði eða um 225 millj. kr. Hér er sennilega um erlend lán að ræða að langmestu leyti.

Það þarf að sjálfsögðu að kanna rækilega hvaða áhrif þetta hefur á lánabyrði okkar vegna erlendra lána. Hér er um mjög verulegan hluta að ræða af þeim erlendu lánum sem við nú þegar höfum tekið og þurfum að standa skil á.

Ég ætla þá aðeins að víkja að eignaraðild. Frv. gerir ráð fyrir að íslenska ríkið eigi a.m.k. um 51%, en heimilt að leita til annarra aðila um 49%. Þá vaknar sú spurning, hverjir það eigi að vera. Í grg. á bls. 3 er talað um aðra innlenda aðila. Það er nánast skilgreint í kaflanum á bls. 12, þar sem einkum eru talin koma til greina sveitarfélög, samvinnufélög, hlutafélög og aðrir aðilar. Síðan segir: „Ekki er talið nauðsynlegt að erlendir aðilar eigi aðild að félaginu.“ Í 2. gr. frv. — ég vek sérstaka athygli á því — er hins vegar ekkert sem útilokar eign erlendra aðila. Það hlýtur að vekja þá spurningu, hvort haft sé í huga, ef innlendir aðilar fást ekki til að eignast 49% í fyrirtækinu, að leita samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild. Það kann vel að vera að ekki sé nauðsynlegt, eins og segir í grg., að erlendir aðilar eigi aðild að félaginu. En við getum líka nálgast þá spurningu frá öðru sjónarmiði. Hvað með áhættuna? Er áhættan ekki það mikil að rétt sé að dreifa henni a.m.k. í upphafi, að rétt sé að leita samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild að slíku félagi þó ekki væri nema um eitthvert ákveðið árabil? Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að meta áhættu af slíku fyrirtæki, og fyrir okkur þm., sem vorum að fá þessar skýrslur í hendur nú fyrir stuttu, er mjög erfitt að meta þetta. En ég vil þó benda á að skýrslan sjálf bendir til þess, að afkastavextir séu taldir 10.4% miðað við ákveðnar forsendur. Slík afkastavaxtaprósenta er alveg í lágmarki og það er ljóst að ekkert má út af bregða til þess að hér sé ekki verið að sigla í taprekstur.

Framleiðsluna áætlar verkefnisstjórn þannig, að verksmiðjan fari af stað á árinu 1985 til 1986 og framleiði á 100% afköstum næstu 20 árin. Ég hef ekki aðstöðu til að meta þessa áætlunargerð, en ég vil þó segja að það er ekki svartsýni verkefnisstjórnar um að kenna þó að framleiðslumagnið kunni að reynast eitthvað minna.

Verksmiðjan þarf að framleiða um ¼ af framleiðslugetu til að hafa fyrir kostnaði. Hún þolir 10% lækkun á söluverði frá því sem áætlað er, en úr því fer hún að tapa. Heimsframleiðslugetan á kísilmálmi er í dag 20–30% meiri en notkun. Ég vil sérstaklega benda á og vonast til að það sé ekki af ásettu ráði að í grg. á bls. 6 og 7, þar sem annars vegar á bls. 6 er verið að meta notkun á kísilmálmi, en hins vegar á bls. 7 að meta framleiðslu á kísilmálmi, eru Austur-Evrópulönd og Kína talin með þegar verið er að tala um notkun á kísilmálmi, en þegar verið er að tala um framleiðslu á kísilmálmi er þeim sleppt. Það er því alls ekki um sambærilegar tölur að ræða þegar annars vegar er talað um notkun, 487 þús. tonn, og hins vegar framleiðslu, 448 þús. tonn, því að þegar notkun er metin eru Austur-Evrópa og Kína tekin með, en þau eru ekki tekin með þegar metin er framleiðsla á kísilmálmi, og er þó vitað að þar er um verulega framleiðslu að ræða.

Sannleikurinn er sá, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, er framleiðslugeta á kísilmálmi í dag 20–30% meiri en notkunin. Verðið er 1200 til 1300 dollarar á tonnið samkv. skýrslunni, en hún gerir ráð fyrir söluverði 1525 dollurum á tonn, sem út af fyrir sig þarf ekki að vera rangt. En ég vek þó athygli á þessum mismun. Og mismunurinn hlýtur að byggjast á spám sem auðvitað er erfitt að segja fyrir um hvort eru réttar eða ekki. Hins vegar þarf ýmislegt annað að gerast til þess að rekstrarspá verkefnisstjórnar rætist. T.d. þurfa þeir, sem framleiða hráefnið, að sitja með hendur í skauti og horfa á kísilmálmverðið hækka um 20–30% frá því, sem það er í dag, án þess að gera tilraun til að hækka sínar vörur. Ef hráefnið hækkar, ef það hækkar um þessa prósentutölu, þá hverfur hagkvæmnin að sama skapi.

Það er margt sem bendir til þess, að þetta sé ekki mjög hagkvæm rekstrareining varðandi slíka verksmiðju. Hins vegar er líka á það að benda, að sem söluaðili er hún talsvert stór, þ.e. hún mun framleiða sem nemur um 5% af heimsnotkun og hún mun lenda í verulegri samkeppni á markaði sem er stöðugum breytingum undirorpinn. Til að bera sig þarf hún mikla framleiðslu, stöðuga sölu á góðu verði og stöðugt hráefnaverð. Ég held að það sé því alveg ljóst, þegar skoðaðar eru tölur úr þessari skýrslu, að þetta fyrirtæki hefur í för með sér verulega áhættu, eins og reyndar öll önnur fyrirtæki af þessari gerð, þó að sú áhætta sé mismunandi mikil. Ég er því eindregið þeirrar skoðunar, að það beri að athuga gaumgæfilega hvort ekki eigi að leita samninga við erlenda aðila um eignaraðild að þessu fyrirtæki til þess að dreifa þeirri miklu fjárhagslegu áhættu sem fyrirtækinu fylgir. Hér er um sveiflukenndan rekstur að ræða. Við sjáum það í öðrum málmiðnaði sem við Íslendingar stundum, eins og járnblendiiðnaðinum. Þar þurfum við nú að auka eigið fé í fjárframlögum ríkissjóðs um verulega fjármuni, eins og frv. hefur verið lagt fram hér á þingi um. Sama á við um kísilgúrverksmiðjuna. Við vitum líka hvernig áliðnaðurinn er staddur. Við tökum að vísu ekki þátt í því tapi vegna þess að við erum ekki eigendur að þeirri verksmiðju. En ég vil eindregið koma þessu sjónarmiði á framfæri nú, að það sé eðlilegt að leita samninga við erlenda aðila til að dreifa þeirri miklu fjárhagslegu áhættu sem hér er um að ræða. Þetta er ekki spurningin um vanmetakennd, eins og hæstv. iðnrh. orðar það stundum þegar hann talar um hvort rétt sé að leita samninga við útlendinga. Þetta er að mínu mati fyrst og fremst spurningin um að leggja raunsætt mat á þá áhættu sem þarna er tekin, — spurningin um raunsæi og hvernig skynsamlegt sé að haga sér í slíkum viðskiptum, sem við vitum öll að eru hörð. Þetta eru harðir markaðir, það er hart barist á slíkum erlendum mörkuðum og því nauðsynlegt fyrir okkur að athuga hvort ekki sé skynsamlegt að dreifa þessari miklu áhættu.

Ég vil þá aðeins víkja lítillega að staðsetningu fyrirtækisins og vekja athygli á að fyrir fram var tekin ákvörðun um staðsetningu á Reyðarfirði. Virðist samanburður á hagkvæmni miðað við aðra staðsetningu ekki hafa farið fram. Ég vil þó taka fram að Sjálfstfl. er meðmæltur staðsetningu stóriðju á Austurlandi, hefur reyndar flutt um það till. hér á hv. Alþingi og hefur viljað tengja ákvörðun um það byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Staðsetning kísilmálmverksmiðjunnar á Reyðarfirði er hins vegar gerð án tillits til virkjunar í Fljótsdal. Í grg. á bls. 5 segir að vísu, með leyfi forseta: „Á Austurlandi er stór hluti af auðnýtanlegri vatnsorku landsins og því þjóðhagslega hagkvæmt að koma þar á fót iðnaði sem nýti hluta af þessari orku.“ Allt er það satt og rétt sem þarna segir. En þrátt fyrir þessi orð er enn engin ákvörðun tekin um Fljótsdalsvirkjun og reyndar gert ráð fyrir að kísilmálmverksmiðjan á Reyðarfirði fái raforku um ófyrirsjáanlegan tíma úr öðrum landshlutum.

Ég vil þá koma að enn einum þætti þessa máls. Það er raforkuöflunin. Það liggja fyrir drög að orkusölusamningi milli væntanlegrar kísilmálmverksmiðju og Landsvirkjunar. Um þennan samning er fjallað í 6. kafla grg. frv. Þar er drepið á þá fyrirvara sem Landsvirkjun hefur gert varðandi þessa orkuafhendingu, sem mér finnst að það sé heldur léttilega yfir þá farið í þessari grg. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að gera fulla grein fyrir því hér, hverjir þeir fyrirvarar eru sem Landsvirkjun setur fram, en þeir voru samþykktir í ítarlegri bókun sem gerð var á fundi í stjórn Landsvirkjunar 25. mars s.l. og send var iðnrn. Þessi ályktun er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Landsvirkjunar hefur fjallað um erindi iðnrh., dags. 19. jan. 1982, þar sem óskað er eftir viðræðum við Landsvirkjun um fyrirkomulag á raforkusölu fyrir kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð er taki til starfa í árslok 1984. Enn fremur er í erindinu óskað eftir að liður í viðræðum þessum verði drög að rafmagnssamningi er taki til hlutaðeigandi orkusölu.

Viðræður þessar eru þegar hafnar og hafa þær leitt til þeirra draga að rafmagnssamningi sem vitnað er til hér að framan og ber að skoða sem vinnuplagg í áframhaldandi viðræðum aðila. Af ýmsum ástæðum telur stjórn Landsvirkjunar það vandkvæðum bundið að ganga nú þegar frá endanlegum drögum að hlutaðeigandi rafmagnssamningi. Veldur hér einkum sú óvissa, sem enn ríkir um framvindu í orkumálum á næstu árum, svo og fjárhagsleg staða Landsvirkjunar, sem óhjákvæmilegt er að verði betur tryggð frá því sem nú er, ekki aðeins til þess að hún geti tekist á við meiri háttar verkefni fram undan, heldur einnig svo að vel fari miðað við óbreyttan rekstur.

Stjórn Landsvirkjunar lítur því svo á, að ýmsar forsendur þurfi að gefa sér auk almennra fyrirvara ef reikna á með því, að Landsvirkjun geti með sæmilegu öryggi séð fram á möguleika til orkusölu til kísilmálmverksmiðju sem hefji rekstur í árslok 1984. Meðfylgjandi drög eru því háð eftirfarandi fyrirvörum:

1. Þess verður að vænta, að samningar takist milli ríkisins og Landsvirkjunar um byggingu og rekstur nýrra virkjana samkv. lögum um orkuver.

2. Gera verður ráð fyrir að Kvíslaveitur verði fullgerðar 1985–1986 ásamt stækkun Þórisvatnsmiðlunar og þeirri stækkun Búrfellsvirkjunar sem Landsvirkjun kann að telja nauðsynlega. Greinargerð hér að lútandi og varðandi framkvæmdaþörf í hinu samtengda orkuöflunarkerfi á allra næstu árum verður fljótlega send rn., en hún er gerð í framhaldi af skýrslu Landsvirkjunar um raforkuöflun í hinu samtengda landskerfi frá nóvember 1981.

3. Ný virkjun, Blönduvirkjun, verði byggð af Landsvirkjun og komin í rekstur 1987–1988 og byggðalínukerfið yfirtekið af Landsvirkjun samkv. áðurgreindum samningum varðandi nýjar virkjanir. Auk þess er talið nauðsynlegt að Landsvirkjun fullgeri 220 kw. háspennulínu 1986 frá Þjórsársvæðinu til Akureyrar, Sprengisandslinu.

4. Fjárhagsstaða Landsvirkjunar verði tryggð á viðunandi hátt, þannig að hæfilegt fé fáist úr rekstri til fjármögnunar nýrra virkjana án þess að lántökur í því skyni verði meiri en góðu hófi gegnir. Markmiði þessu verði náð með því, að stjórn Landsvirkjunar geti ákveðið heildsöluverð fyrirtækisins í samræmi við 11. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 59/1965. Stjórninni yrði þá innan handar að hækka gjaldskrá fyrirtækisins ef nauðsyn krefur á hverjum tíma, að fenginni umsögn Þjóðhagsstofnunar, svo að fullnægt sé nýjum arðgjafarmarkmiðum, miðað við nýtt endurmat sem fram fari á eignum Landsvirkjunar sem undafari sameiningarinnar við Laxárvirkjun, verði slík arðgjafarmarkmið sett af stjórn Landsvirkjunar í samráði við Þjóðhagsstofnun, og þá með það fyrir augum að arðgjöfin verði viðunandi svo að fjármagna megi nýjar framkvæmdir með hæfilegu hlutfalli eiginfjár og lánsfjár.

Telur stjórn Landsvirkjunar breytingu sem þessa mjög brýna svo að lánstraust fyrirtækisins leyfi eðlilega fjármögnun nýrra virkjanaframkvæmda. Jafnframt er fyrirsjáanlegt að óbreytt ástand að þessu leyti leiðir óhjákvæmilega til hærra raforkuverðs til almenningsveitna en ella þegar til lengri tíma er litið.

5. Leggja verður sérstaka áherslu á að á þessu stigi málsins verði engu slegið föstu um rafmagnsverð til kísilmálmverksmiðjunnar, sem verður óhjákvæmilega háð framvindunni hvað framangreind atriði snertir.

Eins og fram kemur í samningsdrögunum er verðið háð nánara samkomulagi, sem ekki er unnt að gera fyrr en umrædd atriði skýrast, auk þess sem verðbótaákvæði skipta máli í þessu efni, svo og hvort verðið verður í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Niðurstöður yfirstandandi athugana á hvað telja megi hæfilegt rafmagnsverð til nýrrar stóriðju hér á landi koma einnig til með að hafa sín áhrif. Sama máli gegnir hvað snertir árangur af viðleitni til hækkunar á orkuverði til stóriðju samkv. núgildandi samningum. Stjórn Landsvirkjunar leyfir sér að vænta þess, að framangreind sjónarmið verði höfð í huga við áframhaldandi meðferð þessa máls, og er að sjálfsögðu reiðubúin til frekari viðræðna varðandi framgang þess.“

Þetta eru þeir fyrirvarar sem stjórn Landsvirkjunar setti þegar hún fjallaði um drög að rafmagnssamningi við væntanlega kísilmálmverksmiðju. Í þessari bókun er vitnað til sérstakrar greinargerðar sem sé væntanleg, þ.e. greinargerðar varðandi framkvæmdaþörf í hinu samtengda orkuöflunarkerfi á allra næstu árum. Nú liggur sú greinargerð fyrir.

Stjórn Landsvirkjunar fjallaði um þá greinargerð í síðustu viku og hefur sent iðnrn. hana með sérstöku bréfi. Ég vil sérstaklega geta þess, hver er meginniðurstaða þeirrar greinargerðar varðandi þetta mikilvæga mál. Í inngangi og niðurstöðum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af skýrslu Landsvirkjunar um raforkuöflun í samtengdu landskerfi í framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun, dags. í nóv. 1981, hefur verið haldið áfram að meta orkuvinnslugetu hins samtengda landskerfis með sérstöku tilliti til rekstraröryggis og mögulegs orkuframboðs á allra næstu árum. Verður hér einkum fjallað um þær orkuaukandi aðgerðir á Þjórsársvæðinu sem unnt er að ráðast í á því tímabili sem hér er tekið til meðferðar. Þessar framkvæmdir eru: Bygging Sultartangastíflu, gerð Kvíslaveitna og stækkun Þórisvatnsmiðlunar ásamt tilheyrandi aðgerðum til aflaukningar á svæðinu, þ.e. stækkun Búrfellsvirkjunar.

Framkvæmdaáætlanir um ofannefndar aðgerðir liggja nú fyrir og vísast til fskj. með greinargerð þessari um nánari skýringar á þeim.

Hér á eftir verða nú reifuð nánar ýmis sjónarmið Landsvirkjunar varðandi rekstaröryggi og orkuvinnsluþörf og í hvaða framkvæmdir skuli ráðast á næstunni. Meginniðurstöður eru eftirfarandi:

1. Með framangreindum framkvæmdum á Þjórsársvæðinu er unnt að anna eftirspurn almenna markaðarins án nýrrar stóriðju allt til ársins 1991. Verði Blönduvirkjun eða Fljótsdalsvirkjun lokið ekki síðar en árið 1988 gefa þessa framkvæmdir auk þess svigrúm til sölu á orku innan næstu fimm ára til meðalstórs áfanga í stóriðju, t.d. kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði eða til stækkunar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga eða álbræðslunnar í Straumsvík.

2. Nauðsynlegur þáttur hinna orkuaukandi framkvæmda á Þjórsársvæðinu er stækkun Búrfellsvirkjunar, og er brýnt að lagaheimild fáist hið fyrsta. Án stækkunar Búrfellsvirkjunar yrði ekki svigrúm til aukinnar orkusölu til stóriðju næstu sex árin, jafnvel þótt reiknað sé með Blönduvirkjun í árslok 1987.

3. Bygging kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði krefst lagningar háspennulínu milli Þjórsársvæðis og Norðausturlands ekki síðar en 1986.

4: Frekari stóriðjuuppbygging en að ofan er lýst er því aðeins framkvæmanleg innan næstu fimm ára að ráðist verði í Sultartangavirkjun og henni lokið árið 1986.“

Þetta eru þær meginniðurstöður sem koma fram í þessari skýrslu Landsvirkjunar. Þær eru í stuttu máli varðandi þessa verksmiðju, að það sé ekki svigrúm til að afhenda raforku til kísilmálmverksmiðju, sem tæki til starfa 1985 eða 1986, nema stækkun Búrfellsvirkjunar kæmi til. Stækkun Búrfellsvirkjunar erum 70 mw. viðbót í fyrsta áfanga, sem gæti orðið 140 síðar. Þetta eru að sjálfsögðu afleiðingar þess, hversu mjög hefur dregist að taka ákvarðanir og hefja framkvæmdir við nýja stórvirkjun að við erum, eins og margir hafa látið í ljós að undanförnu, búnir að missa fram hjá okkur það tækifæri að taka nýja stóriðju í notkun, nema veruleg aflviðbót fáist í kerfið, eins konar ný stórvirkjun, sem stækkun Búrfellsvirkjunar að sjálfsögðu er. Þetta er mjög mikilvægt að menn hafi í huga, vegna þess að í fyrsta lagi liggur nú engin lagaheimild fyrir um Búrfellsvirkjun og engin ákvörðun um hana tekin og þess vegna að sjálfsögðu alveg óraunhæft, eins og hér er gert, að vera að tala um kísilmálmverksmiðju, hvort sem er árið 1985 eða 1986, án þess að slíkar ákvarðanir séu teknar.

Herra forseti. Ég lýk nú senn máli mínu. Ég hef gert nokkra grein fyrir því í þessu máli, að enn eru mjög mörg atriði óljós varðandi þessa kísilmálmverksmiðju sem þurfa nánari athugunar við. Þessi atriði snerta nánast alla meginþætti málsins: tækniþekkingu, markaðsöflun, fjármögnun, eignaraðild og orkuöflun.

Lokaskýrslan, sem við höfum fengið í hendur, er ágæt forathugun í þessu máli, og þeir, sem að henni hafa unnið, hafa að mörgu leyti unnið mjög gott verk. En ég minni hins vegar á það, að hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, sagði hér í þingræðu 11. mars s.l. að nú þegar hafi verið ráðið erlent fyrirtæki til að yfirfara þær skýrslur, sem fyrir lægju, og gefa á þeim það sem kallað væri „second opinion“, eins og hann orðaði það, eða álit sitt á þessum áætlunum. Ég vil nú leyfa mér að spyrja í fyrsta lagi hvaða erlent fyrirtæki hér er um að ræða. Í öðru lagi: Hefur þetta álit verið gefið, þetta „second opinion“, og mun sú þingnefnd, sem þetta mál fær í hendur, þá ekki fá tækifæri til þess að skoða það? Ég held nefnilega að það sé grundvallaratriði að slík skýrsla eins og þessi, sem unnin er af embættismönnum, samviskusömum embættismönnum, mönnum sem eins og gengur hrífast af sínu verkefni og vilja oft fegra hlutina kannske eilítið meira en efni standa til, að slík gögn fái hlutlausa athugun reynds aðila í viðskiptamálum, og það sé ein grundvallarforsendan fyrir því, að hægt sé að samþykkja mál eins og þetta hér á Alþingi, að slík athugun liggi fyrir.

Mál þetta er ekki komið á það stig að mínu mati að Alþingi geti nú samþykkt það frv. sem hér liggur fyrir. Málið er í hæsta lagi komið á það stig, að rétt væri að stofna undirbúningsfélag þar sem inn kæmu aðilar með viðskiptaþekkingu og aðilar sem hugsanlega mundu vilja hætta sínu fjármagni í þetta fyrirtæki þegar þar að kemur. Ég ítreka að það ágæta verk, sem hér liggur fyrir, gæti orðið grundvöllur þessarar frekari vinnu, en það er of snemmt fyrir Alþingi að sleppa þessu mikilvæga máli lausu nú með því að samþykkja þetta frv., eins og gert er ráð fyrir af hæstv. iðnrh.