16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það verður ýmislegt að bíða til 2. umr. og þá upplýsist sjálfsagt hvað hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um stóriðjuna, hvort það er misminni, sem ég hef sagt hér, eða ekki. Ég ætla að reyna að finna þetta út og fékk umr. í þremur bindum af þingtíðindum. Mér vannst ekki tími til að ganga úr skugga um þetta, en ég veit að við hv. 4. þm. Norðurl. e. erum báðir svo miklir menn að við höfum það sem sannara reynist. Það er ýmislegt sem væri ástæða til að koma að í því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, en ég ætla ekki að gera það núna. Það var kannske það alvarlegasta sem hann sagði gagnvart mér, að ég skildi ekki hv. þm. betur en hann segði að forseti þessarar hv. deildar hefði borið ábyrgð á dauða hrossins. Það vildi þá þannig til að ég var þá forseti þessarar deildar. En ekki meira um það.

Hæstv. iðnrh. talaði um það sem venjulega er kallað íslensk atvinnustefna. Ég man ekki hvort þau orð komu fyrir í ræðu hans áðan, en menn þekkja þessi sjónarmið sem hæstv. ráðh. er vanur að túlka og túlkaði hér. Hann leggur áherslu á að við Íslendingar búum sem mest að okkar eigin og sagði að það hefði löngum verið okkar stefna — ég skildi hann þannig-og hún hefði reynst vel. Undir þetta get ég tekið. Ég hygg að allir Íslendingar taki undir þetta á þeirri forsendu og vegna þess, að það sé okkar hagur að gera slíkt. Yfirleitt eigum við að haga okkar málum eftir því hver er okkar hagur. Það getur verið okkar hagur að hafa margs konar viðskipti við aðra, og þá höfum við þau viðskipti ef það er okkar hagur. Ef við tölum hleypidómalaust um stóriðju getum við líka og eigum að hafa margs konar samvinnu við erlenda menn ef það er okkar hagur. Hver metur það? Ekki útlendingarnir. Það erum við sjálfir sem metum það. Þetta bið ég menn að hafa í huga því að ef menn hafa ekki slík grundvallaratriði í huga þegar verið er að ræða um stóriðju kemur litið út úr þeim umr. og þær umr. verða ekki uppbyggilegar.

Hæstv. iðnrh. sagði að það lægju skil í sambandi við atvinnustefnuna á milli þeirra, sem vilja hlutdeild útlendinga, og hinna, sem hana vilja ekki. Þetta er algjör misskilningur hjá hæstv. ráðh. Það liggja engin skil þarna og eðli málsins samkv. geta þau ekki legið þarna því að við getum ekki haft annan mælikvarða í þessum efnum, sem við erum að ræða um, en þann, hvað þjónar best íslenskum hagsmunum. Halda menn að það sé hægt fyrir fram að slá fastri einhverri reglu um að í tilteknum atriðum geti það aldrei verið hagur okkar að hafa samvinnu eða viðskipti við útlendinga? Nei, við megum ekki hugsa svo. Hæstv. ráðh. spyr svo eins og um einhver undur og stórmerki hvort við sjálfstæðismenn höldum, að útlendingar hafi einhvern hag af því sem við höfum ekki hag af, og hvort útlendingar séu með einhverja góðgerðastarfsemi. Það er eins og það hafi aldrei hvarflað að hæstv. iðnrh. hver sé grundvöllurinn að öllum viðskiptum. Hver er hann? Það verða engin viðskipti nema báðir hafi hag af og það er eins í þessu máli og öðrum. Það verða ekki viðskipti nema á þeim grundvelli að báðir hafi hag af. Mönnum getur missýnst, en viðskiptin takast á þeirri forsendu. Annars takast þau ekki. Þetta verður hæstv. iðnrh. að hafa í huga þegar hann er að ræða um stóriðjumálin og ýmis önnur almenn sannindi og mér liggur við að segja grundvallarsjónarmið og grundvallarreglur. En ég ætla ekki að fara frekar út í það núna.

Ég vil koma að sérstöku raunhæfu viðfangsefni sem við erum að glíma við og ekki síst hæstv. iðnrh. vegna þess að hann fer með þessi mál, er æðsti maður í orkumálum og stóriðju. Viðfangsefnið er það, sem við segjum að við séum allir sammála um, að gera núna stórátak til að hagnýta orkulindir landsins. Það segir enginn að hann sé ekki með því. Hæstv. iðnrh. er enginn eftirbátur í því að leggja áherslu á þetta og sýnir það með tillöguflutningi sínum á Alþingi. En hvernig á að framkvæma þetta? Þar liggja ekkí nein skil í sambandi við atvinnustefnu á þann veg sem hæstv. iðnrh. var að gera skóna áðan. Við skulum bara spyrja: Hvernig eigum við að framkvæma stefnu iðnrh., sem er samhljóða stefnu Sjálfstfl„ að reisa stórvirkjanir á 10–12 árum, eins og hann hefur sjálfur sagt fyrir nokkrum dögum í Sþ.? Ég bið menn að taka eftir því. Hvernig eigum við að framkvæma þetta, hvernig eigum við að standa undir fjármagnskostnaðinum af þessum virkjunum og af stóriðjunni sem þarf til að skapa markaðinn fyrir orkuna?

Ég spyr að þessu vegna þess að við erum með áform um stórt átak á takmörkuðum tíma. Ef við ætlum að gera þetta á 50 árum þurfum við ekki að vera að spyrja. Þá tökum við þetta eftir því sem við getum og höfum bolmagn til og teljum rétt að setja fram mikið áhættufjármagn. En við ætlum að gera þetta á skömmum tíma. Og hvað er þetta? Ég vil minna á að talið er að álíka mikið fjármagn þurfi til að koma upp stóriðju til hagnýtingar orku og þarf til að koma upp virkjun til að framleiða orku til stóriðju. Nú er talið að stóriðjufyrirtæki, sem er álíka stórt og áliðjan í Straumsvík, og orkuver til að fullnægja orkuþörf slíkrar stóriðju kosti álíka mikið og allar erlendar skuldir Íslendinga í dag. Nú erum við ekki að tala um eina virkjun og eitt stóriðjuver á þessum 12 árum. Við erum að tala um nokkur stóriðjuver þó þau séu ekki mörg. Hvernig eigum við að framkvæma þetta?

Nú geng ég út frá því, að við eigum einir allar virkjanirnar, eins og við höfum fram til þessa. Höfum við þá bolmagn til þess á svona skömmum tíma að fjármagna einir þá stóriðju sem kostar jafnmikið og þessar virkjanir? Ég leyfi mér að segja og tel að í því felist engin vantrú á íslensku framtaki, íslensku hugviti, íslenskri djörfung, að þetta sé ekki hægt að gera á þessum tíma á þennan hátt. Ég tel einnig að þó að við kynnum að hafa möguleika til að margfalda svo okkar erlendu skuldir sem þarf, þó við hefðum lánardrottna, þó við gætum tekið þessi lán, sé ekki hægt fyrir okkur og ekki ráðlegt að taka svo mikla áhættu á okkur sjálfa og að þess vegna eigum við undir öllum kringumstæðum að fá verulegt áhættufjármagn. Ef hæstv. iðnrh. telur að við þurfum ekki á þessu að halda, þurfum ekki erlent áhættufjármagn og erlenda eignaraðild að stóriðjufyrirtækjum, sem við reisum í svona ríkum mæli á svona skömmum tíma, þá tel ég að öll hans tillögugerð í virkjanamálunum sé byggð á sandi. Ég hef þess vegna viljað í lengstu lög bíða með að fella endanlega dóm um að þetta verði hreinn loddaraleikur ef svona er hugsað.

Hæstv. ráðh. talaði áðan og sagði ýmislegt gott, sem ég get alveg tekið undir og hver einasti Íslendingur getur tekið undir, í sambandi við það sem hann kallar oft „íslenska atvinnustefnu“ þó að hann nefndi það ekki núna. Hann sagði líka ýmislegt sem ekki getur staðist, eins og ég hef rakið. En það, sem ég saknaði mest, var að hæstv. ráðh. kom ekkert að því, sem við stöndum núna frammi fyrir, hvernig við eigum að framkvæma hans eigin stefnu. Hvernig eigum við að gera það? Ég spyr hæstv. ráðh.: Vill hann hér og nú á þessum virðulega vettvangi í okkar ágætu deild skýra fyrir okkur hvernig hann ættar að framkvæma þetta, ef það er ætlunin að allt þetta sé gert, sem kostar svona mikla fjármuni, af okkar eigin fé, á svona skömmum tíma, ef hann ætlar að framkvæma þetta þannig að fá ekkert erlent áhættufjármagn? Mér leikur forvitni á að vita hvernig hæstv. ráðh. ætlar að framkvæma þetta. Og það er meira en að mér leiki forvitni á að vita þetta. Mér finnst að hæstv. ráðh. beri skylda til að skýra þetta nánar.

Ég undirstrika svo að lokum að allt, sem ég hef talað um þetta, byggist á stefnu hæstv. ráðh. um þessar miklu virkjunarframkvæmdir og þessar óhjákvæmilega miklu stóriðjuframkvæmdir á þessum skamma tíma. Málið horfir allt öðruvísi við ef við ætlum að fara rólega í þetta. Ef við ætlum að reisa eina stórvirkjun á næstu 10 árum í staðinn fyrir að reisa þrjár og ef við ætlum að reisa eitt stóriðjuver í staðinn fyrir að reisa nokkur, þá horfir málið allt öðruvísi við. En við erum að flýta okkur. Við virðumst allir vera sammála um að það riði á að koma í not sem fyrst þeirri auðlegð sem við eigum í orkulindunum, láta það ekki dragast. Á því byggist sú stefna sem við sjálfstæðismenn erum með og kemur fram í tillögugerð hæstv. iðnrh. hér á Alþingi. Þess vegna spyr ég: Hvernig á að framkvæma þetta?