15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3783 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

180. mál, stefna í flugmálum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Út af síðustu orðum síðasta hv. ræðumanns ætla ég að kæta hann með því, að svona till. er ekki flutt án þess að öll höfuðatriði hennar séu borin undir sérfróða menn. Það hefur verið gert í sambandi við samningu þessarar till. og ég skal gera þessum hv. alþm. það til geðs að bjóða honum til fundar við flesta þá sem staðið hafa að gerð þessarar till. svo að hann geti rætt við þá því að ég tel þá menn, sem að samningu till. hafa staðið, mun fróðari um flugmál á Íslandi en hv. síðasti ræðumaður er. Síðan skal ég svara hans annars ágætu spurningum, sem eru ákaflega eðlilegar. og koma að þeim dálítið síðar.

Ég harma að hæstv. samgrh. skuli ekki vera hér í salnum núna því að ég á margt ótalað við þann ágæta ráðh. Ég tel t.d. að það beri vott um mikil rökþrot þegar hæstv. ráðh, leyfir sér að fullyrða að ég sé einhver sérstakur málsvari Flugleiða þótt ég hafi leyft mér að flytja hér till. um mótun opinberrar stefnu í flugmálum einfaldlega vegna þess að hún er ekki til, vegna þess að hæstv. samgrh. hefur ekki gert sér far um að móta nema stefnu í flugmálum á Íslandi, heldur hafi þvílíkan hringlandahátt í þessu máli að það verður ugglaust fært á spjöld sögunnar. En kannske er þessi hæstv. ráðh. nú að semja um einhver togarakaup eða skipa í stöður úti á landi eða eitthvað slíkt. Alla vega getur hann ekki verið viðstaddur þessa umr.

Hann sagði að ég væri málsvari Flugleiða. Ég læt mér það í léttu rúmi leggja. Ég held að Flugleiðamenn telji það ekki. A.m.k. töldu þeir það ekki þegar ég mælti gegn stuðningnum við Norður-Atlantshafsflugið.

Það er ýmsu að svara úr ræðu ráðh. sem var annars næsta innihaldslítil, og menn skyldu nú taka sig til, þegar búið er að vélrita ræðuna, og lesa hana og kanna hvað er bitastætt í henni. Það er nánast ekki neitt.

Ég er hins vegar mjög ánægður með þá umr. sem hefur farið hér fram í dag. Það sýnir m.a. að menn eiga margt ósagt um flugmál á Íslandi. Þetta er gríðarlega veigamikill og stór málaflokkur og hefur verið sinnt allt of litið á hinu háa Alþingi, eins og m.a. kemur í ljós við þessa umr.

Auðvitað sagði ráðh., eins og hans var von og vísa, að hann hefði ekki komið nálægt því máli þegar Arnarflug var nánast, að mínu mati, gabbað til að kaupa Iscargo. Þetta hefur hann sagt áður og þau orð hrjóta nú af mönnum eins og vatn af gæsum. Það tekur enginn mark á þeim. Ráðh. hefur þann hæfileika að tala eins og saklaus drengur og talar þá gjarnan þannig að hann getur verið býsna meinyrtur þrátt fyrir það og býr málin í Ljómandi skemmtilegan búning svo menn taka kannske ekki alveg eftir því hvað hann er að fara. Þetta er ugglaust kostur á stjórnmálamanni, ég efast ekkert um það.

Hann svaraði hins vegar engum af þeim spurningum sem ég bar hér fram, ekki einni einustu, gaf ekki skýringu á neinu. Hann svaraði t.d. ekki þeirri spurningu, af hverju hann teldi heppilegt að hefja þá samkeppni sem hann er að koma af stað núna, nema með því einu að segja að samkeppni væri af hinu góða. En þá hefði ég viljað spyrja hæstv. ráðh.: Af hverju hafa langflestar nágrannaþjóðir okkar komist að allt annarri niðurstöðu? Af hverju hafa Skandinavar stofnað SAS? Af hverju hafa Hollendingar stofnað KLM? Af hverju Belgar Sabina? Af hverju Vestur-Þjóðverjar Lufthansa? Þannig mætti lengi spyrja. Erum við þau viðundur í veraldarsögunni og flugmálasögu heimsins að við — 220 þús. hræður — getum stofnað til þeirrar samkeppni sem nú er verið að stofna til, en aðrar þjóðir, milljónaþjóðir. voga sér ekki að fara inn á þetta svið? Þar eru ríkisflugfélög aðalflugfélögin og til hliðar við þau eru rekin smærri flugfélög sem stunda innanlandsflug og stunda leiguflug. Þessar staðreyndir verða ekki hraktar. Það verður ekki heldur hrakið, að árið 1981 var versta ár í sögu bandarískra flugmála vegna aukinnar samkeppni. vegna aukins kostnaðar, olíukostnaðar, viðhaldskostnaðar, kostnaðar af öllu tagi. En á sama tíma erum við að stofna til þessarar samkeppni.

Ég vil í þessu sambandi minna á það sem hæstv. samgrh. segir í viðtali við Tímann fimmtudaginn 11. mars 1982 og er dæmigert um stefnu hans í flugmálum. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég sagði þeim að ég teldi eðlilegt og að ég mundi ræða um það við flugfélögin, að ef Arnarflug fengi flugleyfi á Amsterdam eftir að Iscargo hefði skilað inn flugleyfinu, þá væri eðlilegt að Flugleiðir flygju ekki á Amsterdam og Düsseldorf gegn því þá að Arnarflug flygi ekki leiguflug á Kaupmannahöfn og London.“

Hver skilur þessa endaleysu? Ekki nokkur maður. Hann er að tala um að hann þurfi að láta Iscargo skila einhverju flugleyfi á sama tíma og ég hef hér í höndunum samninga á milli íslendinga og Hollendinga, tvíhliða loftferðasamninga, sem kveða á um að það megi eins mörg flugfélög og vilja fljúga á þessum flugleiðum. Ef hv. þm. skilja þessa pólitík, skilja þessa stefnu, vildi ég gjarnan fá að heyra það.

Hæstv. ráðh. svaraði ekki heldur spurningum, sem ég bar fyrir hann, hvort ekki væri rétt að það mættu vera 2,3 eða 4 flugfélög á þessum flugleiðum samkv. þessum tvíhliða loftferðasamningum. Ég hef gengið úr skugga um að auðvitað mega vera eins mörg flugfélög og hver vill og hver ráðh. og hver ríkisstj. ákveður að úthluta leyfum til. Það er ekki um það að ræða að taka flugleyfi af einu félagi og afhenda það öðru. Það geta tvö eða þrjú verið á sömu flugleið ef þau vilja.

Ég ætla ekki að fara að svara fyrir Flugleiðir hf. um það, hvort það félag hafi seilst til áhrifa hér og þar. Auðvitað hefur félagið gert það. Það fer ekkert milli mála. En það kom líka fram í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar að þetta félag hefur gert ýmislegt fleira sem menn vilja gleyma. Það hefur stofnað til flugrekstrar úti á landi, á eignarhlut í smærri flugfélögum sem halda uppi mjög brýnni þjónustu úti á landsbyggðinni, sbr. Norðurflug. En þetta virðist gleymast. Og aðrir „einokunarhringar“, vegna þess að það varðar ekki við íslensk lög, en mundi varða t.d. við bandarísk lög, eru ekki til fyrirstöðu hjá hæstv. ráðh. þó að þeir stofni nákvæmlega sömu fyrirtækin og enn þá fleiri og á víðara sviði en hér um ræðir.

Hæstv. ráðh. sagði líka mjög merkilega setningu áðan. Hann sagði að mönnum hefði ofboðið á sínum tíma þegar Flugfélag Íslands og Loftleiðir hefðu byrjað að fljúga til Kaupmannahafnar tvær ferðir sama daginn, stundum með örfáa farþega. En hvað er hæstv. ráðh. að gera núna? Hann er að stofna til þess, að tvö flugfélög fljúgi til tveggja borga í sumar, jafnvel á sömu dögum, og með örfáa farþega. Eru ekki þversagnir í þessu? Er ekki málið það, að hæstv. ráðh. hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera eða segja?

Hæstv. ráðh. bar síðan saman skipafélög og flugfélög. Þetta er fáránlegur samanburður. Flugrekstur er einhver viðkvæmasti rekstur sem um getur. Flugrekstur er svo viðkvæmur að jafnvel einfaldar sveiflur í efnahagslífi þjóða hafa stórkostleg áhrif á þann rekstur. Það snertir mun síður skipafélög.

Ráðh. hélt því fram, sem er rangt hjá honum og má sanna á einfaldan hátt, að Arnarflug, með fullri virðingu fyrir því félagi, hygðist fljúga allt árið til Amsterdam og Düsseldorf. Á blaðamannafundi, sem þetta félag hélt fyrir skömmu, sögðu forráðamenn félagsins að fyrst um sinn yrði flogið að sumarlagi til þessara staða. Ráðh. sagði enn fremur, — og ég hefði gjarnan viljað að hann væri hér því að það er ekki nokkur hemja að ráðh. geti skotist í burtu þegar hann er búinn að ráðast hér á þm. og þeir vilja síðan svara ýmsum áburði, að hann sitji ekki hér og hlusti á það sem fram fer, — að í mínum málflutningi hefði komið nákvæmlega það sama fram og hjá Flugleiðamönnum, þ.e. samanburðurinn á íslensku flugi, og bandarísku flugi. Auðvitað berum við þetta saman vegna þess að þar er samkeppnin óheft. Það er samkeppni í þessu flugi, sem er núna að hafa þau áhrif að a.m.k. tveir tugir flugfélaga eru að fara á hausinn. Þetta geta menn lesíð ef þeir svo kjósa.

Ég ætla ekki að deila meira við ráðh. Ég held að það sé alveg ástæðulaust og heldur tilgangslítið. Engu að síður situr það eftir, að hann svaraði ekki veigamiklum spurningum sem og bar fyrir hann. Hann skaut sér undan því að svara þeim, eins og hans var auðvitað von og vísa. Ég hafði nokkuð gaman af hvernig hann hóf mál sitt, því að ég var búinn að segja við nokkra félaga mína. áður en þessi umr. hófst, að nú skyldu þeir taka eftir því, að það fyrsta, sem ráðh. segði í sinni ræðu. yrði að ég væri hér staddur sem fulltrúi Flugleiða. Og hvað gerðist? Það var fyrsta setningin. að þm. væri málsvari Flugleiða. Engir nema rökþrota menn tala svona. Ég flyt hér mál til að reyna að knýja á um að í landinu verði mótuð flugmálastefna sem ekki er til, og hæstv. ráðh. vogar sér að tala svona. Ég gæti sagt mörg orð um hverra málsvari hann er, ef ég kærði mig um. Ég hef ekki vitandi vits nefnt það á nafn einu einasta orði, ekki í eitt einasta skipti, að hann væri málsvari eins eða annars.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gerðu aths. við þessa þáltill. Þær voru efnislegar og málefnalegar og ekkert við því að segja. Það dettur engum þm. í hug, sem flytur tillögur eða frv., að þau æði í gegnum nefndir og þing athugasemdalaust, og þess vegna eru málefnalegar og efnislegar aths. við þáltill. og frv: eðlilegar og sjálfsagðar.

Það hefur verið rætt um vanda litlu flugfélaganna úti á landi. Sá vandi er auðvitað mikill sem við er að glíma, en sá vandi er þó mestur að það skortir stórkostlega á um allt öryggi flugvalla. Það er sá málaflokkur sem helst kemur í veg fyrir að unnt sé að halda uppi reglubundnu og góðu flugi á Íslandi. Það væri hægt að fjölga flugtökum og lendingum á öllum flugvöllum á Íslandi um mikinn prósentufjölda ef góð aðflugstæki, góð öryggistæki væru á þessum völlum. Svo einfalt er það mál.

Það var auðvitað hárrétt, sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði, að í umr. utan dagskrár um kaup Arnarflugs á Iscargo lofaði ráðh. flugmálastefnu sem hann sagði að hann gæti lagt fram á morgun. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég endurtek: Ég leit ekki svo á að um stefnubreytingu væri að ræða í sjálfu sér. Hins vegar vinn ég að því að fá fram verulega stefnubreytingu, ég hef aldrei farið leynt með það, og ég vildi gjarnan leggja hér fram þáltill. um stefnuna í flugmálum. Ég gæti gert það á morgun, ég er búinn að lýsa henni hvað eftir annað.“

Hvar er þessi stefna? Ég lýsi eftir þessari stefnu, hæstv. flugmálaráðherra. Hún kom ekki á borð þm. daginn eftir þessar umr. og hún er ekki komin enn þá og ég er sannfærður um að sú stefna kemur ekki fyrir þinglok, enda held ég að jafnvel flokksbræðrum hæstv. samgrh. sé farið að ofbjóða stefnuleysið og vitleysan í flugmálum hér á landi og einkum og sér í lagi eftir síðustu atburði í flugleyfamálum, sem auðvitað er annað mál, en tengist þessu þó bæði beint og óbeint og verður væntanlega upplýst, þótt enginn verði líklega dreginn til ábyrgðar. En það er subbumál og verður að upplýsa hvernig þar hefur verið að staðið.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson beindi til mín nokkrum spurningum, um 1. tölul. m, a. Ég hef svarað því. Ég sagði áðan að stefnan væri sú í nágrannalöndum okkar að byggja upp öflug flugfélög í ríkiseigu og til hliðar væru smærri flugfélög sem önnuðust leiðir innanlands og sæju um ýmis áætlunarflug. Hvað eru aðalflugleiðir innanlands? Ég held að það gefi alveg auga leið. Aðalflugleiðir innanlands hljóta að vera þær leiðir sem flestir farþegar fara með flugvélum. Til að útskýra þetta betur lít ég svo á að aðalflugleiðir séu t.d. flugleiðin til Akureyrar, Egilsstaða, Hafnar í Hornafirði, Vestmannaeyja og jafnvel Sauðárkróks og Ísafjarðar. Þetta tel ég aðalflugleiðir. Það kemur einnig skýrt fram, sem mér virðist að margir þm. hafi viljað skjóta sér á bak við, að ég tel nauðsynlegt að því flugi, sem er til hinna smærri staða, verði veitt mun meiri aðstoð en nú er. við getum aldrei komið góðu lagi á innanlandsflugmál ef við ætlum að fara að kröfu allra þeirra sem vilja að flogið sé beint frá hverjum einasta bæ og hverju einasta þorpi á landinu, þar sem flugvöllur er, til Reykjavíkur. Það dæmi gengur ekki upp og það vita allir. Um það þýðir ekki að tala.

Þm. spurði enn fremur um það, af hverju Alþfl.-menn samþykktu að eitt skilyrðið vegna aðstoðarinnar við Flugleiðir væri sala á hlutabréfum Flugleiða í Arnarflugi sem tryggði að það yrði sjálfstætt flugfélag. Ég hef aldrei nokkurn tíma mótmælt því, að Arnarflug gæti verið sjálfstætt flugfélag, það hefur ekki hvarflað að mér, enda væri slíkt brot á öllum lögum. Það getur starfað sem sjálfstætt flugfélag. En ég tel að miklir meinbugir séu á að tvö flugfélög fari að keppa um þær fáu leiðir sem við höfum yfir að ráða. Það er kjarni þessa máls.(GGÞ: Af hverju var svona áríðandi að gera það sjálfstætt?) Það var ekkert áríðandi að gera það sjálfstætt. Menn töldu hins vegar ákaflega eðlilegt, og fyrir því voru skynsamleg rök þegar þessi aðstoð kom til.. að Flugleiðir seldu hlutabréf sín í Arnarflugi. En hvað gerðist síðan? Þm. hefur ekki nefnt það. Hvað gerðist síðan? Flugleiðir eiga enn þá þessi hlutabréf í Arnarflugi, 40%. Og af hverju? Af því að það vildi enginn kaupa þau.

Mér þótti vænt um að heyra að Guðmundur G. Þórarinsson hefur allt aðra skoðun á stuðningnum við Flugleiðir en hæstv. samgrh. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson telur að þarna sé verið að endurgreiða flugfélaginu það sem það hafi lagt til þjóðarbúsins. Ráðh. hefur ævinlega og ávallt talað um þetta sem styrk til félagsins. Mér þykir mjög vænt um þetta, enda er ég sannfærður um að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er hæfari maður til að fara með flugmál en hæstv. samgrh. er. Mér finnst þetta afskaplega skynsamleg skoðun.

Hann spurði mig að því líka, af hverju ég hefði verið á móti stuðningnum við Norður-Atlantshafsflugið. Ég var á móti því, að þessi fjárhæð færi í að greiða niður farseðla fyrir útlendinga. Það var það sem ég hafði á móti. Ég hafði ekkert á móti því, að flugfélagið Flugleiðir yrði stutt sem slíkt í þrengingum, en ég taldi Norður-Atlantshafsflugið dauðadæmt. Það er það enn í dag, því miður, en við höldum áfram að greiða niður farseðla fyrir útlendinga sem nemur tugum dollara á hvern einasta farseðil. (GGÞ: Það er meira tap án þess.) Það breytir engu. Þó að það sé meira tap án þessa flugs og þó að menn geti bókhaldslega sýnt fram á það er flugið fásinna. Það er fásinna einfaldlega vegna þess m.a. — og af því að hv. þm., sem kallaði hér fram i. er verkfræðingur skilur hann tölulegar staðreyndir — að vélar félagsins fljúga þríhyrning í staðinn fyrir beina leið þannig að tilkostnaðurinn við hvert flug er margfaldur. Þetta er ein af staðreyndum málsins.

Hv. þm. talaði um að það væri þversögn í því að ég vildi berjast fyrir nýrri flugstöð á Keflavíkurflugvelli og um leið leggja niður Norður-Atlantshafsflugið. Við verðum náttúrlega að halda uppi flugi, hv. þm., á milli Íslands og Bandaríkjanna eins og annarra landa, og það er ekkert á móti því, að við höfum eina, tvær eða þrjár ferðir í viku til Bandaríkjanna ef farþegafjöldinn á milli þessara landa leyfir það. Á það að vera einhver spurning um þokkalega flugstöð í lýðveldinu Íslandi hvort við fljúgum með útlendinga á niðurgreiddum fargjöldum á milli Lúxemborgar, New. York og Íslands? Þá skil ég ekki þessa „logik“, sem ég mundi kalla „hundalogik“, vegna þess að flugstöðina verðum við að eignast hvort sem hún er stærri eða minni. Eins og kom fram þegar ég greip fram í fyrir hv. þm. er ég þeirrar skoðunar, sem ég held að hann hljóti líka að vera, að Íslendingum eigi eftir að fjölga og við þurfum að horfa til framtíðar, a.m.k. reyni ég áfram að horfa til framtíðar. M.a. þess vegna legg ég fram þessa till. hér, að mér sýnast þessi mál vera að komast í algert óefni. Og það hafa allir viðurkennt sem um þessi mál fjalla.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál. En mér þætti vænt um ef hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem er ugglaust maður þekkingarinnar í sambandi við flugmál, skilaði því til formanns flokksins, hæstv. flugmálaráðh., að það hefði verið vel þess virði að hlusta á þó ekki væri nema varaformann Sjálfstfl. og hvað hann sagði um þessa till. Hér er ekki verið að karpa um það í raun og veru, hver leggur málið fram. Við verðum að fjalla um þessi mál, eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði. Annars gerist ekkert. Annars verða flugmálin í sömu klípunni og þau hafa verið undanfarin ár, og það er engin sjáanleg breyting enn þá. M.a. þess vegna er þessi till. lögð fram: að þvinga fram umr. um þetta mál, að þvinga fram einhver viðbrögð af stjórnvalda hálfu til af reyna að koma þessum málum í það horf sem eðlilegt gæti talist.

Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því, eins og ég sagði áðan, að þessi till. flýgur hvorki frekar en aðrar — gegnum þing né nefndir, það er alveg ljóst mál, allra síst nú í þinglokin, enda hefur dregist mjög framsaga fyrir þessari tillögugerð í hv, þingi. Engu að síður hefur þessi till. þó komið af stað umr. á hinu háa Alþingi. um flugmál sem ekki hafa farið fram a.m.k. frá því ég kom hingað 1978. Ég tel því að til einhvers sé þó barist ef þessi umr. fæst fram. Ég geri enga kröfu til þess og mér hefur aldrei dottið í hug að menn gleyptu þessa till. hráa. Það er af og frá. Ég fer bara fram á að hún fái þinglega meðferð og menn geti fjallað um hana, leitað álits á henni og reynt að koma saman einhverri stefnu í þessum málaflokki. Um meira bið ég ekki. Og með þessum orðum óska ég eftir því að till. verði vísað til atvmn.