16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3866 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

107. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er nú verið að ræða að mínu mati eitt af stærstu málum þingsins. Þó að þetta frv. sé lítið, sem hér birtist okkur á þskj. 110, er hér í raun og veru verið að fjalla um eitt af okkar alstærstu málum. Í fyrsta lagi út frá því sjónarmiði, að hér er verið að ræða um fjármögnun á grundvallarþætti í heilbrigðisþjónustu landsmanna, þ.e. öllum sjúkrahúsum öðrum en sjúkrahúsum ríkisins. Í öðru lagi er verið að fjalla um það hér með hvaða hætti Alþingi kýs að verja peningum til að reka þessar stofnanir.

Þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, alveg sérstaklega ræða hv. 1. landsk. þm„ eru samfelldur áfellisdómur yfir svokölluðu daggjaldakerfi. Ég hef satt að segja aldrei heyrt ræðu sem er jafnhreinn og beinn og alger áfellisdómur yfir daggjaldakerfinu og ræðan sem hv. þm. flutti hér áðan. Gildir þar einu hvort um er að ræða daggjaldanefnd sjálfa eða heilbrmrn. og vinnubrögð þess. Það var í rauninni allt sem hv. þm. fann þessu daggjaldakerfi til foráttu. Og ég er satt að segja ekkert undrandi á því. Þess vegna er margt í máli hans sem ég get tekið undir — mjög margt. En ég geri það á dálítið öðrum forsendum en hann. Ég geri það út frá þeim forsendum. að ég tel að daggjaldakerfið og fjármögnun þess tryggi ekki nægilega trausta stjórn ríkisvaldsins á hverjum tíma á þeim fjármunum sem fara til heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Ég tel að þeir, sem ábyrgð bera þar, þ.e. ríkisstj. og Alþingi, eigi að gera þá kröfu til sjálfra sín að betri stjórntök séu á málum en kostur er á að hafa í gegnum daggjaldanefnd.

Hér er hins vegar ekki till. uppi um að velta þessu kerfi við. Hér er ekki verið að gera nema slíka tillögu, eins og ætla hefði mátt af ræðu hv. 1. landsk. þm. Hér segir aðeins að um geti verið að ræða rekstur með beinum framlögum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Það er m.ö.o. verið allra náðarsamlegast að fara fram á það. að hv. Alþingi, löggjafarsamkomunni, verði heimilt að ákveða í fjárlögum hverju sinni hvernig eigi að fjármagna spítalana í landinu. Það eru öll ósköpin sem verið er að fara fram á með þessu frv. Það er ekki verið að segja í frv. að það eigi skilyrðislaust að leggja daggjaldakerfið niður, og væri þó kannske ekki vanþörf á, heldur er verið að segja að Alþingi Íslendinga. sú virðulega samkoma, geti við afgreiðslu fjárlaga ákveðið að það eigi að fjármagna þessar stofnanir beint.

Í frv. stendur að vísu ekki að það eigi að byrja á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, enda væri ég ekki tilbúinn til að flytja frv. um að það eigi að byrja á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Ég tel að til greina kæmi að byrja á ýmsum öðrum sjúkrahúsum frekar. minni sjúkrahúsum. Hér er ekki verið að leggja neitt annað til en að þetta sé heimilt fyrir Alþingi og að sá maður. sem þarf að leggjast inn á þessa sjúkrastofnun vegna veikinda, þurfi ekki að bera kostnaðinn af því sjálfur. Hér er verið að breyta almannatryggingalögunum með þessu frv. og segja sem svo, að þó að maður lendi á sjúkrastofnun sem ekki er í eigu ríkisins. þá þurfi hann ekki að greiða kostnaðinn af því sjálfur heldur sé hann greiddur samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni.

Ég er satt að segja undrandi á því. að menn sem þekkja jafnvel til og hv. 1. landsk. þm. í rekstri sjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustunnar í landinu. skuli geta flutt jafnlangar vandlætingarræður um jafnlítið frv. og er hér á ferðinni og jafnsjálfsagt mál. Auðvitað eru ýmsir aðilar, m.a. forráðamenn sveitarfélaga. nokkuð ragir við að sleppa þessum fjármögnunarleiðum daggjaldakerfisins beint yfir á ríkið. Það er talað um það hér af hverjum ræðumanninum á fætur öðrum, sennilega öllum sem á undan hafa talað. að ríkið sé að skella kostnaði á sveitarfélögin. Hv. þm. Magnús H. Magnússon orðaði þetta þannig. Ég segi við ykkur, hv. alþm., að það er útilokað að ríkið komist upp með að skella neinum verulegum kostnaði á sveitarfélögin. Sveitarfélögin hafa enga burði til að taka við þessum kostnaði. Hv. þm. sat að vísu í heilbrmrn. í þrettán mánuði og kann að vera að þá hafi verið gerð alveg sérstök og markviss tilraun til þess að skella kostnaði á sveitarfélögin. Ég kannast hins vegar ekki við að þann tíma, sem ég hef setið í heilbrmrn., hafi verið gerð tilraun til þess að skella kostnaði á sveitarfélögin.

Það, sem hér er um að ræða, er að við erum með einn stærsta útgjaldalið íslenska ríkisins og við erum með tillögu um að honum megi koma fyrir með ákveðnum hætti. við neitum að borga sjálfvirki hvaða hallareikninga sem koma frá spítölunum á landinu.Jafnvel þó að það gerist, að sjúkrahús sýni í janúarmánuði háar hallatölur fyrir næstliðið ár, án þess að leggja fram sína reikninga, þá neita ég að samþykkja slíkar hallatölur. Ég neita að samþykkja að peningum ríkisins sé varið með þessum hætti. Þess vegna var engin furða þó að við stöldruðum við þegar við í byrjun þessa árs fengum upplýsingar um að hallinn á spítölunum á s.l. ári væri í kringum 12% eða meira. Við vorum ekki tilbúnir að fallast á þessar tölur undireins. (Gripið fram í.) Ríkið samdi við læknana, hv. þm„ og það er hluti af þessum vanda, en mjög lítill hluti af þessum vanda. Það er mjög mikil einföldun á flóknu máli að ætla sér að halda því fram, að það sé meginskýringin á þessu.

Kem ég nú að skýringunum sem hægt er að hafa uppi á þessum 12% halla. Okkur þótti þetta sérkennilegt, sérstaklega vegna þess að á s.l. ári samþykktum við verulegar hækkanir á rekstrardaggjöldum sjúkrahúsa til þess að ná þeim upp á rekstrargrunn. í trausti þess að við værum að leiðrétta þetta og fengjum ekki eftir á halla af svipaðri stærð árið 1981 og við stóðum frammi fyrir eftir árið 1980.

Í framhaldi af því gerist það í heilbrmrn., að við förum yfir þessi mál. Við ræðum við forstöðumenn sjúkrahúsanna. Þeir kalla okkur til sín á fund og ég ræði við þá á fundi sem haldinn var í febrúarmánuði eða seint í janúar. Þar gerði ég grein fyrir viðhorfum heilbr.- og trmrn. og ríkisstj. Ég lagði fram nokkur atriði til að skýra okkar sjónarmið. 1 bréfi til sjúkrahúsanna sagði ég m.a. að ég teldi ekkert óeðlilegt þó að ríkið reyndi að glíma við eins og 5% halla á árinu 1981, en það yrði erfitt að bæta þar mjög miklu við. Síðan óskaði ég eftir að öll daggjaldasjúkrahúsin gerðu fyrir 1. maí 1982 grein fyrir starfsáætlunum sínum fyrir árið 1983 í einstökum atriðum. Skal við það miðað að heilbr.- og trmrn. hafi maí- og júnímánuð til að fara yfir þessar áætlanir sjúkrahúsanna þannig að unnt verði að taka tillit til þeirra við afgreiðslu fjárlagafrv. í sept. 1982 og að Alþingi geti haustið 1981 farið yfir rekstrarkostnað sjúkrahúsanna í landinu fyrir árið 1983. Verða starfs- og rekstraráætlanir þessar lagðar fyrir Alþingi sem fylgiskjal með fjárlagafrv. eða á annan þann hátt sem eðlilegur kann að þykja.

Í fyrrnefndu bréfi, sem ég skrifaði sjúkrahúsunum 12 febr. s.l., segir enn fremur: „Heilbr.- og trmrn. mun nú fela daggjaldanefnd að endurskoða vísitölu sjúkrahúskostnaðar þar sem ljóst er að hún er allt of mikil einföldun á rekstrarkostnaði eins og hún er nú.“ Í sjötta lagi óskaði ég eftir því í bréfinu, að fram kæmu ábendingar frá sjúkrahúsunum um hvað eina sem betur mætti fara í stjórn og afskiptum ríkisins af starfsemi og rekstri sjúkrahúsanna. Þetta bréf var sent út, eins og ég sagði, 12. febr. s.l. og svör við því hafa verið að berast undanfarnar vikur.

Jafnframt því sem þetta bréf er sent út er fjallað um daggjöldin frá og með 1. mars s.l. Koma þar fram tvær tillögur í daggjaldanefnd. Önnur gengur út á það að koma að verulegu leyti til móts við sjónarmið sjúkrahúsanna, en hin gengur út á það að sníða útgjöldin fyrst og fremst eftir þeim forsendum sem Alþingi hefur skammtað okkur. Alþingi hefur skammtað okkur tiltekinn fjárlagaramma að fara eftir. Það er Alþingi sem ákveður hversu miklu fé er varið til daggjalda. Það er Alþingi sem ákveður það, en ekki ríkisstj. eða heilbrmrh. eða fjmrh. á hverjum tíma. Alþingi setur starfsreglur í þessum efnum að sjálfsögðu, en þörf virðist vera á að taka það fram eftir þær umr. sem hér hafa farið fram.

Í framhaldi af þessum tveimur tillögum daggjaldanefndar gerði ég tillögu um milliveg þar sem byggt er á því að rekstrardaggjöld verði hækkuð eins og gert hafði verið ráð fyrir af fulltrúum fjmrn. og heilbrmrn. í daggjaldanefnd, en að auki yrði um að ræða sérstaka 5% hækkun upp í hallann á s.l. ári. Þessi sérstaka hækkun hefði það í för með sér, að daggjöld hækkuðu um ca. 13–14% frá og með 1. mars. Á þessu ári hefur þannig verið tekin ákvörðun um að verja 50–611 millj. kr. vegna hallarekstrar sjúkrahúsanna á s.l. ári. En mér er ljóst að það er ekki nóg miðað við þær kröfur sem uppi eru frá sjúkrahúsunum. Það er fjöldinn allur af sjúkrahúsum og forstöðumönnum sjúkrahúsa í landinu sem gera kröfur um að auka þarna við. En við skulum líka gera okkur ljóst að verulegur hluti sjúkrahúsanna í landinu er vel rekinn og er með talsvert minni halla en jafnvel þessi 5% sem ég nefndi. þí>að meðaltalshallinn hafi verið á s.l. ári í kringum 12%.

Til viðbótar við þann vanda. sem hér hirtist okkur í halla sjúkrahúsanna 1981 og þar af leiðandi í rekstrargrunni sjúkrahúsanna 1982 og Fjárlagaforsendunum, liggur einnig fyrir að uppi eru óskir um að hefja mjög verulega nýja starfsemi í daggjaldasjúkrahúsum ú árinu 1982. Ég nefni sem dæmi í fyrsta lagi hjúkrunarheimilið við Snorrabraut í Reykjavík sem verður rekið á daggjöldum. Í öðru lagi bæklunardeild og gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég nefni hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi. Ég nefni hugsanlega stöðufjölgun í sjúkrahúsinu á Selfossi. Ég gæti nefnt fleiri dæmi. Þannig standa óskir alls staðar til verulegrar aukningar á þessum sviðum. Er nokkur furða þó að menn óski eftir því, að á þessum málum sé tekið af fullri alvöru af hálfu stjórnvalda? Og er nokkur furða þó að málið horfi þannig við okkur. að við teljum okkur skylt að reyna að fara ofan í saumana á þessum málum lið fyrir lið? Hér er hins vegar verið að fara fram á lagaheimild fyrir þingið til þess að ákveða í fjárlögum hverju sinni hvernig eigi að fjármagna þessar stofnanir. Hér er ekki verið að fara fram á neina byltingu, eins og ætla hefði mátt af ummælum hv. þm. Pétur Sigurðssonar um mig og Lenin hér áðan. (Gripið fram í: Þið eruð nú ekki líkir.) Ja. það er skeggið kannske sem hefur ruglað hv. 1. landsk. þm.. en ég geri ekki ráð fyrir að hv. 7. landsk. þm.. skrifari deildarinnar. hafi þekkt Vladimir Ilyich Lenin. Þó kann það að vera. (Gripið fram í.) Hv. þm. getur vafalaust beðið hér um orðið á eftir og gert grein fyrir kynnum sínum af Vladimir Ilyich Lenin undir þessum dagskrárlið um almannatryggingar. Forseti getur að sjálfsögðu bannað þá umræðu undir umræðum um daggjöld sjúkrahúsa. þó kannske væri fróðlegt að fá það sem innskot í þessa athyglisverðu umræðu.

En nú má spyrja: Hvernig hefur þessum málum verið háttað á undanförnum árum og af hverju stafar hallinn núna? Eru það læknasamningarnir, eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon gat um áðan?

Í greinargerð frá daggjaldanefnd sjúkrahúsa — sem var sett saman, trúi ég, snemma í febrúarmánuði — var farið nokkuð rækilega yfir þessi mál og þar koma fram mjög fróðlegar upplýsingar. Þar kemur fram að rekstrarhalli sjúkrahúsanna hefur verið verulegur á hverju ári allt frá 1977, ég hef ekki lengri tímaviðmiðun. Árið 1977 var rekstrarhalli sjúkrahúsanna 9%, árið 1978 7.3%, árið 1979 7.4%, árið 1980 12%, árið 1981 12.5% samkvæmt bráðabirgðauppgjöri. Okkur sýnist að talan fyrir 1981 geti að vísu orðið eitthvað lægri.

Til samanburðar ætla ég að nefna hér fimm daggjaldasjúkrahús sem hefur verið gerð mjög nákvæm könnun á. Ég nefni meðaltalshalla þessara sjúkrahúsa 1977–1981. Á Akureyri hefur meðalhallinn verið 12.2%, á Húsavík 7.7%, á Landakotsspítala 12.3%. Það eru til dæmi um meðalhalla á þessum tíma, fjórum árum, upp í 15.1%. Og hvað er halli á sjúkrahúsi? Halli á sjúkrahúsi sýnir að teknar hafa verið ákvarðanir um rekstur umfram heimiluð daggjöld. Halli á sjúkrahúsi sýnir ekkert annað. Hér er sem sagt um það að ræða, að á þessu 4–5 ára bili hefur verið halli á heilbrigðisþjónustunni, þ.e. sjúkrahúsunum, á bilinu 7–12% eftir árum. Hér er um að ræða mjög stórar upphæðir. Það er ljóst að ákveðinn hefur verið rekstur á þessum stofnunum umfram þá fjármuni sem hefur verið varið til þeirra á hverjum tíma.

Hverjar eru svo helstu orsakir hallans að mati daggjaldanefndar. Ég ætla að lesa það upp:

1. Síaukinn fjármagnskostnaður vegna hækkandi vaxta á þessu tímabili. Nemur fjármagnskostnaður um 14% af halla áranna 1980 og 1981.

2. Frá 1979 hefur kostnaður af flutningi sjúklinga milli sjúkrahúsa lent á þeim sjúkrahúsum sem senda sjúklinga frá sér. Fyrir þann tíma lenti sá kostnaður að miklum hluta á sjúklingunum sjálfum. Hér er um að ræða viðbót á nokkrum sjúkrahúsum, t.d. á Egilsstöðum, en þessi kostnaður er breytilegur frá ári til árs.

3. Rekstrarbreytingar sem hafa haft í för með sér fækkun legudaga.

4. Efnt hefur verið til meiri háttar tækjakaupa og endurnýjunarframkvæmda sem sjúkrahús og einstakar heilbrigðisstofnanir hafa jafnvel lagt út í án samráðs við daggjaldanefnd.

5. Ljóst er að þar sem heilsugæslustöðvar eru reknar í sama húsnæði og sjúkrahúsin, eins og sums staðar á sér stað, eru oft ekki nógu skörp skil milli þessara rekstrareininga — og hygg ég að hér taki daggjaldanefnd nokkuð vægt til orða. Telur daggjaldanefnd að kostnaðarlega halli þarna verulega á sjúkrahúsin.

Þetta eru þær fimm meginástæður sem daggjaldanefnd telur vera til þess, að halli hefur orðið á daggjaldaspítölunum á undanförnum árum.

Í umr. hér um þetta mál, m.a. í ræðu hv. 1. landsk. þm„ Péturs Sigurðssonar, kom fram að hann taldi að vísitala sjúkrahúskostnaðar væri allt of mikil einföldun á kostnaði sjúkrahúsanna í landinu. Undir það get ég algjörlega tekið og ég hef óskað eftir að lagður verið grundvöllur að endurskoðun á þessari vísitölu. Það er sjálfsagt. Ég held hins vegar — og það er ein ástæðan til þess, að við erum að brjóta heilann um þessa hluti — að við finnum aldrei vísitölu sjúkrahúskostnaðar sem dugir fyrir bókstaflega öll sjúkrahús í landinu. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að taka fyrir hvert einstakt tilvik, enda er hér um að ræða svo stórar rekstrareiningar að það er fyllilega réttlætanlegt að meta svo að segja hvert einstakt sjúkrahús eða heilbrigðisstofnun í landinu.

Þeir, sem eru talnaglöggir, hafa kannske gaman af því að heyra með hvaða hætti vísitala sjúkrahúskostnaðar hefur breyst á árunum 1977–1981. Síðar geta menn utan þessarar umræðu borið það saman við aðrar vísitölur. Árið 1977 hækkaði vísitala sjúkrahúskostnaðar um 42%, 1978 um 53.9%, 1979 um 49.6%, 1980 um 50.5%, 1981 um 51.9%. Þetta eru í raun og veru þær meðaltalshækkanir á kostnaði daggjaldasjúkrahúsanna sem heilbrmrn. og ríkisstj. á hverjum tíma hafa viðurkennt. (HBl:1 40% verðbólgu um 51.9%.) Á s.l. ári frá árinu 1980, hv. 7. landsk. þm., 51.9%. (HBI: Og 40% verðbólga.) Það var 41.% verðbólga innan ársins eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt af ítarlegum umr. sem fram hafa farið um verðbólgumál í þessum sal og mætti gjarnan hefja á ný ef hv. þm. óskar eftir því þegar hann er búinn að tala um Lenin.

Í sambandi við þessi mál vil ég aðeins nefna fleiri tölur til glöggvunar. Á árunum 1977–1980 hefur sjúkratryggingakostnaður í heild hér á landi hækkað um 30% á föstu verðlagi. þar af sjúkrahúskostnaður um 18% og kostnaður við langlegu sérstaklega, á föstu verðlagi, um 55%. Hluti ríkissjóðs í útgjöldum sjúkrasamlaga á að vera 85% á móti 15% frá sveitarfélögum, en hlutur ríkissjóðs í sjúkrahúskostnaði er hins vegar um og yfir 90% vegna kostnaðar við langlegu. Sjúkrahúskostnaður er nú um 55% af útgjöldum sjúkrasamlaganna. Það er mjög misjafnt hve stór hlutur ríkissjóðs er í greiðslu daggjalda. Á árinu 1980 greiddi ríkið um 88.4% af daggjöldum á Borgarspítalanum, 87.5% af daggjöldum á Akureyri, 91.4% í Neskaupstað, 92.3% á Húsavík. 95.3% á Siglufirði, 93.2% á Sauðárkróki og 94.1% á Blönduósi. Þessar tölur sýna fyrst og fremst mismunandi þunga langlegusjúklinga í þjónustu þessara heilbrigðisstofnana. Ég vil þessu næst víkja aftur nokkuð að vísitölu sjúkrahúskostnaðar og vekja athygli á því, að samsetning hennar hefur verið að breytast mjög verulega á síðustu árum.

Við létum fara fram könnun á því, hvert væri hlutfall rekstrarkostnaðar á nokkrum sjúkrahúsum í landinu. Við tókum nákvæmlega sex spítala og kembdum við þá lið fyrir lið og hárum síðan saman við vísitölu sjúkrahúskostnaðar. Samkvæmt vísitölu sjúkrahúskostnaðar eiga H-laun svokölluð að nema 29.4%. En í þeirri könnun, sem við látum gera á sex sjúkrahúsum, kemur í ljós að svokölluð H-laun nema hvergi meira en 22.6% og alveg niður í 11.5%, þannig að hlutfall þeirra er mjög verulega ofmetið í vísitölu sjúkrahúskostnaðar. Þar með hafa áhrif læknasamninganna í rauninni líka verið ofmetin ef þau hafa eingöngu verið mæld á vísitölu sjúkrahúskostnaðar. Hins vegar er ljóst að hlutur svokallaðra lægri launa hefur aukist mjög verulega frá því að vísitala sjúkrahúskostnaðar var ákveðin. Það kemur í ljós í þeirri könnun sem við gerðum á sex sjúkrahúsum. Þannig hefur samsetning vísitölu sjúkrahúskostnaðar greinilega breyst og þess vegna þarf að endurskoða hana.

Hér er ekki tillaga um neina allsherjarlausn á vandamálum heilbrigðisþjónustunnar, eins og haft var eftir einhverjum áðan. Það hafa heldur aldrei verið mín orð. Ég minni bara á að útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi eru á þessu ári sennilega um 8.5% af þjóðarframleiðslunni. Árið 1980 voru þau um 3%. Þessi útgjaldahluti hefur stöðugt farið vaxandi og er óhjákvæmilegt að við gerum okkur grein fyrir því, að ef við ætlum að halda heilbrigðisþjónustunni gangandi með þeim hætti, sem við höfum gert kröfur um, kostar það fjármuni sem annaðhvort verða að fást með viðbótarskattlagningu á landsmenn eða með sparnaði og tilfærslum í þeirri þjónustu sem fyrir er.

Ég vil vekja athygli á því að kostnaðurinn við ríkisspítalana eina er miklu meiri en allar tekjur íslenska ríkisins af eignarsköttum. Og ég vil vekja athygli á því, að kostnaður við rekstur sjúkrahúsanna í landinu er mun meiri en nemur öllum tekjum íslenska ríkisins af beinum sköttum, bæði eignarsköttum og tekjusköttum. Ég vil einnig vekja athygli á því, að þegar menn eru að gera kröfur um lagfæringar í heilbrigðismálum eru menn að sjálfsögðu einnig að gera kröfur um niðurskurð á útgjöldum einhvers staðar þar á móti eða skattlagningu.

Ég tel að hér sé um að ræða frv. sem fer fram á hógværa og litla breytingu, — frv. sem fer fram á að Alþingi sjálfu verði heimilt að setja einn og einn spítala á bein fjárlög. Mér finnst tæplega hægt að fara fram á öllu minna við hv. Alþingi í þeirri litlu viðleitni sem hér er uppi til þess að reyna að hafa einhvern hemil á útgjöldum til heilbrigðismála í landinu. Okkur eru takmörk sett í þeim efnum og við verðum að fara eins vel og kostur er með það fjármagn sem okkur er þar trúað fyrir.

Í nál. minnihl. heilbr.- og trn. segir svo: „Við teljum að leggja beri niður daggjaldakerfið, eins og það er nú, en taka í þess stað upp nýtt greiðsluform til sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana, sem byggist á því að greiða hverja þá þjónustu sem þar er innt af hendi, í stað þess að miða greiðslur við nýtingu rúma.“

Í rauninni er óheimilt að fara þá leið sem hér er nefnd af hv. þm.

Hv. minni hl. heilbr.- og trn. segir einnig: „Undirritaður minni hl. heilbr.- og trn. telur að samþykkt þessa frv. muni tefja fyrir nauðsynlegum og skynsamlegum breytingum til lækkunar á einum stærsta útgjaldalið ríkissjóðs.“

Ég hef ekki orðið var við það í tillögum eða málflutningi hv. þm. Péturs Sigurðssonar, að þar hafi komið fram upplýsingar um með hvaða hætti hann vill lækka þennan kostnað. Ég vil heyra þær tillögur. Ég vil fá upplýsingar um það, með hvaða hætti nákvæmlega hann gæti hugsað sér að ná þessum kostnaði niður. Hér dugir ekki neitt breitt tal, eins og hæstv. forseti þessarar deildar orðar það stundum, þegar hann er að setja ofan í við menn. Hér duga ekki breiðar ræður. Við viljum fá tölur og nákvæmar tillögur hvernig menn ætla sér að ná þeirri lækkun á þessum kostnaði sem menn eru að tala um.

Þegar heilbr.- og trmrn. gerir tilraun til þess að fara fram á það við forráðamenn sjúkrahúsanna í landinu, að þeir spari, fari vel með og komi til móts við stjórnvöld á þessu sviði, þá rýkur stærsta blað landsins, Morgunblaðið, upp til handa og fóta með þvílíkum gassagangi að sjaldan hefur annað eins sést. Þegar heilbrigðisyfirvöld reyna að ná utan um þann mikla tilkostnað sem hér er um að ræða, þá veður uppi þetta stóra blað í sínum 40 þúsund eintökum, eða 35 þúsund eða hvað það nú er, og ræðst á heilbrigðisstjórnina fyrir að dirfast að fara fram á að menn komi með ábendingar um hvernig hægt væri að spara. Slíkur er áhuginn í þessum herbúðum þegar til kastanna kemur. Það er fróðlegt og það verður munað.