16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3884 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

168. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. skipaði með bréfi 1. júlí 1981 þriggja manna nefnd til að endurskoða lög nr. 31/1970, um dýralækna. Í nefnd þessari áttu sæti frú Ragnheiður Árnadóttir deildarstjóri í landbrn., formaður, Jón Guðbrandsson héraðsdýralæknir á Selfossi og Páll Agnar Pálsson yfirdýralæknir. Nefndarskipun þessi var gerð í samræmi við yfirlýsingu hæstv. landbrh. á fundi landbn. Nd. Alþingis á s.l. vori, sbr. nái. landbn., dags. 20. apríl 1981, um 213. mál.

Þó að lög um dýralækna séu ekki nema ellefu ára gömul hafa verið gerðar á þeim breytingar hvað eftir annað eða alls sjö sinnum. Flestar þessar breytingar varða dýralæknaskipan og eru til komnar vegna tilmæla bændasamtakanna sem óskað hafa jafnan eftir fleiri héraðsdýralæknum. Enn hafa nýlega borist samþykktir búnaðarsambanda þar sem óskað er eftir fleiri héraðsdýralæknum en nú er gert ráð fyrir. Við samningu frv. hafa verið hafðar í huga þessar samþykktir bænda sem fram eru komnar vegna þess að bændur telja sig ekki fá næga dýralæknaþjónustu eða vera afskipta. Auk þess var tekið að nokkru mið af óskum Dýralæknafélags Íslands og annarra aðila er mál þessi varða.

Rétt er að vekja athygli á því, að störf dýralækna hafa breyst verulega síðasta áratuginn samstiga breyttum búskaparháttum. Um leið og búin hafa stækkað hefur fólki, sem við þau vinnur, fækkað og annríki aukist. Gripir eru nú fóðraðir til fyllstu afurða meira en áður tíðkaðist og eru því kvillasamari en áður. Bændur leita því meira til dýralækna og gera nú minna að því að reyna sjálfir að lækna gripi sína.

Þó með þessu frv. sé gert ráð fyrir nokkurri fjölgun héraðsdýralækna er ljóst að seint verður svo að þessum málum staðið að ekki verði ýmsir bæir nokkuð útundan varðandi dýralæknaþjónustu. Kemur hvort tveggja til strjálbýli og erfiðar samgöngur.

Nefndin hefur fjallað um frv. á mörgum fundum. Frv. var sent til umsagnar til Búnaðarþings og til allra búnaðarsambanda í landinu og þess óskað að stjórnir þeirra hefðu samráð um umsögnina við viðkomandi héraðsdýralækni og við forustumenn þeirra hreppa sem liggja á jöðrum hvers umdæmis. Enn fremur var leitað eftir umsögn frá stjórn Dýralæknafélags Íslands.

Búnaðarþing gerði tillögur um tvær breytingar á frv. Í fyrsta lagi að Akrahreppur falli undir Skagafjarðarumdæmi, en ekki Hofsósumdæmi, eins og frv. gerði ráð fyrir, og í öðru lagi að héraðsdýralæknar skuli vera vel á verði gegn því að einstaklingar eða þjóðin í heild bíði tjón af völdum búfjársjúkdóma.

Umsögn barst frá stjórn Dýralæknafélags Íslands, undirrituð af formanni þess, Jóni Guðbrandssyni. Koma fram í umsögninni sex ábendingar um breytingar. Umsagnir bárust frá eftirtöldum búnaðarsamböndum: Búnaðarsambandi Borgarfjarðar, Búnaðarsambandi Suðurlands, Búnaðarsambandi Austur-Skaftfellinga, Búnaðarsambandi Austurlands, Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga og Búnaðarsambandi Austur-Húnvetninga. Enn fremur bárust umsagnir frá dýralæknunum Brynjólfi Sandholt, Gunnari Guðmundssyni og Ragnari Ragnarssyni, en sá síðastnefndi gerði ítarlegar ábendingar og kom fram með margar breytingartillögur sem fengur var í að fá.

Einnig barst umsögn frá hreppsnefnd Bæjarhrepps í Strandasýslu og frá 33 bændum og búfjáreigendum í Reyðarfjarðarhreppi, þar sem þeir síðarnefndu fara þess á leit að þeir fái sína þjónustu frá Egilsstöðum, en ekki frá Neskaupstað, eins og frv. gerir ráð fyrir. Fram kemur í þessu undirskriftaskjali að ástæðan fyrir því, að þessi ósk er fram borin um breytingu, sé að miklu auðveldara sé um allar samgöngur við Egilsstaði en Neskaupstað. Í umsögn Búnaðarsambands Austurlands er ekki minnst á þetta vandamát og í umsögn Búnaðarþings er ekki heldur minnst á þetta, og má því ætla að fulltrúar Austfirðinga á Búnaðarþingi hafi ekki bent á þetta vandkvæði. Það þarf líka að íhuga, að ef um tilfærslu yrði að ræða yrði Norðfjarðarumdæmi svo lítið og tekjurýrt að vafasamt er að nokkur dýralæknir fengist til að þjóna því. Af þessari ástæðu gerir landbn. ekki till. um breytingu, en ef að því yrði horfið að breyta á einhvern hátt texta þessa liðar kæmi helst til greina að mínu áliti að setja viðauka við þennan lið, sem er 23. liður 4. gr., eitthvað á þessa leið: Íbúar Reyðarfjarðarhrepps geta þó vitjað dýralæknis í Austurlandsumdæmi nyrðra þegar samgöngur eru erfiðar við Neskaupstað. — Væri þetta raunar í samræmi við þann texta sem er settur í sambandi við Bæjarhrepp í Strandasýslu.

Enn fremur barst nefndinni frá landbrh. umsögn og athugasemdir er fjórir starfsmenn heilbr.- og trmrn. höfðu gert við frv. Urðu nokkrar umræður á fundum nefndarinnar út af þessari umsögn og ekki síður hvernig hún er fram sett. Ég sé ekki beina ástæðu til þess að gera hana að umræðuefni nema tilefni gefist til, enda munu aðrir úr nefndinni að líkindum gera það.

Nefndin hefur athugað allar ábendingar um brtt, sem bárust, og tekið tillit til þeirra eftir því sem hún taldi ástæðu til. Sumar ábendingarnar eiga fremur heima í reglugerð en í lagafyrirmælum. Til dæmis þarf að setja í reglugerð að héraðsdýralæknum sé skylt að gera viðkomandi mjólkurstöð grein fyrir niðurstöðum um fjósskoðun hverju sinni þegar slík skoðun fer fram. Enn fremur hlýtur að koma til álita hvort ekki sé rétt að skipta á milli þeirra héraðsdýralækna, er starfa í sama héraði, þeirri kjötskoðun sem inna þarf af hendi í héraðinu. Enn fremur þarf að setja í reglugerð að héraðsdýralæknum sé skylt að hafa eftirlit með því, að hreppsnefndir láti hreinsa alla hunda í viðkomandi hreppi, eins og lög ákveða. Öll þessi atriði vildu sumir setja í lög.

Á sérstöku þskj. leggur landbn. sameiginlega fram brtt. við fimmtán greinar frv. Nefndin átti náið og mjög gott samstarf við nefndina sem samdi frv., og vil ég fyrir hönd nefndarinnar þakka það góða samstarf. Á þskj. 574 eru þessar brtt. og mun ég aðeins nefna nokkur atriði þeirra.

2. brtt., við 3. gr., er um það, að til þess að dýralæknir öðlist leyfi til dýralækninga skuli hann í tvo mánuði hið skemmsta að loknu kandídatsprófi vera undir handleiðslu héraðsdýralæknis sem hefur a.m.k. fimm ára starf í héraði að baki.

Við 4. gr, eru nokkrar brtt.

Í fyrsta lagi er brtt. við 10. lið, Strandaumdæmi í Strandasýslu: Íbúar Bæjarhrepps geta þó vitjað héraðsdýralæknis í Vestur-Húnaþingsumdæmi, ef þeir óska þess.

Í öðru lagi: Við 13. lið bætist Akrahreppur, en hverf: úr 14. lið, þ.e. frá Hofsósumdæmi.

Í 17. lið bætist Hálshreppur, en falli niður úr 18. lið. Síðasta mgr. 4. gr. orðist svo: „Skipting héraðsdýralæknisumdæma skv. þessari grein kemur til framkvæmda á næstu fimm árum eftir því sem landbrh. ákvarðar og fjárveiting segir til um. Fram að þeim tíma gildir skipting í umdæmi eins og lög um dýralækna nr. 77/1981 gera ráð fyrir.“

Í 5. gr. er brtt. um það, að landbrh. ákveði hvar dýralæknar skuli hafa aðsetur og starfsaðstöðu, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, stjórnar Dýralæknafélags Íslands og viðkomandi búnaðarsambanda. Í nokkrum tilvikum annars staðar í þessu frv. er því bætt við, að heimaaðilar og stjórn Dýralæknafélags Íslands hafi þar um málin að segja.

Við 6. gr. bætist ný málsgr.: „Um mál, sem gætu varðað heilsufar neytanda, skal hann hafa samráð við landlækni“ — þ.e. yfirdýralæknir.

Við 7. gr. er breyting um að landbrh. setji dýralæknum erindisbréf samkv. tillögum yfirdýralæknis, en í frv. stóð að yfirdýralæknir ætti að setja þetta erindisbréf, sem er á móti öllum venjum.

Í 10. gr. er rætt um að Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum selji og framleiði undir stjórn sérmenntaðs dýralæknis ónæmislyf handa húsdýrum. Svo er bætt þarna inn í: „Lyfjaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með þessari starfsemi.“

Á sama hátt er lagt til í 11. gr„ að komi upp smitsjúkdómar í dýrum, sem mönnum gæti stafað hætta af, skuli höfð samráð við landlækni um nauðsynlegar aðgerðir.

Um 12. gr. var erfitt að fá samstóðu að vissu leyti. Þar eru ýmis sjónarmið í kerfinu. Varð samkomulag um að leggja til að 3. málsgrein orðist svo: „Landbrrh. setur reglur. að fengnum tillögum yfirdýralæknis og umsögn Hollustuverndar ríkisins, um framkvæmd heilbrigðiseftirlits með sláturdýrum og afurðum þeirra“ o.s.frv.

Aftan við 3. málsgr. 15. gr. bætist: „Kærður dýralæknir getur skotið máli sínu til dýralæknaráðs. Dýralæknaráð skal skipað yfirdýralækni og stjórn Dýralæknafélags Íslands á hverjum tíma. Leyfissviptingu má fresta þar til umsögn ráðsins liggur fyrir, en hún skal lögð fram innan þriggja mánaða.“

Í 16. gr. bætist við: „Um hvers konar auglýsingar á lyfjum og læknisáhöldum til dýralækninga fer samkvæmt lögum nr. 49/1978.“

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þessar brtt. frekar. Þær eru, eins og áður segir á þskj. 574 og landbn. stendur einhuga að þessum brtt.