16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka hér til máls öðru sinni nema sérstaklega væri beint til mín fsp. Þær hafa eiginlega engar fram komið sem varða beinlínis efni þess frv. sem hér er flutt og ríkisstj. stendur að. Þó hefur verið beint til mín einni fsp. af hv. 3. þm. Norðurl. e. í þá átt, hvort ég geti leitt líkur að því, að upphæðir, sem lagt væri til að bæta við í formi hlutafjár og lánsábyrgða í þessu frv. þar sem er járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, væru lægri ef íslenska ríkið hefði komið þar meira við sögu. Efnislega held ég að hans fsp. hafi verið á þessa leið. Það eru svipuð atriði sem fram komu í máli hv. 4. þm. Vestf„ þó að það væri ekki í fsp.-formi, en hans mál og raunar mál það, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. flutti hér, byggðist á sömu meginhugsun í sambandi við hugleiðingar þeirra sem sprottið hafa vegna flutnings þessa frv. og umr. hér um það.

Ég sé ástæðu til að fara um þetta örfáum orðum. Mér finnst nefnilega koma fram í þessum málflutningi, sem hér var og hefur heyrst oft á Alþingi frá hv. talsmönnum Sjálfstfl. fyrr og síðar, að í sambandi við þennan þátt efnahagslífs, orkufrekan iðnað í landinu, hagnýtingu orkulindanna í atvinnurekstri, ættum við að hverfa frá því sem hefur þó verið í reynd samstaða um í landinu í sambandi við annan atvinnurekstur, þ.e. að þar ættum við að búa sem mest einir, byggja á eigin aflafé, þótt í lánsfjármagn sé í meira og minna mæli að sjálfsögðu. Þegar kemur til hagnýtingar orkulindanna á að vera eitthvað allt annað upp á teningnum í sambandi við fjármögnun og spurninguna um hvort Íslendingar eigi sjálfir að standa fyrir slíkum rekstri og bera á honum ábyrgð. Það er í þessu stóra og afdrifaríka máli sem skil liggja og þau býsna skörp í sambandi við atvinnustefnu í landinu.

Ég þarf ekki að taka hér langan tíma til að fjalla um deilur fortíðarinnar um þetta. En það, sem kom fram hjá hv. talsmönnum Sjálfstfl. við þessar umr., var einmitt upprifjun á þessum kjarnaatriðum. Þá vil ég fyrst víkja að spurningunni sem fram kom h já hv. 3. þm. Norðurl. e.

Ég efast um að menn hefðu lagt í járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga á sínum tíma með 100% þátttöku íslenska ríkisins, á árinu 1977 þegar lög voru samþykkt um hana, miðað við margháttaðar efasemdir sem fram voru bornar hér á hv. Alþingi, m.a. af stjórnarandstöðunni, um þetta fyrirtæki. Ég hygg að menn hefðu hugsað sig betur um, líka hv. þm. Lárus Jónsson, áður en til þess kæmi að greiða atkvæði með stofnsetningu verksmiðjunnar á þessum tíma, ef við hefðum átt að bera þar á fulla efnahagslega ábyrgð. Hann og aðrir talsmenn erlendrar stóriðju í landinu virðast nefnilega vera á þeirri skoðun, að hægt sé að finna einhverja eilífðarvél til að standa undir kostnaði og taprekstri í formi áhættufjár útlendinga. Ég tel að ekki hefði orðið fyrir því meirihlutafylgi hér á Alþingi að reisa verksmiðjuna, taka ákvörðun um það, ef menn hefðu ætlað að ganga lengra í þessum efnum, ekki aðeins vegna andstöðu Alþb. sem var almenn við að fara út í fyrirtækið, heldur einnig vegna þess að menn vantreystu áætlunum um það og töldu það efnahagslega á brauðfótum reist. En það var einmitt það skref sem stigið var. Það var farið út í fjárfestinguna.

Svar mitt við spurningunni er því það, að vissulega hefði algjör eignarhlutdeild Íslendinga getað haft í för með sér hærri tölur í sambandi við aðstoð við þetta fyrirtæki nú. En ég hygg að menn hefðu ekki farið út í fyrirtækið á þessum tíma með þeirri áhættu, sem því hefði fylgt, og ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. hefðu þá einnig hugsað sig um og beitt sínum röksemdafærslum þó að þær séu aðrar en ég tek undir.

Annars er líka að geta í sambandi við þetta, og ég held að það væri íhugunarefni fyrir alla hv. alþm., og það varðar þá samninga sem við höfum gert við útlenda aðila varðandi þetta fyrirtæki, svo ekki sé lengra leitað, — samninga sem eru á margan hátt tvísýnir, svo ekki sé meira sagt, fyrir okkar hagsmuni. Þar á ég ekki aðeins við raforkusamninginn eins og hann er frágenginn og kom til umræðu hér þegar taka þurfti ákvarðanir um hvort ráðast skyldi í ofn 2 á Grundartanga. Þá kom nokkuð skýrt fram hvernig við vorum bundnir samningslega í gegnum ákvæði raforkusamningsins að halda áfram fjárfestingu við verksmiðjuna. En ég er þó kannske öllu frekar með í huga markaðssamninginn sem á sínum tíma var réttlættur sérstaklega þannig að hann væri okkur hagstæður og drægi úr áhættu. Ég tel að það hafi komið nokkuð skýrt fram við athugun þessa máls nú og m.a. við hugmyndir sem fram hafa verið bornar af framkvæmdastjórn járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, að það gæti verið hagstætt fyrir fyrirtækið að vera ekki bundið þessum markaðssamningi nú og geta hagað sinni framleiðslu og sölustefnu óháð honum. Það gæti sem sagt verið hagstæðara, miðað við ákveðnar forsendur, að framleiða á fullu, hagnýta framleiðslugetu verksmiðjunnar, þó að afurðir seljist ekki að fullu, en geta hagað verðlagningunni út frá hagsmunum Íslendinga einna og íslenska ríkisins. En við erum ekki sjálfráðir í sambandi við markaðsstefnuna vegna þessa markaðssamnings.

Þá vil ég koma að deiluatriði milli okkar Alþb.-manna og hv. þm. Sjálfstfl. margra hverra. Ég segi: margra hverra, vegna þess að ég hygg að það séu ekki allir á einu máli í sambandi við hvernig haga beri fjárfestingu í orkufrekum iðnaði í landinu í framtíðinni. Ég hygg að það séu nokkuð skiptar skoðanir þar innan veggja í þeim efnum. Það hefur raunar verið það líka þegar ákvörðun var tekin um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, eins og lesa mátti raunar út úr máli þeirra hv. ræðumanna sem hér töluðu. — En það snýr að þessari skoðun: Við eigum, vegna þess að hér er áhætturekstur á ferðinni, ekki að standa undir þessum rekstri sjálfir hvað fjármögnun snerti og eignaraðild. Við eigum sem mest að treysta þar á útlendinga vegna þess að hér er svo mikil áhætta á ferðinni. Á bak við þetta virðist búa sú trú, að útlendingar, erlend stórfyrirtæki, erlend auðfélög og erlendir fjölþjóðahringar, séu einhverjar góðgerðastofnanir sem séu að færa fjármagn sitt hér upp að ströndum Íslands til að fjárfesta í fyrirtækjum í landinu, en ekki hitt, að þeir ætli sér að hafa hag af því. Halda menn í raun og veru að fyrirtæki, hákapítalísk fyrirtæki, séu að leggja fjármagn í ríkum mæli í verksmiðjur uppi á Íslandi til að tapa á þeim? Gera menn ráð fyrir því, talsmenn hins frjálsa framtaks og einkaframtaksins, að málum sé þannig varið? (LJ: þetta eru einkafyrirtæki. Þau gætu grætt þó að við töpuðum.) Ég held að menn ættu að hugsa sig einmitt um tvisvar áður en þeir reiða fram slíkar staðhæfingar.

Kem ég þá aðeins að því sem vikið var að af hv. 4. þm. Vestf. varðandi álsamninginn og hvílíkur munur væri þó að honum vegna þess að þar hefðu menn ekki fallið í þá gryfju að eiga meiri hlutann í fyrirtækinu, þar ættu menn bókstaflega ekki neitt í fyrirtækinu og þess vegna væri allt í lagi varðandi það fyrirtæki þó að það væri bullandi halli á álframleiðslunni. Ég veit að hv. þm. og aðrir, sem skoða þau mál gagnrýnið með opnum huga, komast að annarri niðurstöðu en þeirri sem í þessari staðhæfingu felst. Þeir átta sig á því fyrr en varir, að sá aðili, sem þarna tekur áhættuna, er búinn að hirða allmyndarlegan hagnað af þessum rekstri sínum vegna bindandi samninga sem fylgdu þessu fyrirtæki og við undirgengumst og erum nefndir hér með lagaboði til 1994 og fram á næstu öld. Halda menn að Íslendingar hafi gert þar einhverja kjörsamninga til að hagnast á? Það þarf ekki að eyða orðum að slíku. Og það er einmitt í sambandi við þetta sem við komum að kjarna málsins um hvort við eigum að haga atvinnuuppbyggingu í landinu á sviði orkufreks iðnaðar út frá eigin forsendum eða hvort við eigum að láta útlendinga um ferðina, hvort við eigum að láta útlendinga hirða hagnaðinn út úr landinu af orkulindum okkar og slíkum fyrirtækjum, — auðvitað bera þeir ákveðna áhættu líka í leiðinni, það er ljóst, — eða hvort við ætlum að verða menn til að standa undir þessum rekstri og haga uppbyggingunni út frá okkar eigin mati og láta þessa uppbyggingu verða til að styðja og treysta annan atvinnurekstur og lífskjör í landinu til lengri tíma litið. Við skulum nefnilega hafa það líka í huga, að það eru ekki bara orkusamningarnir, fylgisamningar, sem gera þarf ef við erum að semja við útlendinga sem ætla að binda fé sitt til langs tíma í landinu, —það eru ekki bara þeir sem um er að ræða. Það er líka um það að ræða, hvort viðkomandi fyrirtæki taka eitthvert mið af því umhverfi sem þau taka starfa í, hvort þau hafa einhvern áhuga og hvata til þess að styðja að atvinnuþróun í kringum sig, eins og okkur ber að gera þegar við erum að leggja fjármagn í atvinnurekstur af þessu tagi hér í landinu og höfum gert að vissu marki í sambandi við uppbyggingu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Íslenskir aðilar, íslenska ríkið, gat þar þó ráðið ferðinni að vissu marki sem meirihlutaaðili, en þó engan veginn í þeim mæli sem æskilegt hefði verið ef við hefðum mátt haga málum út frá eigin forsendum eingöngu í sambandi við þá uppbyggingu.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að ég tel að með þeim almenna ramma, sem dreginn var um samningagerðina varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, hafi vissulega verið stigið spor fram á við miðað við það sem var þegar samningurinn um álverið í Straumsvík var gerður. Það var stigið ótvírætt spor fram á við hvað snerti almenna stefnu um fjárfestingu og eignaraðild og forræði Íslendinga yfir viðkomandi fyrirtæki. En það breytir ekki því, að reynslan hefur nú þegar staðfest rök þeirra og málflutning sem báru fram efasemdir um ágæti þessarar fjárfestingar sem slíkrar á sínum tíma.

Hv. 4. þm. Vestf. var að saka mig um stóryrði áðan úr minni ræðu og var að tala um að ég hefði verið að deila á hæstv. forsrh. í máli mínu. Ég bið hv. þm. um að lesa ræðu mína í gegn þegar hann fær hana í útskrift og leita uppi þessi stóryrði og þær ásakanir sem ég reiddi fram. Ég lét tölur tala og gekk það lengst að segja í mínu máli á þessa leið: „Leiða má sterkar líkur að því, að ákvörðunin um byggingu þessarar verksmiðju hafi verið mistök frá efnahagslegu sjónarmiði.“ Þetta var það lengsta sem ég gekk, en ég lýsti jafnframt vonum mínum um að betur rættist úr en gert er ráð fyrir með þeim ramma sem dreginn er í þeim heimildum sem óskað er eftir með þessu frv. Ég vona sannarlega að úr þessu rætist. Ég kætist alls ekki yfir því að þurfa að bera hér fram það frv. sem felur í sér bagga á íslenska ríkið og íslenskan almenning, sem felst í þeim stuðningi sem nauðsynlegt er og eðlilegt er miðað við allar forsendur að veita járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, vegna þess, eins og skýrt kemur fram í röksemdum starfshópsins sem um málið fjallaði á vegum iðnrn., að það væri óráð að ætla að hætta þessum rekstri nú miðað við það mikla fjármagn sem í þessu fyrirtæki er bundið. Ég vona — og læt það verða mín síðustu orð — að þetta fyrirtæki, sem á margan hátt er staðið vel og myndarlega að hvað rekstur snertir, eigi eftir að sjá fram á betri tíma en nú blasa við og þær tiltölulega svartsýnu spár bera vott um sem liggja til grundvallar því frv. sem hér er fram borið af ríkisstj.