15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

53. mál, upplýsinga- og tölvumál

Frsm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um 53. mál. till. til þál. um stöðu. þróunarhorfur og stefnumótun í upplýsinga- og tölvumálum. 1 flm. er hv. 3. þm. Vesturl., en með honum standa fleiri þm. að tillögunni.

Allshn. hefur fjallaðu um þessa till. og nál. er á þskj. 606. Þar kemur fram að nefndin hefur fjallað um þessa till. á fundum sínum og fengið umsagnir frá Iðntæknistofnun. BSRB. Sambandi ísl. bankamanna, ASÍ, Félagi bókagerðamanna og Félagi ísl. iðnrekenda. Nefndin leggur til að till. verði samþykkt með breytingum sem hún flytur á sérstöku þskj. fjarstaddir afgreiðslu voru hv. þm. Halldór Blöndal og Steinþór Gestsson.

Umsagnir voru yfirleitt mjög jákvæðar um þessa till. þó nokkrir umsagnaraðilar teldu að nákvæmar þyrfti að koma fram markmið till. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta. lítillega koma inn á nokkur atriði í umsögnum.

Í umsögn Félags bókagerðarmanna segir m.a. að „Félag bókagerðarmanna fagnar því að fram skuli komin till. til þál. um stöðu, þróunarhorfur og stefnumótun í upplýsinga- og tölvumálum.“

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir að miðstjórnin telji mjög æskilegt og nauðsynlegt að fram fari slík könnun sem till. gerir ráð fyrir.

Í umsögn Sambands ísl. bankamanna segir m.a.: „Samband íslenskra bankamanna fagnar fram kominni till. til þál. um stöðu, þróunarhorfur og stefnumörkun í upplýsinga- og tölvumálum og telur mjög tímabært að taka mál þessi til rækilegrar umfjöllunar í þjóðfélaginu.“

Í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja segir m.a.: „Stjórnin telur að skipun nefndar eins og gert er ráð fyrir í þáltill. og að gerð verði úttekt á stöðu og þróunarhorfum í þessum málum sé tvímælalaust tímabært.“

Í umsögn Iðntæknistofnunar Íslands segir m.a. að „stjórn ITÍ telur að fram komin till, sé góðra gjalda verð, en gangi ekki nægilega langt. ITÍ leggur því til að í stað þess að láta fara fram einfalda athugun á stöðu og þróunarhorfum verði skipuð nefnd eða starfshópur er leggi fram samræmdar tillögur um hvaða aðgerðir, aðstoð eða þjónustu skuli veita af opinberri hálfu á þessu sviði.“

Í umsögn Félags ísl. iðnrekenda segir m.a.: „Félag íslenskra iðnrekenda telur jákvætt að skipuð verði nefnd til að kanna stöðu upplýsinga- og tölvumála. Nauðsynlegt er hins vegar að verkefni nefndarinnar verði betur skilgreind en fram kemur í þáltill.

Eins og fram kom í máli mínu fyrr, leggur allshn. til að þáltill. verði samþykkt með brtt. sem nefndin flytur á sérstöku þskj., þskj. 607. Allshn. leggur til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd er geri athugun á stöðu og þróunarhorfum í upplýsinga- og tölvumálum og á hvern hátt unnt er að stjórna þeirri þróun.

Jafnframt skal nefndin benda á kosti varðandi stefnumótun og opinbera ákvarðanatöku á fyrrgreindu sviði. Sérstaklega skal athuga hvernig vinnumarkaðurinn geti aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu.

Nefndin skal við störf sín hafa hliðsjón af þeirri vinnu og þeim skýrslum sem þegar kann að vera lokið hérlendis og erlendis.

Skal nefndin skila niðurstöðum og tillögum fyrir árslok 1982.“

Jafnframt er rétt að fram komi það sjónarmið. sem nokkuð var rætt í nefndinni, að nefndarmenn töldu æskilegt að helstu samtök launþega ættu aðild að þessari nefnd.