16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3872 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

107. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ef hæstv. ráðh. hefði einhvern tíma verið með mér til sjós hefði ég sagt í byrjun ræðu hans að hann væri örugglega búinn að pissa í annan heilbrigðisskóinn. Í lok ræðu hans hefði ég hins vegar sagt að hann væri búinn að pissa í þá báða. Hann er búinn að fara í hring í sinni ræðu. Hann byrjar á að ráðast að mér fyrir að hafa haldið þá ofsalegu ræðu, sem ég átti að hafa haldið, og kallaði það langa vandlætingarræðu. Hann byrjaði samt sína ræðu á því að segja að við værum að ræða hér eitt af stærstu málum þingsins. Samt finnur hann að því, að einn af nefndarmönnum í heilbr.- og trn. haldi langa ræðu um málið.

Ég er að halda langa ræðu um málið vegna þess að það frv., sem við erum að ræða hér, segir og gerir ekki neitt í þessu mikla vandamáli, í þessum sparnaði sem hæstv. ráðh. er að tala um. Í frv. koma engar tillögur fram um neinn sparnað. Það er eingöngu tillaga um að það megi fara með sjúkrahúsin, að vísu með heimild sem hann hefur bent á, inn á fjárlög. En hvaða vanda leysir það í sjálfu sér? Það leysir ekki nokkurn vanda.

Vegna þess að hæstv. ráðh. telur sig aldrei hafa fengið nema tillögu frá mér til lækkunar vil ég benda honum á að hann hefur lagt hér fram frv. fyrir nokkrum dögum og einn kafli þess frv. fjallar um stórlega lækkun alla vega að kostnaður fari frá ríkinu og yfir á aðra, yfir á einstaklingana sjálfa. Hann hefur tekið þetta upp, lagt það fram í stjfrv. Þessi tillaga kom frá mér í þeirri undirbúningsnefnd sem hæstv. ráðh. skipaði til þess að fjalla um málefni aldraðra. Það verður til sparnaðar fyrir ríkið, hæstv. ráðh. Og reyndar á hæstv. ráðh. á blöðum hjá sér margar slíkar tillögur því frá mér og mínum stofnunum, ég get tekið undir mikið af því sem hann hefur sagt hér í sinni ræðu. Hvaða stofnun sem á í hlut, hvort hún telst í eigu sveitarfélags, er sjálfseignarstofnun eða í eigu ríkisins, þá er auðvitað ótækt að stjórnendur geti þar algjörlega ráðið og farið að eigin leiðum og óskum. Það verður að fara eftir einhverjum ramma sem settur er. En þá komum við að því, hver sá rammi eigi að vera.

Hæstv. ráðh. er búinn að margviðurkenna það, að vísitölugrundvöllurinn frá 1968, sem lagður er til grundvallar við ákvörðun á þeim fjármunum sem Alþingi útvegar þessum stofnunum, er snarvitlaus. Hann var vitlaus fyrir mörgum árum, eins og þá var viðurkennt af fyrrv. hæstv. heilbrmrh. og hv. þm., sem nú er látinn, Magnúsi Kjartanssyni. Hann gerði sér grein fyrir þessu og reyndi að ná fram lagfæringum í vissum tilfellum, veit ég, á einni eða tveim stofnunum, þegar hann sá fram á að honum auðnaðist ekki í sinni ráðherratíð að ná fram fleiri og frekari breytingum, sem hann þó hafði hug á. Ég komst að því í persónulegum viðtölum við hann.

Hæstv. ráðh. talar annars vegar um þá goðgá að búa við þetta vitlausa vísitölukerfi, en vitnar samt sem áður til þess, að þetta sé það nauðsynlegasta sem við þurfum að hafa hér á Alþingi í höndunum. Ég bar fram aðra tillögu við hæstv. ráðh. og hann á hana skriflega frá mér. Hún er á þá leið, að sett verði upp reiknilíkön fyrir fleiri þætti þessarar þjónustu en er í dag. Spítali, sem er með fullbúna skurðstofu með öllu því sérfræðingsliði sem þar starfar, er ekki það sama og sjúkrahús norður í landi sem hefur með marga langlegusjúklinga að gera. Þetta vitum við sem eitthvað höfum reynt að kynna okkur þessi mál. Hjúkrunarheimili aldraðra er ekki það sama og spítali, eins og t.d. Landakotsspítali, þó að Landakotsspítali hafi marga tugi sjúklinga af því tagi sem gætu verið á hjúkrunarheimili aldraðra. Þetta vitum við líka. Þess vegna þarf að búa til fleiri reiknilíkön.

Það er rangt hjá ráðh. þegar hann segir að mín ræða hafi að meginefni til verið árás á daggjaldanefnd, starfsemi hennar og þá sem þar eru. Hún var hins vegar árás á hann og hans meðráðherra hæstvirta, sem taka völdin frá umræddri nefnd, sem á að hafa ákveðið vald, og breyta niðurstöðum og ákvörðunum nefndarinnar í allt aðra veru en ætlað er. Það er það sem ég gagnrýni. Ég hef hins vegar — og ég hef margendurtekið það hér á hv. Alþingi — borið blak af daggjaldanefnd. Ég hef bent á það ítrekað, að þau starfsskilyrði, sem þessi þýðingarmikla nefnd býr við, eru algjörlega ótæk. Ég þekki persónulega þá menn sem þar starfa, og ég veit að þeir mega ekki vamm sitt vita í þeim störfum sem þeir reyna að vinna af litlum efnum undir stjórn hæstv. ráðh. — og reyndar fyrrv. ráðh. líka, vegna þess að það hefur ekki verið séð um að skapa þeim þá aðstóðu sem til þarf. Ég var líka með í minni ræðu tillögu um hvernig ætti að bæta úr þessu. En ráðh. var á svo miklu stjákli hér fram og aftur, þeir hafa líklega verið orðnir svo blautir, skórnir hans, að hann gat ekki setið kyrr.

Það er náttúrlega svona og svona þegar hæstv. ráðh. bendir á það og telur það sem sitt aðalmál að við verðum að fara eftir því sem Alþingi ákveður um upphæðir til hinna og þessara mála hverju sinni. Við verðum þá um leið, hæstv. ráðh., að hafa í huga hvað það er sem Alþingi og fjvn. byggir sína ákvörðun á. Á hverju byggir Alþingi ákvörðun um hvað mikið eigi að fara inn í þetta kerfi? Það byggir á þessari vitlausu vísitölu, byggir á áliti hæstv. ríkisstj. á því, hver verðbólgan verði á næsta ári. Hæstv. ríkisstj. hefur um langt árabil, eða allt frá því að hún tók við völdum, lifað í draumheimi niðurtalningar sem hefur engan veginn staðist. Ég vitnaði til þess í einni af átta tilvitnunum mínum í fremstu embættismenn og stjórnendur sjúkrahúsa í landinu, — þar sem hæstv. ráðh. telur að ég persónulega hafi verið að ráðast á sig og daggjaldanefnd, sem ég var alls ekki að gera, ég var að vitna í gagnrýni á hann, því að þetta endar hjá honum, — að einn þeirra benti réttilega á að það, sem hafði verið ákveðið að þeim mundi duga yfir árið og þeir gerðu áætlanir um að mundi duga hjá sér í rekstraráætlun, það stóðst hjá þeim upp á 1/2%. Hins vegar stóðst ekki verðbólgan. Niðurtalningin brást. Skyldi hæstv. ráðh. kannast við það — eða hvað?

Við skulum ekki heldur gleyma öðru sem á sér stað frá þeim tíma að fjvn. tekur þessa ákvörðun. Hvað gerist? Það er ekki aðeins það sem við vitum og rétt og sanngjarnt er í þessu þjóðfélagi, að einstakar stéttir taki upp samninga við sína vinnuveitendur og nái fram kjarabótum og að sjálfsögðu hærri launum í vaxandi verðbólgu. En það hefur gerst fleira. Ríkisstj. hefur gengið á undan með góðu fordæmi í því að færa hinum og þessum stéttum ýmiss konar félagsmálapakka sem Alþingi hefur ekki tekið til greina árið á undan við ákvörðun sína um þá fjármuni sem eiga að fara til rekstrar þessara húsa. Og hæstv. ráðh. viðurkennir reyndar réttilega að launaliðurinn allur innan þessa falska vísitölugrundvallar, sem ég held að hann hafi jafnvel orðað þannig líka eins og ég hef gert, hann er náttúrlega bæði van- og ofmetinn. Hann er ofmetinn sums staðar, það er rétt. En hann er stórkostlega vanmetinn þar sem láglaunahóparnir eru í miklum meiri hluta innan umræddra stofnana, vegna þess að það hefur aldrei verið tekin til greina sú félagslega þróun sem hefur átt sér stað á liðnum árum í því að bæta hag láglaunafólksins, m.a. stytta vinnutíma, sem þýðir að þá þarf að kaupa fleiri aðila til að vinna þá vinnu sem er eftir þegar fólkið fer heim eftir að vinnutímanum er lokið.

Ég þarf ekki að fara að telja upp allt vegna þess að þetta eru meginliðir í rekstrarkostnaði allrar þessarar starfsemi, en eins og ég hef margbent á eru launaliðirnir um 70% af heildarrekstrarkostnaði. En við skulum fara yfir í sjúkrahúsin og skoða þá gífurlegu breytingu sem hefur orðið, m.a. með einbúnaði svokölluðum í sambandi við hjúkrun og sjúkrahjálp. Sumu, sem áður fyrr var kannske tví- og þrí-notað, er núna hent eftir notkun einu sinni og það er auðvitað fleira og fleira sem kemur þar inn í, fríðindi ýmiss konar og nýr búnaður sem ekki hefur verið tekið tillit til, en sú þróun, sem hefur orðið í sambandi við vinnuálag einsrakra starfshópa innan heilbrigðiskerfisins, gerir kröfur til að sé til staðar í dag.

Starfsfólk heilbrigðisstofnana stundar öllu fólki frekar vinnumarkað annarra landa og þekkir hvað þar er boðið. Það gerir sér ekki lengur að góðu að hafa ekki sama búnað. sömu tæki til sinna nota eins og „kollegar“ þeirra í næstu löndum. Hvort sem við viljum eða viljum ekki verðum við að taka þetta til greina og laga okkur að því.

Ég skal taka undir allt sem hæstv. ráðh. sagði um sparnað í kerfinu og að reyna að leita að leiðum. En það frv., sem við erum að ræða hér, gerir hvorki eitt né neitt til þess að spara í kerfinu og leysir engan vanda. Ef við erum að hreyfa þessu hér í þinginu og byrja að ræða það sem hann sjálfur segir að sé eitt af stærstu málum þingsins, eins og hann orðaði það, þá eigum við ekki að fara á stað með það með svona ómerkilegu frv. sem segir ekki neitt og leysir engan vanda. Við skulum snúa okkur að málinu. Ég hef hér afsíðis rætt við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem er á því sem ég minnist á í minni fyrri ræðu um hvað við þurfum að gera við þetta frv. ef það á að ná fram að ganga. hvaða breytingar við þurfum að gera til þess að gripið verði á málinu af einhverri alvöru. Hún mun sjálfsagt lýsa því þegar þar að kemur í næstu viku. fyrir 3. umr.. áður en málið fer út úr deildinni. Það verður auðvitað að fara að snúa sér að málinu og finna einhvern skynsamlegri grundvöll að standa á heldur en við höfum í dag.

Herra forseti. Ég hef komið mínum skoðunum hér að, og í raun. þegar upp er staðið. hefur ráðh. tekið undir nær allt sem ég hafði uppi í minni gagnrýni. Hann bara misskildi það. að ég var að vitna í gagnrýni á hann, sem ég kom hér með, hvort sem var úr Morgunblaði eða öðrum blöðum. Ég efast um að sjúkrahúsforstjórar. hvort sem eru ríkisspítalanna, á Neskaupstað eða norður á Akureyri eða hvaðan sem þeir koma. — að allir þessir menn hefðu sagt eitthvað annað við Tímann eða Þjóðviljann, ef þeir hefðu haft vit á að spyrja þá, heldur en þeir sögðu við Morgunblaðið. Morgunblaðið kemur þessu máli því ekkert við, hæstv. ráðherra. Þetta eru persónulegar skoðanir þessara manna sjálfra á framkvæmd daggjaldakerfisins eins og það er í dag. sem er í hinum megnasta ólestri fyrst og fremst vegna þess að daggjaldanefnd fær ekki þá aðstöðu til starfa sem hún á að hafa vegna mikilvægis síns meðan við búum við þetta kerfi, og það er hæstv. ríkisstj. að kenna.