19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3900 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

283. mál, grunnskólar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er kannske ekki brýn nauðsyn að fjalla um þetta mál frekar á þessu stigi. Ég vildi þó ekki láta hjá liða að standa hér upp við þessa umr. Eins og þm. er vafalaust kunnugt hef ég, sá sem hér stendur, ásamt öðrum hv. ágæfum þm. flutt till. til þál. um fíkniefnamálin, þar sem gert er ráð fyrir að ríkisstj. sé falið að láta fara fram heildarendurskoðun á því, hvaða leiðir séu helstar til úrbóta til að hamla frekar gegn „innflutningi, tilbúningi, útbreiðslu og neyslu ávana- og fíkniefna“, eins og þar stendur, að lokinni umfjöllun allshn. um það mál. Nefndin hefur skilað áliti. Till. var örlítið breytt, en við hana felli ég mig ágætlega.

Enda þótt ég sé 1. flm. að þeirri þáltill. var mér mjög ljúft að vera meðflm. að frv. til l. um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 62/1974, með áorðnum breytingum, þar sem gert er ráð fyrir fræðslu vegna fíkniefna og vegna áfengis. Hins vegar vil ég taka það fram sérstaklega, og tek undir með hv. 1. flm. þessa frv., að fræðsla á þessu sviði er mjög vandasamt verk, og í raun og sannleika vildi ég helst fá að vita, hvernig slík fræðsla skuli fara fram, áður en til samþykktar frv. kæmi. Þetta er kannske svolítið hliðarspor að tala á þennan hátt. Hins vegar er reynslan sú víða erlendis frá, þar sem gælt hefur verið við fræðslu — ég orða það svo: gælt hefur verið við fræðslu á sviði ávana- og fíkniefna, að það hefur jafnvel leift til aukinnar neyslu þessara hinna sömu efna. Mín skoðun á þessu er raunar sú, að það dugi fátt annað en harðvítugur áróður. En varðandi fræðslu tel ég, og er sammála flm. að því leyti, að hún þurfi fyrst og fremst að vera á þeim sviðum að tíunda þau mjög svo skaðlegu áhrif á líkama og heilsu, sem fíkniefnin hafa, og hamra nógu oft á því og reyna að skýra það út. Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þetta frv.

Ég vil endurtaka að ég tel eðlilegt, enda þótt sú endurskoðun sé lögð til sem ég gat um áðan, að þingnefnd fjalli um hvort fræðsla á þessu sviði komi til greina eða ekki. Og víst leggjum við flm. það til.