19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. um brunavarnir og brunamál, sem ég mæli hér fyrir, hefur hlotið meðferð í hv. Nd. Alþingis og tekið þar nokkrum breytingum frá því að ríkisstj. lagði það fram í haust. Frv. felur í sér tillögur um heildarendurskoðun á lögum um brunavarnir og brunamál og um stöðu Brunamálastofnunar. Frv. er samið af nefnd sem félmrh. skipaði 26. mars 1980 til þess að endurskoða lög og reglugerð um brunavarnir og brunamál, gera úttekt á stöðu og starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins og gera tillögur um æskilegar breytingar á starfssviði og starfsemi hennar svo og um skipulag brunavarna í landinu almennt og tengsl þeirra mála við ýmsa aðra þætti í stjórnkerfinu.

Helstu breytingar, sem frv. hefur í för með sér, eru þessar:

1. Nánar er kveðið á um hlutverk Brunamálastofnunar varðandi kynningu og fræðslu en verið hefur, svo og er nánar kveðið á um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

2. Gert er ráð fyrir að öll sveitarfélög verði skylduð til að halda uppi brunavörnum nema ráðh. veiti sérstaka undanþágu.

3. Brunamálanefndir sveitarfélaga verði afnumdar sem ákvörðunaraðili um meðferð brota á lögum og reglugerð um brunavarnir og brunamál, en vald og skyldur slökkviliðsstjóra aukin nokkuð í þeim efnum. Jafnframt er gert ráð fyrir því í frv., að sett verði í lög skýrari ákvæði um meðferð slíkra mála.

4. Þá gerir frv. ráð fyrir að tekjustofnar Brunamálastofnunar verði nokkuð styrktir frá því sem verið hefur. Við meðferð málsins í hv. Nd. voru gerðar á frv. nokkrar breytingar. Mikilvægasta breytingin var sú, að félmn. Nd. gerði till. um að stjórn stofnunarinnar yrði framvegis aðeins skipuð þremur mönnum, en í stjfrv. var gert ráð fyrir óbreyttri skipan þessara mála, að stjórn stofnunarinnar yrði skipuð sex mönnum. Hv. Nd. féllst á till. félmn. í þessu efni, að stjórn Brunamálastofnunar ríkisins verði framvegis skipuð þremur mönnum, einum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, einum frá Landssambandi slökkviliðsmanna og einum frá Sambandi ísl. tryggingarfélaga. Þetta var veigamesta breytingin sem hv. Nd. gerði á frv. Um frv. varð ekki verulegur ágreiningur í hv. Nd. og skilaði félmn. þar samhljóða áliti. Ágreiningur varð þó örlítill um skipun stjórnar stofnunarinnar, þar sem nokkrir þm. Alþfl. fluttu í Nd. till. um að Reykjavíkurborg fengi að tilnefna fjórða mann í stjórn stofnunarinnar. Nd. féllst ekki á þá till.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist, að fara ítarlegar út í frv. þetta. Legg ég til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn., og þætti mér vænt um ef nefndin sæi sér fært að ljúka afgreiðslu málsins þannig að það yrði að lögum á þessu vori.