05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í þessari umr. um ókeypis símþjónustu opinberra stjórnsýslustofnana, sem teljast verður liður í því að jafna símkostnað landsmanna, vil ég nota tækifærið og lýsa furðu minni á vinnubrögðum ráðh. og mótmæli því harðlega, hvernig hann hefur haldið á því máli að jafna símkostnað landsmanna. Það hlýtur að vera fátítt og heyra til hreinna undantekninga, að þegar mál er til umfjöllunar á Alþingi sem að efni til felur í sér ákveðna viljayfirlýsingu Alþingis til framkvæmdavaldsins, þá rjúki ráðh. til og hrindi umdeildu máli í framkvæmd áður en afstaða þm. til málsins liggur fyrir. Hér er um að ræða till. sem felur í sér að könnun fari fram meðal símnotenda á afstöðu þeirra til tveggja mismunandi valkosta til að jafna símkostnað landsmanna.

Kjarni þessa máls er að Alþingi samþykkti 1974 að símkostnaður landsmanna yrði jafnaður. Þar sagði ekkert til um það, hvort það yrði gert með skrefatalningu eða eftir öðrum leiðum. Þó að ýmsum aðilum hafi verið margbent á að ná mætti jöfnun eftir öðrum leiðum en skrefatalningunni, svo sem með gjaldskrárhækkun umframskrefa, hefur framkvæmdavaldið aldrei viljað viðurkenna að til væri önnur leið til að jafna símkostnað landsmanna en skrefatalningin. En nú nýlega hefur Póst- og símamálastofnun viðurkennt að ná megi sömu jöfnun með gjaldskrárhækkun umframskrefa, og það er einmitt þess vegna sem ástæða er til að taka málið upp á nýjan leik á Alþingi. Og það er hreinlega út í hött að bera fyrir sig eða láta að því liggja, að með þeirri till., sem liggur fyrir Alþingi, sé verið að reyna að koma í veg fyrir jöfnun símkostnaðar eða að könnunin sé svo flókin að hún sé ekki framkvæmanleg.

Viðurkennt er að tveir mismunandi valkostir gefi sömu tekjuaukningu. Þess vegna vilja flm. till. að símnotendur fái að segja álit sitt á hvor leiðin verði farin. Engu að síður rýkur ráðh. til og hrindir málinu í framkvæmd áður en Alþingi hefur látið í ljós vilja sinn í málinu. Og því furðulegri er afstaða og vinnubrögð ráðh. í þessu máli þegar fyrir liggja einnig frá Neytendasamtökunum og Bandalagi kvenna, sem hafa um 20 þús. félagsmenn, eindregnar óskir og tilmæli til ráðh. um að þessi könnun fari fram og framkvæmd og ákvörðun skrefatalningarinnar sé frestað á meðan. Þetta eru vinnubrögð sem ég vildi ekki láta hjá liða í þessari umr. að átelja harðlega.