16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil nú segja eins og hv. síðasti ræðumaður, að ég get hugsað mér að ræða nánar um þessi mál í heild við 2. umr. þegar sú athugun hefur farið fram sem nauðsynleg er á þessu frv.

Hæstv. iðnrh. ræddi um ýmislegt sem er þess eðlis, að ég tel nauðsynlegt að hv. iðnn. þessarar deildar fjalli sérstaklega um það og fái í hendur margs konar gögn, m.a. skýrslu starfshóps sem hæstv. iðnrh. vitnaði í. (Iðnrh.: Það á að vera búið að dreifa henni til alþm.) Já, það er sú skýrsla sem búið er að dreifa. En hann var líka að vitna í aðrar heimildir, eins og bréf Seðlabankans. Ég tel fulla ástæðu til að vekja athygli á því í þessum umr., að við þurfum að fá ýmis gögn, og af því að ég er staðinn hér upp nefni ég þetta, en auðvitað mun ég óska frekar eftir þessu í hv. iðnn. sem fær málið til meðferðar.

Það eru dálítið einkennilegar ræður sem fluttar hafa verið í þessum umr. af hálfu hæstv. iðnrh. og hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er dálítið óvenjulegt að þegar mælt er fyrir stjfrv. af ráðh. og stuðningsmanni ríkisstj. — ég heyrði ekki að hv. 4. þm. Norðurl. e. væri á móti þessu frv. — þá skuli þeir leggja sig fram um að koma með mjög alvarlegar ásakanir á hæstv. forsrh., þann mann sem ber fyrst og fremst ábyrgð á ríkisstj., og þetta er ríkisstj.-frv. Það eru mjög alvarlegar ásakanir sem hæstv. iðnrh. hefur hér komið fram með á hendur hæstv. forsrh., sem hv. 4. þm. Norðurl. é. vakti einnig sérstaka athygli á, vegna þess að hér eru höfð uppi stóryrði af þessum mönnum um mistök við stofnun árblendiverksmiðjunnar, um mistök sem verða ekki skilin öðruvísi af máli þeirra Alþb.-manna en á þann veg, að hefði mátt koma í veg fyrir, ef ekki hefði haldið hér á málum sá maður sem var í forsvari fyrir þessari framkvæmd, þáv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh.

Það væri fullkomið tilefni til þess að ræða miklu frekar en ég hef gert um þetta og leggja út af þessu á viðeigandi hátt, en ég mun ekki gera það hér, a.m.k. ekki í þessum umr., nema að gefnu frekara tilefni.

Það er talað um mistök við stofnun þessarar verksmiðju af því að reksturinn gengur erfiðlega í dag. Það er talað um mistök vegna þess að sumar spár, sem gerðar voru á sínum tíma, hafa ekki staðist. Hafa menn nokkurn tíma heyrt það áður, að það hafi getað orðið frávik frá spám um markaðsverð á ákveðnum vörum eða vörutegundum eða söluhorfur? Hafa menn nokkurn tíma heyrt það áður? Jú, ætti það ekki. Er það eitthvert einsdæmi í þessu landi í dag að rekstur fyrirtækis gangi illa og reksturinn beri sig ekki? Er það eitthvert einstakt fyrirbæri í dag? Nei, við getum ekki verið svo tvöfaldir í þessum umr., ekki nokkur maður, að neita því. Ég ætla ekki að fara að rekja það hér, hvers vegna rekstur gengur illa og fyrirtæki eru rekin með tapi í hinum mikilvægustu atvinnugreinum hér á landi í dag. Ég ætla ekki að fara að ræða það. Þessir menn, sem hafa stóryrði af því tilefni að það hefur ekki allt farið eftir því sem spáð var um markaðsverð og söluhorfur á járnblendi, þeir bera ekki litla ábyrgð á þeim erfiðleikum sem nú hrjá fjöldamörg atvinnufyrirtæki í landinu vegna þeirrar stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið, vegna þess að það hefur ekki verið haldið vel á þeim málum sem við getum sjálfir ráðið við, en við ráðum ekki sjálfir við markaðsverð og söluhorfur á járnblendi.

Þeir tveir hv. ræðumenn Alþb., sem hér hafa talað, — og ég verð að segja og leggja áherslu á það, að hæstv. iðnrh. talaði fullt eins mikið sem fulltrúi Alþb. og sem ráðh. fyrir þessu máli, — hæstv. ráðh. og hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndu í sömu andrá og þeir voru að tala um járnblendiverksmiðjuna álverið í Straumsvík. Nú má segja margt af því tilefni. En með tilliti til þess, sem við erum að ræða um núna í þessum umr., er kannske vert að geta þess, að sá mikli mismunur er á þessum fyrirtækjum, að þegar gengur illa með álverið í Straumsvík þarf hæstv. iðnrh. ekki að koma með hliðstætt frv. því, sem hér er um að ræða, til stuðnings við það fyrirtæki. Það er vegna þess, eins og ég þarf raunar ekki að taka fram, að við höfum enga áhættu af rekstrinum á álverinu vegna þess að við erum ekki eignaraðilar. Hins vegar höfum við mikla áhættu af járnblendiverksmiðjunni vegna eignaraðildar okkar. (StJ: Vegna þess að hún var reist.) Þegar við víkjum að þessu komum við að spurningunni um eignaraðild í stóriðjufyrirtækjum. Nú ætla ég ekki í þessum umr. að fara að ræða það mál hér ítarlega, en ég hef margoft lýst því yfir, að við eigum að meta hvert einstaki tilvik eftir efnum og ástæðum og við eigum að eiga sjálfir í stóriðjufyrirtækjum eftir því sem okkur þykir hagkvæmt.

Ég var einn af þeim sem töldu rétt að við ættum þessi fyrirtæki sem við hér ræðum um. Ef við ætlum að eiga í stóriðjufyrirtækjum verðum við að gera okkur grein fyrir því, að undir öllum kringumstæðum verðum við að taka einhverja áhættu. Ég ætla ekki að gera þetta mál sérstaklega að umræðuefni með það fyrir augum að mæla gegn íslenskri aðild að stóriðjufyrirtækjum. Mér finnst að við getum ekki dregið neina algilda reglu af þessu. En þetta minnir mjög á það, hve vandfarið er í þessum efnum og hve varlega við þurfum að fara að hætta fjármunum okkar í stóriðju og hve miklu ákjósanlegra það er, innan vissra marka, að neyta þeirra möguleika sem við kunnum að hafa á hverjum tíma til þess að nota erlent áhættufjármagn.

Ég tel líka ástæðu til þess, að það komi hér skýrt fram, að það, sem er að gerast í málefnum járnblendiverksmiðjunnar, er á vissan hátt ekki annað en það sem hlýtur alltaf að gerast við allan rekstur og meira að segja í þýðingarmiklum atvinnugreinum. Þegar slíkt ber að og í miklu alvarlegri mæli en þessum hefur okkur ekki komið til hugar að hætta slíkum atvinnurekstri. Hvernig hefði farið fyrir hinni íslensku þjóð ef við hefðum hætt að draga þorsk úr sjó þegar hrunið varð á Spánarmarkaðinum upp úr 1930? Það hvarflaði ekki að neinum.

Á sama hátt á ekki að hvarfla að neinum nú að láta deigan síga í viðleitni til þess að skapa möguleika til að hagnýta orkulindir Íslands með því að skapa markað fyrir raforku á þann veg að koma upp stóriðju. Auðvitað þarf ég ekki að taka þetta fram hvað viðkemur hæstv. iðnrh., því að ég hef sagt í umr. hér ekki alls fyrir löngu á Alþingi að á Íslandi er nú enginn maður, sem er einbeittari í þeirri stefnumörkun að koma upp mikilli stóriðju á Íslandi, heldur en einmitt hæstv. iðnrh.

Ég sagði: enginn honum fremri. En ég hef bætt við áður og geri núna, að hann standi í þessu efni jafnfætis okkur sjálfstæðismönnum. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur tekið upp stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna um hagnýtingu vatnsorkunnar með virkjunarframkvæmdum. Á síðasta þingi bárum við sjálfstæðismenn fram frv. um virkjunarframkvæmdir sem þýddu að á 10 árum eða svo væri tvöfaldað uppsett afl í rafvirkjunum landsins, að komið væri upp stórvirkjunum, sem hefðu um 700 mw. uppsett afl, en við höfum núna um 680 fyrir. Þetta var tillaga okkar sjálfstæðismanna. Auðvitað gerðum við þá ráð fyrir að við sköpuðum markað fyrir þessa orku, því að við erum ekki að ráðast í slíkar framkvæmdir að óþörfu og ekki er þörf á þessu átaki nema sé skapaður markaður, þ.e. stóriðjuframkvæmdir. Hæstv. iðnrh. vildi ekki vera minni í þessu efni en við sjálfstæðismenn og legg ég honum það ekki til lasts. Og hann fékk samþykkt lög um orkuver á síðasta þingi sem fela í sér jafnstórt átak og við sjálfstæðismenn fórum fram á. Og hæstv. ráðh. er nú með til meðferðar á þessu þingi, svo sem okkur á að vera í fersku minni, till. til þál. um virkjanaframkvæmdir og röðun þessara virkjana.

Hæstv. iðnrh. talar um stóriðjuframkvæmdir í sambandi við þessi virkjanamál. Það er ósköp eðlilegt, vegna þess að eins og ég sagði áðan er ekki grundvöllur fyrir þessu nema komið verði upp stóriðju til þess að skapa markað fyrir orkuna. Ég vil trúa því í lengstu lög, að hæstv. iðnrh. reynist sá stóriðjumaður í raun sem þetta bendir til, því að ef hann gerir það ekki er allur hans málatilbúnaður í virkjanamálunum hreinn loddaraleikur af verstu gerð. Ég vil ekki trúa því á hæstv. iðnrh. En hvað um hv. 4. þm. Norðurl. e.? Hann hefur verið hreinn og beinn á móti stóriðju í landinu og hann hefur sagt það hér í stóriðjuumræðum. Ég held að ég fari rétt með það og muni það rétt að hann sé á móti stóriðju hvað sem líður eignaraðild.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. gaf mér fyrirheit um það hér áðan, að hann mundi rifja upp ræður mínar um þessi efni, og ég fagna því. Ég held að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði gott af því að gera sem mest að því að rifja upp mínar ræður. Hann mun áreiðanlega geta haft eitthvað gott út úr því. Nú sagði ég í upphafi minna orða, að ég ætlaði ekki að fara að ræða efnislega um þetta frv. svo sem vert væri og nauðsynlegt, ég hef tækifæri til að gera það við 2. umr. eins og aðrir hv. dm. Þessi orð, sem ég hef sagt núna í þessum umr., eru einungis sögð að gefnu tilefni. Ég vil biðja hv. þm. að hafa það í huga.