16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3820 í B-deild Alþingistíðinda. (3302)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. um Listskreytingasjóð ríkisins. Þetta frv. var flutt í Nd. snemma á þinginu og hefur fengið þar ítarlega umfjöllun, vil ég meina, og er nú komið til þessarar hv: deildar eftir umfjöllun í Nd. Ég vil líka geta þess, að frá því að frv. var lagt fram hefur það tekið nokkrum breytingum í meðförum hv. Nd. Þessar breytingar eru þó þannig að þar er ekki um að ræða neina grundvallarbreytingu á tilgangi frv. Hins vegar eru ýmsar orðalagsbreytingar og að sumu leyti að vísu efnisbreyting, t.d. hvað varðar ákvæði til bráðabirgða, sem ég ætla strax að benda hv. þdm. á. Það ákvæði er allmikið breytt frá því sem var upphaflega í frv., ítarlegra og með nokkrum efnisbreytingum sem ég vil vekja athygli á og mun kannske gera betur áður en ég lýk máli mínu.

Ég vil geta þess, að það hafði sínar sérstöku ástæður að þetta frv. var flutt. Frv. er unnið í samstarfi við Félag ísl. myndlistarmanna eftir allítarlegar umræður milli mín og stjórnar þess félags á árinu 1980 aðallega. Upp úr þeim umræðum og eftir að ég hefði m.a. lagt nokkuð fram til þess að fulltrúar Félags ísl. myndlistarmanna gætu sótt ráðstefnu um málefni af þessu tagi í Noregi á sinni tíð var gengið í að semja frv. um þetta efni, um Listskreytingasjóð. Árangurinn er að finna hér í þessu frv. Sem sagt, þetta mál er unnið upphaflega í mjög nánu samstarfi við stjórn Félags ísl. myndlistarmanna og flutt fyrir áeggjan þess félagsskapar, má segja, a.m.k. í góðu samstarfi við félagið.

Mér þykir rétt að geta þess strax, að ástæðan fyrir því, að þetta form er valið, að stofna sérstakan Listskreytingasjóð, er sú, að áhugamönnum um þetta efni þótti nauðsynlegt að finna skilvirkari aðferð en er fyrir hendi til þess að tryggja framkvæmd þeirrar hugmyndar að listamenn eigi hlut að byggingu vandaðra húsa á vegum hins opinbera. Þetta er í raun og veru meginástæðan fyrir því, að það form var valið að stofna sérstakan Listskreytingasjóð ríkisins. Eins og hv. dm. að sjálfsögðu vita er sú hugmynd, að opinberu fé sé ráðstafað til listskreytinga opinberra bygginga engan veginn ný af nálinni, heldur hafa verið um alllangt skeið ákveðin lagaboð í gildi þar um, bæði í eldri lögum um skólakostnað og eins í núgildandi grunnskólalögum. En það verður að segja eins og er, að þessi ákvæði eru ekki aðeins erfið í framkvæmd af sjálfu sér, heldur hefur komið í ljós að mönnum finnst stangast á þau ákvæði, sem er að finna í grunnskólalögunum frá 1974, og þau ákvæði sem er að finna í skólakostnaðarlögunum frá 1967. En sem sagt, kjarni þeirra lagaboða, sem eru reyndar enn í gildi, er sá, að heimilt sé að verja fjármagni til listskreytingar skólahúsnæðis. Annað er það nú ekki og þar er allt frumkvæði fengið í hendur sveitarstjórnunum um framkvæmd á þessari hugmynd. En reynslan hefur sýnt að sveitarstjórnir hafa ekki haft áhuga á því máli. Reynslan hefur sýnt það, þannig að það hefur ákaflega lítið reynt á þessi lagaboð og sáralítið verið unnið að því að listskreyta skólamannvirki, jafnvel þó að þessi lagaboð séu fyrir hendi. Þetta hefur áhugamönnum um þetta efni að sjálfsögðu þótt mjög miður, og þá ekki síst myndlistarfólkinu, og það er af þeirri ástæðu sem það bar sig upp við mig um þessi efni og farið var að ræða það, hvort ekki væru möguleikar á að finna aðrar leiðir, finna skilvirka aðferð til að framkvæma,þessa hugmynd. Niðurstöðuna er að finna í þessu frv. eins og ég hef sagt.

Í 1. gr. frv. er talað um að stofna skuli sjóð sem hafi það markmið að fegra opinberar byggingar með listaverkum. Síðan er í 3. gr., sem er þungamiðja þessa máls, rætt um tekjur sjóðsins og gert ráð fyrir að það sé í fyrsta lagi árlegt framlag ríkisins og í öðru lagi vaxtatekjur og svo aðrar tekjur. Af þessu er augljóst að það, sem máli skiptir um tekjurnar, er 1. liðurinn í 3. gr., hið árlega framlag ríkissjóðs, en þar segir að framlagið skuli vera 1% álag á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta fjárlaga til þeirra bygginga sem ríkissjóður stendur að einn eða með öðrum (sveitarfélögum o.s.frv.), sbr. það sem nánar er greint í 4. gr. Og 4. gr. er í raun og veru eins konar framhald af því sem segir í 3. gr. að því leyti, að þar er ákveðið að framlagið, sem um er rætt í 3. gr., skuti vera afmarkaður sérliður í fjárlögum, og gert ráð fyrir að það, sem innheimtist á þennan sérlið, verði greitt í Listskreytingasjóð mánaðarlega allt fjárlagaárið.

Það er greint frá því í aths. við frv. eins og ég lagði það fram í upphafi þingsins í Nd., hverju þetta muni nema í peningum að því er áætla má, og þá er náttúrlega miðað við fjárlagaárið 1981, vegna þess að þá voru það þær forsendur sem hægt var að miða við. Þar segir að miðað við forsendur í 1. tölul. 2. gr. frv. og fjárlög ársins 1981 yrði framlag ríkissjóðs 1 millj. 350 þús. kr. Þetta er í raun og veru sú tala sem við höfum til viðmiðunar í þessu efni, hvað koma mundi í sjóðinn miðað við forsendur fjárlaga fyrir síðasta ár. Að sjálfsögðu má svo hækka þessa tölu miðað við þá verðlagsþróun sem orðið hefur síðan þessi tala var fundin, og skal ég ekki fara fullkomlega með það, hvað út úr því dæmi kæmi, en áætla má þó að þarna væri um að ræða a.m.k. yfir 40% hækkun á tölu, þannig að ég get ímyndað mér að þarna yrðu — ég er ekki fljótur að reikna — en sjálfsagt yrðu það 1.6–1.7 millj. kr. sem þarna væri um að ræða eins og nú horfir. Einnig er gert ráð fyrir þeim möguleika, að sveitarfélögin vildu vera þátttakendur í framlögum til sjóðsins, og ef svo yrði mundu tekjur sjóðsins vaxa verulega. En eins og fram kemur í 3. gr. er opnuð leið fyrir því, að sjóðurinn hafi aðrar tekjur, auk þess sem hann kynni að hafa vaxtatekjur, enda mun hann vafalaust hafa það. Síðan, þegar við komum svo að 5. gr., og reyndar langt aftur eftir frv., sem alls er 14 greinar, þá má segja að þær greinar fjalli um hvernig stjórn skuli háttað, t.d. 5. gr. Og síðan frá 6. gr. og mikið til aftur úr er fjallað um framkvæmdaatriði í sambandi við starfsemi sjóðsins og settar reglur þar um.

Í 5. gr. er talað um stjórnina og lagt til að í henni sitji fimm menn: formaður, sem menntmrh. skipar án tilnefningar, en síðan komi fulltrúar í stjórnina sem eru skipaðir samkv. tilnefningum vissra aðila, þ.e. Arkitektafélags Íslands, Sambands ísl. sveitarfélaga og Bandalags ísl. listamanna, og þá séu það myndlistarmenn sem þeir tilnefni.

Í Nd. var mjög mikið rætt um stjórnina og ekki mikill ágreiningur út af fyrir sig um það efni. Hins vegar urðu talsvert miklar umræður og athugasemdir gerðar um það, hvernig framkvæmd málsins yrði.

Menntmn. Nd. gerði nokkrar orðalagsbreytingar, sem varla er þó hægt að kalla efnisbreytingar, en gerðu þó að ýmsu leyti ákvæðin um framkvæmdina fyllri og skýrari en þau voru í upphaflega frv. Hef ég ekki nema gott eitt um það að segja. Þar var m.a. lögð áhersla á að það kæmi skýrt fram, að haft væri sem nánast samráð við þá aðila sem standa að byggingu hvers mannvirkis, heimamenn á staðnum og arkitekt byggingarinnar. Í sjálfu sér er þetta réttmæt ábending og eðlilegt í framkvæmdinni að á þetta sé lagður þungi.

Þá ætla ég að koma hér að einu atriði, sem einnig var nokkuð gagnrýnt í Nd. og kom fram í meðferð menntmn. þar, að það var gert ráð fyrir því og er gert ráð fyrir því, að sveitarstjórnirnar séu ekki að lögum beinir aðilar að þessum sjóði. Eins og ég skýrði frá í upphafi er ástæðan hreinlega sú, að það hefur gengið mjög erfiðlega að fá sveitarstjórnir til að hafa frumkvæði í þessum efnum eins og núgildandi lög ætlast til. Þess vegna var valin þessi leið: að stofna sérstakan Listskreytingasjóð ríkisins, sem væri þá á vegum menntmrn. og undir tiltekinni stjórn. Hins vegar kom fram í meðferð Nd. á málinu að það væri óvarlegt að gera ekki enn tilraun til þess að tengja sveitarstjórnirnar við þetta mál og gera sitt til þess að svo geti orðið. Af þeim sökum er ákvæði til bráðabirgða nokkru fyllra og ítarlegra en það var upphaflega í frv. eins og ég lagði það fyrir. Í þessu ákvæði til bráðabirgða er sagt að lögin skuli taka til bygginga sem í smíðum eru þegar lögin öðlast gildi og eigi hafa verið gerðar bindandi ráðstafanir varðandi listskreytingar, nema sveitarstjórn ákveði listskreytingu skólamannvirkja með samþykki menntmrn., og telst kostnaður, sem af því leiðir, til stofnkostnaðar. Þá er heimilt að verja til listskreytingar fjárhæð er nemur allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkis miðað við reglur byggingadeildar menntmrn. Samkv. þessu ákvæði til bráðabirgða er enn þá opnuð leið til þess að sveitarstjórnir hafi frumkvæði í þessu og leggi sitt 1% móti ríkinu í sambandi við listskreytingar skólamannvirkja.

Ég held að þetta mál hafi hlotið allítarlega meðferð í hv. Nd. og það fékk þar að lokum góðar viðtökur og góða afgreiðslu og vel að málinu staðið að mínum dómi í hv. Nd. Ég vænti þess, að þessi hv. deild taki málið einnig til verðugrar afgreiðslu og sjái sér fært að afgreiða það áður en þingi lýkur nú í vor. Ég vænti þess, herra forseti, að málinu verði vísað til menntmn. deildarinnar þegar þessari umr. er lokið.