04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Til mín hefur ekki verið beint mörgum spurningum, en nokkrum, og skal ég reyna að svara þeim.

Hv. þm. Árni Gunnarsson, sem ég sé reyndar ekki í salnum, vildi fá að vita hvort ég hefði kynnt mér hvernig markaðir fyrir saltfisk og skreið standa. Að sjálfsögðu hef ég gert það og ekki síður viðskrh. Við höfum átt viðræður við þá aðila sem með þau markaðsmál fara. Með skreiðina hefur orðið nokkur breyting. Nígeríustjórn hefur ákveðið nýjan innflutningsaðila, sem aðsetur hefur í London, sem millilið fyrir skreiðarinnflutning. Verð á skreið hefur lækkað niður í 287 dollara tonnið, en hins vegar gera menn sér vonir um að sá markaður sé sæmilega traustur á því verði sem er. Það þarf hins vegar ekki að taka það fram hér, að óvissuástand hefur oft verið í Nígeríu. Þar eru vissir efnahagserfiðleikar í ár og nú vegna lækkunar á olíuverði. Því má vel vera að sú spá, sem ég lýsi hér, standist ekki, en við skulum vona þó að svo verði. Þeir, sem flytja út skreið, binda vonir við að svo geti orðið á þessu verði og með því fyrirkomulagi sem nú hefur verið ákveðið.

Það er rétt að verðið hefur lækkað á saltfiskmörkuðum. Á Spáni reyndist nauðsynlegt að gefa nokkurn afslátt frá fyrra verði vegna hækkunar dollarans. Svo hefur ekki orðið enn í Portúgal, en líkur til að sá markaður muni fylgja Spánarmarkaði að þessu leyti. Hins vegar hefur mér virst að útflytjendur séu bjartsýnir um áframhaldandi eftirspurn á þessum mörkuðum, en á verði sem þá aðlagast þeirri röskun sem orðið hefur á gjaldeyrismörkuðum heimsins. Þetta held ég að hafi raunar alltaf legið fyrir. Það hlaut að koma að því. En ég hygg að segja megi að afkoma saltfisks og skreiðar sé sæmilega björt fram undan engu að síður.

Hv. þm. ræddi nokkuð um afkomu fyrirtækja á Norðausturlandi. Það gerði reyndar hv. þm. Stefán Valgeirsson líka. Mér er ljóst að þar eru fyrirtæki í erfiðri aðstöðu. Sérstaklega var nefnd Kísiliðjan. Þó að það sé ekki í mínum verkahring vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að málefni Kísiliðjunnar verður að taka sérstökum tökum. Kísiliðjan varð fyrir mjög miklum skakkaföllum í náttúruhamförum sem alls ekki er hægt að gera ráð fyrir að það fyrirtæki rísi undir án sérstakrar aðstoðar, enda eðlilegt að hjálpa þegar slíkt kemur fyrir. En ég vil einnig nota tækifærið til að vekja athygli á því, að uppi hafa verið háværar raddir hjá náttúruverndarmönnum að ekki megi stækka námusvæði Kísiliðjunnar þegar það er þrotið sem nú er lagt undir. Þetta er mál sem þarf að fá leyst úr. Ef svo fer er ekki rétt að leggja mikið fjármagn í endurnýjun Kísiliðjunnar því að þá lokast hún af þessari ástæðu. Ég er mjög fylgjandi náttúruvernd, en ég held að við þurfum þó að gæta vissrar hógværðar í þeim kröfum sem við gerum þar. Ég nefni þetta og tel ekki að ástæðulausu að þm. kjördæmisins létu það mál til sín taka.

Hann nefndi einnig erfiðleikana með útgerð á Ólafsfirði. Ég hef upplýst að breyta á lánum fyrirtækja í útgerð úr byggingavísitölutryggðum lánum Fiskveiðasjóðs í það sem nú tíðkast. Þetta á m. a. við togara á Ólafsfirði sem búa við þessi óhagkvæmari lán. En vegna fsp. sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal vil ég segja það, að því miður hefur Fiskveiðasjóður ekki fallist á að láta þetta ná aftur fyrir sig. Í bréfi því, sem ég ritaði Fiskveiðasjóði, fór ég fram á að þessi lán yrðu leiðrétt og leiðrétt aftur í tímann. Fiskveiðasjóður hefur ekki treyst sér til að verða við því síðara. Ég bíð eftir skýringu Fiskveiðasjóðs á því. Hins vegar hef ég þegar gefið út reglugerð sem opnar nýjan lánaflokk hjá Fiskveiðasjóði og heimilar honum að breyta frá og með 2. nóv. þessum lánum í það lánaform sem nú er hjá Fiskveiðasjóði.

Hér höfum við dálítið rætt um hávaxtastefnuna annars vegar og lánskjaravísitölu eða verðtryggingarstefnu hins vegar. Ég sé töluverðan mun á þessu, satt að segja. Ég skildi ætíð hávaxtastefnuna þannig, að vextir ættu að ná raunvaxtaupphæð og þegar vextir gjaldféllu ættu þeir allir að greiðast. Það er a. m. k. ekki byggð inn í það kerfi nein trygging fyrir því, að bankarnir endurláni verulegan hluta af þessum vöxtum. Á þessu sé ég mikinn mun. Inn í verðtryggingarkerfi lána er hins vegar byggt það, að verulegur hluti — það er mismunandi eftir því hvað lánin eru löng eins og menn vita — af verðtryggingarþættinum er endurlánaður og gerir að sjálfsögðu greiðslu slíkra lána auðveldari fyrir bragðið. Menn fá það þá endurlánað þar til tekjur viðkomandi hafa væntanlega vaxið, einnig í hlutfalli við verðtryggingu. Ég sé satt að segja mjög mikinn mun á þessu.

Hv. þm. Matthías Bjarnason kom víða við. Ég held að hann sé engu minni leikfimimaður en ég ef dæma má af orðum hans og skemmtilegheitum í ræðu áðan. Ég vil vekja athygli á að ég hef ekki leynt því ástandi sem er. Ég vek athygli á ræðu sem ég hef flutt hér áður og má fletta upp í því sambandi. Ég vil hins vegar jafnframt vekja athygli á að ríkisstj. hefur náð mjög góðum árangri á ýmsum sviðum, t. d. í verðlagsmálum — eða verðbólgumálum réttara sagt. Ég er sannfærður um að ástand atvinnuveganna, m. a. þeirra fyrirtækja sem við erum að ræða um nú, væri ólíkt verra þó ef verðbólgan væri hér 60% — ég tala ekki um 74 eða 85% eins og sumir spáðu fyrir síðustu áramót. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að málsvarar ríkisstj. veki athygli á þeim árangri sem hefur náðst á þessu sviði og fjölmörgum öðrum. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. forsrh. hafi út af fyrir sig leynt því hvernig ástandið er í sjávarútvegi. Hann hefur hins vegar fjallað um þann árangur sem ríkisstj. hefur náð á fjölmörgum öðrum sviðum.

Hv. þm. sagði að Verðjöfnunarsjóður væri galtómur. Það er ekki alveg rétt. Í Verðjöfnunarsjóði voru alveg nýlega 77 millj. kr., þegar skuld í frystideild er greidd. Þetta er að aukast þessa dagana allverulega með yfirfærslu frá gengisuppfærslu Seðlabankans og sömuleiðis því sem lagt er í sjóðinn með brbl. sem gilda frá 1. sept. og varða saltfisk og skreið. Ég hygg að inneign í sjóðnum nálgist óðum 100 millj. Ég viðurkenni að þessi upphæð mætti gjarnan vera hærri og sjálfsagt að þær greinar, sem ekki þurfa á þeirri lagfæringu að halda sem tvímælalaust verður að gerast á næstunni fyrir frystinguna, leggi fé í sínar deildir í Verðjöfnunarsjóði. Ég mun beita mér fyrir því.

Hv. þm. taldi að misræmi væri í því, sem áður hefur verið sagt um þjónustugjöld bankanna, og því, sem ég upplýsti áðan, um einstök tilfelli. Það má vel vera. Ég hef aldrei talið mig minni mann þó að ég viðurkenni að mér var ekki ljóst að svona væri innheimt, eins og ég sé nú. Það er sjálfsagt að bankarnir taki gjöld fyrir sína þjónustu, en að bankinn þurfi að taka 8.6 gamla milljarða fyrir að framlengja erlendu lánin eða Ríkisábyrgðasjóður áhættugjald upp á milljónir fæ ég ekki séð að rúmist innan þess sem við getum kallað eðlilegar greiðslur til banka og sjóða fyrir þjónustu. Það má þá heita hverju nafni sem hv. þm. vill kalla það. Ég tel að þetta þurfi að athuga vandlega.

Hv. þm. sagði að við tölum um skuldbreytingar og fleira. Reyndar kom það fram í ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar að það væri meira um hlutina talað en framkvæmt. Ég viðurkenni að sumt hefur gengið hægar en ég hef óskað. Ég vil þó vekja athygli á því sem ég sagði í minni upphaflegu ræðu, að það er búið að skuldbreyta 62 millj. kr. hjá Fiskveiðasjóði. Það er töluverð upphæð, því verður alls ekki neitað. Nú liggja fyrir umsóknir frá 37 aðilum til viðbótar. Ég tel einnig það nokkurn árangur. Mér hefur verið tjáð að atvinnugreinin hafi talið mikilvægt að fá endurgreidda í fyrra 3.6 milljarða af vöxtum og gengisuppfærslu Seðlabankans. Mér hefur einnig verið tjáð að það sé mjög mikilvægt að Seðlabankinn hefur samþykkt að leiðrétta afurðalánin og nemur sú upphæð, eins og ég hef áður sagt, 33–34 millj. kr. Því hefur einnig verið fagnað í mín eyru að tekist hefur að fá stjórn Seðlabankans til að samþykkja að greiða þá gengisuppfærslu sem í hlut bankans kom 25. ágúst s. l. Nemur sú upphæð rúmlega 41 millj. kr. Ég tel því að þetta sé metið meira hjá atvinnuveginum sjálfum en kemur fram í ræðu hv. stjórnarandstæðinga hér.

Það breytir ekki því, og það hef ég sagt og lagt áherslu á, að meira þarf til til þess að grundvöllurinn komist réttu megin við núllið. Ég nefndi áðan ýmislegt sem er í athugun í því sambandi, m. a. breytingu á dráttarvöxtum, lækkun afurðalánavaxta o. s. frv., og þá með tilliti til þess, hvort afkoma bankanna leyfi það. Hins vegar verð ég að segja að það er ekki rétt að rasa um ráð fram í þeim efnum. Við viljum ekki taka gjaldeyrisvarasjóðinn og selja hann. Við viljum, að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar sé traustur, og við viljum einnig, að eiginfjárstaða bankanna sé þannig að þeir séu traustir og geti staðið undir nauðsynlegum rekstrarfjárlánum til atvinnuveganna. Ég skal hins vegar ekki endurtaka það sem ég sagði áðan, að mín skoðun er sú, að þarna sé orðinn svo mikill bati í peningamálum að unnt sé að veita góðri afkomu bankanna í annað en að styrk ja eiginfjárstöðu þeirra, þar sé hægt að ná umtalsverðri lækkun fjármagnskostnaðar umfram það sem nú er.

Mér þykir vænt um að heyra að hv. þm. er tilbúinn að afskrifa skuldir í Byggðasjóði, jafnvel þótt það skerði útlánagetu hans. Ég hef alltaf þekkt hv. þm. Matthías Bjarnason að því að vera „praktískan“, eins og sagt er í þeim efnum, og ég vona að hann fylgi því máli eftir í stjórn Byggðasjóðs. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að ég tel að ýmsu leyti réttara og mikilvægara að tryggja rekstur þeirra fyrirtækja og atvinnutækja, sem fyrir eru í landinu, en að lána til nýrra, eins og nú stendur. Ekki á það síst við fiskveiðiflotann þótt ýmis fiskiskip séu í farvatninu, búin að vera nokkurn tíma og verður að sjálfsögðu ekki hlaupið frá.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, að nú er liðin tíð að menn geti eignast dýra hluti með ódýru lánsfé, en það gerðu menn áður fyrr, oft með mjög lítið eigið fé. Menn keyptu dýr tæki á 90% lánum og eru dæmi um — er það ekki? — yfir 100% lán til stóru togaranna forðum. (SvH: Nei.) Það var sagt að það væru 104%. (SvH: Það voru ýkjur úr einhverjum krötum.) Jæja. Hv. þm. leiðréttir mig. En það voru æðihá lán og þau voru mörg góð. Núna eru menn að reyna að gera þetta sama með jafnvel ekki 10% af eigin fjármagni til að kaupa skip. Það gengur ekki upp núna. Um það er ég hv. þm. alveg sammála. Það getur vel verið að gegnum skattalög megi gera mönnum þetta auðveldara, en ég vil þó leyfa mér að fullyrða að dæmið gangi aldrei upp með 10% eigið fé í kaupum á skuttogara eða dýrum bátum. Ég held að það gangi aldrei upp vegna þess að ódýru lánin eru ekki lengur til. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar, að gagnvart þeim atvinnutækjum, sem keypt hafa verið mörg fyrir lítið eigið fé og ekki notið þeirra ódýru lána, sem áður voru, eða þeirrar niðurgreiðslu og millifærslu, sem fólst í færslu fjármagns yfir í stofnfjárdeildina, verði bókstaflega að grípa til annarra ráðstafana, það verði að aðstoða þessa aðila. Við verðum að leggja það til hliðar hvort þeir hafi gert rétt eða rangt í því að ráðast í slík kaup. Atvinnuástand á fjölmörgum stöðum byggist á því, að þeir geti rekið þessi skip, og verður að aðstoða þessi útgerðarfélög til þess að svo megi verða.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson taldi þá lýsingu mína, að hér væri að nokkru leyti um hjöðnunarverki að ræða, á misskilningi byggða, en ég held satt að segja ekki. M. a. vísa ég til þess sem ég var að segja. Við erum að koma ýmsu í annan farveg en áður var m. a. peningamálum og lánamálum. Menn hafa sumir hverjir ekki áttað sig á þessu. Ég held að það megi orða það svo. Ég get ekki kallað það annað en hjöðnunarverki á meðan menn eru að átta sig á því, að málum er nú nokkuð á annan veg skipað, m. a. og kannske sérstaklega í viðleitninni til að ná verðbólgunni niður. Það er tvímælalaust mikilvægasta verkefnið í öllum þessum slag, einnig fyrir atvinnuvegina, að ná verðbólgunni niður.

Ég get tekið undir það með hv. þm., að það er engin lausn út af fyrir sig að taka erlend lán og breyta vanskilum í erlend lán. Vitanlega á að freista þess að fá innlend lán í slíku skyni. Mér er tjáð af ekki ómerkari aðila en seðlabankastjóra að það muni vera um 700 millj. kr. í umferð hjá þjóðinni umfram það sem æskilegt væri. Ég skal ekki meta það, ég hef ekki aðstöðu til þess. En ef þetta er rétt á að vera nokkurt svigrúm til innlendrar lántöku. Fullverðtryggð innlend lántaka er heldur engin kostakjör, en það kann vel að vera að þetta sé nauðsynlegt einhvern tíma á meðan verið er að laga rekstrargrundvöll þessara atvinnufyrirtækja.

Hv. þm. sagði að Bíldudalur mundi stöðvast mjög fljótlega. Það er alveg rétt, en ég er hér með afrit af bréfi til Byggðasjóðs, dags. 18. ágúst 1981, fyrir meira en tveimur og hálfum mánuði, þar sem málið er lagt mjög skilmerkilega fyrir í greinargerð, sem hér fylgir, og farið fram á að Byggðasjóður láti málið til sín taka, veiti vissa lánafyrirgreiðslu til að bæta greiðslustöðu fyrirtækis o. s. frv. Þetta mál hlýtur að hafa verið tekið fyrir. Ég efast ekki um það. Hv. þm. er kunnur fyrir að vera athafnamaður mikill og fær til vinnu, svo að ég noti hans orð: að menn fari að vinna. Hann er vinnumaður góður. — Ég efast ekki um að þetta mál hafi verið tekið fyrir. Þetta er eitt af erfiðleikamálum. Þetta mál er því erfiðara að í tengslum við þetta fyrirtæki er ný útgerð. Einn af þessum togurum eru í miklum erfiðleikum og þetta fyrirtæki hefur engan afla annan en frá þessum togara. Þetta er því í mjög nánu samhengi. Þetta fyrirtæki hefur ekki heldur aðstöðu til að salta ódýrari fisk, bátafisk. Reyndar verð ég að segja að þetta fyrirtæki hefur sjálft lagt í þann sjálfsagða kostnað að fá til sín sérfróðan mann sem hefur unnið með þessu fyrirtæki gegnum árin, m. a. á vegum Byggðasjóðs, til að fara ofan í rekstrarafkomu frystihússins. Það vekur satt að segja furðu mína hvað framleiðni þessa fyrirtækis er góð og miklu betri en hjá flestum öðrum. En þetta er nýlegt fyrirtæki, sem Byggðasjóður af myndarskap reisti við, og hefur ekkert á bak við sig til að standa undir skakkaföllum, — hefur bókstaflega ekkert á bak við sig, engan varasjóð til slíks. Ég vil alveg eindregið vara við því ef svona fyrirtæki er nú látið stöðvast einu sinni enn. Ég bið hv. „kommissar“ Sverri Hermannsson að skoða nú þetta mál vandlega og láta okkur vita hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir slíkt, því að Byggðasjóður hefur allar upplýsingar um þetta fyrirtæki, miklu betri en nokkur annar.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Sverri Hermannssyni, að menn fari nú að vinna, og ég hef alltaf treyst honum til að vinna. Ég hef reyndar — ég get látið það koma fram hér — lengi verið þeirrar skoðunar, þrátt fyrir góð afköst hv. þm., að verkefni „kommissars“ Framkvæmdastofnunar sé heils dags verk og meira en eins manns, því að verkefnin eru mörg. Ég held því að hv. þm. þurfi að leggja saman nótt og dag og ég treysti honum til þess og tek hans áskorun. Ég mun taka þátt í því — og við — eins og frekast er unnt. En mín skoðun er enn þá sú, að vegna uppbyggingar Framkvæmdastofnunar sé eðlilegt að hún hafi þarna vissa forustu. Það skal ekki standa á sjútvrn. að veita þá aðstoð sem það getur og þörf kanna að þykja á. Ég vona því að sá ótti, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., sé ástæðulaus. Samstarf þessara aðila hlýtur að geta tryggt að við fáum þá fyrirgreiðslu sem þörf er á.