05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, nr. 36 frá 1977, er svohljóðandi ákvæði: „Ráðh. er heimilt að ákveða að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík hvaðan sem talað er af landinu.“ Þess vegna hafði ég óskað eftir því, áður en umrædd þáltill. var samþykkt, að Póstur og sími gerði tillögu til mín um það, hvernig þessu mætti ná. Þá tillögu fékk ég frá Pósti og síma 26. ágúst s. l. og hef ég síðan lagt hana fyrir ríkisstj. Í tillögunni er komist svo að orði: „Að ósk ráðuneytisins hefur póst- og símamálastjóri haft þetta mál til athugunar að undanförnu. Í hjálögðu bréfi, dagsettu 26. f. m., gerir póst- og símamálastjóri grein fyrir athugunum sínum.“ Niðurstaða hans er sú, að ódýrasta og hagkvæmasta leiðin sé að taka upp númeraröðina 07 á undan því sem hringt er, þ. e. svo ég skýri það betur, fyrst 07, síðan svæðanúmerið og síðan númer viðkomandi stofnunar. Við þetta væri hægt að haga gjaldtöku þannig að sá sem hringir greiði innanbæjartaxta, þ. e. þá yrði sami kostnaður hvaðan sem hringt er af landinu í þær stofnanir sem eru með þessu formerki, 07.

Í bréfi sínu segir póst- og símamálastjóri að með þessari aðferð gefist símnotendum í dreifbýli kostur á að hringja á sama gjaldi til allt að 10 tiltekinna stofnana á höfuðborgarsvæðinu. Samkv. kostnaðaráætlun, sem birt er í téðu bréfi póst- og símamálastjóra og gerð er vegna fimm ríkisfyrirtækja, sem öll tengjast símstöðvum í Landssímahúsinu í Reykjavík, — þessar stofnanir eru Alþingi, Stjórnarráð Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, Húsnæðisstofnun ríkisins og Tryggingastofnun ríkisins — með samanlögðum fjölda innkominna lína 30, er heildarkostnaðurinn við þetta áætlaður 1 millj. 208 þús. kr. Ég vil taka það fram, að þessar fimm stofnanir voru aðeins valdar til að sýna dæmi um hvað það kostar að koma þessu kerfi á. Innifalið í þessari upphæð er stækkun deildar í símstöðinni, eins og nánar er svo skýrt í bréfi póst- og símamálastjóra.

Ég hef lagt til í ríkisstj. að þetta kerfi verði tekið upp við Stjórnarráð Íslands og þeim tilmælum verði í öðru lagi beint til þeirra ríkisstofnana, sem mest viðskipti hafa við dreifbýlið, að þau taki einnig upp slíkt kerfi, í þriðja lagi að hver stofnun beri sinn kostnað og í fjórða lagi að fé verði veitt til greiðslu á sameiginlegum kostnaði. Ef hann er tekinn út úr þessari upphæð er hann 877 þús. kr. Þessi tillaga liggur fyrir hjá ríkisstj. og er þar til meðferðar.

Ég hef jafnframt aflað mér upplýsinga um símakostnað t. d. Stjórnarráðsins og Alþingis. Kemur í ljós að símakostnaður Stjórnarráðsins á árinu 1980 var alls 166 409 285 gkr., en símakostnaður Alþingis var 64 860 237 gkr.

Ég veit að mönnum er að sjálfsögðu ljóst að við þessa breytingu fellur samkv. tillögunni ekki aðeins á viðkomandi stofnun kostnaðar við þær breytingar sem þarf að gera í skiptiborðum og ég hef jafnframt fengið sundurliðaðar fyrir þessar stofnanir, heldur verður afnotagjald hjá þessum stofnunum að sjálfsögðu hærra, og þarf vitanlega að reyna að gera sér nokkra grein fyrir því. Það mun hins vegar vera ákaflega erfitt, ef ekki útlokað, að fá þeim símakostnaði, sem ég nefndi áðan, skipt á utanbæjarsímtöl og innanbæjarsímtöl. Það eru engar upplýsingar um það. Ég vil jafnframt taka það fram, að til eru ýmsar aðrar leiðir, t. d. að símtölum er beinlínis snúið við og algjörlega talin hjá viðkomandi stofnun hvaðan sem hringt er af landinu. Þetta eru miklu kostnaðarsamari leið. Reyndar felst í lagagreininni, sem ég vísaði í áðan, að kostnaðurinn verði sá sami hvaðan sem hringt er af landinu. Það næst með þessari leið. Hins vegar má segja að hér sé sá annmarki á, að aðeins 10 stofnanir — kerfisins vegna eins og það er nú — geta fallið undir þennan lið, undir þessa aðferð. Til að ná fleiri stofnunum inn þyrfti að taka inn fleiri núll fyrir framan tölustafinn, sem síðan er hringt í, en það kostar miklu viðameiri og kostnaðarsamari breytingar á því kerfi sem nú er búið við. Ég hef því talið þetta vera skynsamlegt fyrsta skref. Vænti ég þess, að málið verði fljótlega tekið til framhaldsmeðferðar í ríkisstj.