14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3750 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr., en hv. 12. þm. Reykv. beindi til mín ákveðnum fsp. áðan sem ég tel rétt að fara örfáum orðum um.

Hann taldi að það væri mikið ósamræmi á milli þeirra áætlana, sem Landsvirkjun hefði látið frá sér fara fyrr á þessum vetri, og þeirra áætlana, sem nú lægju fyrir, sem gera það að verkum, eins og fram hefur komið, að Landsvirkjun treystir sér ekki til að afhenda kísilmálmverksmiðju orku nema með auknu afli. Ég bendi hins vegar á að hæstv. iðnrh. taldi að þetta kæmi sér ekkert sérstaklega á óvart. Ég reikna því með að þetta sé atriði sem menn hafi átt að geta gert sér grein fyrir í nokkuð langan tíma, enda hefur Landsvirkjun alltaf lagt mikla áherslu á þetta. Jafnframt Kvíslaveitum hefur ávallt komið fram í áætlun Landsvirkjunar að nauðsynlegt væri að auka aflgetuna.

Þegar frv. um raforkuver var samþykkt hér á Alþingi s.l. vor var bætt inn í það frv. stækkun Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana. Það var hins vegar gert að lítt athuguðu máli. Ég held að flestir þm. muni eftir því, hvernig þær breytingar á því frv. urðu til. Þær urðu til meira og minna á hlaupum eða á hnjám manna í göngum og hliðarherbergjum því að það þurfti að koma þessu frv. í gegn hvað sem það kostaði og þetta virtust vera þær breytingar sem dygðu til þess, að frv. fengi þann meiri hl. sem það hafði ekki áður. Þetta er hins vegar dæmi um til hvers óvönduð vinnubrögð geta leitt.

Ég minnist þess, þegar iðnn. Nd. fékk þessi mál til meðferðar, að fulltrúar Landsvirkjunar mættu þar og þeir lögðu mikla áherslu á, að jafnframt Kvíslaveitu og Þórisvatnsmiðlun kæmi aukið afl, og nefndu bæði Hrauneyjafoss og Sigöldu í því sambandi, en þeir nefndu þar líka möguleika á stækkun Búrfells. Menn fengu hins vegar ekki tækifæri í óðagoti nú síðustu daga þingsins til að kanna þessi mál rækilega og þess vegna var stækkun Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana skellt inn í frv. á síðustu stundu. Ég tel að menn séu að vissu leyti að súpa seyðið af því nú því að nú liggja fyrir áætlanir um að það teljist mun hagkvæmara að byggja Búrfell II frekar en fara í stækkun Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjana. Hins vegar var stækkun Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjana eða stækkun Búrfells II aldrei stillt upp á móti byggingu Sultartangavirkjunar. Því mega menn ekki rugla saman.

Ég tel að sjálfsögðu nauðsynlegt að fulltrúar Landsvirkjunar gefi iðnn. Nd. skriflega álitsgerð um þetta mál og fulltrúar fyrirtækisins komi jafnframt til viðræðu við nefndina um þetta mál, en ég taldi þó rétt vegna orða hv. 12. þm. Reykv. að bæta því við sem ég hef nú sagt.