15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

254. mál, sparnaður í olíunotkun fiskiskipa

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 533 höfum við Stefán Guðmundsson, Guðmundur Bjarnason og Jóhann Einvarðsson flutt till. til þál. um sparnað í olíunotkun fiskiskipa, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta rannsaka hvað draga megi úr olíunotkun fiskiskipa með breyttu byggingarlagi og þá jafnframt hvort hagkvæmt verði að gera breytingar á þeim skipum sem nú eru í notkun.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér, hversu alvarlegt áfall það var fyrir íslenska útgerð þegar olía hækkaði stórlega í verði á síðasta áratug, þar sem hún varð þá mjög stór liður í útgerðarkostnaði. Það mun hafa verið rætt um hvað hægt væri að gera til að draga úr þessum mikla kostnaðarlið. Það, sem helst hefur verið gert hér á landi, er að breyta úr brennslu gasolíu yfir í svartolíu á togurunum og fleiri skipum, og hefur það orðið til að lækka mjög útgerðarkostnað margra þeirra. En eins og fram kemur í grg. og fskj. með þessari till. er hér bent á aðra leið, þ.e. hvort ekki megi breyta byggingarlagi skipanna þannig að orkueyðslan verði minni og um leið verði sjóhæfni og veiðihæfni skipanna bætt.

Í fskj. með till. er áætlun frá tveim tæknifræðingum, þeim Sigurði Ingvasyni og Sigurði Arasyni, um hvernig hugsanlegt væri að breyta byggingarlagi skipa þannig að ganghraði þeirra yrði meiri og orkueyðslan minni. Vísað er til þeirrar reynslu sem fengin er af togaranum Ottó N. Þorlákssyni, en það var Sigurður Ingvason sem hannaði það skip. Reynslan af því bendir ótvírætt til þess, að það byggingarlag, sem á því er, hafi þessi áhrif. Olíunotkun á úthaldsdag varð miklu minni hjá því skipi en öðru sambærilegu, þ.e. Jóni Baldvinssyni, en þó mun munurinn hafa orðið miklu meiri á olíunotkun á hvert tonn afla, og vitanlega skiptir það mestu máli. Ástæðan fyrir því er sú, að með þessu byggingarlagi verður togkraftur skipsins meiri þannig að það getur bæði dregið í verri veðrum, verið lengur að og hraðinn verður meiri þannig að meiri afli verður á hvern togtíma.

Það skiptir vitanlega mestu máli að þetta verði athugað rækilega, eins og gert er ráð fyrir í tillgr., með það í huga að þau skip, sem framvegis verða smíðuð, verði með sem heppilegustu byggingarlagi. En þeir Sigurður Arason og Sigurður Ingvason hafa einnig gert tillögu um að athugað verði hvort ekki sé hagkvæmt að breyta byggingarlagi þeirra skipa sem nú eru í notkun og líkur eru til að verði um allmörg ár enn. Eins og við vitum eru margir togarar í íslenska flotanum fárra ára gamlir og munu þess vegna verða notaðir alllengi enn. Þá er æskilegt ef hægt væri að gera útgerð þeirra hagkvæmari. Reynsla af þessu mundi fást ef gerð væri tilraun með breytingar á líkani af einum þeirra, þar sem þá ætti að vera hægt að nota að miklu-leyti niðurstöður af þeim tilraunum við smíði fleiri skipa.

Við flm. teljum, að hér sé mjög mikilvægt mál að taka til athugunar, og væntum þess, að Alþingi sé okkur sammála um það og samþykki þessa tillögu.

Þegar þessum hluta umr. lýkur legg ég til að till. verði vísað til atvmn.