16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er þess vert að gefa því gaum, eins og hæstv. iðnrh. orðaði það. Sú reynsla, sem býr að baki þessu frv., er verð þess að gefa henni gaum. Ég vil taka mjög undir orð hæstv. ráðh. í þessum efnum. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að þessi reynsla hefði hlotist af því að binda trúss sitt við útlendinga, eins og hann orðaði það. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh. hvort hann teldi að hann hefði orðið að leggja frv. fram sem hefði haft meiri eða minni fjárskuldbindingar fyrir ríkið, fyrir almenning, ef útlendingar hefðu ekki átt hlut að þessu fyrirtæki.

Er hægt að álykta sem svo, að reynsla af Járnblendifélaginu. rekstri járnblendiversins í Hvalfirði, út af fyrir sig sýni að við eigum ekki að binda trúss okkar við útlendinga á þessum sviðum? Ég get með engu móti skilið þá röksemdafærslu. Í mínum huga er hún alveg þveröfug. Þarf einhver reynsla hefur hlotist af þessu ævintýri, þá er hún sú í mínum huga, að við Íslendingar eigum að fara afar varlega, og alveg sérstaklega ríkið, í því að leggja áhættufé í slík fyrirtæki. Með því er ég á engan hátt að útiloka það, að við Íslendingar getum smátt og smátt gerst eignaraðilar að stóriðjufyrirtæki. En það vill bara svo til að við höfum fjöldann allan af verkefnum í opinberum rekstri, í opinberri fjárfestingu, sem liggur miklu beinna við að sinna heldur en að leggja fram slík framlög eins og gert var á þessum tíma, t.d. eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. benti á áðan, að leggja bundið slitlag á vegi sem gefur upp í 30% arð og liggur á borðinu, þarf ekkert um að deila. Þetta er sú reynsla sem ég held að sé miklu nærtækara að við könnum vegna þessa máls heldur en hitt, að það sé ekki rétt að vinna með útlendingum að því að koma upp hóflega mörgum stóriðjufyrirtækjum til þess að nýta okkar orku og flytja hana út í formi framleiðslu frá stóriðjufyrirtækjum. Það er það sem við erum að gera. Við erum að flytja orkuna út í formi framleiðslu stóriðjufyrirtækja.

Ég kvaddi mér eiginlega hljóðs út af því, að hæstv. ráðh. talaði eins og það hefði verið stefna allra annarra flokka en Alþb. að koma þessu fyrirtæki á fót. En því miður er það svo, að það var einmitt Alþb. sem hafði forustu um að hefja viðræður um að koma þessu fyrirtæki á fót, og þá var þar tekin sú stefna, að við Íslendingar skyldum eiga meiri hluta í fyrirtækinu. Þegar þetta mál var til umfjöllunar á Alþingi sat ég í hv. iðnn. þessarar hv. deildar, og ég vildi fara mjög varlega. Ég óskaði eftir margvíslegum gögnum um arðsemi þessa fyrirtækis og um það ekki síður, hvort fyrirtækið væri þess umkomið að skila þeim peningum, þeim fjármunum sem þegar í upphafi var ætlað að íslenska ríkið legði fram í ýmsum framkvæmdum og hlutafé, í hafnargerð, í vegagerð, í ýmiss konar ráðstöfun á fjármagni. Ég fékk m.a. skýrslu frá Þjóðhagsstofnun sem er dags. 22. febr. 1977. Þar kemur fram að gert var ráð fyrir að tap á verksmiðjunni á einu ári yrði hvorki meira né minna en 22 millj. kr, fyrir skatta, — tap á verksmiðjunni þegar þetta mál var til umr. Ég óskaði líka eftir að fá upplýsingar frá félaginu, sem þá var stofnað, um innstreymi og útstreymi ríkissjóðs við lántökur til að standa straum af hlutafjárframlagi. Enn fremur óskaði ég eftir upplýsingum um hvernig gert væri ráð fyrir að það fjármagn skilaði sér sem að öðru leyti yrði lagt fram í þetta fyrirtæki. Ég taldi mér skylt sem alþm. að afla þessara upplýsinga og ég fékk þær.

Ég sagði þá í umr. um frv., með leyfi forseta:

„Með samþykkt þessa frv. má áætla að Alþingi sé að skuldbinda skattborgarana til þess að ábyrgjast 3 500–4 000 millj. kr. framlög einvörðungu í hlutafjárframlag, sérstök lán, vegagerð, hafnargerð og því um líkt vegna þessa fyrirtækis, og er þá að sjálfsögðu ekki meðtalin sú fjárhæð sem fyrirtækið sjálft tekur til láns vegna uppbyggingarinnar. Ætlunin mun a.m.k. fyrst í stað að afla þessa fjár með lánum, en að sjálfsögðu á ábyrgð ríkissjóðs, og lán þarf að borga ásamt vöxtum á sínum tíma.“

Síðan sagði ég, með leyfi forseta: „Þar sem líkur eru því miður á að afkoma fyrirtækisins leyfi slíkt ekki“ — þ.e. endurgreiðslu á þessu — „svo sem ég hef hér rökstutt, jafnvel að rekstrartap bætist við vandann fyrstu árin, þá verð ég að lýsa andstöðu minni við ákvæðin um 55% eignaraðild ríkissjóðs í þessu fyrirtæki.“

Þetta eru orðrétt ummæli sem ég viðhafði við afgreiðslu þessa máls á sínum tíma. Ég greiddi ekki atkvæði með þeim greinum frv. sem þá voru til umfjöllunar á Alþingi um eignaraðild ríkissjóðs. Hér held ég að sé komið að kjarna málsins.

Ég tek undir það, að þetta er reynsla sem við hv. alþm. eigum að draga lærdóma af. Það er meira en lítill vandi fyrir hv. alþm. að gera sér fullkomlega grein fyrir því, hvað þeir eru að gera þegar þeir eru að skuldbinda alþjóð með þeim hætti sem gert var að þessu leyti og gert hefur verið á öðrum sviðum líka. Ég held að við höfum tekið allt of stóran bita þegar þetta var gert. Ég er ekki að mæla gegn því og hefði síst haft á móti því að við ættum hlut í þessu fyrirtæki, styrktum okkar forræði með því. Ég held að við Íslendingar getum styrkt okkar forræði með ýmsum öðrum hætti en að eiga allt of mikið í þessum fyrirtækjum. Það er skoðun mín. Ég er ekki að segja að ég hefði ekki verið samþykkur því, en við tókum allt of stóran bita með þessu á sínum tíma og því miður hefur farið sem fór. Forsendurnar sem menn gáfu sér þá voru of bjartsýnar. Ég varaði við því á sínum tíma. Ég benti á þá gífurlegu áhættu sem við værum að taka á okkur með ákvörðunum sem við tókum þá. Það er oft auðvelt að vera spámaður og vitur eftir á, en ég er ekki með þessu að segja: Þarna sjáið þið, svona fór þetta. Ég varaði ykkur við, ég varaði við þessu. — Ég er einvörðungu að taka undir með hæstv. ráðh. En ég dreg bara allt aðrar ályktanir en hann. Reynslan, sem við höfum haft af stofnun Járnblendifélagsins, er í mínum huga sú, að við eigum að fara miklu mun varlegar í sakirnar en við gerðum þá þegar við erum að skuldbinda íslenskan almenning til að taka þátt í þeirri áhættu sem slíkur rekstur hefur í för með sér.