16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3845 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér og bæta örfáu við vegna fyrirspurnar sem til mín var beint síðast frá hv. 3. þm. Norðurl e., þess efnis, hvort ég teldi að það hefði einhver áhrif á íslenskt atvinnulíf ef Íslendingar hefðu ekki átt meiri hluta í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, heldur aðeins 10% eignarhlutdeild, — hvort það hefði haft áhrif á stefnu fyrirtækisins og annað í stjórn þess. Ég svara hv. þm. alveg beint og hiklaust. Ég er þeirrar skoðunar, að sú almenna stefnumörkun, sem fólst í meirihlutaeignaraðild Íslendinga að fyrirtækinu, þó að matið á hagkvæmni þess og skynsemi að ráðast í þetta fyrirtæki á þessum tíma hafi ekki verið rétt, — þessi rammi, meirihlutaeignaraðild, hafi verið réttur og það skipti miklu og það skipti sköpum, hvort menn ráða yfir viðkomandi fyrirtæki, hvort við getum rekið það út frá okkar eigin forsendum eða hvort það er rekið út frá forsendum útlendinga sem hafa starfrækslu í landinu. Það skiptir þá vissulega máli hvort menn eru með 10% eða meiri hluta. Meirihlutaeignaraðildin ein segir ekki heldur alla sögu. Það þarf fleira til að koma til þess að um virk yfirráð sé að ræða, eins og ekki þarf að fjölyrða um hér. Þar skipta aðföng og markaður að sjálfsögðu einnig máli. Ég vil aðeins bæta því við, að núverandi framkvæmdastjóri járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, sem hefur fengið reynslu af því að standa fyrir því fyrirtæki og gert það að mörgu leyti með myndarbrag við erfiðar aðstæður, hefur skýrt frá því sem sínu viðhorfi eftir þá reynslu, sem hann hefur af að standa í forsvari fyrir járnblendiverksmiðjunni, að það hafi verið rétt ákvörðun af Íslendinga hálfu að tryggja sér meiri hluta í fyrirtækinu vegna þeirra áhrifa sem slíkt tryggði á rekstur þess og þróun í kringum fyrirtækið að öðru leyti. Ég held að það sé full ástæða fyrir hv. alþm. að gefa þessum orðum og þessari reynslu Jóns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, gaum.

Þá vil ég aðeins koma að fyrirspurn hv. 4. þm. Vestf. til mín, hvernig ég ætli að standa að framkvæmd á þeim stefnuramma sem dregin var í frv. og nú lögum nr. 60/1981, um raforkuver, og þeirri uppbyggingu markaðar sem gert er ráð fyrir, miðað við forsendur þeirra laga. Þó ber okkur að hafa þar vel í huga þá varnagla sem slegnir eru í sambandi við þá lögfestingu. Þar er enginn fastur rammi á ferðinni að þetta skuli gert fram að þessum tíma, heldur er þar um almenn stefnumið að ræða að gefnum ákveðnum forsendum varðandi hraða uppbyggingu. En það, sem spurt var um, var fyrst og fremst þetta: Er nokkur von til þess, að við Íslendingar getum risið undir þeirri fjárfestingu sem þarna er á ferðinni. (Gripið fram í: Á þessum tíma.) Á þessum tíma? Það var spurning hv. þm., og þá er hann væntanlega að tala um byggingu þriggja virkjana með um 800–900 mw. afli á 10–15 árum, eins og gert var ráð fyrir í grg. með frv. um raforkuver. Skiptir ekki öllu máli, hvort menn hafa verið að tala þar um 10 ár eða 15 eða 12, eitthvað þarna á milli, í því samhengi sem við erum að tala um.

Þá vil ég vísa hv. 4. þm. Vestf. á upplýsingar sem var að finna í fskj. með frv. til l. um raforkuver, þar sem það var einmitt dregið fram með útreikningum frá Þjóðhagsstofnun hvað þessi hraði í uppbyggingu þýddi í greiðslubyrði fyrir íslenska þjóðarbúið sem hlutfall af vergum þjóðartekjum, að mig minnir hafi verið viðmiðunin, og það voru tekin tvö dæmi miðað við hagvöxt, vegna þess að vöxtur þjóðarframleiðslu fer eftir þeim hagvexti sem við gerum ráð fyrir. Annars vegar var miðað við 3.5%, hins vegar við 1.5% hagvöxt á tímabilinu. Það, sem út úr þessu dæmi kom, var ekki hærra hlutfall en svo, að þegar einhverjir hv, stjórnarandstæðingar voru að ræða þetta frv. fannst þeim að það væri heldúr lágt stefnt að þessu leyti. Það sýndi sig nefnilega, að miðað við þennan framkvæmdatíma, þessa uppbyggingu og fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, sem gert var ráð fyrir að væri 1.5 millj. fyrir hverja gwst., ef ég man rétt, 1.5 millj. nýkr. miðað við hverja gwst. í orku, var ekki hærra stefnt, var ekki í meira ráðist en svo, að það fór ekki fram úr meðaltali þess sem við höfum á okkur tekið á tímabilinu 1971–1980 í orkuframkvæmdum og orkufrekum iðnaði á okkar vegum. Ég held því að þetta, sem ég vitna hér til, veiti nokkuð skýrt svar við því sem hv. þm. spurði um. Hann var að gera því skóna, að hugmyndir mínar að þessu leyti, ef við værum að miða við að við Íslendingar réðumst í þessa fjárfestingu, væru reistar á sandi, og hann ættaði aðeins að draga það við sig, ég veit ekki hvort það er til morguns eða eitthvað lengur. að stimpla allt saman loddaraleik eða loddaraskap sem ég er að halda fram um þessi efni.

Ég held að hv. þm. eigi að gá betur að því, hvaða fjárfesting er hér á ferðinni. Ég held að hann hljóti að vita það, jafnmikið og hann hugsar og talar um orkumál, að áherslur okkar í fjárfestingu í orkumálum eru að breytast á þessum tíma. Við erum að ljúka stórátaki í sambandi við húshitun með innlendum orkugjöfum og við höfum lagt í mikla fjárfestingu í hitaveituframkvæmdum á undanförnum árum þar sem um verður að ræða verulegan samdrátt á næstu árum. Við það skapast nýtt svigrúm til fjárfestingar í iðnaði í stað þess sem við höfum verið að leggja í orkuframkvæmdir, í hitaveituframkvæmdir og stofnlínuframkvæmdir til að koma innlendum orkugjöfum í gagnið.

Til þess að það sé enginn misskilningur uppi okkar á milli í sambandi við þetta efni eru stefnumið okkar Alþb.-manna alveg skýr í þessum efnum og það er langt síðan við höfum gert þessi mál upp. Við höfðum líka gert það þegar lögin um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga voru til afgreiðslu. Við höfðum markað okkur fyrstir flokka stefnu í sambandi við þessi mál. Hún lá skýr og ótvíræð fyrir. Við settum það fram sem lágmarkskröfu í sambandi við fjárfestingu í orkufrekum iðnaði að við værum þar meirihlutaaðilar hvað eignaraðild snerti. Við útilokuðum ekki og útilokum ekki enn að eiga einhvern hlut að samstarfi með útlendingum sem minnihlutaaðilum í slíkri uppbyggingu ef við sjáum okkur skýran hag í því, en við teljum æskilegast, að á slíkt þurfi ekki að reyna, og við eigum engan veginn að setja það fram sem eitthvert óskastefnumið ef við sjáum að við höfum bolmagn til að ráða við verkefnin að fullu og öllu sjálfir. Og meirihlutaeignaraðildin ein nægir okkur ekki. Við verðum að hafa tryggingu fyrir því að ráða yfir framleiðsluferlinum að öðru leyti þannig að við höfum ekki einhvern á leiðinni sem getur kippt í spottann þó að við höfum hinn formlega eignarhaldsmeirihluta í viðkomandi fyrirtæki. Við þurfum því að hafa þannig tök á aðföngum og markaði að við hættum ekki of miklu til. Þetta er sú stefna sem Alþb. hefur markað og ber fram. Við höfum t.d. í núverandi ríkisstjórn markað þá stefnu í sambandi við uppbyggingu næsta stóriðjufyrirtækis sem er á dagskrá hvað undirbúning snertir og liggur hér fyrir Alþingi, kísilmálmverksmiðju, að við stöndum að þvi fyrirtæki einir. Við teljum ekki nauðsynlegt að leita til útlendinga um eignarhlutdeild að henni. Það hefur ekki verið neitt formlega lokað fyrir það, en við undirbúning málsins er ekki gert ráð fyrir að á það þurfi að reyna. Og það er ekkert sem bendir til þess við undirbúning málsins, að nauðsynlegt sé eða sérstakur hagur fyrir okkur að fara að leita eftir einhverri minnihlutaeignaraðild útlendinga í slíku fyrirtæki. Það losar okkur t, d. undan þeim vanda að fara að gera flókna samninga, fylgisamninga, eins og við þekkjum frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, svo ekki sé talað um álverið í Straumsvík, vegna umtalsverðrar eignarhlutdeildar erlendra aðila sem hafa krafist mjög sterkra samningslegra skuldbindinga af okkar hálfu í sambandi við aðstöðu sína og rekstur hérlendis.

Ég held að við hv. 4. þm. Vestf. ættum að geta verið á einu máli um það, eftir að hann hefur athugað þetta mál betur, að það er engin ofætlun okkar Íslendinga, ef við metum það skynsamlegt að ráðast í iðnaðaruppbyggingu með þeim hraða sem þarna var til umræðu, finnum flöt á því, hagkvæm tækifæri til fjárfestingar, heldur er það fyllilega á okkar færi efnahagslega séð að standa undir slíkri fjárfestingu.