15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

180. mál, stefna í flugmálum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er kannske ekki mikið tilefni til efnislegra umr. um þetta mál á þessu stigi. Það er eðlilegt að þetta mál fari til nefndar, og það vill þannig til, að ég á sæti í hv. atvmn., og ég býst við að eðlilegt sé að málið fái afgreiðslu í þeirri nefnd þingsins. Gefst þá væntanlega tækifæri til að kanna þetta mál betur, kynna sér þau efnisatriði, sem koma fram í sjálfri þáltill., og athuga hvort ekki sé ástæða til að bæta fleiri atriðum við.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt að fram fari umr. um flugmálastefnu eftir þá atburði sem átt hafa sér stað í þessum málum, bæði í vetur og eins á undanförnum árum og þó sérstaklega í ráðherratíð hæstv. núv. samgrh. Það, sem einkum hefur einkennt ráðherratíð hæstv. núv. samgrh., er hringlandaháttur og stefnuleysi í flugmálum, sem hlaut fyrr eða siðar að kalla á það. að þingið tæki þetta mál fyrir og gerði tilraun til að móta flugmálastefnu sem byggðist á meiri festu en hefur verið í þessum málum um nokkurt skeið.

Það er ástæða til að rifja það upp, að árið 1973 var mörkuð sú flugmálastefna sem talið er að fylgt hafi veríð nú um 8–9 ára skeið, og í raun hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir. að ekki hafi verið horfið frá þeirri stefnu þótt hann sjálfur hafi viljað hverfa frá henni. Hann hefur lýst því yfir í ræðu hér á hv. Alþingi þegar til umr. var aðstoð við Flugleiðir. að leyfi, sem veitt var Iscargo á sínum tíma, hafi ekki falið í sér breytingu á ríkjandi flugmálastefnu, þótt hverju mannsbarni í landinu sé það rækilega ljóst, að einmitt sú ákvörðun var grundvallaratriði sem hefur leitt til þessarar flugmálastefnu, ef hægt er að nota það orð yfir það stefnuleysi sem einkennir þennan málafokk.

Þingflokkur Sjálfstfl, samþykki á sínum tíma ályktun í þessum málum. einkum og sér í lagi með tilliti til þess, að fyrir flugráði lá tillaga þess efnis að veita Arnarflugi leyfi til flugrekstrar til Amsterdam. Í ályktun þingflokks Sjálfstfl. kom skýrt fram að þingflokkurinn taldi óeðlilegt að veita slíkt leyfi á meðan opinber styrkur væri veittur til Flugleiða og reynt væri af því flugfélagi að tryggja samgöngur til og frá landinu.

Það er athyglisvert í sambandi við þá stefnu, sem mörkuð var 1973 með bréfi Hannibals Valdimarssonar og fyrir atbeina þáv. ríkisstj., þ. á m. Halldórs E. Sigurðssonar, og fólst í því, að Flugleiðum var lofað einokun í flugi til og frá landinu, að sama dag og sú stefna var mörkuð skyldi Air Viking fá leiguflugsréttindi. Þar má finna upphaf að þeim vandamálum sem hafa skapast í íslenskri flugsögu síðari tíma, því að á rústum gjaldþrota fyrirtækis reis Arnarflug. Það fyrirtæki starfaði á sínum tíma sem leiguflugfélag, en í miklum erfiðleikum sumarið 1978 fór Arnarflug fram á að eiga náin samskipti við Flugleiðir, og fyrir atbeina og jafnvel óeðlilegan þrýsting þáv. ríkisstj., þ. á m. núv. samgrh., keyptu Flugleiðir meiri hlutann í Arnarflugi. En stuttu síðar var Iscargo, fyrirtæki Kristins Finnbogasonar. veitt leyfi til áætlunarflugs til Amsterdam sem síðan hefur orðið grundvöllur fyrir því, að Arnarflug hvarf úr samfélagi við Flugleiðir og hefur nú fengið flugrekstrarleyfi fyrir atbeina hæstv. ráðherra.

Í raun og veru má segja að flugrekstrarleyfi veiti Iscargo á sínum tíma hafi verið algerlega ófyrirgefanlegt athæfi, þótt ekki væri nema af þeim sökum að það flugfélag átti þá við fjárhagsörðugleika að stríða og það var ábyrgðarhluti að afhenda fyrirtækinu flugrekstrarleyfi, enda kom það á daginn að fyrirtækið gat ekki haldið út í slíku flugi, sem aftur varð til þess að Arnarflug yfirtók þetta leyfi — með atburðum sem allir hér þekkja og hefur orðið tilefni til umr. utan dagskrár, gífurlegra blaðaskrifa, og enginn veit enn hvernig sú saga kemur til að enda. Í raun hefur því verið haldíð fram, þ. á m. af hv. 1. flm. þáltill. sem hér er til umr., að þar hafi legið að baki annarlegar hvatir, eins og t.d. þær, að Samband ísl. samvinnufélaga væri með þessum hætti að hasla sér völl í íslenskum flugmálum fyrir atbeina hæstv. ráðherra.

Ég minntist á það fyrr, að það sé kominn tími til að hv. Alþingi taki á þessum málum af festu og hér verði mörkuð flugmálastefna. Ég tel að sú till., sem hér liggur fyrir, sé eðlileg þegar af þeim sökum. Í raun og veru hélt ég að hæstv. samgrh. mundi hafa kjark og þor til þess að Leggja fyrir þingið þáltill. um stefnumótun í flugmálum. ekki síst vegna þess að í umr. utan dagskrár 11. mars s.l., fyrir rúmum mánuði, var það mál til umr. og Steingrímur Hermannsson, núv, hæstv. samgrh., spurður um þetta atriði, og var þá ekki annað að skilja en hann ætlaði að leggja fram slíka till. sjálfur. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég endurtek:“ — og þá var hann að fjalla um Iscargomálið. — „Ég leit ekki svo á að um stefnubreytingu væri að ræða í sjálfu sér“ — og þá átti hann við það þegar leyfi var veitt Iscargo á sínum tíma til Amsterdamflugsins. „Hins vegar,“ sagði hæstv. ráðh.. „vinn ég að því að fá fram verulega stefnubreytingu. ég hef aldrei farið leynt með það, og ég vildi gjarnan leggja hér fram þáltill. um stefnuna í flugmálum. Ég gæti gert það á morgun, ég er búinn að lýsa henni hvað eftir annað í ræðum.“

Hér lýkur tilvitnun í ræðu hæstv. ráðh. þar sem berlega kemur fram að hann gæti þegar honum sýndist, þegar hann teldi henta — og nefndi þá morgundaginn sem greinilega er ekki runninn upp hjá honum — að hann gæti lagt fram stefnu í flugmálum í þáltill.-formi. Þetta hefur hæstv. ráðh. ekki gert af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sem ég reyni ekki að skýra, og það er þess vegna eðlilegt að málið sé borið upp og flutt af öðrum aðilum sem telja að nú sé komið nóg af hringlandahætti hæstv. ráðh. í þessum málum.

Í raun og veru má segja að aðeins eitt hafi einkennt umfram annað aðgerðir hæstv. ráðh. í flugmálum og það sé valdagræðgi ráðh. Það er umhugsunarvert, hvernig hæstv. ráðh. reyndi að styrkja stöðu sína þegar Flugleiðir áttu í erfiðleikum á sínum tíma og þurftu á fjárhagsaðstoð að halda frá íslenska ríkinu. Þá notaði hæstv. ráðh. tækifærið til þess að efla hlut ríkisins í Flugleiðum fyrst og fremst í því skyni að fá mann kjörinn í stjórn félagsins, — mann sem hann gæti tilnefnt til viðbótar þeim manni sem fjmrn. tilnefnir í stjórnina eða hefur tilkall til á grundvelli hlutafjáreignar ríkisins. Aðalmarkmið ráðh. virtist vera að ná völdum í flugmálum þjóðarinnar fyrir atbeina fjármagns sem skattgreiðendur eiga.

Í öðru lagi hefur það verið einkenni á aðgerðum hæstv. ráðh. að opna flugið fyrir nýjan aðila, sem ekki verður skýrt öðruvísi en svo, að hann hyggist með þeim hætti ná auknum áhrifum sjálfur, eða fyrir þá aðila sem hann ber fyrir brjósti, til þess að opna leið fyrir sjálfan sig til áhrifa í íslenskum flugmálum.

Hæstv. ráðh. gerði mikið veður úr því í sinni ræðu, að hér væri verið að efna til frjálsrar samkeppni. Ég held að ekki verði hjá því komist að hrekja þessa fullyrðingu hæstv. ráðh. Hér er ekki um frjálsa samkeppni að ræða. Aðgerðir hæstv. ráðh. leiða síður en svo til frjálsrar samkeppni umfram það sem nú er þegar vegna gagnkvæmra loftferðasamninga við önnur ríki. Eins og margoft hefur komið fram eru loftferðasamningar íslenska ríkisins við önnur ríki nákvæmlega eins og allir slíkir samningar. Þeir eru með þeim hætti, að viljum við fljúga til einhverra borga eða landa, þá verðum við á móti að viðurkenna rétt þarlendra flugfélaga til að fljúga til og frá Íslandi. Þetta tryggir að sjálfsögðu frjálsa samkeppni þótt það hafi verið lítið nýtt af innlendum flugfélögum, a.m.k. í seinni tíð. En sú var tíðin að erlend flugfélög. bæði bandarísk, bresk og SAS. héldu uppi áætlunarflugi til Íslands og áttu þá í fullkominni samkeppni við íslensk flugfélög.

Þvert á móti er stefna hæstv. ráðh. sú að deila út leiðum eftir því sem honum þykir henta á hverjum tíma, en ekki að efla frjálsa samkeppni. Hæstv. ráðh. vill takmarka umsvif þess flugfélags, sem hefur verið á markaðnum. og gera það með þeim hætti að athenda öðru flugfélagi, sem honum er þóknanlegt þá stundina, flugrekstrarleyfi til ákveðinna borga. Og hann hefur lýst því yfir, að hann muni á næstunni afturkalla flugrekstrarleyfi sem Flugleiðir hafa haft til þeirra borga sem báðir aðilar geta flogið til þessa stundina.

Því miður er hæstv. ráðh. ekki staddur hér í þingsölum. Hann leyfði sér í ræðu sinni áðan að nota þær röksemdir. að hægt var að deila á Flugleiðir fyrir nokkurs konar hringamyndun. og benti í því sambandi á bílaleigu- og hótelrekstur Flugleiða. Víst er það satt og rétt. að Flugleiðir hafa haldið úti starfsemi bæði í hótelrekstri og eins í sambandi við bilaleigu og hafa lagt fjármagn sem minnihlutaaðilar í ýmis flugfélög úti á landi sem hafa haldið úti tengiflugi við flug Flugleiða út á landsbyggðina og gert með því stórgagn. En það er athyglisvert, að þegar rætt er um hringamyndun í þessu sambandi vill hæstv, ráðh. ekki kannast við að Samband ísl. samvinnufélaga sé líklega stærsti auðhringur á Íslandi. Það er ekki nóg að Samband ísl. samvinnufélaga reki hótel, eða einn af aðilum Sambandsins a.m.k.„ heldur stundar þetta fyrirtæki innflutning, dreifingu, smásölu. flutningastarfsemi, iðnfyrirtæki. ferðaskrifstofu. tryggingastarfsemi og bankaviðskipti. Hvar í heiminum mundi slík starfsemi undir einum hatti ekki flokkast undir hringamyndun, jafnvel þótt sá auðhringur hafi aðeins 25%, svo að ég noti orð hæstv. ráðh„ af markaðinum, aðeins 25–27%? Þær röksemdir hæstv. ráðh„ sem komu fram í hans ræðu, eru þess vegna einskis virði.

Þá þáltill., sem hér liggur fyrir, held ég að sé óþarfi að ræða í einstökum atriðum. Ég tel eðlilegt að hv. atvmn. skoði till. og kynni sér hana rækilega, þótt auðvitað sé erfitt að lýsa því yfir að hægt sé að afgreiða þessa till. á yfirstandandi þingi. Varðandi fyrstu tvo liðina held ég að það sé fyrst og fremst tilgangur flm. að þvinga hæstv. samgrh. til að standa við orð sín og leggja fyrir Alþingi þáltill. um stefnu í flugmálum, sem tekur af allan vafa um það hver sé stefnan, og að horfið sé frá þeim hringlandahætti, stefnuleysi, festuleysi sem hefur einkennt flugmálin í seinni tíð.

Varðandi 3. lið till. get ég tekið undir það sem bæði hæstv. ráðh. og hv. flm. sögðu og kemur fram í till., að auðvitað er það til skammar opinberum aðilum að hafa haldið verðlagningu fargjalda niðri með þeim hætti að það virðist vera stórhættulegt að fljúga með flugvélum innanlands.

Um 4. og 5. liðinn held ég að ekki þurfi að hafa mörg orð. Ég get tekið undir það sem þar kemur fram.

16. liðnum er rætt um fjárlög og flugvelli. Þar er nefnd tala sem ég hygg að þurfi að skoða betur. Kannske er óraunsætt að nefna ákveðna hundraðstölu í þessu sambandi þótt ugglaust megi gera meira í flugvallarmálum. En það, sem skiptir mestu máli varðandi þennan lið, er auðvitað að með því að laga flugvelli í landinu, gera flugvelli sem standast öryggiskröfur, er verið að efla þá byggðastefnu, þann grundvöll að byggðastefnu sem ég held að allir íslenskir stjórnmálaflokkar séu sammála um. Það er fyrst og fremst á sviði samgöngumálanna. hvort sem um er að ræða vegamál, hafnargerð eða flugvallamál, sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar eru sammála um að þurfi að starfa með þeim hætti að geti orðið grundvöllur að eðlilegri og æskilegri byggðastefnu í landinu.

Um 7. liðinn er óþarfi að fara mörgum orðum. Fyrir hv. Alþingi liggur tillaga í frv.-formi um þetta mál. Ljóst er að yfirgnæfandi meiri hluti alþm. er fylgjandi því, að byggð verði flugstöð í samvinnu við Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli í því skyni að aðskilja starfsemi millilandaflugsins og varnarstöðvarinnar. Um þetta virðast menn vera sammála. Hins vegar veldur neitunarvald Alþb. því, að hv. þm. Framsfl. virðast ekki treysta sér til að samþykkja þetta frv. á yfirstandandi þingi. Það hlýtur að vera krafa okkar alþm„ að sú till. komi úr nefnd, hv. fjh.- og viðskn. Nd„ þannig að alþjóð fái að sjá hverjir það eru sem þora að samþykkja þá till., hverjir það eru sem eru gegn till. og hverjir það eru sem þora ekki að taka afstöðu til hennar. Þetta þurfa menn að geta kynnt sér, ekki síst afstöðu samflokksmanna hæstv. utanrrh.

Um 8. liðinn er óþarfi að fjölyrða. Þar er um mikið deilumál að ræða sem sjálfsagt er að athuga.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að ræða þessa till. meira við svo búið. Ég hefði gjarnan kosið að hæstv. ráðh. hefði verið viðstaddur þessa umr. Það er nauðsynlegt að rifjað verði upp fyrir honum hér í umr., og vonandi gefst tækifæri til þess síðar í dag að krefja hann sagna um það. hvað hann hafi átt við með orðinu „morgundagur“ í ræðu sinni fyrr á þessu þingi, þegar hann sagðist vera tilbúinn jafnvel á morgun að leggja fram þáltill. um flugmálastefnu. Er morgundagur ekki kominn hjá hæstv. ráðh. eða má búast við að þessi till. sjái dagsins ljós á þessu þingi? Ég tel að gagnsemi þeirrar till., sem hér er til umr., sé fyrst og fremst fólgið í því að knýja stefnulausan ráðh. til þess að leggja fram hér á hv. Alþingi till. um það, hvernig haga eigi flugmálum í framtíðinni, en ekki verði fram haldið þeim hringlandahætti sem einkennt hefur störf hæstv. samgrh.