15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3751 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

Minnst látins fyrrverandi þingmanns

Forseti (Jón Helgason):

Áður en gengið er til dagskrár vil ég minnast Þórðar Benediktssonar fyrrverandi alþingismanns, sem andaðist í gærmorgun,14. apríl, 84 ára að aldri.

Þórður Benediktsson var fæddur 10. mars 1898 á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hans voru Benedikt prófastur þar Kristjánsson og Ásta Þórarinsdóttir seinni kona hans. Hann lauk verslunarskólaprófi í Reykjavík vorið 1919. Á árunum 1919–1920 vann hann verslunarstörf í Reykjavík, en dvaldist síðan erlendis 1920–1923. Í febrúar 1924 settist hann að í Vestmannaeyjum, hafði þar á hendi verkstjórn og starfaði auk þess við fiskmat og verslun fram til ársins 1942. Upp frá því átti hann heimili í Reykjavík, vann hjá Sambandi ísl. berklasjúklinga 1943 til 1974 og var framkvæmdastjóri Vöruhappdrættis SÍBS frá stofnun þess 1949 til 1967. Hann var varaformaður stjórnar Sambands ísl. berklasjúklinga 1946–1954 og formaður þess 1955–1974.

Þórður Benediktsson varð landskjörinn alþingismaður í haustkosningunum 1942. Kom hann til þingsetningar 14. nóvember, en varð að þingsetningardegi liðnum að hverfa frá störfum vegna veikinda. Átti hann ekki afturkvæmt til þings sökum heilsuleysis fyrr en 1. febr. 1946, en sat þá á þingi í þrjá mánuði í lok kjörtímabilsins. Þingsaga Þórðar Benediktssonar varð því ekki löng. Á öðrum vettvangi varð hann þjóðkunnur. Hann átti við berklaveiki að stríða og þekkti af eigin raun örðugleika berklasjúklinga í lífsbaráttunni. Á sjúkdómsárum hans unnu samtök berklasjúklinga og stuðningsmenn þeirra að því að bæta hlut berklasjúklinga, einkum þeirra sem áttu afturkvæmt úr sjúkrahúsum. Þar var hann einn forustumanna, sem unnu af eldmóði að því að gera hugsjónir að veruleika. Boðskapur þeirra fékk hljómgrunn hjá alþjóð og vitni um árangur þeirra samtaka má m.a. sjá á Vinnuheimilinu á Reykjalundi, sem hefur vakið verðskuldaða athygli víða um lönd, og á vinnustöðum öryrkja á öðrum stöðum. Þar sést farsælt ævistarf Þórðar Benediktssonar og samstarfsmanna hans.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Þórðar Benediktssonar með því að rísa úr sætum.