16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (3344)

269. mál, Tónskáldasjóður Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil gjarnan láta nokkur orð falla í tilefni af þessu frv., en flutningurinn minnir á þá staðreynd, að e.t.v. er kominn tími til að kanna í heild gildandi lög og reglur um opinberan stuðning við listamenn, þ.e. „gera úttekt“, eins og nú er sagt, á stöðu þessara mála og ræða hvort við séum á réttri braut í þessum efnum, m.a. að því leyti, hvort stuðningur við listamenn sé nægur og hvort það kerfi, sem við búum við, sé skynsamlegt og réttlátt. Einnig þurfum við að gera okkur grein fyrir hvernig Íslendingar standa í þessum málum miðað við þjóðir á sama menningarstigi. Við þurfum að geta svarað þeirri spurningu, hvernig við búum að listamönnum á Íslandi og hvort við stöndumst í því efni samanburð við aðrar þjóðir. Reyndar er nauðsynlegt að láta kanna svo vel sem unnt er hvernig háttar opinberum stuðningi við almennt lista- og menningarlíf í landinu, og þá meina ég auðvitað menningarlíf í víðtækum skilningi, bæði það sem varðar skapandi listir og bókmenntir og menningarstarfsemi áhugafólks í ótal greinum.

Ég tel brýnt að gera faglega úttekt á þessu máli. Það hefur aldrei verið gert hér á landi svo nokkurt gagn sé að. Þaðan af síður er til marktækur samanburður á ástandi þessara mála hér á landi og í öðrum löndum. Sannleikurinn er því sá, að við rennum að flestu leyti blint í sjóinn þegar við ræðum um málefni listamanna, t.d. fjárhagsafkomu listamanna, hvað þá ef við tökum upp í okkur svo stórt orð sem menningarmálastefnu eða „kúltúrpólitík“, sem stundum er talað um á útlendum málum, en þá vantar oft upplýsingar sem gera okkur kleift að ræða málin með skýrum rökum. Okkur vantar heildarmynd af ástandinu til að geta metið það eins og það er í raun og veru. Við sjáum fyrir okkur einstaka þætti, en aldrei heildarmyndina. Af þessu leiðir að erfitt er að halda uppi nógu markvissri menningarmálastefnu, jafnvel þótt margir hafi áhuga á því, fullan hug á því og fullan vilja á því. Það eru margir sem betur fer og ég tel mig vera í þeim hópi. En ég hef fundið til þess í starfi mínu sem menntmrh. að skortur er á fullnægjandi upplýsingum varðandi fjármál menningar- og listastarfseminnar. Hagtölur menningarmála eru ekki auðfengnar. Ég hlýt einnig að segja sem er, að ekki er fyrir hendi neitt óyggjandi mat á afkomu íslenskra listamanna. Við vitum allt of lítið um hvernig það fjármagn nýtist sem varið er til að styðja við bakið á listamönnum, og þá á ég m.a. við hvort skynsamlegar reglur gildi um skiptingu listamannalauna og listamannastyrkja, að ekki sé minnst á þá spurningu, hvort nægilegu fjármagni sé varið til listamannalauna yfirleitt.

Ég álít fyrir mitt leyti að síst sé of miklu fé varið til listamannalauna og þaðan af síður til annarrar menningarstarfsemi. Ég get m.a. tekið undir þá stefnu, sem felst í þessu frv., að eðlilegt sé að stofna tónskáldasjóð á sama hátt og til er Launasjóður rithöfunda o.s.frv. Það er sjálfsagt mál að launa tónskáld engu síður en rithöfunda. Ég vil gjarnan vinna að því með flutningsmönnum að gera þessa hugmynd að veruleika, fyrst og fremst með því að afla henni fylgis innan ríkisstj. Hins vegar minni ég enn á það, sem ég hef einkum gert að umræðuefni, að tímabært er að gera úttekt á opinberum stuðningi við lista- og menningarlíf í landinu og þá ekki síst,á skipulagi listamannalauna og listamannastyrkja. Mér er þó fyllilega ljóst að hér er ekki um neitt áhlaupaverk að ræða.

Ég vil geta þess, að á vegum menntmrn. fer nú fram hagfræðileg könnun á þessum málum. Ég hef lagt það verkefni fyrir að láta kanna ítarlega fjárhagsstuðning við listir og önnur menningarmál hér á landi og bera saman, eins og við verður komið, stöðu þeirra mála hérlendis og í nágrannalöndum, og í þriðja lagi að samin verði skýrsla eða álitsgerð sem geti orðið grundvöllur almennrar umræðu og stefnumótunar á þessu sviði. Verið er að vinna að þessu verki og von mín er sú, að álitsgerðin, sem að er stefnt, geti orðið til á þessu ári.

Ég þori að fullyrða að verk sem þetta hefur aldrei verið unnið áður hér á landi. Hér er því um brautryðjendastarf að ræða hvað varðar hagfræðilega úttekt á sviði menningarmála. Vissulega er sú hætta fyrir hendi, að starfi sem þessu verði í ýmsu áfátt. Ég geri mér samt vonir um að það verði til gagns sem umræðugrundvöllur um menningarmál og leiðbeining um hvernig Íslendingar standa í almennum menningarmálum, þ. á m. hvað varðar stuðning við skapandi listir og einstaka listamenn. Ef þessi úttekt á menningarmálum verður í reynd sú sem ég stefni að, þá ætti hún að veita þá heildaryfirsýn sem er nauðsynleg til þess að sem flestir geti myndað sér skynsamlega skoðun á menningarmálum og því hver skuli vera opinber stefna á því sviði.

Frá þessu greini ég, herra forseti, í upplýsingaskyni, en ekki til að drepa á dreif efni þess frv. sem hér er til umræðu. Ég held reyndar að það sé nauðsynlegt að átta sig á launakerfi listamanna í heild þegar rætt er um hagsmuni eins hóps listamanna sérstaklega. En annars er þessi hugleiðing mín almenns eðlis og ber að líta á hana sem slíka.