05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm., að ég vona að þetta mál fái skjótan framgang og þarna sé stigið annað skref til að jafna þennan kostnað.

Ég ætla ekki að fara að svara hér þrumuræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég held satt að segja að hún hafi ruglast á þeim málum sem eru til umr. Við erum ekki að tala um skrefatalninguna núna, heldur um að jafna aðstöðu manna þannig að þeir borgi það sama fyrir símtöl við opinberar stofnanir. Ég er tilbúinn að ræða um skrefagjaldið við annað tækifæri.