15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

210. mál, slysa-, líf- og örorkutryggingar björgunarmanna

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir mál 1. flm. þessarar till„ hv. þm. Péturs Sigurðssonar, 1. landsk. þm., með nokkrum orðum, bæði af því ég tel að hér sé þörfu málefni hreyft og hinu, að við megum ekki gleyma sögunni, brautryðjendunum og baráttu þeirra.

Hið hörmulega slys, sem varð við Vestmannaeyjar í vetur er belgíski togarinn Pelagus strandaði og tveir erlendir sjómenn og tveir björgunarmenn þeirra drukknuðu, varð með öðru kveikjan að flutningi þessarar till. Sú gæfa hefur fylgt skipulögðu björgunarstarfi hér við land, að þetta er fyrsta dauðaslys sem verður við starf skipulagðra björgunarsveita frá byrjun.

Slysavarnafélag Íslands hefur lengst af verið öflugasti hlekkurinn í björgunar- og slysavarnakeðjunni, en ég vil nota þetta tækifæri til að minna á að vísu veikari, en eldri hlekk, sem enn heldur þrátt fyrir háan aldur og mikla reynslu og er undanfari Slysavarnafélagsins og íslensku landhelgisgæslunnar. Það er Björgunarfélag Vestmannaeyja. Það var björgunarsveit þess sem ásamt hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum vann að björgun áhafnarinnar á Pelagusi.

Það hefur alltaf verið stormasamt við Vestmannaeyjar og sjósókn lengst af verið erfið og hættuleg vegna erfiðra hafnarskilyrða, boða og blindskerja í kringum eyjarnar. Til að vel mætti fara hefur hún eflt með mönnum skynsamlega forsjá, harðfengi, snarræði og aukið þeim kjark og þrek.

Upp úr aldamótunum, þegar vélbátarnir komu til sögunnar, varð sjósókn enn harðari og djarflegri en áður. Menn þóttust geta boðið ægi byrginn á vélbúnum fleytum sínum, sem flestar voru smáar, frumstæðar og vanbúnar að öllu leyti. Bilanir á vélbúnaði voru tíðar því þekking og æfing í meðferð var af skornum skammti. Slys voru því mjög tíð og mannskaðar miklir. Á sama tíma jókst mjög sókn útlendinga á miðin hér við land svo að víða jaðraði við örtröð og yfirgangur þeirra og frekja við heimamenn urðu mjög áberandi og lítt þolanleg. Við þessar aðstæður varð Vestmanneyingum ljóst að ekki var á aðra en sjálfa sig að treysta um björgunarstarfsemina og strandvörnina. Verkefnið var ærið við að verja fjör og fé íbúanna fyrir ágangi náttúruaflanna og yfirgangi þessara óboðnu og óvelkomnu gesta, og máttinn til framkvæmdanna fundu menn hjá sjálfum sér.

Það var Hjalti Jónsson skipstjóri, nefndur Eldeyjar-Hjalti, sem fyrstur hreyfði því á þingmálafundi að nauðsynlegt væri að fá björgunarskip til Eyja. Það voru hin tíðu slys, sem fylgdu vélbátaútgerðinni, sem vöktu menn til alvarlegrar umhugsunar um björgunarstarfsemina. Manntjónið, eignatjónið og atvinnutjónið, sem bátstöpunum fylgdu, voru svo ægileg að ekki varð hjá því komist að reyna að ráða á því einhverja bót.

Á þessum tíma töpuðust flestar vertíðir einn og tveir bátar frá Vestmannaeyjum og stundum með allri áhöfn. Mönnum blöskraði sú aðferð, sem oftast varð að nota í neyðinni, að biðja sjóhrakta menn, sem nýsloppnir voru úr háskanum á illa búnum smábátum, að fara aftur út í illviðri og náttmyrkur til að leita að bát sem hafði ekki náð landi. Mönnum hefur oft verið óljúft að biðja þeirrar bónar, en hinum, sem beðnir voru, var enn meiri vandi á höndum og illt að neita því öllum var ljóst um hvað gat verið um að tefla. Til dæmis um ofurkapp og harðfylgi formanna þessara tíma er mér í huga lýsing gamals sægarps, sem ég heyrði einu sinni, af því þegar hann fékk sjó á litinn og gangtregan súðbyrðing sinn við Eyjar, en lýsing hans var á þessa leið: Ég keyrði eins og ég gat, en hann náði mér samt.

Hinn 11. júní árið 1918 var samþykkt svohljóðandi þál. um heimild fyrir landsstjórnina til þess að veita fé til að kaupa björgunarbát:

„Alþingi ályktar að heimila landsstjórninni að veita sveitarfélagi, fiskifélagsdeild eða félagi einstakra manna í Vestmannaeyjum, sem ræðst í að kaupa björgunarbát, allt að 40 þús. kr. styrk í þessu skyni, þó ekki fram yfir þriðjung kostnaðar.

Styrkveitingin er þó því skilyrði bundin, að stjórnarráðið úrskurði ágreining, sem verða kann út af björgunarlaunum til bátsins, og leggi samþykki á allar ákvarðanir um gerð bátsins, útbúnað hans, björgunarsvæði, dvalarstað og vinnubrögð á vertíð eða þegar ætla má að hann þurfi tiltækur að vera til björgunar.“

Björgunarfélag Vestmannaeyja var síðan stofnað á þessu sama ári fyrir forgöngu Karls Einarssonar alþm., en fyrsti erindreki þess var Sigurður Sigurðsson lyfsali frá Arnarholti, landskunnur maður fyrir skáldskap og atgervi allt. Félagið keypti björgunarskipið Þór, sem kom til landsins 26. mars árið 1920, og var það um leið fyrsta strandgæsluskip þjóðarinnar og vísir að íslenskri landhelgisgæslu.

Það varð almennur fögnuður í Eyjum þegar skipið, sem svo lengi hafði verið þráð og beðið eftir, kom til heimahafnar. Skipið varð að ómetanlegu gagni meðan það var gert út frá Eyjum, bæði við björgun og strandgæslu, og víst er að fjölskyldum sjómanna varð hugarhægra að vita af „gamla Þór“ á vaktinni þegar stórviðri geisuðu og bátar lágu úti. Árangur þessa gamla skips sannaði og sýndi landsmönnum að strandgæslan varð að vera íslensk — svo miklu betur dugði það óvopnað en danskar freigátur og slagskip þótt með alvæpni væru.

Björgunarfélagið lenti í miklum erfiðleikum með útgerð skipsins, bæði vegna þess að leggja varð því milli vertíða fyrstu árin, þar sem ríkið vildi ekki leigja það þann tíma til strandgæslu, og hins, að það slitnaði frá bryggju í Reykjavík og varð fyrir miklum skakkaföllum.

Þó var sektarfé þeirra skipa, sem Þór tók í landhelgi það tímabil sem hann var í eign björgunarfélagsins, miklu hærri upphæð en útgerðarkostnaði og afborgunum skipsins nam á sama tíma, en það fé rann beint í ríkissjóð. Urðu björgunarfélagsmönnum mikil vonbrigði er þeir neyddust til að selja skipið ríkissjóði árið 1926, aðeins fyrir yfirtöku á áhvílandi skuld, en þar með hófst fyrir alvöru strandgæsla íslenska ríkisins. Hluthafar í félaginu fengu aldrei arð af framlögðu hlutafé né það endurgreitt við sölu skipsins. Bæjarfélagið fékk heldur ekkert í sinn hlut.

Stjórn félagsins varð að ábyrgjast persónulega skuldbindingar þess, og var það því oft ekkert smáræði sem á henni hvíldi. Ríkið hafði aftur á móti rúmlega hálfa milljón í tekjur af fyrirtækinu. Vestmanneyingar litu þó ekki svo á að þetta fé hefði tapast. Björgunarstarfsemi er þess eðlis, að hún verður ekki metin til fjár. Arðurinn var í því fólginn að tryggja líf sjómanna, eignir þeirra og atvinnu. Mannskaði verður ekki metinn til fjár, hvorki dýrleiki þeirra, sem deyja, né harmur sá, sem eftir þá býr. Hér er fagurt vitni um brautryðjendurna sem lögðu allt í sölurnar til að leysa brýnan vanda samfélags síns. „Gamli Þór“ var seldur, en Björgunarfélag Vestmannaeyja starfar enn og gegnir sínu hlutverki með sæmd.

Því rifja ég þessa sögu upp hér að ekki er ástæða til að minning þeirra manna, sem brautina ruddu, falli í gleymskunnar dá þegar fjallað er um björgunar- og slysavarnamál hér á Alþingi.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á að við höfum fiskveiðasamninga við nokkrar erlendar þjóðir, en því miður er svo háttað að mörg þau skip, sem hingað koma, eru mjög vanbúin til veiða við landið. Vil ég — með leyfi herra forseta — lesa smápistil úr grein sem skrifuð var af kunningja mínum í blað úti í Vestmannaeyjum. Hann segir hér:

„Síðan hinir hörmulegu atburðir áttu sér stað austur á Urðum í jan. s.l. hef ég iðulega spurt sjálfan mig þeirrar spurningar, hvort útlend skip séu nógu vel búin öryggistækjum. Nú hugsar einhver sem svo: Eigum við ekki nóg með okkur sjálf? Málið er ekki svo einfalt. Okkur koma allir sjófarendur hér við land við. Ég hjó eftir því í fréttum af téðum atburði, að ekki var hægt að láta falla vegna þess að spilið var ónothæft. Það er ekki einkamál útlendinga, sem stunda veiðar hér við land, hvernig þeir eru búnir björgunar- og hjálpartækjum. Það hefur sýnt sig. Við eigum að gera þær kröfur til þessara skipa, að þau lúti reglum íslensku Siglingamálastofnunarinnar, ef þau ætla að stunda fiskveiðar hér. Eftirlit með að þessum ákvæðum sé fylgt er einfalt. Skipin verða að tilkynna sig þegar þau koma að landinu. Þá er annaðhvort að senda varðskip til móts við þau eða kalla skipið til næstu hafnar þar sem fram færi athugun á því hvort það fullnægði settum reglum. Það er staðreynd, að því miður eru þessi skip svo vanbúin að þau valda ekki eingöngu eigin mönnum mikilli hættu og háska, heldur og íslenskum sjómönnum hvað eftir annað, og ég tel að hér sé mál sem þarf að skoða.“

Ég hvet eindregið til þess, að við samþykkjum þá till. sem til umr. er. Það eru ríkar ástæður til að styðja enn frekar en nú er það mikla og óeigingjarna sjálfboðaliðastarf sem unnið er af óþreytandi björgunar- og hjálparsveitarmönnum og slysavarnafólki um land allt. Margar björgunar- og hjálparsveitirnar vantar nauðsynlegan búnað og tæki til að tryggja lágmarksöryggi félaga sinna við áhættusöm störf og æfingar. Þær vantar peninga til að geta veitt mönnum sínum þá þjálfun og reynslu sem nauðsynleg er þegar á reynir. Við getum stutt þetta starf með því að tryggja sveitunum lágmarkstekjur og með því að auðvelda þeim að verða sér úti um nauðsynleg tæki og búnað, en búnaður sveitanna er oft mjög dýr ef vel á að vera að þeim búið.

Við getum létt innflutningsgjöldum af ýmsum þessum búnaði, því hér er ekki um lúxusvarning að ræða, heldur nauðsynjar. Margt ungt fólk eyðir nú öllum frístundum sínum í þágu þessara sveita við þjálfun og við að afla fjár til rekstrar þeirra. Þetta fólk er ávallt viðbúið til starfa við erfiðustu og verstu skilyrði og leggur ekki aðeins líf og limi í hættu við björgun, heldur líka við æfingar og þjálfun. Má þá minna á þegar hjálparsveit skáta úr Vestmannaeyjum missti einn af sínum ágætustu félögum við leitaræfingu á Eyjafjallajökli fyrir fáum árum.

Við, sem höfum notið þjónustu almannavarna og þeirrar skipulögðu björgunar- og slysavarnastarfsemi sem er í landinu, metum gildi þess og skiljum þörfina fyrir það. Sá skilningur þarf að breiðast úr sem víðast og verða sem almennastur og alls staðar til í þjóðfélaginu.

Starfsmenn íslenskra almannavarna hafa unnið gott starf hér heima og getið sér gott orð erlendis sem hæfir skipugeggjarar.

Herra forseti. Ég ætla að lokum að kasta hér fram hugmynd, sem e.t.v. er ekki miklu óraunhæfari en margar aðrar sem fram hafa komið úr þessum stól. Stofnum úrvalssveit okkar vösku björgunar- og leitarsveitarmanna, sem yrði þá undir stjórn almannavarna. Búum þá vel úr garði og sendum á þá staði sem náttúruhamfarir hafa orðið á eða stórslys, eins og jarðskjálftar, flóð, eldgos og önnur óáran. Veitum sjálfboðaliðsstarfinu verðuga viðurkenningu með því að skapa ákveðnum hóp tækifæri til að nota kunnáttu sína og þjálfun öðrum þjóðum til hjálpar og fást við erfið viðfangsefni og öðlast um leið margháttaða reynslu og þekkingu sem gæti hvenær sem er orðið okkur að góðu gagni hér heima. Slíkur hópur gæti áður en langt um liði orðið okkar þarfasti og viðurkenndasti farandsendiherra.