04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa að vísu orðið gagnlegar. Hæstv. sjútvrh. fór yfir mikið svið í svari sínu eða umræðu um málið. Hann tók svo til orða að í fyrirtækjunum væru hjöðnunarverkir, í atvinnuvegunum væru hjöðnunarverkir. Undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, okkar eini sanni stóriðnaður, fiskiðnaðurinn, þjáist af óðatæringu og það eru beinverkir gjaldþrota sem á hann sækja nú.

Eins og fram hefur komið í máli manna benti hæstv. sjútvrh. á ýmsar leiðir. Þeir í hæstv. ríkisstj. ganga með einhverjar ráðstafanir og hann stiklaði fram og aftur um sviðið eins og kálffull kýr. En mér er nær að halda að þegar þessi ríkisstjórnarkálfur verður í heiminn kominn muni hann ekki gera í blóðið sitt, og ábrystirnar, sem á eftir fylgja, munu ekki verða til skiptanna.

Það var svo að heyra í lokin á hæstv. sjútvrh., að það þyrfti ekki annað til en að „kommissar“ Hermannsson færi að vinna, hætti bréfaskriftum til hæstv. ríkisstj. og tæki nú til höndum og færi að vinna, sjálfsagt við að afgreiða fjármuni til fyrirtækjanna. Sannleikurinn er sá, að eins og nú standa sakir nægir ekki viljinn einn. Það vill þannig til. Það þarf ögn af peningum einnig.

Seðlabankinn hefur fallist á að veita Byggðasjóði bráðabirgðafyrirgreiðslu, yfirdrátt á hlaupareikningi í 3–6 mánuði. Ég vona að ég brjóti ekki trúnað þó að ég bendi á að sú fyrirgreiðsla nægir kannske til þess að snúa af stað atvinnuhjólunum hjá Hraðfrystihúsi Keflavíkur og frystihúsunum í Skagafirði, en ekki meir, ekki meir. Einhvern daginn stöðvast Bíldudalur, einhvern daginn stöðvast Ólafsvík. Það er stöðvun á Raufarhöfn, skipið verður að sigla. Hver er vandinn? Ég get að sjálfsögðu ekki nefnt einstök fyrirtæki. En ég hef hér skýrslu í höndum og það eru sex fyrirtæki og hreint veltufé þeirra neikvætt er hinn 30. júní í ár 72 millj. Þetta hét fyrir gjaldmiðilsbreytingu 7.2 milljarðar kr., hjá sex fyrirtækjum. Ég hef hér upplýsingar um 21 fyrirtæki og samtals er hreint veltufé þeirra neikvætt um 110 millj. kr. Það er meira en nemur öllu ráðstöfunarfé Byggðasjóðs á þessu ári. Þetta er 21 fyrirtæki í fiskiðnaði. Og hvað um hina 19 togara sem á hefur verið minnst? Það er að vísu undantekning, en til er þó það togskip sem hefur tapað á annað hundrað prósent. Meðaltalið er, eins og fram kom, hygg ég, hjá hæstv. ráðh., 30% tap sem hlutfall af tekjum. Síðan er látið í það skína, að hér sé óvenjulegt fjaðrafok á ferðinni, menn eigi aðeins að koma sér inn í glerhöllina, sem hv. 7. landsk. minntist á, og fara að vinna. Og ég heyrði ekki betur en hv. 2. þm. Norðurl. e. ætti ráð undir rifjum. Það var að taka erlend lán til að endurlána þessum fyrirtækjum sem eiga í þessum kröggum.

Ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég álít það baneitraða leið að safna meiri erlendum skuldum en komið er, (Gripið fram í: Á þá að loka fyrirtækjunum?) Það er sannfæring mín, að eina ráðið, sem við getum beitt, sé að spara á öðrum sviðum, skera niður eða draga saman. Það er engin leið önnur. Við ættum ekki annað eftir en að sækja út fyrir landsteinana peninga til þess að reka fyrirtækin af því að menn skrá gengið eins og dæmin sanna enda þótt það sé löngu, löngu kolfallið. Svo þegar maður bendir á þessar staðreyndir er því haldið fram, að menn séu að biðja um gengisfall. Skráning er bara mannasetning. En hvað er gengi? Hvernig er komið fyrir okkur þegar enginn af útflutningsatvinnuvegunum fær nægjanlega mikið fé fyrir afurðir sínar erlendis frá? Hvað skeður þá? Og hvað er þetta annað en millifærsla, nýtt fjölgengi, að tala um að láta Seðlabankann skila einhverjum gengishagnaði til fyrirtækjanna? Hæstv. sjútvrh. áætlaði að 200 millj. kr. þyrfti til, auk fjár úr Byggðasjóði. 200 millj. kr., það er tvöfalt það ráðstöfunarfé — fyrir utan hina sérstöku fjárveitingu til nýbyggingar skipa — sem Byggðasjóður hefur yfir að ráða á þessu ári. Hvar á að taka þetta fé? Um það er spurt. Að vísu er mikið verk óunnið að gera sér grein fyrir hinni raunverulegu stöðu fyrirtækjanna, en það er lagt upp í þá för þegar, og á meðan þarf að hindra að fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskiðnaði stöðvist og atvinnuleysi bresti á. Það er það sem er fullkomin hætta á nú. Til þess þurfum við fjármuni til bráðabirgða, mikla fjármuni. En ég legg áherslu á að ekki kemur til greina að menn hugsi til þess, hvað þá meir, að sækja þá fjármuni út fyrir landssteinana.

Hinn lýðræðissinnaði sósíalisti, hæstv. vinnumálaráðh. Svavar Gestsson, talaði um að hrakspár stjórnarandstöðunnar ættu sér enga stoð frekar en endranær. Ég fór ekki með neina hrakspá. Ég fór með örfáar staðreyndir sem við blasa, og það er annað mál. Ég er ekki spámannlega vaxinn, en ef svo heldur fram sem horfir þykist ég geta spáð því, að hæstv. félmrh., hinn lýðræðissinnaði sósíalisti, eins og hæstv. forsrh. nefnir hann, muni ekki lengi velgja ráðherrastólinn. En það er ekki hrakspá þegar ég spái slíku. Það horfir til rétts vegar. Og hann talaði í líkingamáli, að það hefði verið gaman að heyra samræður Sverris Hermannssonar við „kommissar“ Hermannsson. Ég held að það sé létt að skilja þetta líkingarmál. Hann mun e. t. v. hafa ætlast til þess, að ég bryti trúnað og segði allt frá einstökum atvikum og fyrirtækjum, sem ég stöðu minnar vegna sit uppi með vitneskju um. Það má ekki til þess ætlast.

En það er fleira sem þyrfti um að ræða en fiskiðnað og sjávarútveg. Ég vil þó vegna ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. aðeins víkja að Raufarhafnarmálinu. Það er rétt sem hann sagði að það var skipuð fjögurra manna ráðherranefnd til þess að leysa það mál. Í henni átti sæti hæstv. dómsmrh. og hinn lýðræðissinnaði sósíalisti, hæstv. félmrh., og svo voru tveir frá SÍS, tveir SÍS-sósíalistar — og maður skyldi halda að þeir kynnu ráð til að reka frystihús. Þeir kunna ráð til að kaupa frystihús núna og reka það. Þeir vita hvar fjármunirnir eru til þess.

Það var haldinn fundur. Það er væntanlega ekkert leyndarmál, að það var haldinn fundur með fulltrúa Landsbankans, viðskiptabanka fyrirtækisins, og „kommissar“ Hermannssyni og niðurstaðan hjá þessum hæstv. ráðh. varð að fela Landsbankanum að leysa bráðan vanda fyrirtækisins til þess að atvinnuhjólin þar mættu fara að snúast. Og „kommissar“ Hermannsson lofaðist til að fara þess á leit við stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, að hún samþykkti að ganga í bankaábyrgð fyrir bráðabirgðaláni. Viðskiptabankinn, sem allra aðila gleggst veit um stöðu fyrirtækja, úrskurðaði hvað til þyrfti, og það stóð ekki á stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að ganga í þessa bakábyrgð. — Þetta er öll sagan. Þetta var árangurinn af þessari ráðherranefnd. Það er kannske búið að skipa nýja, um það skal ég ekki dæma. En það er augljóst mál, að þarna hefur ekki til tekist eins og þyrfti.

Ég minntist á að það er miklu fleira, sem þyrfti að ræða á hinu háa Alþingi, heldur en aðeins fiskiðnaður og sjávarútvegur. Raunar hefur verið drepið á fleiri atriði, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði þegar hann minntist á ullariðnaðinn. Það var gert hér fyrr í dag.

Það er talið upp á að nú sé svo komið að halli í iðnaði sé ekki undir 10% af tekjum og allt að helmingi meiri í þeim greinum sem verst eru settar. Til hvers ætla menn að það leiði? Það er hægt að leiða hér hv. stjórnarsinna sem vitni. Hér er einn hv. 12. þm. Reykv. hygg ég að hann sé. Hann á hér grein, sjálfsagt í Dagblaðinu, enda er það vettvangur sem framsóknarmönnum hæfir. Hann segir hér — og nú verð ég að fá sérstaki leyfi hæstv. forseta til þess að lesa það sem á eftir fer, hann má ekki láta sér bregða, — hann segir um húsgagnaiðnaðinn og það er í ramma, feitletrað: „Húsgagnaiðnaðinum er að blæða út meðan nokkrir ríkisstarfsmenn hugsa málið í nefnd. Hvern andskotann eru mennirnir að meina?“

Það má heita sama hvar borið er niður. Þessi hörmulega staðreynd blasir við okkur, að atvinnufyrirtækjunum, hinum þýðingarmestu og raunar atvinnufyrirtækjunum í heild, er að blæða út. Það eru engir hjöðnunarverkir. Þeir eru fársjúkir. Það, sem við getum búist við nú, er allsherjarstöðvun hringinn í kringum landið og það versta kemur fyrir okkur af öllu hugsanlegu: atvinnuleysi. Ég hygg að menn séu sammála um það. Og fyrir því er það að mér er svo mikið niðri fyrir, að ég hlýt að skora á allan þingheim að leggja sitt af mörkum. Við höfum þurft að ræða þessi mál ítarlega hér og við getum tekið tíma til að ræða þau eitthvað áfram. En menn þurfa að láta hendur standa fram úr ermum. Og honum er alveg óhætt að trúa því og treysta, hæstv. sjútvrh., að það skal ekki standa á „kommissar“ Hermannssyni til verkanna ef hann fær að ná vopnum sínum.