19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3913 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ljóst er að húsbyggjendur í landinu eiga við mikinn vanda að stríða. Þeim hefur verið gert mjög erfitt fyrir á undanförnum árum, einkum vegna fjandsamlegrar afstöðu ríkisstj. til ýmissa félagslegra þátta í þjóðfélaginu. Þessi ríkisstj. hefur hvað eftir annað gert í því að gera húsbyggjendum erfiðara fyrir að byggja yfir sig. Er þess skemmst að minnast, að þegar lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins voru samþykkt framdi núverandi ríkisstj. mjög alvarleg skemmdarverk á því frv. sem Magnús H. Magnússon hafði lagt fram, — skemmdarverk sem gerðu fólki erfiðara fyrir og munu gera því erfiðara fyrir að greiða lán og koma yfir sig húsnæði á næstu árum.

Sá skattur, sem nú er fyrirhugað að setja á, hvort sem það tekst eða ekki, skiptir litlu hvað varðar það að bæta úr fyrir því fólki, fyrir þessum sjóðum, vegna þess að óreiðuskuldir eða vanskilaskuldir eru háar og það, sem aflast fyrir þennan skatt, nægir hvergi nærri til þess að greiða þær skuldir. Er því vandséð að skatturinn verði til þess að hækka lán til húsbyggjenda. Við Alþfl.-menn teljum algeran óþarfa að vera með þennan smáskatt og reyndar forkastanlegt að setja þetta fram (Gripið fram í.) Skattur heitir það þegar menn taka til sín fjármuni sem þeir fá ekki leyfi til að taka, því ef um lán væri að ræða þarf samþykki beggja — eða a.m.k. tíðkast það víðast hvar þar sem venjuleg viðskipti ganga.

Ég óttast líka að þessi skattur komi ekki aðeins á hátekjumenn, heldur á meðaltekjur. Ég er sannfærður um það reyndar. Þyrfti að gera betur grein fyrir hvernig ráðh. reiknar út að þessi skattur komi einungis á hátekjur.

Það eru aðeins örfáir dagar liðnir síðan samþykkt var hér í deildinni frv. að lánsfjárlögum þar sem ákveðið var að skerða tekjustofna þessarar sömu stofnunar. Ekki sést samhengi í því að koma nú — ég vil segja: aftan að mönnum með frv. eins og hér liggur fyrir. En hér er allt í sama dúr. Það er ekki aðeins ráðist á almenning í þessum tilvikum. Það sýnir sig best í skýrslu sem Þjóðhagsstofnun gaf út nú fyrir nokkru um framvindu og horfur 1981 og 1982. Þar kemur fram að ríkisstj. hefur tekist að lækka kaupmátt kauptaxta frá því að vera í 100 árið 1979 niður í 94 stig í dag. Það munar sem sagt 6 stigum. Þetta er aðeins eitt skrefið í þeirri göngu að gera fólk ósjálfbjarga, og við Alþfl.-menn munum leggjast mjög hart gegn því. Ég vil benda á það, að við höfum lagt fram ýmiss konar frv. til hagsbóta fyrir húsbyggjendur, t.d. um það að lengja lán og gera þau viðráðanlegri. Enn hefur það frv. ekki fengist afgreitt. Enn er haldið við það að hafa lánakjör svo óhagstæð sem hugsast getur.