16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. hafði til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem gert er ráð fyrir að skylda sveitarstjórn til þess að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri.

Þetta frv. var sent til umsagnar, og barst umsögn frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sem lagðist ekki gegn frv., en eins og margir vita hafa sveitarfélög í tekjustofnalögum sveitarfélaga heimild til þess að fella niður þessi gjöld eða lækka, sem þau flest öll hafa framkvæmt þannig.

Að athuguðu máli varð nefndin sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt.