15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3771 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

180. mál, stefna í flugmálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur frammi till. til þál. um mótun opinberrar stefnu í íslenskum flugmálum. Ég veit ekki hvort það er óeðlilegt, þegar þau mál eru tekin á dagskrá, að fyrst og fremst sé rætt um hugtakið þjónustu. Flugfélögum er nú einu sinni ætlað það hlutverk að þjóna landsmönnum, en ekki hitt, að landsmenn beri þau uppi án tillits til þess, hvaða þjónustu þau veita. Og þegar maður hlustar á sólbrúna fulltrúa sterkasta aðilans á þessu sviði, þá hvarffar að manni hvaða hagsmunir það eru sem menn ætla sér að verja.

Það er t.d. forvitnilegt fyrir þm. frá Vestfjörðum að fá úr því skorið, hvort þm. Alþfl., sem koma frá því svæði, eru einnig sammála því sem stendur í 2. lið þessarar till. Ég treysti mér til að sópa af þeim þó nokkru fylgi vestra ef það er tilfellið. Ef á að fara að setja það í lög hér á Alþingi að sérhver, sem ættar að fljúga frá Flateyri, Bíldudal, Árnesi, Hólmavík eða Súgandafirði, skuli lenda á Ísafirði áður en hann kemst suður og þetta sé allt vegna öryggisins, eins og stendur hér neðst á blaðinu, þá sýnist mér að það sé rétt að menn fái það alveg hreint á borðið hvar hv. 3. þm. Vestf. stendur í því máli.

Það væri einnig sanngjarnt að hv. 6. landsk. þm. gerði grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli. Hann hefur einhvern tíma komið hér upp í pontuna af minna tilefni. Það er nefnilega búið að ræða það þó nokkuð mikið á þessum stöðum fyrir vestan, hvernig staðið var að innanlandsfluginu. Vissulega eru flugvellir þar margir lélegir. En var einhver viðleitni hjá þeim aðila, sem sá um innanlandsflugið til að aðlaga sinn flugvélakost þeirri aðstöðu sem var til lendingar vestra? Alls ekki. Hér innanlands skyldi nota Fokkerflugvélar alveg án tillits til þess hvort þær gætu lent á þessum stöðum eða ekki. Þá áttu menn bara að bjarga sér á milli. Þetta var aðferðin. Og núna, þegar dæmið virðist ekki lengur ganga upp, koma hér upp raddir um að það eigi að skylda menn öryggisins vegna til að fjölga lendingunum. Er þetta leiðin í samgöngumálunum sem við þurfum að berjast fyrir?

Ég tel ekki nauðsynlegt að ræða þennan sérstaka lið, 2. lið, öllu frekar, a.m.k. ekki fyrr en þeir tveir hv. þm., sem ég hef beint spurningum til, hafa gert grein fyrir afstöðu sinni á þann veg, að þeir séu stuðningsmenn þess texta sem hér hefur verið settur á blað.

Í 1. lið er undirstrikað að það skuli vera eitt flugfélag sem hafi sérleyfi alls áætlunarflugs til útlanda. Þetta þýðir í reynd að ef einhverjir Íslendingar vildu fara í það að fljúga til og frá landinu og stofna flugfélag, þá yrðu þeir að byrja á því að flytja til útlanda. Þá væri ekkert sem kæmi í veg fyrir það að þeir gætu hafið samkeppni. Hvers vegna? Vegna þess, eins og hv. flm. gat um í upphafi síns máls, að það liggur ljóst fyrir að það eru tvíhliða samningar í gildi. Erlend flugfélög geta flogið til Íslands eins og þeim sýnist. Vissulega var einokunarstefnan viðurkennt fyrirbrigði á sínum tíma, en það er nú meiri tímaskekkjan ef á að fara að taka hana upp aftur.