14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3739 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ríkisstj. hefur markað þá stefnu, að orkuiðnaður skuli þrefaldast í landinu til aldamóta, þ.e. að heildarorkunotkun orkufreks iðnaðar verði um 6 terawattstundir á ári um aldamót, hún er nú um 2 terawattstundir.

Á því er enginn vafi, með tilliti til þeirrar gífurlegu aukningar sem fyrirhuguð er í orkuiðnaði í þessu landi, að kísilmálmur er einn af þeim kostum sem þar hljóta að koma til greina. Annað atriði er það, að ef horft er yfir orkuiðnað virðist söluútlit vera betra í kísilmálmi en í kísiljárni eða áli. Veldur þar kannske sérstaklega vöxtur í hinum svonefnda silikon-iðnaði, en áætlað er að árleg magnaukning í notkun kísilmálms muni vera 5–6% á ári næstu árin.

Eins og fram hefur komið í umr. um þetta frv., sem hér liggur fyrir, er það stefna ríkisstj. að dreifa orkuiðnaði sem víðast um landið. Auðvitað er það hverju sinni nokkur spurning hvaða kostur kunni að vera þjóðhagslega hagkvæmastur þegar litið er til uppbyggingar slíkra iðjuvera. Margir hafa orðið til að benda á að hagkvæmast muni vera þjóðhagslega að nýta þá aðstöðu sem þegar er fyrir í landinu, þ.e. að stækka þau iðjuver sem nú eru starfrækt, eins og álverið í Straumsvík og kísiljárnsverksmiðjuna á Grundartanga. Viðræður standa nú yfir við Alusuisse um framtíðarsamstarf í Straumsvík, og ætla ég ekki að fara fleiri orðum um það. Stjórn kísiljárnsverksmiðjunnar á Grundartanga hefur hins vegar litið svo á að stækkun þeirrar verksmiðju sé ekki vænleg í þeirri stöðu sem nú er.

Enn aðrir hafa velt því fyrir sér, hvort framleiðsla kísilmálms kunni að vera arðbærari á Grundartanga en annars staðar þar sem framleiðsla á kísilmálmi er mjög skyld framleiðslu á kísiljárni. Markaður þessara vara er reyndar ólíkur og annar og hráefni annað og alveg ljóst að framleiðsla yrði að vera verulega aðskilin. Það kann hins vegar að vera spurning hvort þar kynni að leynast hagkvæmur kostur. Ég hygg þó, ef til þess er horft að í framtíðinni verður virkjað mikið á Austurlandi, að hagkvæmni af staðsetningu slíkrar iðju á Grundartanga og á Reyðarfirði muni vegast nokkuð upp af orkutapi við flutning á orku frá Austurlandi suður. Ég hygg því að margt bendi til þess, að staðsetning slíkrar verksmiðju muni verða hagkvæm á Austurlandi.

Hitt er annað, að það hlýtur að vera alveg ljóst að samstarf við Íslenska járnblendifélagið er mikils virði við þá nýju verksmiðju sem hér er verið að fjalla um. Það er óneitanlega mjög mikils virði að reyna að nýta þá reynslu, sem þar er komin upp, við stjórnun slíks fyrirtækis og einmitt ekki hvað síst við uppbyggingu slíks fyrirtækis, þannig að menn þurfi ekki að ganga í gegnum sömu byrjunarörðugleikana við uppbyggingu verksmiðju á Reyðarfirði og gert var við uppbyggingu verksmiðju á Grundartanga. Mér finnst mjög vel koma til greina að Íslenska járnblendifélagið yrði að einhverju leyti, að einhverjum hluta, eignaraðill að kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þarf sjálfsagt að athuga það mál vel.

Ég vil fara nokkrum orðum um eignaraðild þessarar nýju verksmiðju eins og hún er fyrirhuguð í frv. sem hér er til umr. Þar kemur raunar fram að ríkið skuli eiga ekki minna en 51% hlutafjárins, en heimildar er óskað til að ríkið geti lagt fram allt hlutaféð og verið eitt eigandi ef aðrir aðilar fást ekki til þátttöku.

Það hefur verið stefna Framsfl., að innlendir aðilar skuli eiga meiri hluta í þeim orkuverum sem reist verða hér í framtíðinni, þau séu að meiri hluta í eigu innlendra aðila. Við óttumst nokkuð að horfa til þeirrar framtíðar, ef þau iðjuver, sem reist verða, verða að öllu eða mestu leyti í eigu ríkisins á næstu árum, sem reist verða. Í því sambandi er einfaldast að benda til þess, að ef menn hyggja á þreföldun orkuiðnaðar fram til aldamóta í þessu landi er ljóst að um aldamót verða um 40–50% af útflutningstekjum þjóðarinnar líklega frá orkuiðnaði og grundvallarbreyting orðin frá því sem nú er, þegar við höfum milli 70 og 80% af útflutningstekjunum af sjávarútvegi. Ef svo fer að íslenska ríkið verði að mestu leyti eignaraðili að öllum þeim iðjuverum, sem reist verða hér fram til aldamóta þá stefnum við að því að í ríkiseign verði megnið af þeim fyrirtækjum sem útflutningsteknanna afla. Framsfl. stendur nokkur ógn af slíkri framtíðarsýn. Og ég hygg að menn hafi nokkuð rétt fyrir sér í því, þegar skoðað er frelsi einstaklingsins í lýðræðisþjóðfélagi eða hvaða þjóðskipulagi sem er, að grundvöllurinn að því, að frelsið sé virt, er að jafnvægi haldist sem mest í þjóðfélaginu, jafnvægi valddreifingar og auðdreifingar. Ef vald skipast of mikið á eina hendi eða of fáar þrengir að frelsi einstaklingsins, og eins er það með auðinn. Ég hygg að frelsi einstaklingsins í þjóðfélagi, þar sem atvinnureksturinn í svo ríkum mæli væri á hendi ríkisins, væri orðið nokkuð aðþrengt. Þess vegna er það að okkar mati, framsóknarmanna, mjög mikilvægt að örva sem flesta innlenda aðila til þátttöku í þessum orkuiðnaði, sem ljóst er að við munum leggja áherslu á að byggja upp hér á næstu árum. Við teljum í rauninni að það eigi að örva innlenda aðila til þátttöku með ýmsu móti.

Ég vil vekja athygli á því, að þó að í rauninni sé ráð fyrir því gert í þessu frv. að ekki sé nauðsynleg þátttaka erlendra aðila, þá er ekkert sem útilokar að erlendir aðilar gætu orðið eignaraðilar að kísilmálmverksmiðjunni við Reyðarfjörð að einhverjum minni hluta, ef það þætti henta.

Ég vil jafnframt sérstaklega fara nokkrum orðum um þau gjöld og kostnaðarliði sem þessari verksmiðju er ætlað að standa straum af.

Það er gert ráð fyrir í þessari skýrslu verkefnisstjórnarinnar að verksmiðjan geti skilað um 10.4% afkastavöxtum heildarfjárfestingar. Hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan að það mundi vera í algjöru lágmarki. Ekki skal ég deila við hann um það. En ég vil hins vegar benda á að verkefnisstjórnin telur sig ná þessum afkastavöxtum eftir að gert er ráð fyrir að verksmiðjan greiði þrisvar sinnum hærra orkuverð en t.d. álverksmiðjan í Straumsvík og um það bil tvisvar og hálfu sinnum hærra orkuverð en járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Hér er auðvitað um að ræða verulegan mun, ekki hvað síst þegar menn gera sér grein fyrir að hér er um að ræða 345 gwst. á ári eða heildarkostnað sem nemur nærri 60 millj. nýkr. á ári. Jafnframt er gert ráð fyrir að þessi verksmiðja greiði aðstöðugjald sem er um tvöfalt hærra en það landsútsvar sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga greiðir. Það er þess vegna alveg ljóst, að í þessum frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir að þetta fyrirtæki taki á sig verulega miklu hærri gjöld en slíkar verksmiðjur sem þegar eru fyrir í landinu, og það hljóta menn að meta þegar arðsemiprósentan eða afkastavextirnir eru skoðaðir.

Ég er raunar þeirrar skoðunar, sérstaklega þegar litið er til aðstöðugjaldsins, að menn verði að reyna að sameina þessa gjaldstofna, þ.e. að samræma þá sem allra mest milli skyldra fyrirtækja í landinu. Það er erfitt að benda á það með rökum, að eðlilegt sé að þessi nýja verksmiðja, sem við ætlum að hrinda af stað nú, greiði tvöfalt hærra aðstöðugjald en til að mynda járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Það er auðvitað eðlilegt að hún greiði eins hátt orkuverð og er unnt að koma við, en enn á ný verður að ítreka að þegar arðsemiprósentan er metin, þá hljóta menn að taka tillit til þess, að hér er um að ræða fyrirtæki sem á að greiða þrefalt hærra orkuverð en járnblendiverksmiðjan á Grundartanga greiðir.

Ég hygg, þegar þessir afkastavextir eru skoðaðir, að áætlanir um stofnkostnað séu nokkuð vel unnar, sérstaklega þegar litið er á að áætlanir um allan vélbúnað verksmiðjunnar eru byggðar á tilboðum, nokkuð áreiðanlegum tilboðum, sem þegar hafa borist frá fleiri en einum framleiðanda.

Ég held hins vegar að það megi taka undir með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að fjármögnunaráætlun þyrfti að vinna ítarlega fyrir þessa verksmiðju. Markaðsáætlanir hafa verið unnar, markaðsspár hafa verið gerðar, og þingnefndir, sem þetta mál munu fá til umfjöllunar, munu fá í hendur nánari upplýsingar um aðila sem lýst hafa áhuga á kaupum á kísilmálmi frá þessari nýju verksmiðju.

Ég hef sagt það hér áður í umr., þegar drepið hefur verið á kísilmálmverksmiðjuna, að þegar hefur verið óskað eftir því við erlendan viðurkenndan aðila, að hann yfirfari þær áætlanir sem verkefnisstjórnin hefur unnið. Í því felst í sjálfu sér ekkert vanmat á verki verkefnisstjórnarinnar, heldur er hér um að ræða sjálfsagða öryggisleið, að óháður aðili framkvæmi óháð mat á þeim útreikningum sem þarna liggja fyrir. Hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, spurði um hvaða fyrirtæki hér væri um að ræða. Fyrirtækið heitir Hill Samuel og er bankafyrirtæki í London. Það vinnur að þessari athugun, sem við höfum kallað „second opinion,“ að sjálfstæðri endurskoðun þessarar áætlunar, og við gerum okkur vonir um að sú endurskoðun liggi fyrir og muni berast okkur eftir næstu helgi. Ég geri ráð fyrir að þeirri athugun, því áliti þessarar viðurkenndu bankastofnunar verði dreift til þm. þannig að þeir fái, þegar fjallað verður um málið, álit hennar í hendur.

Þessi stofnun hefur um nokkurn tíma unnið að yfirferð á þessari skýrslu verkefnisstjórnarinnar. Hún mun sérstaklega í þessari skýrslu sinni gera ráð fyrir hvaða áhrif ýmsir kostnaðar- og tekjuliðir hafa á arðsemi verksmiðjunnar. Þar mun sérstaklega koma fram hvaða áhrif á arðsemi verksmiðjunnar ýmis frávik í orkuverði hafa, hækkun eða lækkun orkuverðsins, — hvaða áhrif hefur frávik í verði hráefna, ef hráefni hækka, á arðsemisprósentuna, hvaða áhrif breytt verðbólga hefur, hvaða áhrif breytt söluverð á kísilmálmi hefur á afkastavextina og hvaða áhrif breytt sölumagn frá verksmiðjunni hefur í þessu efni. Ég bind miklar vonir við endurskoðun þessa erlenda fyrirtækis og hygg að það muni renna nokkru traustari stoðum undir þær upplýsingar, sem hér liggja fyrir, og það muni verða þm. mikill styrkur að fá slíka endurskoðun í hendur. Ég er þeirrar skoðunar að ef slík endurskoðun frá virtu erlendu fyrirtæki sé jákvæð sé ástæða til að reyna að leggja áherslu á að flýta þessu máli í gegnum þingið.

Hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, gerði nokkuð að umræðuefni málsmeðferð og mismun á málsmeðferð annars vegar á kísiljárnverksmiðjunni á Grundartanga og hins vegar þeirri verksmiðju sem nú liggur hér fyrir frv. um. Ég hygg að það muni vera rétt hjá honum, að meðferð þess frv. tók miklu lengri tíma en við höfum nú gert ráð fyrir að þurfi til að afgreiða þetta mál. Ég hygg að það sé rétt, sem fram kom hjá honum, að það hafi verið reynt að vinna að athugun á frv. um kísiljárnsverksmiðjuna eins vel og unnt var að koma við og það frv. hafi fengið glettilega vandaða málsmeðferð. Það sýnir kannske hvað best hvað er erfitt að spá um þessi mál, að ég hygg að flestar þær forsendur, sem menn þá gerðu ráð fyrir um framtíð verksmiðjunnar, hafi nú breyst og jafnvel hin vönduðu vinnubrögð hafi ekki tryggt að menn hafi séð inn í framtíðina — ekki eins og æskilegt hefði verið. Ég hygg að raunar sé nú staðan sú, að það sé erfitt að spá um framtíðina í þessu efni, og kannske er framtíð kísiljárnsverksmiðjunnar á Grundartanga þessi árin gleggsta dæmið um það. Eigi að síður er auðvitað ástæða til þess, að menn vinni þetta mál þannig að þeir hafi sannfæringu fyrir því sem þeir eru að gera. Þm. hafa fengið í hendur bæði áfangaskýrslu um þetta mál og síðan lokaskýrslu nú og munu væntanlega fá í hendur bæði álit hinnar ensku bankastofnunar um endurskoðun á skýrslu verkefnisstjórnarinnar og jafnframt upplýsingar varðandi þá aðila sem þegar hafa lýst áhuga á kaupum á kísilmálmi frá þessari verksmiðju.

Menn hafa gert nokkuð að umræðuefni staðsetninguna á Reyðarfirði. Í því sambandi er auðvitað rétt að fram komi að höfn eða hafnargerð þar virðist vera mjög hagkvæm í fyrsta lagi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að afgangsvarmi verksmiðjunnar nýtist til upphitunar á Reyðarfirði og Eskifirði, og það er auðvitað mjög mikilvægt þar sem gert er ráð fyrir að sú upphitun verði hagkvæm, jafnframt því, eins og fram kom í máli hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, að ein af forsendum Fljótsdalsvirkjunar er auðvitað að markaðurinn á Austurlandi stækki.

Það, sem vakti einna mesta athygli mína í málflutningi hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, voru þeir fyrirvarar sem hann las hér upp frá Landsvirkjun, um orkusölu til kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Ég verð að játa að þeir fyrirvarar komu mér algerlega í opna skjöldu. Hafi ég tekið rétt eftir lýsti hann því hér, enda stjórnarmaður í Landsvirkjun, að einn af fyrirvörum Landsvirkjunar um, að hún geti útvegað orku til þessarar verksmiðju, sé að stækkun Búrfellsvirkjunar fari fram áður en Blönduvirkjun kemur í gagnið. Ég verð að játa að þetta kemur mér algjörlega í opna skjöldu.

Í skýrslu verkefnisstjórnar um kísilmálmverksmiðju, á bls. 20, eru upplýsingar frá Landsvirkjun um þá orku sem talin er vera aflögu til stóriðju í kerfinu fram til ársins 1988. Þar segir, með leyfi forseta: „Samkv. nýjasta mati Landsvirkjunar“ — en það mat mun vera frá því fyrir áramótin síðustu — „yrði með þessum aðgerðum“ — þ.e. vatnaveitum á Þjórsársvæðinu og Sultartangastíflunni — „eftirtalið orkumagn og afl til ráðstöfunar í kerfinu umfram þarfir núverandi stóriðju og almenns markaðar: 1984: 290 gwst., 1985: 480 gwst., 1986: 600 gwst., 1987: 670 gwst.“

Hér er ekki verið að tala um nema stækkun á Búrfellsvirkjun. Hér er verið að tala um þá orku sem aflögu sé í kerfinu fram til 1988 eða þar til að Blönduvirkjun kemur í gagnið. Þegar litið er á að heildarorkuþörf þessarar kísilmálmverksmiðju er talin nema um 345 gwst. hefði maður talið að þarna væri talsvert rúm eftir þó að kísilmálmverksmiðjan tæki til starfa og ekki væri stækkað við Búrfell.

Ég hélt satt að segja að þarna væri um að ræða nýjustu upplýsingar frá Landsvirkjun. Nú upplýsir stjórnarmaður Landsvirkjunar að Landsvirkjun hafi endurskoðað þessar tölur. Það hlýtur að koma okkur mjög í opna skjöldu, sem höfum verið að reyna að vinna að þessum málum og fylgjast með nýjustu upplýsingum, að það skuli nú vera fyrirvari frá Landsvirkjun um orkusölu til kísilmálmverksmiðjunnar að Búrfell II sé virkjað áður en Blanda kemur í gagnið. Mér er spurn: Hvað hefur gerst? Ég vil varpa þeirri spurningu til þessa stjórnarmanns Landsvirkjunar sem upplýsti okkur um þessar tölur: Hvað hefur gerst? Hvað er það, sem hefur breyst svona stórlega frá áætlunum Landsvirkjunar núna fyrir áramótin, sem prentaðar eru í þessari skýrslu verkefnisstjórnar á bls. 20, til þeirra upplýsinga sem hv. þm. las upp fyrir okkur áðan? Ég verð að segja það enn á ný, að hér er um talsvert alvarlegt mál að ræða.

Ég tók þátt í vinnu að frv., sem lagt var hér fram á síðasta þingi, til laga um raforkuver, þar sem var leitað heimildar þingsins til nýrra virkjana. Þá töluðu menn um Sultartangavirkjun, Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun, reyndar virkjun Héraðsvatna við Villinganes og síðan stækkun á virkjun við Hrauneyjafoss og Sigöldu. Þá töluðu menn ekki um Búrfell II. En frv. var varla komið í gegnum þingið þegar þær upplýsingar bárust frá Landsvirkjun, að Búrfell II mundi vera hagkvæmari virkjun en Sultartangi. Ég verð að játa að þetta kom mér nokkuð í opna skjöldu þá. Eftir að hafa athugað, hvernig þessar vatnsveitur liggja á Þjórsársvæðinu, virðist vera augljóst að Búrfell II er hagkvæmari virkjun en Sultartangi við þær aðstæður sem þarna eru nú. Hitt er mér reyndar dálitið illskiljanlegt, hvernig stendur á að Landsvirkjun kom ekki auga á þetta fyrr.

Við höfum lent í orkuskömmtun undanfarin ár, miklu meiri orkuskömmtun en nokkurn óraði fyrir. Við lentum í orkuskömmtun eftir að tvær aflvélar voru komnar í notkun við Hrauneyjafoss, sem allir orkusérfræðingar höfðu sagt okkur að ekki mundi geta komið til. Þar virtust áætlanir Landsvirkjunar bregðast. Kannske getur þessi stjórnarmaður Landsvirkjunar frætt okkur á hvað það var, sem brást í þessu efni, og hvers vegna upplýsingar um að Búrfell II sé hagkvæmari kostur en Sultartangavirkjun komu svo seint.

Nú kemur þm. hér í ræðustól og upplýsir okkur um að þær tölur um umframorku í kerfinu fram að næstu stórvirkjun, sem við töldum að væru nýjastar til frá Landsvirkjun og liggja fyrir frá Landsvirkjun frá því fyrir áramót, séu í grundvallaratriðum rangar og að forsendan fyrir því, að Landsvirkjun geti selt þessari verksmiðju orku, sé beinlims sú, að Búrfellsvirkjun sé stækkuð áður en Blönduvirkjun taki til starfa. Ég verð nú að játa að mér finnst hér um svo mikilvægt mál að ræða að við hljótum að verða að óska skýringa frá Landsvirkjun á því, hvað hér hefur gerst. Þessar upplýsingar, sem fyrir liggja, eru fárra mánaða gamlar. Ef þær tölur, sem þarna liggja fyrir, hefðu t.d. verið hækkaðar um 30–40% hefði það kannske sloppið, en nú stöndum við beinlínis andspænis því, að það verði að virkja sérstaka virkjun, áður en Blanda kemur í gagnið til þess að þetta mál geti gengið fram, og allar þær tölur, sem við erum með í höndum og héldum að væru nýjastar, séu í öllum grundvallaratriðum rangar. Með tilliti til áætlana Landsvirkjunar um vatnsmagn og miðlanir á Þjórsársvæðinu og orkuskömmtun í landinu í kjölfar þeirra, með tilliti til nýrra upplýsinga um, að Búrfellsvirkjun II verði að koma á undan Sultartangavirkjun, og með tilliti til upplýsinga hv. 6. þm. Reykv., Birgis Ísl. Gunnarssonar, núna um að það sé grundvallaratriði að nýrri virkjun sé skotið fram fyrir Blönduvirkjun, þá hljóta menn að fara að efast dálitið um áætlanagerðir Landsvirkjunar. Ég vil biðja hv. þm., ef honum er kleift, að gefa okkur skýringar á hvað hefur gerst. Hvaða stór grundvallaratriði eru það sem hafa breyst á þessum fáu mánuðum frá því að við fengum þær tölur, sem hér eru birtar í skýrslunni, þar til hann kemur með þennan nýja stórasannleik inn í þingið núna?