16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3819 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

264. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil á engan hátt andmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, 3. þm. Norðurl. e., að nokkuð hefur dregist að koma þessu máli fram í frv.-formi hér á Alþingi. Það er rétt. Kannske hefði ég átt að vík ja að því örfáum orðum, hver ástæðan til þess er. Úr því að ég gerði það ekki áðan skal ég bæta úr því.

Ég vil þá byrja á því að rifja það upp, að þegar ég kom í fjmrn. veturinn 1980 og hafði verið þar um nokkurra vikna skeið var mér bent á nefndarálit sem hafði verið unnið á árinu 1977, þ.e. þremur árum áður, í tíð fyrrv. fjmrh., Matthíasar Á. Mathiesens. Nál. hafði verið skilað í hans tíð, en efni þess hafði aldrei komið til framkvæmda og ekkert verið frekar í málinu gert. Ég kynnti mér þetta tollkrítarmál og nefndarálitið sem fyrir lá um það efni, og mér leist strax nokkuð vel á þá meginhugmynd sem þar er lýst. Það eru því alveg óþarfar getsakir af hálfu hv. þm. að ég hafi engan áhuga á þessu máli eða litist illa á það. Mér líst á margan hátt vel á að taka upp þetta nýja fyrirkomulag.

Þegar svo málið kom hér til umr., líklega nokkrum vikum eftir að ég hafði fengið þetta nefndarálit í hendur — ég var búinn að gleyma þessu, það liðu þarna svo mörg ár á milli, frá því að þessu hafði verið útbýtt hér í þinginu — þá lýsti ég yfir að ég vildi gjarnan vinna áfram að málinu og stuðla að því, að lög yrðu sett um þetta efni á komandi vetri. Þegar til átti að taka reyndist hins vegar málið vera dálítið flóknara en virtist við fyrstu sýn. Það voru ákveðnir þættir þess sem ekki höfðu verið nægilega rannsakaðir. Þar var fyrst og fremst um að ræða efnahagsleg áhrif af upptöku tollkrítar. Það lágu ekki fyrir nægilegar greinargerðir um þann þátt málsins, og Seðlabankinn og hagfræðingar hans höfðu sett fram vissar athugasemdir sem vissulega þurftu nánari skýringar við. Eins var um áhrif upptöku tollkrítar á fjármál ríkissjóðs. Það mál hafði greinilega ekki verið rannsakað til nægilegrar hlítar. Því fóru fyrstu mánuðirnir í það að átta sig á þessum hliðum málanna. Auk þess kom í ljós að ýmsir höfðu horn í síðu þessa nýja fyrirkomulags. Má þar t.d. nefna íslenska iðnrekendur. Þeir hafa enn ekki með öllu látið af andstöðu sinni við þetta mál þó að verulega hafi úr henni dregið, að því er ég hygg, eftir þær breytingar sem frv. hefur tekið í seinni tíð.

Þegar svo kom fram á veturinn 1981 sýndist mér að málið væri í raun og veru í svo mikilli þoku að ekki yrði hægt að móta þar skýra stefnu öðruvísi en að skipa nýja nefnd í málið. Það gerði ég hinn 3. apríl 1981. Í nefndina voru skipaðir Árni Árnason framkvæmdastjóri frá Verslunarráði, Björn Hermannsson tollstjóri í Reykjavík — sem aldrei hafði komið að málinu og var auðvitað alveg óhjákvæmilegt að hann ynni að málinu og kæmi sínum athugasemdum á framfæri áður en málið kæmi til framkvæmda. — Einnig var þar Júlíus Sæberg Ólafsson forstjóri, Þorsteinn Ólafsson fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga og svo einn maður tilnefndur af fjmrn., Sigurgeir A. Jónsson. Þessi nefnd vann að málinu undir forustu Gunnlaugs Sigmundssonar deildarstjóra í fjmrn. sem skipaður var formaður nefndarinnar. Það var ekki fyrr en hún hafði lokið störfum að raunhæft var að taka málið til endanlegrar afgreiðslu í ríkisstj.

Það hefur að vísu tekið síðan nokkurn tíma að ganga endanlega frá málinu og það hefur enn tekið nokkrum breytingum. Þar á meðal hefur verið ákveðið að vextir skuli innheimtir af tollkrítinni. Er það auðvitað mjög mikilvægt atriði og eitt af því sem menn telja óhjákvæmilegt að gera til að ganga til móts við sjónarmið íslenskra iðnrekenda sem lagt hafa mjög þunga áherslu á þetta atriði. Eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar hefur málið legið fyrir og er nú flutt.

Hér hefur verið af minni hálfu rakin saga þessa máls. Það er ekki af neinu sérstöku tómlæti af minni hálfu að málið hefur dregist svo lengi. Ég vil einnig ítreka að það er ekki af neinu sérstöku tómlæti í garð þessa máls að ég hef ýmsa fyrirvara um framkvæmdina. Það er alveg ljóst að hér getur verið um verulega mikið tekjutap að ræða fyrir ríkissjóð þegar málið er að koma til framkvæmda. Því mun enginn fjmrh., hvorki ég né neinn annar, treysta sér til að taka þetta nýja fyrirkomulag í notkun í einni svipan, heldur hlýtur að verða um marga áfanga að ræða og að málið komi til framkvæmda á þó nokkrum tíma.