15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

250. mál, atvinnumál á Raufarhöfn og Siglufirði

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef ásamt alþm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, hv. 5. landsk. þm., og Lárusi Jónssyni, hv. 3. þm. Norðurl. e., flutt till. til þál. þess efnis, að Alþingi kjósi sjö manna nefnd til að gera úttekt á atvinnumálum Raufarhafnar og Siglufjarðar með hliðsjón af þeim breyttu viðhorfum sem hrun loðnustofnsins hefur valdið. Niðurstöður nefndarinnar ásamt tillögum um nýja atvinnuuppbyggingu skulu lagðar fyrir ríkisstj. svo fljótt sem verða má og kynntar alþm. Gert er ráð fyrir að kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Eins og nú standa sakir virðist augljóst, að ekki komi til þess, að meiri loðna fáist úr sjó á þessu ári. Það hefur að sjálfsögðu mjög alvarlegar afleiðingar á þeim stöðum þar sem loðnuvinnsla hefur verið verulegur þáttur í atvinnulífinu, og á það kannske einna helst við um Raufarhöfn og Siglufjörð. Ljóst er að ef ekkert annað kemur í staðinn mun koma til alvarlegs atvinnuleysis á þessum stöðum, og jafnvel er við því að búast að fólk flytji þaðan búferlum hópum saman.

Um svipað leyti og þessi till. kom fram var þetta mál tekið upp í bæjarráði Siglufjarðar, og hinn 22. mars s.l. skrifaði bæjarstjórinn þar sjútvrh. bréf þar sem farið var fram á að skipuð yrði nefnd til að gera tillögur um hvernig unnt sé að nýta mannvirki Síldarverksmiðja ríkisins og aðstöðu til annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar norður þar. Sú nefnd hefur verið skipuð. Þá hefur Siglufjörður jafnframt ritað félmrn. bréf þar sem óskað er samstarfs ríkis og Siglufjarðar um tillögur til úrbóta og ráðstafanir vegna hins alvarlega atvinnuástands bar.

Ég hafði í dag tal af bæjarstjóranum á Siglufirði og var í rauninni ekki annað af þessu að frétta, en á hinn bóginn liggur það alveg ljóst fyrir að Siglufjörður hefur orðið fyrir og verður fyrir mjög alvarlegum búsifjum. Þannig hafa um 64% af tekjum hafnarsjóðs komið frá loðnuflotanum eða um 876 þús. kr. og verulegur hluti af tekjum vatnsveitunnar og sömuleiðis rafveitunnar stafar af loðnuvinnslunni. Ljóst er að á Siglufirði mun stöðvun síldarverksmiðjanna draga máttinn úr þjónustufyrirtækjum sem sett hafa verið á laggirnar vegna loðnuflotans. En eins og nú standa sakir er atvinnuleysi á Siglufirði vegna samdráttar hjá Siglósíld. Þar er nokkur óhugur í mönnum, þar sem þeim er ekki ljóst hvað framtíðin ber í skauti sér, og við því er jafnvel búist að uppsagnir í síldarverksmiðjunni haldi áfram.

Þetta mál er sem sagt komið nokkuð áleiðis. Á hinn bóginn hefur ekki komið til neinna afskipta af atvinnumálum á Raufarhöfn. Að vísu er haldinn fundur þar í kvöld til að ræða atvinnumálin milli sveitarstjórnarmanna og manna úr Síldarverksmiðjum ríkisins og annarra þeirra sem að atvinnumálum standa á Raufarhöfn.

Okkur þm. Norðurl. e. hefur borist bréf frá sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps, sem jafnframt var sent sveitarstjórn, atvinnumálanefnd og hafnarnefnd, og þar er gerð grein fyrir því, hvaða áhrif stöðvun loðnuveiða hefur á sveitarsjóð Raufarhafnar. Þar er gert ráð fyrir að opinber gjöld lækki samtals um 1 184 kr., sem er auðvitað verulegt fé fyrir svo lítið sveitarfélag. Í því sambandi tekur sveitarstjóri fram að hluti samdráttar mundi koma fram á árinu 1982, en annað ekki fyrr en á árinu 1983, aðstöðugjald og landsútsvar. Sennilega kæmi 600–700 þús, kr. tekjurýrnun fram á þessu ári, en um 500 þús. á því næsta.

Síðan segir í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta: „Ljóst er að um mjög alvarlegan samdrátt verður að ræða í tekjum sveitarsjóðs, ef um stöðvun loðnuvinnslu verður að ræða næstkomandi vetur, sem nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir ég íhugi hvernig bregðast megi við ef svo illa fer. Nú kann svo að fara, að um meiri eða minni samdrátt verði að ræða í loðnuveiðum, og horfir þá málið öðruvísi við, en eftir sem áður getur það verið afdrifaríkt fyrir Raufarhöfn hvernig mál þá þróast. Líkur benda til þess, að veiðar yrðu stundaðar á færri og stærri skipum, en þau skip væru mörg eða flest í eigu eða á snærum aðila sem reka bræðslur sjálfir. Eru þá líkur á því, ef veiðum yrði ekki stjórnað með hagsmuni staða eins og t.d. Raufarhafnar og Siglufjarðar í huga, að sú vinnsla, sem yrði, flyttist í auknum mæli til þeirra staða sem eiga skipin eða reka. Stjórnun veiða yrði því að miðast ekki síður við vinnslustaði en skip. Enn má benda á að ef veiðiflotinn stækkar, þ.e. skipin, orsaka grynningar í innsiglingu vandamál fyrir stærstu skipin, en sú dýpkun hefur ekki komið til framkvæmda þrátt fyrir miklar umræður.

Ekki hef ég rætt um það áfall sem atvinnulífið á staðnum verður fyrir ef til stöðvunar eða verulegs samdráttar kemur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Um 40 manns mundu missa störf þar á vinnslutíma í 4–6 mánuði, og er þá unnið á vöktum allan sólarhringinn þannig að verið er öllu frekar að tala um 6–8 mánaða venjulega vinnu eða 25 til 30 ársstörf a.m.k. Auk þessa er mikil önnur vinna og þjónusta í kringum svona fyrirtæki: hafnarvinna, akstur, iðnaðarþjónusta, verslun við síldarverksmiðjur ríkisins og flotann o.s.frv. Fyrir byggðarlag með 470 íbúa er hér um stórmál að ræða og sýnir, eins og bent hefur verið á áður, á hve veikum en fyrst og fremst fáum fótum atvinnulíf staðarins stendur.“

Þetta var tilvitnun í bréf sveitarstjórans á Raufarhöfn til þm. kjördæmisins.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri. Við gerum okkur náttúrlega grein fyrir að það er ekki aðeins að það fólk, sem hefur unnið við Síldarverksmiðjurnar, eigi yfirvofandi að verða atvinnulaust, heldur virðist það blasa við, að þótt það fái aðra atvinnu í staðinn muni tekjurnar dragast mjög mikið saman, bæði hjá því fólki, sem vinnur við loðnuvinnsluna, og raunar einnig hjá sjómönnum. Á hinn bóginn var hér í dag lagt fram enn eitt skattafrv. sem gerir ráð fyrir að einmitt fólk af þessum toga, sem hafði vinnu sína við loðnuvinnsluna, skuli greiða allt upp í 70% af tekjum sínum til hins opinbera á þessu ári, og mun það koma með tvöföldum þunga á síðari hluta ársins og enn valda þessu fólki miklum erfiðleikum við að standa í skilum af mun minni tekjum en áður til hins opinbera. Þetta áfall kemur þess vegna ekki aðeins við sveitarfélögin sjálf, ekki aðeins við atvinnufyrirtækin á staðnum, heldur einnig við fólkið sem verður að láta sér nægja minni tekjur en áður og greiða þó hærri skatta. Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt ástand.

Nú má auðvitað hugsa sér að standa að tillögum til úrbóta með margvíslegum hætti. Ég tel eðlilegast að þm. kjördæmanna, þm. þessara staða, Siglufjarðar og Raufarhafnar, hafi aðstöðu til þess að fylgjast náið með málum og hvernig þessum athugunum miðar áfram og tillögugerð. Þess vegna hef ég ásamt þeim þm., sem ég áður greindi frá, Eyjólfi Konráð Jónssyni og Lárusi Jónssyni. lagt til að Alþingi kjósi sjö manna nefnd til að gera tillögur um hvernig reynt verði að draga úr því áfalli sem atvinnulífið á Raufarhöfn og Siglufirði hlýtur að verða fyrir á þessu ári.

Ég vil svo mælast til þess, herra forseti, að fjvn., sem ég geri ráð fyrir að þetta mál fari til, sjái sér fært að afgreiða málið þegar í stað þannig að það fái afgreiðslu á þessu þingi, svo að hægt verði að kjósa þessa nefnd fyrir þinglok. Með því mundi Alþingi lýsa yfir að það telur það samfélagsins að standa undir skell af þessu tagi, sem einstök byggðarlög verða undir, og að þjóðfélagið eigi að koma þar til hjálpar. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. fjvn. afgreiði þetta mál skjótt og vel og þannig að til nefndarkosninga geti komið strax á þessu ári.

Ég vil sem sagt leggja til að málinu verði vísað til fjvn.