16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3865 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

107. mál, almannatryggingar

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 453 skrifa ég undir þetta nál. með fyrirvara. Ástæður þess eru að mörgu leyti svipaðar því sem hv. þm. Magnús H. Magnússon lýsti áðan. Ég tel að núverandi daggjaldakerfi hafi reynst illa í framkvæmd, þ.e. að sjúkrastofnanir hafi orðið .að beita öllum tiltækum ráðum til þess að tryggja sem besta nýtingu rúma svo að nokkur fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir hendi við rekstur stofnunarinnar. Einkum er þetta svo vegna þess, hve daggjöld hafa verið ákveðin lág og ákvörðun um þau tekin seint, yfirleitt ekki fyrr en allt er komið í óefni. Þá er bætt við svokölluðu halladaggjaldi, sem er að vísu farið að hætta vegna skorts á fjárlagaheimild, til þess að greiða halla síðasta árs, en lítið eða ekkert tillit tekið til þess fjármagnskostnaðar sem áfallinn er, en það hlýtur að segja sig sjálft að slíkt gengur ekki til lengdar í 40 – 50% verðbólgu.

Annaðhvort verður því að breyta daggjaldakerfinu sjálfu eða eitthvað annað að koma í staðinn. Er hugsanlegt t.d. að meta þjónustu og greiða sérstaklega fyrir hana? Ég er hins vegar ekki sannfærður um að sú aðferð, sem lagt er til í þessu frv. að taka upp, þ.e. að taka sjúkrastofnanir inn á fjárlög, sé sú lausn sem við þurfum að finna. Í því sambandi vil ég benda á m.a. að komið hefur fram í blaðafréttum nú nýverið að ríkisspítalarnir, sem eru inni á fjárlögum, eru þegar komnir í fjárvöntun upp á 17 millj. kr., og það er ekki nema apríl liðinn af þessu ári enn. Ég verð að viðurkenna að fenginni eigin reynslu af rekstri sjúkrastofnana, að ég hræðist þá stöðu á haustmánuðum þegar fjmrn. segir við forstöðumenn sjúkrahúsa að fjárveitingin sé búin og meira fé sé ekki fyrir hendi til þeirra. Þetta segi ég að fenginni reynslu. En til þess að forðast allan misskilning er ég ekki haldinn neinni sérstakri tortryggni gagnvart núv. hæstv. fjmrh., heldur er þetta reynsla mín af þeim fjmrh. sem ég hef þurft að leita til í þessu sambandi og þeir eru orðnir æðimargir. Allir hafa þeir verið fastheldnir á fé, þegar fjárlagaheimildinni er lokið, og í raun ekki treyst sér til að taka tillit til kostnaðar eins og hann liggur fyrir á hverjum tíma. Þetta hefur verið reynslan, ekki síst þegar um hefur verið að ræða þann möguleika fyrir ríkisvaldið að skella ábyrgðinni og fjárhagsskuldbindingunum á sveitarfélögin og því treyst, að þau leysi vandann. En hér er um svo stórar fjárhæðir að ræða að ég fullyrði að sveitarstjórnirnar geta ekki leyst slík vandamál til lengdar, ef upp koma, með núverandi tekjustofnum sínum.

Þar sem hér er þó gerð tillaga um aðferð til reynslu ég vil halda því fram að þetta sé gert til reynslu — og einkum vegna mikils vanda sem orðinn er við rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, vil ég ekki standa gegn samþykkt þessa frv. En ég tek fram og ítreka að ég tel það gert til reynslu og ætti að taka málið upp aftur eftir 2–3 ár og athuga þá hvernig reynst hefur að reka sjúkrahús sameiginlega af ríki og sveitarfélagi á fjárlögum, samanborið við reynsluna af hinu svokallaða daggjaldakerfi. Jafnframt verður að nota tímann til að endurskoða þessi mál í heild þannig að sem best sé tryggt að sjúkrastofnanir séu reknar á sem hagkvæmastan hátt og allir sitji við sama borð. Ekki þætti mér ólíklegt að þar yrði blandað saman, stofnkostnaður t.d. og viðhaldskostnaður fasteigna og stærri tækja hafður á fjárlögum en annar kostnaður greiddur af daggjöldum, þar sem meira tillit yrði tekið til veittrar þjónustu en nýtingar rúma.

Herra forseti. Þetta er ástæðan fyrir því að ég skrifa undir nái. með fyrirvara, en ég mun greiða frv. atkvæði mitt.