16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3817 í B-deild Alþingistíðinda. (3299)

264. mál, tollheimta og tolleftirlit

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er kannske rétt, svona til tilbreytingar, að ég hefji mál mitt á að fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram þetta frv. um svonefnda tollkrít. Það er ekki allt of oft sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa ástæðu til þess að fagna málflutningi hæstv. ríkisstj. Að vísu hafa ýmsir aðilar, svo sem forustumenn iðnaðarins, verið með efasemdir út af þessu máli, sjálfsagt vegna ótta um að framkvæmdin yrði þannig að samkeppnisstaða útlendinga batnaði á íslenskum markaði við það að tollkrít yrði leyfð. En ég held að það séu ekki haldgóð rök í þessu máli. Yfirleitt er það svo í öllum vestrænum löndum, að það er ekki litið á tolla sem einhvers konar innflutningshöft eða landamæramúra. Þeir eru fjáröflunartæki viðkomandi ríkisstjórna, og það er leitast við að þeir leggist á, á hliðstæðan hátt og neytendaskattar yfirleitt, um það leyti sem neytandinn kaupir vöruna. Þessari meginhugmynd, sem er á bak við tollkrítina, er ég fylgjandi.

En það verður því miður að segjast um þetta mál, að ýmislegt við framlagningu þess sver sig í ætt við núv. hæstv. ríkisstj. Í fyrsta lagi er það svo, að fyrir liggur í Nd. frv. sama efnis frá einstökum þm. Það hefði því verið a.m.k. þingleg kurteisi af hæstv. ríkisstj. að leggja þetta frv. fram í þeirri sömu hv. deild þannig að það gæti þá komið til sömu hv. nefndar og fjallar um þetta mál í Nd. En nóg um það.

Hæstv. ráðh. hafði hér ótal fyrirvara á því, að hann mundi framkvæmda þetta mál, jafnvel þótt það yrði að lögum á vormánuðum, eins og hann orðaði það. Mér hefur skilist á hæstv. ríkisstj. að það væru ekki margir vormánuðir eftir af störfum Alþingis. Þetta vekur grunsemdir um að hæstv. ráðh. sé í hjarta sínu ekki mjög hrifinn af þessu máli og ætlist ekki til að það hljóti raunverulega afgreiðslu á þessu þingi, hvað þá að það komi til framkvæmda þó að það hljóti afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Samt sem áður hefur hæstv. ráðh. þegar lagt á ákveðinn skatt til þess að standa straum af tekjutapi ríkissjóðs af þessari tollkrít sem í rauninni er ekki nema tímabundið tekjutap. Hann sagði að tollkrítin mundi einfalda tollmeðferð vara og gera hana ódýrari. Ég er innilega sammála hæstv. ráðh. að þessu leyti. En því miður hefur hann farið þá leið og hæstv. ríkisstj. að leggja á tollafgreiðslugjald í blóra við það að ríkissjóður tapi tekjum vegna tollkrítar sem ekki á að koma til framkvæmda fyrr en kannske eftir ár eða mörg ár. Þá er tollafgreiðslan svo flókin að mér skilst að hún tefjist dögum og vikum saman vegna þess að menn hafi ekki í annan tíma á Íslandi lent í annarri eins skriffinnsku og flóknum afgreiðslum. Er þá langt til jafnað, þegar á Íslandi hefur ekki verið önnur eins flókin meðferð í slíkum efnum og er um tollafgreiðslugjaldið.

Það er kannske rétt að vekja athygli á því, að tollkrítarmál það, sem þetta frv. fjallar um, hefur verið lengi á dagskrá og um það var gefið eitt af fyrstu loforðum núv. hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðherrar tóku mjög ákveðið til orða um það efni hér á hinu háa Alþingi skömmu eftir myndun núv. hæstv. ríkisstj. Þá sagði hæstv. forsrh. efnislega að frv. um þetta efni mundi koma fyrir haustþing. Þetta sagði hæstv. ráðh. ekki á s.l. ári, heldur á árinu 1980, nánar tiltekið 29. maí 1980, um framlagningu frv. um þetta efni sem við erum nú að sjá fyrst frá hæstv. ríkisstj. eftir tvö ár, með þeim fyrirvörum sem hæstv. fjmrh. hafði. Hann sagði þetta 29. maí 1980. Og hæstv. fjmrh. sagði þá orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, á hinu háa Alþingi:

„Það þarf að velja hentugan tíma á árinu til að tryggja að ríkissjóði komi það ekki mjög illa að verða af tekjum, þegar þessi skipan er upp tekin, og ekki sé þá á sama tíma verulegur hallarekstur á ríkissjóði eða skuldaaukning hjá Seðlabankanum. Af þessum ástæðum hef ég dregið þá ályktun, að hyggilegast mundi vera að taka upp nýtt skipulag af þessu tagi fremur á síðari hluta árs en fyrri hluta árs.

En ég sem sagt ítreka það sem ég hef þegar sagt, að ég tel sjálfsagt að þetta mál verði gaumgæfilega athugað á næstu vikum og nú í sumar undirbúið fyrir komandi þing að hausti.“

Þetta sagði hæstv. ráðh. á því herrans ári 1980, á vormánuðum sem þá voru fleiri í starfi þingsins en nú er fyrirhugað, hinn 29. maí, svo að hæstv. ráðh. hefur haft nægan tíma til að koma þessu máli frá sér og hefði ekki þurft að hafa eins mikla fyrirvara á því og hann gerði hér, að hann framkvæmdi þetta mál jafnvel þótt það yrði að lögum.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að orðlengja frekar um þetta mál. Ég vil láta í ljós þá von, að hv. fjh.og viðskn. vinni þetta skjótt og vel og að málið fái greiðan gang í gegnum þingið. Mér er ljóst að það er um þetta nokkur ágreiningur, jafnvel meðal hinna mætustu manna í atvinnulífinu. Ég tel hins vegar að hér sé um að ræða mjög mikið hreingerningarmál í okkar fjármálakerfi, — mál sem færir okkur til nútímahorfs í viðskiptaháttum að þessu leyti.