16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3890 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

168. mál, dýralæknar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. Þó get ég ekki látið hjá liða að undrast nokkuð alla málsmeðferð á því.

Það virðist vera töluverður ágreiningur milli rn. um frv. Nefndarmenn, sem um það hafa fjallað mánuðum saman, virðast á einhvern undarlegan hátt hafa komist að samkomulagi án þess að þá langi mjög mikið til að frv. verði samþykkt. Þeir sýnast hafa við það ótal athugasemdir. Ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni hér, að mér finnst þetta frv. ákaflega undarlegt og ég á erfitt með að greiða því atkv. að það verði sent frá hinu háa Alþingi eins og það kemur fyrir.

Mér sýnist hér á ferðinni eitthvert tilfinningamál fremur en skynsemismál. Þær breytingar, sem hér er um að ræða frá gildandi lögum, hefði mátt orða í miklu styttra máli. Það er næsta óvenjulegt að sjá ákvæði eins og þessi, ef ég má lesa, með leyfi forseta:

„Dýralæknar skulu vanda svo sem kostur er allar skýrslur, umsagnir og vottorð og skrá þar eingöngu það, sem þeir vita fullar sönnur á, hvort sem vottorðin eru ætluð til leiðbeininga eða sem sönnunargagn í tilteknu máli.“

Ég hlýt að spyrja: Þarf að taka þetta fram?

Ég ætla að leyfa mér að lesa áfram, herra forseti: „Dýralæknar skulu forðast að baka dýraeigendum óþarfan kostnað, svo sem með óhóflegri lyfjanotkun, óþörfum vitjunum eða aðgerðum.“

Ég spyr enn: Þarf að taka þetta fram í lögum? Ég leyfi mér að lesa áfram, herra forseti: „Héraðsdýralæknar eru skyldir til að gegna aðkallandi sjúkravitjunum þegar þess er leitað, nema þeir séu sjúkir eða hindraðir af aðkallandi embættisstörfum.“

Ég hlýt að spyrja hið háa Alþingi: Hver eru þau aðkallandi embættisstörf sem þeir eru að sinna fremur en dýralækningum? Ég hélt að það leiddi af sjálfu sér að embættismenn ættu að sinna þeim störfum sem þeir eru ráðnir til.

Ég leyfi mér að lesa í fjórða lagi, herra forseti:

„Héraðsdýralækni er skylt að svara fyrirspurnum í síma og veita upplýsingar varðandi sjúkdóma í dýrum, þegar þess er óskað.“

Ég hlýt að spyrja: Hverjar eru þær fyrirspurnir í síma, sem honum ber að svara, sem ekki varða sjúkdóma í dýrum — eða eru það upplýsingar sem varða eitthvað annað en sjúkdóma í dýrum?

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst slík löggjöf hreinustu endemi. Ég er ekki nákunnug málefnum þeim sem hér um ræðir, hef þó nokkuð reynt að skilja þetta undarlega frv. Og mér finnst satt að segja tæplega sæmandi áð senda slíkt frá sér.

Ég vil líka gera athugasemd við það efnislega: Er það með vitund og vilja og í fullu samkomulagi við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, að þar er bætt við starfsmönnum í þessu lagafrv. um dýralækna.

Ég vil enn, herra forseti, leyfa mér að lesa úr þessum langa bálki í 7. gr.:

„Dýralæknar skulu gegna störfum sínum og skyldum með árvekni, halda þekkingu sinni sem best við og gæta fyllstu vandvirkni og samviskusemi í öllum dýralæknisstörfum.“

Getur þetta virkilega verið lagaákvæði?

Síðan er í 16. gr. setning sem mér finnst afskaplega óviðeigandi að hafa hér inni. 16. gr. fjallar um að dýralækni sé óheimilt auglýsingastarf, og segir svo í 2. mgr.: „Á sama hátt eru bannaðar gyllandi umsagnir.“ Mig minnir að það hafi komið brtt. við þetta, en eftir stendur að bannað er að hafa í frammi gyllandi umsagnir um sjúkrahús,sjúkraskýli og sjúkrastofur ætlaðar dýrum. Ég hlýt að spyrja: Finnst hv. þm. ekki að þyrfti að fara yfir þennan lagabálk á ný og nema úr honum það dómadagskjaftæði, sem ég leyfi mér að kalla svo, sem hér stendur? (Gripið fram í.)

Jú, það er rétt sem hv. þm. bendir á. Við ákvæðið, sem hér var áðan lesið um aðgang staðgengils að síma, er brtt. Sem orðast svo:

„Staðgengill héraðsdýralæknis skal hafa starfsaðstöðu í húsnæði embættisins. ef hann óskar þess, þar með talin afnot af síma.“

Finnst hv. þm. virkilega að þetta sé eðlileg lagagrein? Ég held að við verðum að gera nokkrar kröfur til þess, að þeir, sem semja löggjöf þjóðarinnar. vandi verk sitt nokkru meira. Ég er ekki í nokkrum vafa um og leyfi mér að fullyrða það hér, að þetta er til komið af einhverjum árekstrum í starfi úti í hinum ýmsu héruðum landsins. En ég mótmæli því harðlega, að okkur sé skipað að samþykkja lagafyrirmæli til lausnar slíku. Ég held að þar verði yfirdýralæknir að leysa sín mál sjálfur í eðlilegri framkvæmd laga, í stað þess að við sitjum hér og leiðréttum slíkt í smásmugulegum lagagreinum.

Grunur minn er sá, að mönnum stökkvi bros þegar þeir lesa þessi lög útgefin í Stjórnartíðindum. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þetta frv. svona og mun fara þess á leit við hv. þd., að þetta frv. með þeim breytingum, sem fyrir liggja, verði sent aftur til nefndar til frekari athugunar.