15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3797 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

40. mál, sjúkraflutningar

Frsm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn., sem fjallað hefur um till. til þál. um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga. Till. þessi, sem flutt var af hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánssyni, ásamt fleiri þm., fjallar um að fela ríkisstj. að skipa nefnd er skuli gera breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og setja inn skýr ákvæði um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga, jafnframt því sem endurskoðuð verði ákvæði um greiðslu kostnaðar við sjúkraflutninga og ferðakostnað sjúklinga þannig að þau verði einfaldari og aðgengilegri og aðstöðumunur sjúklinga í sambandi við kostnað vegna sjúkraflutnings verði jafnaður.

Nefndin fékk í umfjöllun sinni umsögn frá eftirtöldum aðilum: heilbr.- og trmrn., Tryggingastofnun ríkisins, Sambandi ísl. sveitarfélaga, dómsmrn., Rauða krossinum og slökkviliðsstjóranum í Reykjavík. Það má segja að umsagnir hafi yfirleitt verið mjög jákvæðar um þessa tillögu. Svo ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna til þessara umsagna segir í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga að „stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur samþykkt að mæla eindregið með samþykkt tillögunnar“. Í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins segir að „Tryggingastofnunin telur brýnt að sett verði með lögum ákvæði um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga í landinu“. Jafnframt kemur fram í þeirri umsögn að „stofnunin telur ljóst að núgildandi ákvæði almannatryggingalaga um þátttöku sjúkrasamlaganna í kostnaði við sjúkraflutninga og ferðakostnað hrökkvi skammt í mörgum tilvikum og megi endurskoðast“. Í umsögn Rauða kross Íslands segir m.a. að „sjúkraflutninganefnd er sammála um skipun nefndar og að æskilegt sé að lögum sé breytt í þessa átt“. Dóms- og kirkjumrn. segir m.a. í sinni umsögn: „Telur rn. tímabært að lögum nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu, verði breytt með því að setja í lögin skýr ákvæði um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga, og fagnar fram kominni þáltill. um að skipuð verði nefnd í þessu skyni“. Í umsögn slökkviliðsstjórans í Reykjavík segir m.a.: „Það er því full þörf á því, að reynt verði með lagasetningu að fá skýrari línur og gjarnan einfaldari til að þessi mikilvægi þáttur heilbrigðisþjónustunnar geti komist í betra og nútímalegra form. Undirritaður,“ segir slökkviliðsstjórinn, „lýsir því hér með stuðningi við að nefnd verði skipuð til að sem ja slík lög, helst fyrir næsta löggjafarþing, og er tilbúinn að veita yður nánari upplýsingar í viðtali“. Í umsögn heilbr.- og trmrn. segir hins vegar að nú sé unnið að endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu og í tillögum nefndar, sem að þessu vinnur, séu tekin upp ákvæði um að sjúkraflutningar verði verkefni heilsugæslustöðva og að reglur um framkvæmd og skipulagningu sjúkraflutninga verði settar af ráðh., þar með talin ákvæði um lágmarksmenntun sjúkraflutningamanna, réttindi þeirra og skyldur og búnað sjúkraflutningatækja.— Í umsögn rn. kemur fram að öll líkindi séu á að Alþingi fái tækifæri til að fjalla um þessi mál fljótlega, þ.e. um endurskoðun heilbrigðisþjónustunnar, og þá þegar að loknu páskafríi.

Frv. þetta er nú ekki komið fram, en nefndin taldi að með tilliti til þeirra upplýsinga, sem frá heilbrrn. hafa komið um hversu langt endurskoðun þessara laga er þegar komin, og ákvæða, sem þar eru, væri eftir atvikum rétt að vísa þessari till. til ríkisstj. Það er þess vegna till. allshn. að umræddri þáltill. verði vísað til ríkisstj., en jafnframt bendir allshn. á þær jákvæðu umsagnir sem till. hefur fengið.