14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3745 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv., sem hér hefur verið lagt fram, fjallar um stórmál og vafalaust eru sum ákvæði þess stefnumótandi eða gætu verið það. Ég er í grundvallaratriðum hlynntur því, að iðnaðaruppbyggingu verði dreift um landið. Hins vegar má jafnframt hverjum vera ljóst að arðsemin skiptir höfuðmáli í því sem við erum að gera. Við erum með verksmiðju við Hvalfjörð sem er rekin með dúndrandi tapi, svo ekki sé meira sagt. Það hefði þess vegna verið eðlilegt að kanna hvort þriðji ofninn, sem þar eru hugmyndir um að verði settur upp, hefði ekki frekar átt að bræða kísilmálm svo fengist úr því skorið í fyrsta lagi, hvort hagkvæmni er í slíkri vinnslu, og í annan stað, hvort bæta hefði mátt fjárhagslegan grundvöll þess fyrirtækis sem þar er. Með því hefði ekki á nokkurn hátt verið komið í veg fyrir að verksmiðja yrði byggð fyrir austan seinna, ef arðsemin hefði verið í lagi og rafmagnið einnig til staðar. Ég vil beina því til hæstv. iðnrh., að hann svari því, hvort e.t.v. hafi verið gerð á því könnun, hvort hagkvæmt væri að fara þá leið sem ég gat um.

Einnig get ég ekki að því gert, að mér finnast ákvæði 7. gr., sem hér eru, á margan hátt óaðgengileg sem framtíðarstefna. Það hljóta að vera mikil hlunnindi fyrir hvern þann stað sem fær mikla atvinnuuppbyggingu frá opinberum aðilum. Verði launagreiðslur hjá þessari verksmiðju hliðstæðar því sem er hjá ríkisverksmiðjunum í dag væri verið að greiða þar hærri laun en á hinum almenna vinnumarkaði og sveitarfélögin munu að sjálfsögðu njóta þess. Þess vegna efa ég réttmæti þess, að þeir staðir njóti þar að auki sérstakrar skattheimtu frá þessum verksmiðjum, á sama tíma og við höfum ekki hugmynd um hvort ríkið neyðist e.t.v. til að greiða stórfé með þeim.

Einnig hlýtur það að vera nokkurt áhyggjuefni fyrir þingmann frá Vestfjörðum að sjá að það skuli stofnaður sérstakur iðnþróunarsjóður sem hafi tekjur af stóriðju. Ég á ekki von á að þar vestra verði farið í stóriðju, og spurningin er: Mun það þá koma í veg fyrir að slík svæði eigi sama aðgang að annarri iðnaðaruppbyggingu í landinu vegna þess að það sé búið að byggja upp sérstakt sjóðakerfi fyrir þau kjördæmi sem fá stóriðjuna? Þætti mér a.m.k. ekki rökrétt að standa þannig að, um leið og við afgreiðum stóriðjuuppbygginguna á þessum stöðum, að setja jafnframt með sérstöku sjóðafyrirkomulagi fótinn fyrir þau svæði sem fyrirsjáanlegt er að ekki verði byggð upp stóriðja á.

Ég vil bæta því við, að ég held að það verði að lita svo á að við getum ekki haft sérstakar klásúlur fyrir hverja einustu verksmiðju sem við byggjum í landinu, heldur verði að vera um að ræða samræmd lagaákvæði varðandi skattheimtu og greiðslur til opinberra aðila frá þessum fyrirtækjum.

9. gr. vekur mér einnig nokkra undrun, en það má vel vera að hún sé höfð svona óljós þar sem eftir sé að ganga frá öllum samningum þar að lútandi.

Að lokum vil ég segja þetta: Við erum hvað eftir annað að skoða iðnaðarhugmyndir þar sem gert er ráð fyrir mjög lágu raforkuverði miðað við það sem hinn almenni notandi þessa lands þarf að greiða. Ég fæ ekki séð að það séu nein sérstök hlunnindi fyrir Austurland í heild þó að við björgum örlitlum hluta af því svæði með hagstæðari lausn í upphitunarmálum en aðrir eiga aðgang að. Þess vegna hlýtur hæstv. iðnrh. jafnframt að luma á þeirri heildarlausn í upphitunarmálum sem skapi eitthvert réttlæti fyrir landið í heild. Það er engin lausn að halda áfram að kljúfa landið í sundur á þann veg að sums staðar sé þetta í viðunandi ástandi, en annars staðar leiði það beinlínis til byggðaröskunar eins og að málum er staðið.